Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Skáldið Auður Jónsdóttir „er gerendameðvirk“: „Þurft að þola níð, útlitssmættun og hótanir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Síðustu tuttugu árin eða svo hef ég tekið þátt í fleiri umræðum en ég man, í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, í bókum,“ segir rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og bætir við:

„Allar þessar umræður hafa mótað mig og raunar lærði ég í námi í Danmörku að það að „debatera“ sé ákveðin list sem maður þurfi að læra; til að þróa hugsanir sínar og tjá sig til skilnings. Svipað lærði ég í Þýskalandi. Eftir að hafa búið í þessum löndum hef ég grynnkað á tilfinningasemi í umræðu og frekar leikið mér að rökleiðslunni, elt hana þangað sem hún fer með mig – stundum á óvæntan stað.“

Auður segir að „í þessu umræðuati hef ég oft brennt mig; orðið ósammála sjálfri mér – verið aðeins of hortug, sætt dónaskap eða ávirðingum; verið gerðar upp skoðanir eða afstaða á dramatískan hátt. Þurft að þola smá níð, jafnvel útlitssmættun eða hótanir, en líka oft skemmt mér stórvel og dýpkað hugsun mína. Og leikið mér æ meira því umræða er leikur og íþrótt.“

Auður hefur til dæmis „lent í meiðyrðamáli þar sem ég hefði getað tapað öllu mínu og ærunni og málið stóð yfir í meira en tvö ár, en var einn besti skóli sem ég hef upplifað – það fannst mér þegar ég sigraði það og hafði fengið að upplifa mælskulist í réttarsal, þar sem hvert orð vegur þungt,“ segir Auður og heldur áfram: „Það var táknrænn sigur að vinna mál sem gekk út á að ég mætti tjá upplifun mína.“

Auður hefur fengið mörg skilaboð frá fólki sem hefur þakkað henni fyrir að pæla aðeins því að það væri sjálft í einhverjum pælingum en þyrði ekki að viðra þær upphátt „né að hætta sér inn í rökræðuna á vefnum mínum. Þetta fór líka skringilega undir skinnið því gerendameðvirkni er mjög viðkvæmur hlutur í lífi mínu. Já, ég er gerendameðvirk, mjög svo. Það hefur verði mesta eitrið í lífi mínu síðan ég var barn. Þeir sem eru kunnugir skáldverkum mínum vita það. Mesta áskorunin í lífi mínu hefur verið að lifa með gerendum sem ég elska,“ segir Auður sem „lærði brengluð samskipti, eins og flestir vinir mínir af minni kynslóð, svo ég byrjaði ung að gera mig seka um óhefluð samskipti. Ég er af kynslóð þar sem orðið mörk var beintengt við fyllerí og markaleysi í Þórsmörk.“

Andlegt ofbeldi

Auður þekkir marga sem „eiga sér bakgrunn markaðan af samskiptum þar sem andlegt ofbeldi var hluti af hversdeginum. Það var ekki sama upplýsing og nú. Fólk vissi ekki og gat ekki betur. Þetta voru bara samskiptin sem maður lærði og ég hef séð gerendur bæta sig, læra, átta sig og verða heilbrigðari í samskiptum. Ég hef líka séð þá gera það ekki. En það flóknasta í lífi mínum hefur verið þessi dans með mörk og ást.“

- Auglýsing -

Auður nefnir það að hún þekki það „að elska einhvern sem gerir eitthvað sárt en líka frábært. Alla ævi hef ég leitast við að skilja flækingslegar kenndir og greina með skrifum. Ég hef lengi sætt því að þykja of bersögul; bara það að tala um alkóhólsima í bók á þeim tíma þótti stuðandi. Ég hef skrifað víðlesnar greinar um ofbeldi sem hafa þótt fengur í í umræðu um þessi mál; farið í að greina flókin tilfinningamunstur í skáldsögum mínum og afleiðingar þeirra. Þetta er eilífðarverkefni mitt, þannig að það hefur verið gert grín að mér sem höfundi fyrir að skrifa of mikið um meðvirkni. Ég skrifa til að skilja – skrifa til að heila. Skrifa til að finna orsakasamhengi. En það er engin aðferð svo heilög eða fullkomin að það megi ekki spyrja spurninga því samtal er lykillinn að þróun.“

Auður er á því að „aðeins þannig fær mikilvæg hreyfing og vitundarvakning lifað; annars étur byltingin börnin sín – sem er slæmt – þegar byltingin er svo þörf. Umræða er ekki síst til að við fáum skilið hugsun okkar og getum þróað hana sem best.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -