Miðvikudagur 24. maí, 2023
7.1 C
Reykjavik

Skólastjórinn Friðþjófur glímir við geðhvarfasýki og fordóma: „Ég ætla ekki að láta það brjóta mig“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Skólastjóri Háaleitisskóla í Reykjanesbæ og fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, Friðþjófur Helgi Karlsson opnar sig upp á gátt varðandi andlega heilsu sína sem og fordóma í einlægri og fallegri færslu á Facebook.

Ber færsla hans yfirskriftina:

Að verða fyrir fordómum í kjölfar þess að hafa berskjaldað sig.

„Í lok sumars í fyrra veiktist ég illa og þurfti að leggjast inn á eina af geðdeildum Landspítalans eins og þið vitið mörg. Í kjölfar þess tók við endurhæfing sem stendur enn. Ég hef ekki mætt öðru en mikilli fagmennsku míns teymis á göngudeild Geðsviðs. Yndislegt fólk sem vill allt fyrir mig gera. Ég hef verið mjög virkur í mínu bataferli og gengið mjög vel að ná kröftum aftur. Það var ákveðinn léttir að fá „stimpilinn“ að ég væri með Bipolar 2. Nú veit ég betur við hvað ég er að kljást, eitthvað sem er búið að vera förunautur minn síðastliðinn 30 ár.“

Friðþjófur er hugrakkur og vill opna umræðu um andlega heilsu fólks hér á landi:

„Ég hef á þessum tíma tekist á við krefjandi verkefni sem stjórnandi í grunnskóla. Sá tími spannar rúm 20 ár. Þar hef ég vaxið og dafnað í starfi og gengið vel í gegnum tíðina. Lagt mitt lóð á vogarskálarnar svo eftir því hefur verið tekið. Ég hef einnig tekið ríkan þátt í því að bæta nærsamfélag mitt m.a. með því að taka þátt í starfi frjálsra félagasamtaka og í stjórnmálum frá unga aldri. Þar hef ég einnig náð góðum árangri í gegnum tíðina. Og allt þetta um leið og ég hef verið að kljást við þennan lífsförunaut minn. Án þess að neinn vissi.“

- Auglýsing -

Hann segir að „það eru ekki allir sem glíma við geðhvörf sem geta tekið virkan þátt í samfélagi sínu, hvort sem það er í vinnu eða félagsmálum. En ég hef borið gæfu til þess með góðum stuðningi fjölskyldu, vina, ættingja og vinnufélaga (ekkert gerist í tómarúmi eða er einum manni að þakka) að stunda vinnu og taka virkan þátt í samfélagi mínu. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur því það er ekkert sjálfsagt.

Mér fannst mikilvægt að stíga fram í haust segja frá að ég væri og hefði verið að glíma við þennan lífsförunaut minn, sem geðhvarfasýkin (Bipolar 2) hefur verið. Mér fannst það mikilvægt fyrir mig í bataferlinu og mér fannst líka mikilvægt að sjúkdómurinn fengi andlit ef það myndi hjálpa einhverjum sem er að stíga dansinn við þennan förunaut líkt og ég.

Við sem glímum við geðhvörf á hverjum degi erum svo sannarlega þverskurður af samfélaginu, sjúkdómurinn fer ekki í manngreinaálit. En ég vissi það þegar ég steig fram að ég væri að berskjalda mig. Það hefði líklega bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar í för með sér. En ég trúði í blindni á það að áhrifin væru frekar jákvæð frekar en neikvæð. En nú hafa runnið á mig tvær grímur.“

- Auglýsing -

Friðþjófur segir að „ég hef frá því að ég steig fram fundið fyrir fordómum. Og það allnokkrum. Og það er afskaplega erfitt. Ekki síst vegna þess að ég hélt að við sem samfélag værum komin lengra. Ég hef t.d. heyrt það að ég væri ekki hæfur til að stýra stóru skólasamfélagi vegna þessa lífsförunautar míns. Það var virkilega erfitt að heyra það. Vita til þess að einungis vegna þessa lífsförunautar míns væri ég ekki hæfur til að gegna ábyrgðarstöðu í samfélagi mínu. En vitið þið hvað. Ég ætla ekki að láta það brjóta mig! Ég hef bognað en ég mun aldrei gera þessum einstaklingum eða hópi fólks það til geðs að brotna.“

Styrkurinn er mikill hjá Friðþjófi eins og lesa má út úr orðum hans hér að ofan. Og hann er þakklátur fyrir stuðning sem hann hefur hlotið og ætlar ekki að láta fordómana sigra sig:

„Ég hef sinnt starfi mínu af alúð, samviskusemi og af miklum krafti. Og enn og aftur náð árangri svo eftir því er tekið. Það er ekkert sanngjarnt við þessar skoðanir fólks á mér og mínum störfum, sem dæma mig út frá sjúkdómi þeim sem ég lifi með. Ég er ég og mun aldrei vera sjúkdómurinn. Hann er ekki ég. Ég er ég og hef margt fram að færa og get nýtt reynslu mína til góðra verka. Til ykkar sem hafið stutt mig, vil ég af kærleika þakka það. Án ykkar hefði ég brotnað!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -