Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Stefán er 100 ára ekkill: „Ég sit í húsinu okkar og hugsa til hennar á hverjum degi, oft á dag“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég get sagt alveg eins og er að mér finnst lífið skemmtilegt, ég er heilbrigður og oftast með skemmtilegu fólki. Við hjónin bjuggum í sex ár í íbúðum fyrir aldraða, en sáum fljótt að það var engin ástæða fyrir okkur, fullfrískt fólk, að taka heimilispláss frá öðrum meira þurfandi og fluttum því aftur heim í gamla húsið okkar. Þegar heim var komið hófumst við handa við að lagfæra húsið utan sem innan, styrkja þetta allt saman og gera að okkar heimili uppá nýtt og það tókst. Enn er ég hér, en hún Guðrún mín blessunin, er búin að kveðja þennan heim, ég sit í húsinu okkar, daginn langan og hugsa til hennar á hverjum degi, oft á dag.“

Þetta segir Stefán Þorleifsson sem fæddist í Neskaupstað fyrir 100 árum. Frásögn af lífi hans og afstöðu til efri áranna og dauðans er að finna í bókinni Raddir. Annir og efri ár eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur en það er vefsíðan Lifðu núna sem fjallar um hana.

Stefán segist ellina ekki svo slæma svo lengi sem hann hafi eitthvað fyrir stafni. „Nú er ég sestur í helgan stein. Út af fyrir sig finnst mér ellin ágæt. Ég áttaði mig strax á því, að þegar fólk sest í helgan stein og hættir að hafa ákveðið starf til að vakna til, má það ekki leggjast í leti og doða, þess vegna byrja ég hvern einasta dag á leikfimi áður en ég fer í bað, því sleppi ég aldrei. Til skamms tíma var ég vanur að fara á hverjum morgni í sundlaugina og synda þar nokkrar ferðir og hitta vinahópinn, en varð að hætta því nýlega samkvæmt læknisráði. Nú þegar ég er hættur að fara í sundið fer ég bara í mína venjulega leikfimi á hverjum morgni heima í stofu, allir morgnar byrja þannig. Þetta hef ég gert í áratugi,“ segir Stefán.

Eiginkona Stefáns, Guðrún Sigurjónsdóttir, féll frá árið 2013. Hann býr nú einn í húsi þeirra tveggja. „Ég er því tiltölulega sáttur við lífið í ellinni eins og það er. Ég finn hvorki fyrir hræðslu eða sorg yfir því að lífið sé að styttast, ég hugsa ekkert um það, ég er ekkert að hugsa um neina framtíð, ég veit að hún er engin, ég byrja bara af mínum hefðbundna vana á leikfimi á hverjum einasta morgni áður en ég fer að fá mér nokkra næringu og fer svo í sturtuna. Þegar veður er gott fer ég inn á golfvöll og spila golf. Ég tel að það vitlausasta sem fólk gerir þegar það eldist sé að hætta að hreyfa sig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -