Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Sorgir, sigrar og baráttan við Covid: „Stundum heldurðu að þú komist ekki í gegnum daginn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Íslendingar og við sem hér búum erum nokkuð sjóuð í að vera í samskiptum við öfl sem við ráðum ekki við, sem eru náttúruöflin. Þannig að það er svolítið inngróið í þjóðarsálina held ég að snúa bökum saman þegar eitthvað svona utanaðkomandi kemur upp á.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur verið í þungamiðju baráttunnar við kórónuveirufaraldurinn á Íslandi. Ekki nóg með að gegna einu mikilvægasta hlutverki þjóðarinnar á þessum fordæmalausu tímum, þá hefur hún samhliða því þurft að glíma við mikil áföll í einkalífinu.
Svandís settist niður með Mannlífi og fór yfir krefjandi verkefni síðan heimsfaraldurinn skall á.

„Ég var einmitt að skoða núna á dögunum fyrsta minnisblaðið frá Þórólfi sem kom í janúar 2020. Þá er hann að segja mér frá veiru sem hafi greinst í Kína og hann segir í þessu bréfi að hún muni berast til Íslands. Og ég man eftir því hvað mér fannst hann eitthvað voðalega svartsýnn að halda að veiran kæmi hingað.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, stóð fast á sínu og sagði að enginn vafi væri á því að veiran myndi koma til Íslands. Þá hafi hann strax frá upphafi verið með mjög skýra leiðsögn til ráðherra og bent á mögulega veikleika í kerfinu sem þyrfti að styrkja og ráðast þyrfti í ýmsar aðgerðir, meðal annars að tryggja aðskilnað á bráðamóttökunni, þannig að þau sem mögulega væru með kórónuveiruna færu inn annars staðar, huga þyrfti að öllum búnaði og vera vel á verði.

„Þannig að við í rauninni erum að byrja grípa til ráðstafana rúmlega mánuði áður en fyrsta smitið kemur hingað. Og það reyndist okkur mjög vel, að hafa verið með augun á boltanum alveg frá því áður en að faraldurinn kom hingað.“

Þá segir Svandís Þórólf einnig hafa verið með leiðsögn um hvernig þyrfti að umgangast farþega frá tilteknum svæðum. „Við vorum á undan öðrum ríkjum á Norðurlöndum til dæmis að lýsa yfir að það væru einhver tiltekin hættusvæði í Evrópu. Og Þórólfur var meira að segja með ábendingar til Norðurlandaþjóðanna að það væru tiltekin svæði á norður Ítalíu sem væru hættusvæði. En það var ekki hlustað á það til að byrja með, það tók þá nokkra daga.“

Var Ísland þá vel undirbúið fyrir faraldurinn?

- Auglýsing -

„Já, í meginatriðum vorum við það. Það sem var sterkt við okkar undirbúning voru kannski fyrst og fremst þessar viðbragðsáætlanir almannavarna.“ Hún bendir á að þær hafi nú ekki verið til fyrir covid, heldur fyrir inflúensuna, „en það voru viðbragðsáætlanir sem  giltu fyrir allt kerfið og maður sér það þegar þessi glíma fer svo af stað hvað það hefur verið farsælt að vera með almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld svona nátengd þegar kemur að þessum stóru aðgerðum og þessum yfirlýsingum um til dæmis hættustig og óvissustig.“

Ráðherra segir að án aðstoðar Íslenskrar erfðagreiningar hefði Ísland ekki komist eins vel út úr faraldrinum og raun ber vitni. „Greiningargetan hefur verið svona takmarkandi þáttur hér. Með samstarfinu við þau höfum við geta farið þessa leið að vera með mjög öfluga skimun, vera með öfluga raðgreiningu, vera með rakningu sem er einstök og við erum að beita þessum aðferðum sem eru skimun, rakning, sóttkví, einangrun með mjög markvissum hætti eiginlega alveg frá fyrsta degi.“

Hvað með greiningargetu Landspítalans?

- Auglýsing -
Ráðherra segir fljótt hafa komið í ljós að þörf yrði á stuðningi Íslenskrar erfðagreiningar. Mynd/ Róbert Reynisson.

„Já við vissum það í rauninni fyrir að það var þarna ákveðinn veikleiki og það kom eiginlega strax fram þegar að við vorum að fara yfir stöðuna tiltölulega snemma í faraldrinum, hvað við hefðum og hvað okkur skorti.“

Segir hún að þá hafi sést svart á hvítu að það yrðu vandræði með þann þátt og að treysta þyrfti á stuðning Íslenskrar erfðagreiningar.

„En þá setjum við í gang að útvega og festa kaup á búnaði til þess að geta lesið úr sýnum. Svo eins og er á þessum tímum þá tekur allt lengri tíma en maður hélt og allir ferlar taka lengri tíma sömuleiðis þannig að það hefði alveg mátt vera fyrirséð að allt yrði seinlegra. En við erum núna betur í stakk búin fyrir næsta faraldur ef hann kemur.“

Þannig það er ekkert sem hefði verið hægt að gera betur sem hefði flýtt fyrir þessu ferli?

Nei, ekki þegar það lá fyrir að þetta væri svona á leiðinni. Þá var stuttur tími til stefnu. En við getum alveg horfst í augu við það að það lá fyrir um langt árabil að við værum ekki með nægilega góðan búnað hjá sýkla- og veirufræðideild. Það hafði legið fyrir í mörg mörg ár. En það er eins og oft er að það er ekki fyrr en á reynir sem að kerfið og samfélagið uppgötvar hversu afdrifaríkt getur verið að vera ekki með nægilega öflug tæki.“

En hvernig voru samskipti yfirvalda við Íslenska erfðagreiningu, var gengið að aðstoð þeirra sem vísri?

„Nei, ég get nú alls ekki sagt það. Þetta endurspeglaðist svolítið í þessu fámennings samfélagi sem við erum í, þannig að samskiptin voru oftar óformleg en formleg og snerust auðvitað um traust og trúnað á milli sóttvarnalæknis og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar sem reyndist vera sú brú sem hjálpaði til við ákvarðanirnar þarna. Og það gerðist einhvern veginn mjög hratt að það varð þessi stemmning í samfélaginu að við ætluðum öll að róa í sömu átt og við ætluðum öll að snúa bökum saman. Og það var mjög hiklaust og óverulegir hnökrar í raun og veru svona eftir á að hyggja sem að komu upp í því ferli.“

En nú hefur Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talað um að samskiptin hefðu mátt vera betri eða upplýsingaflæðið betra. Að þeir hafi fengið upplýsingarnar liggur við um leið og almenningur fékk þær þegar þeir áttu að stíga inn í.

„Já ég held að það sé alveg rétt að margt hafi mátt fara betur í samskiptunum og að við hefðum mátt stilla betur saman strengi. En þegar öllu er á botninn hvolft þá gekk þetta rosalega vel. Og Íslensk erfðagreining kom inn með mjög myndarlegum hætti líka í því að fara í skimun í samfélaginu sem var gert á tilteknum tímapunkti, til þess að kanna hvort veiran væri útbreidd í samfélaginu og hver staða hennar væri.“

Þá segir Svandís sérþekkinguna sem þar er gera kleift að raðgreina veiruna, sem hún segir hafa hjálpað gríðarlega í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

„Það hefur hjálpað sérstaklega núna þegar við erum með tiltölulega fá smit í samfélaginu, að geta alltaf sagt nákvæmlega hvaðan smitið er upprunnið og svo framvegis, en að það dúkki ekki bara upp sem einhver tala heldur sé hægt að fara í þessa ættfræði veirunnar í hvert skipti. Sem hefur verið ómetanlegt.“

Afléttingar á landamærunum

Frá og með deginum í dag, 26. júní, er öllum takmörkunum innanlands aflétt. Er það í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst, í mars 2020, sem engar takmarkanir eru í gildi innanlands.

Þann 1. júlí næstkomandi verða afléttingar á landamærunum. Þá verður hætt að skima börn fædd 2005 og síðar og þá sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum kórónuveirunnar. Þurfa þeir jafnframt ekki að sýna fram á neikvætt PCR próf.
En ennþá verður gert ráð fyrir að þeir aðilar sem ekki geta sýnt fram á bólusetningu eða fyrri covid-19 sýkingu komi með neikvætt PCR vottorð og fari í tvöfalda skimun með sóttkví á milli.

Var þörf á að endurmeta þá ákvörðun í ljósi hins nýja afbrigðis kórónuveirunnar, hinu svokallaða delta afbrigði?

„Já þessi stökkbreyttu afbrigði gefa alltaf tilefni til þess að staldra við og þá þarf náttúrlega ýmislegt að kanna, hver er útbreiðslan, hver er smitstuðullinn, hversu vel vinna bóluefnin á viðkomandi afbrigði og svo framvegis. Og þetta er náttúrlega þekking sem vísindasamfélagið er að byggja upp bara jafn harðan, þannig að við vitum alltaf meira í dag heldur en við vissum í gær og við fylgjumst með almennri opinberri umræðu og svo umræðu meðal vísindamanna um þetta,“ segir ráðherra og heldur áfram.

„Þetta er samspil aðgerða og kallar á stöðugt mat og endurmat, sem við höfum verið í allan tímann. Við höfum alltaf verið tilbúin að framlengja aðgerðir, að herða þær og slaka á þeim, en núna eftir að bólusetningarnar urðu svona almennar og við erum sýnist mér núna, sem verður örugglega fljótt úrelt, í 6. sæti í heiminum í bólusetningu. Þannig að við erum komin þangað að það ætti að vera orðin töluvert góð almenn vörn í samfélaginu.“

Nú bera ferðamenn engan kostnað af þeim skimunum sem þeim ber að fara í við komuna til landsins, né þurfa að greiða fyrir gistingu eða mat dvelji þeir á sóttkvíarhótelum. Hví var sú ákvörðun tekin að ríkið skyldi bera allan kostnað?

„Fyrst og fremst til að halda í þá hvata að fólk teldi það vera til góðs  að vera þar. Þetta eru náttúrlega skyldubundnar ákvarðanir og við töldum þá rétt að það væri ekki þannig að við værum að rukka fólk. Við vorum og erum alltaf að vega og meta, það er þannig að eftir því sem takmarkanir eru lengri og meiri þeim mun meiri tekjum verður ríkissjóður af.“

Telur hún þann kostnað sem ríkið beri af sóttkvíarhótelum vera óverulegan þegar taldar eru tekjur ríkissjóðs af bara ferðamönnum til dæmis.

„Þannig að þetta var sameiginlegt mat okkar að fara þessa leið.“

„Allir tala út frá sínum hagsmunum og sinni stöðu“

Aðspurð hvort hún hafi orðið fyrir þrýstingi hagsmunaaðila um að aflétta hömlum fyrr, segir ráðherra svo vera.

„Já, ég meina, við höfum öll skoðanir á þessu. Og allir tala út frá sínum hagsmunum og sinni stöðu,“ sem hún segir jákvætt og sjálfri líki henni vel að vera í samfélagi þar sem þykir gott að fólk segi sína skoðun.

„Þannig að ég veit ekki hvað er þrýstingur, en ég hef sannarlega fengið tölvupósta og fundarbeiðnir og allt mögulegt frá allskonar fólki sem hefur haft hagsmuni af því að afléttingar væru öðruvísi en þær síðan voru.“

Segir hún þó þegar öllu er á botninn hvolft hafi Ísland verið með miklu opnara samfélag en flest löndin í kring.

En hverjar hafa verið erfiðustu ákvarðanirnar á þessum tíma?

„Það er alltaf leiðinlegast að fara til baka í herðingum, það er rosalega leiðinlegt. Það eru mikil vonbrigði í samfélaginu þegar það gerist.“

Þó segir hún það oftast hafi verið þannig að samfélagið hafi verið tilbúið og farið að kalla eftir tilmælum.

„Það var bæði núna í fyrrahaust og svo núna í byrjun mars þegar við þurftum að snarherða og fórum alveg niður í tíu þarna á einum degi. Það var rosalega leiðinlegt. En það var líka nauðsynlegt.“

Segist Svandís bæði vera ótrúlega hissa og þakklát fyrir hvað samfélagið hefur staðið vel saman og segir það svolítið sérstakt.

„Við höfum verið ótrúlega öflug í því að standa saman og hjálpast að. Það er svona ánægjulega hliðin á þessu öllu saman.“

„Þetta er svolítið eins og vísindaskáldsaga“

„Ég hélt ekki að það ætti eftir að gerast nokkurn tímann að settar yrðu á allsherjar samkomutakmarkanir,“ segir Svandís og útskýrir að þetta sé heimilt samkvæmt sóttvarnarlögum.

„Samkomubann,“ segir hún með áherslu í röddinni, „þetta er rosalega dramatískt. Þetta er svolítið eins og vísindaskáldsaga, en svo þegar tíminn líður þá er þetta orðið bara eitthvað sem við tölum um eins og ekkert sé sjálfsagðara. Tölum um sóttkví sem að manni finnst tilheyra umræðunni um 1918 eða eitthvað.“

Segir hún þetta vera mikla grundvallarbreytingu á samfélaginu, að setja á samkomubann.  „Þetta var svona lagaheimild sem að mér fannst rosalega skrítið að grípa til, mér fannst rosalega skrítið að vera í þeim sporum að opna þennan kafla í sögunni að skrifa undir reglugerð um að banna samkomuhald.“

Hvernig er að gegna embætti heilbrigðisráðherra á þessum fordæmalausu tímum?

„Það er fyrst og fremst alveg ofboðslega mikil ábyrgð og það reynir á mjög marga þætti; seiglu, úthald og það að reyna – skellir upp úr – að hafa hausinn skrúfaðan á allan tímann. Að skilja hismið frá kjarnanum, þetta reynir svolítið á það.“

Þá segir hún mikilvægt að anda og muna hvað það skipti miklu máli að halda fókus.

„Þetta eru svolítið svona eiginleikar sem reynir á undir þessum kringumstæðum og snúast að sumu leyti um, kannski bara reynslu, en nei, ekki reynslu – maður hefur svo sem ekki reynslu af þessu, en þetta er svona eitthvert æðruleysi því maður hefur ekki allar aðstæður á sínu valdi.“

Nauðsynlegt sé að taka eitt skref í einu og reyna að hafa það eins skynsamlegt og maður getur, eins og hún orðar það.

„Það er ofsalega stórt að vera með alla þessa þætti í samfélaginu í fanginu. En sem betur fer hefur okkur lánast að vera mjög samstíga, samfélagið allt.“

Svandís segir þjóðina ofboðslega heppna með mönnun „í þessum lykilfronti“ og á þar við sóttvarnalækni, landlækni og yfirlögregluþjón almannavarna. „Þetta er allt alveg magnað fólk, sterkar manneskjur fyrir utan það að vera flottir embættismenn og sérfræðingar á sínu sviði og búa líka yfir að vera traustvekjandi í samskiptum við samfélagið sem skiptir mjög miklu máli.“

Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hún hefði viljað gera öðruvísi segir hún aðeins of snemmt að meta það. „En í grunninn þá vitum við það að hlutfallslega, hvort sem við erum að tala um hversu margir urðu fyrir sjúkdómnum, eða hversu margir létust eða hversu vel okkur gengur með bólusetningar eða hvað það er, samanburðurinn er okkur í vil eiginlega í öllum þessum tölum. Þannig að það sem verður spurt um að lokum er árangurinn.“

„Ég held að það sem er mikilvægast alltaf þegar að sorgin bankar upp á og þegar maður lendir í áföllum sé að muna að maður er ekki einn.“ Mynd/ Róbert Reynisson.

Mikið gengið á í einkalífinu

Starf heilbrigðisráðherra hefur verið einkar krefjandi síðan heimsfaraldurinn skall á og er óhætt að segja að einkalíf Svandísar hafi verið það sömuleiðis. Það var fyrir um ári síðan sem dóttir Svandísar, tónlistarkonan Una Torfadóttir greindist með æxli í heila og skömmu síðar veiktist faðir hennar fyrrum ráðherrann og þingmaðurinn, Svavar Gestsson.

„Þetta var náttúrlega í miðjum faraldri, Una veikist, það er eiginlega akkúrat ár síðan. Hún veikist 18. júní og fór í heilaskurðaðgerð og allt í kjölfarið,“ segir Svandís og heldur áfram. „Svo veikist pabbi 1. október og hann var sko bara sprækasti maður í heiminum. Nokkrum dögum síðar fer Una í segulómun og fékk góðar niðurstöður úr henni, en pabbi bara veikist meira og meira og það var svo í janúar sem hann dó. Ég sakna hans ógurlega.“

Svandís segir þetta vissulega hafa verið ansi stóra viðbót við störf ráðherra. „Stundum heldurðu að þú komist ekki í gegnum daginn, en svo bara gerir maður það. Það er alveg ótrúlegt, með einhverri extra orku sem er einhvers staðar. Ég á líka mikið af góðu fólki, sem betur fer.“ 

Hvernig tekst maður á við svona erfitt verkefni út á við þegar sorgin bankar upp á og erfiðleikar eru í einkalífinu?

„Ég held að það sem er mikilvægast þegar sorgin bankar upp á og þegar maður lendir í áföllum sé að muna að maður er ekki einn. Manni líður eins og maður sé það, en það er ekki þannig. Það eru svo ótal margir sem eru að glíma við erfiða hluti.“

Þá segir hún langflesta lenda í þessum kafla einhvern tímann í lífinu að þurfa að glíma við sorg, áföll eða missi og það sé mikilvægt að muna að það sé sammannlegt verkefni að takast á við þjáningu.

„Svo skiptir máli að muna að sofa og að anda. Því að stundum gleymir maður því, bara að anda djúpt.“ Svandís segir mikilvægt að njóta lífsins, hafa gaman og gleðjast yfir því sem er skemmtilegt og muna eftir öllum þeim dýrmætu tengslum sem maður á við fólk, „af því að það er þangað sem maður sækir orkuna sína, í tengsl og samskipti og tilgang. Þannig að þetta er bara svona æviverkefni,“ segir hún og heldur áfram.

„En ég neita því ekki að það er á köflum ansi stór pakki að vera svo líka heilbrigðisráðherra í gegnum heimsfaraldur.“

Þannig ákveðið æðruleysi er kannski mikilvægt?

„Já ætli þetta heiti ekki það, æðruleysi, það er mjög mikilvægt að tengja sig við æðruleysi og þakklæti held ég líka. Af því að það er margt sem maður getur stoppað við og verið þakklátur fyrir.“

Hún segir dóttur sína vera nokkuð bratta akkúrat núna. „Hún fór náttúrlega í gegnum mjög þunga meðferð, skurðaðgerð, geislameðferð og lyfjameðferð. En núna lítur allt vel út og hún nýtur þess að vera ung og glöð. Það er æði. Og það er sumar,“ segir ráðherra með bros á vör og heldur í frí frá þingi og hyggst ferðast um landið og kúpla sig aðeins út.

„Það verður dásamlegt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -