Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Svona er að vera atvinnulaus á Ísland – Henrý segir andstæðinga hækkunar bóta „smjörkúka sem hafa aldrei fengið vindinn í fangið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Atvinnuleysi hefur rokið upp á Íslandi undanfarið vegna vegna COVID-heimsfaraldursins. Á sama tíma hafa hagsmunasamtök atvinnurekenda staðið í áróðursherferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta með ýmsum hætti. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sömuleiðis talað gegn því að hækka bætur.

Henrý nokkur lýsir í þræði á Twitter raunveruleika þeirra sem þurfa að sækja sér bætur á Íslandi. Hann segir kerfið skelfilegt og ekki til þess að styrkja fólk í atvinnuleit, fremur sé það hentugt í að gera fólk að öryrkjum. Þráður hans hefur vakið gífurlega athygli á samfélagsmiðlinum en hann starfar í dag sem forritari.

Dýrt að vera fátækur

Henrý segir hæpið að atvinnuleysisbætur letji fólk í að finna sér vinnu. „Kenning: Fólk sem heldur að atvinnuleysisbætur sem þú getur lifað á letji þig í að leita að vinnu hefur aldrei prófað að vera atvinnulaust. Það sem virkilega drepur þig er þegar þú kemst í fjárhagslega holu og finnur að þú yrðir amk 6 mánuði á fullum launum að komast á 0,“ segir Henrý  og heldur áfram:

„Þegar ég varð atvinnulaus þurfti ég að velja og hafna að borga reikninga. Þ.á.m. var frístund sem var rukkuð um hásumar. Sem varð til að barnið mitt komst ekki að á frístund haustið eftir því pabbi fátæki átti ekki fyrir reikningum. Þetta er Reykjavíkurborg rekin af jafnaðarfólki.“

Hann nefnir svo fleiri dæmi sér til stuðnings. „Þegar ég varð atvinnulaus þá brotnuðu gleraugun mín. Ég sé ekkert án þeirra og keypti því ódýr gleraugu og fékk styrk til þess frá lífeyrissjóðnum úr sjóði sem ég borgaði í. Vinnumálastofnun leit á það sem tekjur og skerti bætur. Ég borðaði núðlur þann mánuð.“

- Auglýsing -

Forðaðist að opna bréf

Hann segist hafa forðast að opna póstinn sinn í þessu ástandi. „Þegar ég varð atvinnulaus fékk ég skyndilega miklu meiri póst en venjulega. Oft komst ekki mikið meira í kassann. Allskonar gluggapóstur með ítrekunum og aðvörunum til að láta manneskju sem leið mjög illa líða verr,“ segir Henrý.

Hann hafi svo oft þurft að fresta greiðslum. „Þegar ég varð atvinnulaus frestaði ég greiðslum á hlutum sem fóru í hnút og ég varð að gera dómssátt um. Ég gat borgað 120þ og klárað dæmið eða gert sátt um að borga mun hærri upphæð (~300) en búta hana niður. Það er dýrara að vera fátækur, sjáðu til.  Þessir hlutir lentu síðan upp á kant við tilhneigingu mína til að borða mat. Og ég lenti á vanskilaskrá út af fáránlega lágri upphæð, um 60þ sem hefðu alveg eins getað verið 12 milljónir á þeim tíma,“ segir Henrý.

Fólk einangrast

Allt þetta bitnar svo á því að viðkomandi fái vinnu. „Það er erfitt að vera upplitsdjarfur, vel undir búinn, og hress í starfsviðtölum þegar þú sefur ekki á nóttunni af því að þú finnur að þú gætir í rauninni endað á götunni og norræna velferðarkerfið myndi bara yppa öxlum. Þegar ég varð atvinnulaus var maður skikkaður á námskeið sem virtust öll ganga út á að kynna manni fyrir möguleikanum á að flytja úr landi. Þar sat 35 ára tveggja barna faðir við hlið 18 ára barns og fékk sömu ræðuna (og sömu bæturnar),“ segir Henrý.

- Auglýsing -

Hann segir kerfið svo draga úr allri einkaneyslu, viðkomandi einangrast. „Það er einnig erfitt þegar hótað er að draga af þér bætur vegna þess að einhver nákominn lagði inn á þig pening. Talað um óútskýrðar tekjur. Ekkert af þessu hjálpar þér að komast af atvinnuleysisskrá. Þetta er bara mannskemmandi og gerir ekkert nema drepa niður sjálfsvirðingu.“

„Þegar ég varð atvinnulaus þá einangraðist ég. Það er í 1. lagi erfitt að hitta fólk ef þú ert mjög kvíðinn og 2. að hittast á kaffihúsi bakaríi eða bar er bara of mikið bruðl. Helst ég hafi hitt fólk í sundi, sem var samt þrátt fyrir allt „munaður“ sem ég leyfði mér sjaldan,“ lýsir Henrý.

Harðlínufólkið hefur aldrei fengið vindinn í fangið

Hann bendir á að þetta sé ekki gott fyrir samfélagið. „Það er ekki sniðugt að atvinnulausir einangrist. Ísland er þannig land að langflestir fá starf gegnum tengslanet. Íslenska atvinnuleysistryggingakerfið er eins og uppskrift að því að búa til öryrkja og langtímaatvinnuleysi. Allir sem hafa lent þarna og komist af eiga mitt respect. Þegar ég varð atvinnulaus var hótað að bjóða upp heimilið mitt, oft. Það lýsir sér þannig að þú þorir helst ekki að svara dyrabjöllunni því það gæti verið stefnuvottur eða sýslumaður. En þeir láta þá bara nágranna hafa stefnuna í staðinn svo þú mannar þig upp og ferð til dyra,“ segir Henrý og bætir við það:

„Þú getur samið um svona hluti. amk á þeim tímaramma sem ég átti í þessu (þetta var minna en ár) en þú þarft að geta skrifað bréf, safnað gögnum, farið á staðinn og haldið andliti meðan þú rekur raunir þínar fyrir unimpressed fulltrúum og lögfræðingum. Færð 6% verðtryggt lán.“

Hann segir að lokum að þeir sem séu harðastir á að skerða bætur hafi aldrei upplifað þetta. „Mesta harðlínufólkið á Íslandi eru smjörkúkar sem hafa aldrei fengið vindinn í fangið. Þeir eru líka harðastir á að fátækir séu bara latir þrátt fyrir að hafa lítið unnið sjálfi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -