Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Þór myrti Braga í Vesturbænum – Vopnaður kjötexi, slaghamri og sveðju

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í febrúarmánuði árið 2002 fannst 51 árs gamall strætisvagnabílstjóri, og fyrrverandi blaðamaður, Bragi Óskarsson, látinn á Víðimel í Vesturbæ Reykjavíkur. Lát hans hafði augljóslega borið að með hrottalegum hætti en hann hafði fengið fjölmörg högg í höfuð og andlit af völdum kjötexis, slaghamars og sveðju, eins og síðar kom fram í skýrslu réttarmeinafræðings.

Ekkert hafði Bragi til saka unnið nema að vera svo ógæfusamur að vera á röngum stað á röngum tíma.

Sömu nótt var brotist inn á dekkjaverkstæði við Ægisíðu og leiddu vísbendingar úr innbrotinu lögreglu til banamanns Braga. Var það meðal annars um lífsýni að ræða.

Tvær milljónir í kókaín

Í ljós kom að morðinginn var hinn 24 ára gamli Þór sem var þá um nóttina á þvælingi um Vesturbæinn eftir partýhöld og ferðir um vínveitingahús borgarinnar. Þór hafði þá ekki sofið svo dögum skipti vegna gríðarlegrar fíkniefnaneyslu og hafði meðal annars keypt kókaín fyrir tvær milljónir króna vikurnar á undan, svo djúpt var Þór í fastur í fíkninni. Þór var staddur í Vesturbænum í peningaleit til að fjármagna frekari fíkniefnakaup og ákvað að brjótast inn á dekkjaverkstæðið, vopnaðuð exi, hamri og sveðju.

Lögregla á morðstað á Víðimelnum. Mynd: Skjáskot Vísir.

Það var svo fyrir tilviljun eina að Þór rekst á Braga í Víðimelnum en Bragi var þá á heimleið. Þór er einn til frásagnar um árasina en svo virðist sem æði af völdum fíkniefnaneyslu hafi runnið á hann sem varð til þess að hann réðist af slíkri heift á Braga að hann lést að völdum sára sinna. Játaði Þór verknaðinn við handtöku og vísaði lögreglu á morðvopnin og blóðug föt í ruslatunnu rétt við morðstaðinn.

- Auglýsing -

Eftir morðið mun Þór hafa haldið á fund félaga sinna í Austurbergi í Breiðholtinu. Fékk hann einum þeirra 40 þúsund krónum í seðlum og nokkur þúsund peseta, afraksturinn af innbrotinu í dekkjaverkstæðið. Kvaðst hann ennfremur „dálítið hafa komið upp á og hann hefði drepið mann”. Félagarnir gáfu lítið fyrir það og héldu út að kaupa meira af fíkniefnum.

Það er síðan um morgunin að einhver partígesta kveikir á sjónvarpinu og sér þar frétt um að lík karlmanns hafi fundist á Víðimelnum. Var þá Þóri trúað.

Hræðilegar afleiðingar neyslu

- Auglýsing -

Geðlækn­ir sem rann­sakaði Þór taldi hann vera sak­hæf­an. Fram kem­ur í dómn­um að það sé álit lækn­is­ins að Þór ætti ekki við geðsjúk­dóma að stríða og ekki væru und­ir­liggj­andi nein­ir per­sónu­leika­brest­ir. Hann væri ung­ur maður með ágæt­ar gáf­ur og marga góða hæfi­leika, ró­leg­ur, en hefði byrjað ung­ur að drekka áfengi og hafi ánetj­ast fíkni­efn­um fyr­ir um tveim­ur árum og farið fljótt í mikla fíkn.

Verknaður­inn hefði verið fram­inn und­ir áhrif­um vím­unn­ar. Þreyta og ofskynjanir hefðu gert Þór að banamanni. Fyrir dómi kom fram að hann hefði fengið meðferðarmögu­leika á Vogi, sem hann hefði ekki ráðið við og sennilegast ekki verið tilbúin til að takast á við. Geðlæknir sagði það vera ef til vill óvana­legt við mál Þórs að um hafi verið að ræða til­tölu­lega stutta neyslu­sögu af al­var­leg­um fíkni­efn­um, og einnig það að ekki séu nein­ir al­var­leg­ir per­sónu­leika­brest­ir und­ir­liggj­andi hjá hon­um. Hér væri því um að ræða hræðileg­ar af­leiðing­ar þess sem geti orðið þegar menn séu í mik­illi neyslu. Sagði lækn­ir­inn ólík­legt að Þór myndi fremja viðlíka glæp væri hann ekki und­ir áhrif­um fíkni­efna.

Ekki öllum spurningum svarað

Ýmsum spurningum var hins vegar ósvarað varðandi morðið, til að mynda voru skóför við líkið sem ekki var unnt að rekja og ljóst var að líkið hafði verið hreyft til. Aldrei voru þó fleiri en Þór grunaði um að bana Braga. Sjálfur sagðist Þór muna gloppótt eftir atburðunum, lítið sem ekkert um árásina sjálfa en einhver atriði eftir það. Sérfræðingur kvað fyrir dómi ekki útilokað að þar væri um sjálfvalið minnisleysi að ræða.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Þór til 16 ára fangelsisvistar þann 8. janúar 2003 á grunni rannsóknargagna og skýlausrar játninga auk þess sem honum var gert að greiða móður Braga eina og hálfa millj­ón króna í skaðabæt­ur.

Þór hefur náð tökum á lífi sínu og hefur ekki komist í kast við lögin síðan þetta gerðist. Hann er fjölskyldumaður og lifir í dag reglusömu lífi og hefur menntað sig sem íþróttafræðingur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -