• Orðrómur

„Væri Ísland í ESB þá nytu íslenskir bændur meiri styrkja en þeir fá úr ríkissjóði í dag“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Síðustu 75 árin hafa hagsmunasamtök fyrirtækjanna ráðið mestu um hvernig kaupin gerast á Alþingi. Hægri menn eru í miklum meirihluta alþingismanna,“ ritar Kristbjörn Árnason á samfélagsmiðli, og lætur sverfa til stál:

„Talibanar landsbyggðarinnar á Íslandi skiptast að mestu í tvö hagsmunasamtök og þau hafa í raun líf fólks sem býr á landsbyggðinni í hendi sér,“ bætir hann við og heldur áfram:

„Þetta eru Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Á landsbyggð ríkir í raun ekki málfrelsi nema ef aðilar vilja þola afkomuskort.

- Auglýsing -

Þessi samtök njóta verulega verðmætra styrkja almennings í gegnum mjög flókin regluverk. Sjávarútvegurinn nýtur gríðarlegra styrkja í gegnum veiðileyfakerfið. Bændur njóta beinna styrkja og fyrirtæki þeirra. Auk þess sem ríkissjóður niðurgreiðir þær afurðir sem landbúnaður framleiðir og selur.“

Kristbjörn er með öðrum orðum að segja að „það er almenningur, skattgreiðendur, sem halda upp þessum greinum með rausnarlegum hætti. Auk þess greiða fyrirtæki bænda og útvegsmanna sáralitla skatta til samfélagsins. Að nafninu til er sagt að lægri virðisaukaskattur sé til að halda uppi launafólki.“

Hann segir að þetta séu auðvitað hrein ósannindi; ef þessar vörur væru ekki niðurgreiddar myndu þær ekki seljast; það sama á sér stað með tollverndina. Þar eru erlendar landbúnaðarvörur skattlagðar í drep. Allt borgar almenningur.“

- Auglýsing -

Kristbjörn nefnir að „það eru gríðarlegar upphæðir sem fara frá fyrirtækjum þjóðarinnar í hagsmunasamtök er tengjast atvinnurekstrinum – eigendum fyrirtækjanna, en það eru sjaldnast þeir sem greiða félagsgjöldin. Það gera fyrirtækin sjálf og það er tekið út úr rekstri fyrirtækjanna sem rekstrarkostnaður væri. Atvinnurekendur eru líklega með fleiri starfsmenn en flokkarnir hafa sem þingmenn, og starfsfólk greiðir laun fyrir.“

Kristbjörn túlkar þetta og segir á mannamáli:

„Það þýðir þá á íslensku að það eru starfsmenn fyrirtækjanna sem greiða félagsgjöld fyrirtækjanna; ekki eigendur þeirra ef þeir eru ekki starfsmenn þeirra. Þessi samtök kalla sig Samtök atvinnulífsins. En verkalýðsfélögin og samtök þeirra eru auðvitað einnig félög með mikinn meirihluta fólks í atvinnulífinu. Félagar í verkalýðsfélögunum greiða sín félagsgjöld sjálfir; ekki hinir.“

- Auglýsing -

Kristbirni verður tíðrætt um flokka sem teljast til hægri hér á landi:

„Það eru auðvitað sannindi að hægri flokkarnir eiga allir bakland í Samtökum atvinnurekenda. Það varð þessi skoðanaklofningur í Samtökum atvinnurekenda sem afar sjaldgæft er á þeim bænum fyrir nokkrum árum. Allt vegna mismunandi hagsmuna varðandi aukna aðild Íslands að ESB.“

Hann nefnir að „þetta klauf pólitískan arm Samtaka atvinnurekenda um þetta eina mál í raun og veru – og á Alþingi er Sjálfstæðisflokkurinn í tveim hlutum. Framsókn hefur átt sitt bakland í Bændasamtökunum, en ekki er gott að átta sig á stöðu Miðflokksins í þeim samtökum.“

Kristbjörn segir að „vinstriflokkarnir hafa ekki síðustu 20 árin ræktað rætur sínar í verkalýðshreyfingunni. Það veikir bæði vinstri flokkana og hreyfinguna. Tók fólk ekki eftir því er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustufyrirtækja upplýsti þjóðina um að ferðaþjónustan væri í föstum samskiptum við ríkisstjórnina. Engin fyrirtæki hafa fengið meiri styrki frá samfélaginu í seinni tíð.“

Marínó G. Njálsson skrifar athugasemd við færslu Kristbjarnar:

„Mér finnst þessi málflutningur um matvælaverð, þ.e. að niðurgreiðslur og tollvernd séu skaðlegar, vera sorglegan. Nánast hvergi í heiminum er greitt fullt verð fyrir matvöru, þannig að frumframleiðandi fái fyrir kostnaði frá þeim sem fullvinnur matvælin fyrir neytendamarkað,“ segir Marínó og heldur áfram:

„Fáar greinar eru eins undirlagðar af félagslegum undirboðum, hótunum og þvingunum matvælavinnslunnar. Varla er reist matvælavinnsla nokkurs staðar öðruvísi en hún njóti ríkisstyrkja og/eða fái hráefni niðurgreitt til sín. Ég efast um að eitt kíló af matvöru sé flutt til Íslands, sem ekki nýtur ríkisstyrkja í framleiðslulandi, hagnaður vinnslunnar er falinn í skattaskjóli eða frumframleiðendur búa við slíkar hótanir og þvinganir kaupenda hrávörunnar, að þeir gera lítið annað en að skrimta; nema um sé að ræða verksmiðjubúskap með verkafólk á lúsarlaunum.“

Marínó nefnir að „ef Íslendingum finnst þetta almennt allt í lagi, þá verður svo að vera. Mér finnst það ekki og tel því að við eigum að styðja við frumframleiðendur á Íslandi með þeim ráðum sem við höfum. Svo skulum við muna, að niðurgreiðslur landbúnaðarvara voru settar á til að draga úr verðbólgu og lækka launakostnað. Hver króna í niðurgreiðslu til frumframleiðenda skilar sér um þrefalt til lækkunar á útgjöldum heimilanna. Það þýðir að heimilistekjur allra heimila þyrftu að hækka um sex krónur fyrir hverja krónu sem niðurgreiðslur lækkuðu. Mismunurinn er fimm krónur, sem þyrftu að koma frá launagreiðendum og þeir myndu örugglega sækja þá upphæð tvöfalda í vasa neytenda og skattgreiðenda. Einnar krónu sparnaðurinn í niðurgreiðslu væri því orðinn að tíu krónum í auknum útgjöldum eða skattgreiðslum.“

Marínó er harður á því að „það er fátt hagkvæmara fyrir íslenska neytendur, en beinir styrkir til frumframleiðenda landbúnaðarvara. Tollverndin er m.a. til að jafna samkeppnisstöðu, þannig að innlend framleiðsla standi ekki höllum fæti gagnvart mikið niðurgreiddum innfluttum matvælum.

Loks vil ég benda á, að ESB hefur skilgreint landbúnaðarsvæði norðan 60. breiddargráðu, sem svæði sem þurfa sérstakra styrkja. Þannig að væri Ísland í ESB, þá nytu íslenskir bændur MEIRI styrkja, en þeir fá úr ríkissjóði í dag.“

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -