2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Grillaður steinbítur með gómsætu meðlæti

Kryddlegið kjöt í pakkningum tilbúið til eldunar á grilli er áberandi í verslunum yfir sumartímann og afar handhægt að grípa með sér og skella á grillið. Fiskur er ekki jafnáberandi en samt sem áður er hann sérlega ljúffengur grillaður.

Best er að grilla stinnan fisk ef hann er settur beint á grillteinana. Þá henta vel fisktegundir eins og hlýri, langa, bleikja, lax, steinbítur, keila, skötuselur eða lúða. Grindin þarf að vera vel heit og olíuborin og síðan er fiskinum skellt á grindina. Dýrindis máltíð á góðum sumardegi með salati og léttri sósu.

Steinbítur með kóríander- og límónusmjöri
fyrir 3-4

1 tsk. paprikukrydd
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
1 tsk. timjan
1 tsk. óreganó, þurrkað
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar eftir smekk
600 g steinbítur, í bitum
1 msk. ólífuolía til að pensla með
2 límónur í bátum til að bera fram með fiskinum

Blandið öllu kryddinu saman og kryddið fiskinn. Einnig má nota tilbúið fiskikrydd að eigin vali. Smyrjið grindina vel og setjið fiskinn á meðalheitt grillið. Grillið í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Þegar eggjahvítan úr fiskinum er farin að sprautast út er hann tilbúinn. Berið fram með smjörinu, límónusneiðum og góðu salati eða kartöflum.

AUGLÝSING


Kóríander- og límónusmjör

4 msk. smjör, kúfaðar, við stofuhita
2 hvítlauksgeirar, marðir
safi úr ½ límónu
2 msk. kóríander, smátt saxað

Mýkið smjörið aðeins í örbylgjuofni ef það er ekki við stofuhita en alls ekki bræða það. Blandið hvítlauk, safa og kóríander saman við og hrærið með gaffli. Búið til litla rúllu úr smjörinu og vefjið plastfilmu utan um og setjið í kæli í að minnsta kosti 15 mínútur. Ef ekki er tími til þess má kæla smjörið í nokkrar mínútur og bera það fram í skál með fiskinum.

Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni