2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skonsur sem gleðja

Breskar skonsur (scones) er fljótlegt að útbúa og gaman að baka, t.d. á köldum vetrarmorgni. Það er eitthvað svo notalegt við nýbakaðar skonsur og tekur innan við 20 mínútur að skella í einföldustu gerð. Hægt er að leika sér endalaust með uppskriftirnar og bæta við því sem hugurinn girnist, t.d. súkkulaði, ávöxtum og hnetum.

Til þess að skonsurnar verði léttar í sér er mikilvægt að hræra og hnoða deigið eins lítið og kostur er. Gott viðmið er að hræra þurrefnin og vökvann létt saman með skeið eða sleif 5-10 sinnum og hnoða síðan 5-10 sinnum á hveitustráðu borði. „Less is more“ eins og maðurinn sagði.

HESLIHNETUSKONSUR MEÐ FÍKJUM OG DÖÐLUM
12 stk.

2 ½ dl hveiti
2 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. kardimommuduft
½ tsk. kanill
60 g kalt smjör, skorið í litla bita
u.þ.b. 100 g þurrkaðar döðlur og fíkjur, skornar í litla bita
30 g heslihnetur, gróft skornar
börkur af ½ appelsínu
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 dl mjólk
1 tsk. eplaedik

AUGLÝSING


Hitið ofn í 180°C. Sigtið þurrefnin saman í skál og bætið smjörbitum út í og myljið saman við með fingrunum þar til blandan líkist grófri brauðmylsnu. Eins er hægt að nota matvinnsluvél eða hrærivél. Bætið döðlum, fíkjum og hnetum saman við ásamt appelsínuberki. Blandið saman hunangi/agave-sírópi, mjólk og eplaediki í lítilli skál og bætið út í þurrefnablönduna. Hrærið létt saman eða þar til deigið fer að hanga saman. Fletjið út u.þ.b. 3 cm þykkt og skerið í hæfilega bita. Penslið með eggi og bakið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til skonsurnar hafa tekið fallegan lit.

Penslið skonsurnar með eggi til þess að fá fallega gylltan lit á þær við bakstur.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Ósk Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum