Föstudagur 2. júní, 2023
9.8 C
Reykjavik

Anna rifjar upp Ásmundarsmyglið 1967: „Hvar menn voru dæmdir í tiltölulega stutta fangelsisvist“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir er að undirbúa Íslandsheimsókn frá Tenerife eins og lesa má í nýjustu dagbókarfærslu hennar á Facebook. Þar rifjar hún einnig upp Ásmundarsmyglið árið 1967.

Eins og alþjóð veit hefur Anna haldið úti dagbók síðan hún flutti til Tenerife fyrir nokkrum árum. Færslurnar eru þekktar fyrir húmor og kaldhæðni. Nýjasta færslan er tvískipt. Í fyrri hlutanum segir hún frá samskiptum sínum við systur sína sem hún segir að sé ágæt en þurfi að læra mannleg samskipti. Í seinni hlutanum rifjar hún upp Ásmundarsmyglið svokallaða frá árinu 1967 sem á þeim tíma var eitt stærsta smygl Íslandssögunnar.

Færsluna má lesa hér:

„Dagur 1359 – Dagur í Paradís.

Ég átti góðan dag í Paradís i gær. Ónefnd kona frá Vestmannaeyjum dvelur hér og reyndi að njóta lífsins á sundlaugarbakkanum á milli þess sem hún hvíldi sig í herberginu hennar Kristrúnar frænku minnar. Við fórum samt saman í Mercadona og í Sketchers. Svo var flatbaka etin á Rimini áður en við héldum á Búkkann. Semsagt, flottur dagur í Paradís. Ég reyndi samt ekkert við hana enda er hún lofuð auk þess sem ég á vinkonu á suðrænum slóðum, en ekki orð um það meir.
Ég var reið Lilju systur þegar hún vildi ekki skila mér ferðatöskunni minni fyrr en síðar, en ég þarf að nota töskuna á laugardag þegar ég held norður á bóginn. Þegar mér tókst loksins að ná sambandi við Lilju lét ég hana heyra það. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að gera eins og hún og byrja að pakka hálftíma fyrir flugtak frá Tenerife og heimtaði mína tösku. Þegar ég kom heim af Búkkanum um kvöldið beið taskan mín á húsbarnum, en henni hafði verið skilað þangað úr því ég var ekki heima. Lilja systir er ágæt samt, en þarf að læra á klukku og síma og umfram allt á mannleg samskipti.
—–
Um daginn var ítarleg grein í Morgunblaðinu um Ásmundarsmyglið árið 1967, að mörgu leyti góð grein sem varpaði aðeins ljósi á málið, en ég sá hvergi í greininni endanlegar niðurstöður málsins eftir að dómur hafði fallið í Hæstarétti haustið 1968 hvar menn voru dæmdir í tiltölulega stutta fangelsisvist og báturinn gerður upptækur til ríkissjóðs, enda var það í anda laganna að ef meginhluti farms var smyglvarningur, bar að gera farið upptækt. Dómurinn var einmitt á þá leið. Eigandi bátsins missti þar með bátinn til ríkissjóðs þótt hann væri alsaklaus og hafði leigt bátinn til ufsaveiða, en ekki til séneversveiða í Belgíu.
Daginn eftir að dómur féll í Hæstarétti náðaði forseti Íslands eigandann og því hélt hann bátnum, en seldi hann fljótlega. Í þessu tilfelli var nýlega kjörinn forseti Íslands Kristján Eldjárn.
Mörgum árum síðar vorum við á Bakkafossi II í höfn í Harbour Grace á Nýfundalandi og hittum þar fyrir einn fimmenninganna sem höfðu verið á Ásmundi í umræddri smyglferð og sá hafði greinilega ekkert lært og bauðst til að kenna okkur að smygla. Þá hló Ragnar Valdimarsson sem leysti af sem skipstjóri þessa ferð og sagði við við manninn: „Ég held að þú getir ekki kennt okkur neitt, þú sem varst tekinn fyrir stærsta smygl Íslandssögunnar“.
Best að taka fram að það var smyglað einungis áfengi og tóbaki og hátolluðum vörum í samkeppni við ríkissjóð til að bæta upp léleg laun sem löngum voru á skipunum. Ólögleg fíkniefni voru aldrei inni í myndinni hjá langflestum eða nær öllum auk þess sem tilraunir til slíks voru brottrekstrarsök af skipunum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -