2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Það þarf alltaf smá klassík í Hofi

Sunnudaginn 9. febrúar verða haldnir tónleikar í Hömrum í mennningarhúsinu Hofi á Akureyri sem bera heitið Það þarf alltaf smá klassík. Þar koma fram tvær ungar sópran söngkonur frá Akureyri og Eyjafjarðarsveit, þær Jónína Björt Gunnarsdóttir og Silja Garðarsdóttir, ásamt píanóleikaranum góðkunna Daníel Þorsteinssyni.

 

„Þetta verða þægilegir og ljúfir klassískir tónleikar á sunnudags eftirmiðdegi. Er hægt að biðja um eitthvað betra,“ segir Jónína Björt. „Við vildum endilega vera með klassíska tónleika á okkar heimaslóðum og bæta þannig við og setja okkar svip á það mikla framboð menningarviðburða sem boðið er upp á á svæðinu.“

Jónína og Silja eru báðar menntaðar söngkonur og lærðu fyrst um sinn á Akureyri þar sem Daníel var kennarinn þeirra. Síðar fóru þær og lærðu klassískan söng við Listaháskóla Íslands.

„Það er virkilega gaman að fá að vinna öll saman aftur og æfingarnar hafa rifjað upp skemmtilegar minningar,“ segir Silja. „Það er líka svo gaman að blanda saman verkum sem við sungum í náminu og nýjum verkum. Þetta verða mjög fjölbreyttir tónleikar þrátt fyrir að áherslan sé á klassíkina. Við syngjum íslenskar söngperlur, íslenskar og erlendar aríur, lög úr söngleikjunum sem og verk eftir tónskáld frá Norðurlandi.“

AUGLÝSING


Tónleikarnir, sem eru styrktir af listasjóðnum Verðandi, byrja kl. 17 á sunnudaginn og er miðasala í Hofi.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is