Sunnudagur 1. desember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Byrjaðu að skrifa, það breytir lífinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Björgu Árnadóttur

Mín bíður það magnaða verkefni að fylla þennan dálk með orðum. Það er í senn hagnýt og skapandi iðja að skrifa. Með skrifum aukum við þekkingu okkar á heiminum eins og hann er en getum líka skapað skáldaðan veruleika sem iðulega er sannari en sá sem við lifum. Reglubundin skrif eru bæði heilsubætandi og valdeflandi. Það bætir líðanina að eiga stefnumót við innra sjálfið og eykur áhrif skrifanna að deila orðum sínum með öðrum.

Orð eru eitt helsta hjálpartæki mannanna við að yfirfæra hugsun úr einum kolli í annan. Orð skapa skilning en valda einnig misskilningi. Orð eru valdatæki en líka leikföng. Þau eru tól til listsköpunar og spegill til sjálfskoðunar. Merking þeirra er ekki úr lausu lofti gripin því að orðin eiga sér djúpar rætur og oftast ættingja í öðrum löndum.

Orð eru falleg. Í þeim er bæði hljómur og hrynjandi og í tali okkar höfum við því stöðugt tónverk á vörunum. Hljómfall setninga breytist með ólíkri uppröðun orðanna á sama hátt og samhengið getur breytt merkingu þeirra sömu orða. Við veljum orð okkar af enn meiri kostgæfni eigi þau að öðlast eilíft líf í rituðu máli.

Hvernig er best að byrja að skrifa?

Skrif byggja brýr. Þau tengja strönd við strönd og öld við aldir. Ég er svo heppin að í vinnu minni lifi ég í skrifuðum heimi. Nú liggja hér á borðinu hjá mér textar tveggja höfunda, annar er skrifaður af ungum manni en hinn af öldungi sem ekki hefur notað móðurmálið í áratugi. Það er ævintýralegt ferðalag í tíma og rúmi að kafa ofan í ólíkan orðaforða kynslóðanna.

- Auglýsing -

Ég þori að fullyrða að alla langar til að skrifa vegna þess hve hagnýtt og skapandi, heilsubætandi og valdeflandi það er. Oft er ég spurð hvernig best sé að byrja að skrifa. Svarið er einfalt: Besta leiðin til að byrja að skrifa er að byrja að skrifa. Þú þarft ekki að fjárfesta í dýrum búnaði eða vera búin að upphugsa plottið í æsispennandi þríleik. Sestu bara niður og gefðu orðunum innra með þér gaum. Byrjaðu að skrifa, það breytir lífinu.

Höfundur er rithöfundur, ritlistarkennari, FKA-kona og ráðgjafi hjá Stílvopninu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -