Fimmtudagur 12. september, 2024
6.8 C
Reykjavik

Öreigar allra landa …

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sósíalistaflokkurinn vill hverfa aftur í tímann og umbylta þjóðfélaginu. Framboð hans til Alþingis verður náðarhögg Flokks fólksins. Um fátt annað er hægt að fullyrða. Flokkurinn stefnir að uppreisn hinna kúguðu gegn auðvaldinu. Uppreisn hinna fátæku gegn hinum ríku. „Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og handbendi þess,“ segir í stefnu sósíalista. En hverjir eru hinir kúguðu? Og hverjir eru auðvaldið? Vandinn sem blasir við flokki sem boðar „breiða stéttarbaráttu sem hafnar málamiðlunum“ er sá að á sama tíma og of margir glíma við fátækt, tilheyra fáir auðvaldinu og langflestir hafa það ágætt. Án málamiðlana verður erfitt að ná til síðastnefndu.

Fáir virðast hafa trú á því að Sósíalistaflokkurinn sé kominn til að vera. Hér sé öllu heldur tjaldað til fáeinna nátta. Velgengni hans í kosningum, hvort hann nær inn mönnum, mun líklega að stórum hluta ráðast af því hvernig raðast á lista. Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, þykir koma fram af heilindum og nýtur virðingar og vinsælda en það sama er ekki hægt að segja um formanninn, Gunnar Smára Egilsson, sem margir segja úlf í sauðargæru; handbendi auðvaldsins sem má muna fífil sinn fegurri … tækifærissinna sem stefnir á þing til að halda sér í umræðunni … mann sem ekki er hægt að treysta. Þá eru aðrir innan raða flokksins sem eru afar umdeildir, t.d. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem margir dást að fyrir framgöngu sína í kjaradeilum síðustu missera en aðrir elska að hata.

Stefna Sósíalistaflokksins miðar að því að veita mjög ríkulega úr sjóðum skattgreiðenda. Sumt á stefnuskránni hlýtur að hljóma vel í augum allra velmeinandi einstaklinga; mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði, aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og gjaldfrjálsri menntun … og svo framvegis. Hvað fjármögnunina varðar er fátt um svör. „Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.“ En nú er það svo að það er hinn almenni borgari sem fóðrar hina opinberu sjóði, þessir langflestu sem hafa það ágætt. Vilja þeir að skattkerfið verði nýtt sem jöfnunartæki? Að gjöld verði innheimt eftir tekjum? Sameiningu lífeyrissjóða við ríkissjóð? Að horfið verði aftur til verkamannabústaða og samvinnufélaga?

Af hverju kýs fátækt fólk Sjálfstæðisflokkinn? spurði ég einu sinni. Af því að fólk vill samsama sig og stefna að þeirri ímynd sem flokkurinn hefur, svaraði maður sem hefur aldrei kosið annað. Það verður forvitnilegt að sjá hvert Sósíalistaflokkurinn sækir fylgi sitt. Hann boðar samfélag frelsis og jöfnuðar en það er ekki víst að það frelsi og sá jöfnuður sem hann stefnir að hugnist öðrum sem tala fyrir því sama. Það er t.d. lítið fjallað um einstaklingsfrelsið í stefnu Sósíalistaflokksins, um einkaframtakið. Sam- er forskeyti flokksins. Sósíalistaflokkurinn er ekki flokkur þeirra sem vilja stefna hátt, sem vilja eitthvað meira. Hann er flokkur þeirra sem vilja nóg. Nóg fyrir sig og nóg handa öllum. Það er í sjálfu sér göfugt markmið; að allir eigi nóg. En er það nóg fyrir kjósendur?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -