Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Ferðin mín til Eyja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ferðin mín til Eyja var ekkert lík ferðinni sem Magnús Kjartansson og félagar í hljómsveitinni Haukum sungu um í laginu Ferðin mín til Frakklands sem kom út á hljómplötunni Fyrst á röngunni árið 1976:

Ég bað hann um að keyra mig á næstu sveitakrá. Þar ég pantaði mér rauðvínsflösku og settist stúlku hjá. Er vakna ég um morguninn og sólin skein um gluggann minn, ég fann að hún var vakandi að strjúka kroppinn minn.

Hættu nú Svanur – við vorum fokking tólf ára!

En, jæja, þá að ferðinni minni til Eyja.

Sumarið 1983 fór ég í fyrsta skipti Vestmannaeyja. Þá var ég í 5. flokki hjá FH í fótbolta og við vorum með ansi gott lið. Eitt af þeim bestu á landinu. Fyrir utan mig þá voru þarna margir skrautlegir og eftirminnilegir karakterar sem voru fjandi góðir fótboltamenn. Til dæmis Hilmar Gunnarsson arkitekt, Magnús Sigmundsson landsfrægur handboltamarkvörður af bestu gerð, Stephan Stephensen (Stebbi Stef) betur þekktur sem President Bongo, Knútur Sigurðsson markaskorari í bæði handbolta og fótbolta og Örvar Hallgrímsson sjóntækjafræðingur sem á og rekur Plusminus Optic í Smáralind, og meira en lunkinn miðjumaður. Og fleiri góðir.

Þjálfarinn okkar var Úlfar heitinn Daníelsson, sem var einmitt frá Vestmannaeyjum – og sá kallaði ekki allt ömmu sína þegar að þrekæfingum og almennri þjálfun kom – afar eftirminnilegur maður sem okkur þótti alltaf mjög vænt um þrátt fyrir eina og eina æfingu sem minntu frekar á þrælabúðir en fótbolta. Blessuð sé minning Úlfars.

- Auglýsing -

Þetta sumarið vorum við í riðli með báðum Eyjaliðunum, sem í meistaraflokki mynduðu saman – og mynda mögulega enn ÍBV – Þór og Tý. Lagt var í hann á föstudegi – snemma, og komið heim síðdegis á sunnudeginum. Farið var með Herjólfi, sem fljótlega eftir að sigling hófst fékk nýtt nafn hjá okkur félögunum, Gubbólfur.

Það var svo sem ekkert slæmt veður eða mikil læti í sjónum – en samt alveg nóg. Litlir pjakkar úr Hafnarfirði fengu þarna flestir sína fyrstu reynslu af sjóferð, og ekki þótti öllum sú reynsla góð.

En ástæðan fyrir því að vanlíðanin kastaðist ansi snögglega yfir flesta okkar var sú að hann Júlli, sem er gæðadrengur og var á yngra ári, tók upp á því að háma í sig heilum pakka af kolsvörtum Sambó-lakkrísreimum. Og þarna voru engin grið gefin; lakkrísinn rann ofan í Júlla eins og síld ofan í sel. Gott ef hann át ekki plastið utan af lakkrísnum líka. En reyndar var það þannig á þessum tíma að maður fékk ekkert nammi eða gos á hverjum degi – langt í frá. Kannski í mesta lagi einu sinni í viku. Og það var góð vika.

- Auglýsing -

Svo fór Júlli að finna til í maganum – eðlilega myndu margir segja – hann var bæði á sjó og hafði súlað í sig nokkrum metrum af lakkrís á skömmum tíma. Fljótlega brast svo stíflan. Júlli byrjaði að æla.

Margir voru orðnir ansi ringlaðir fram að því, en þegar kolsvartur lakkrísinn skilaði sér upp úr Júlla gátum við ekki meir. Og byrjuðum að æla eins og múkkar. Ég held svo sem að það hefði verið óumflýjanlegt – en vegna lakkrísleðjunnar sem vall upp úr Júlla urðu áhrifin ansi sterk.

Þegar komið var til Eyja vorum við flestir ekki mjög upplitsdjarfir né orkumiklir. Þurftum að spila gegn Þór fljótlega eftir komu – sem var fáránlegt; enda töpuðum við, og ég man hreinlega ekkert frá leiknum.

Það voru ekkert nema svartar lakkrísreimar sem voru búnar að liggja í magasýrum sem umvöfðu heilann minn, og það var ekkert rými fyrir fótbolta þann daginn.

Eftir að við höfðum jafnað okkur eftir sjóferðina, lakkrísinn og tapið, risum við upp og skemmtum okkur vel í Eyjum. Og upprisa okkar var síðan fullkomnuð á sunnudeginum þegar við unnum Tý, sem var mun betra lið en Þór.

Já, í það heila var ferðin mín til Eyja skemmtileg; en ég get ekki – þrátt fyrir margar tilraunir – gleymt því andartaki þegar lakkrísinn byrjaði að koma sér með hraði upp úr Júlla. Kolsvartar minningarnar neita með öllu að hverfa djúpt inn í undirmeðvitundina og snarhalda kjafti þar.

Já, þannig fór um sjóferð þá.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -