Halló, Akureyri, hvað er eiginlega í gangi!

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ég hef reynt að tileinka mér þá leið í lífinu að vera ávallt hreinskilinn. Áður en lengra er haldið vil ég því fúslega viðurkenna að það hefur tekið á að flytja til Íslands eftir langa búsetu erlendis. Ísland er fallegt og gott land en hér er líka margt sem betur mætti fara. Heimsókn mín til Akureyrar um síðustu helgi undirstrikar það. Þetta var ekki halló Akureyri, martröð á Akureyri er kannski of fast að orði kveðið en svekkelsi á Akureyri rammar helgina með ástinni inn.

Að skreppa langa helgi til Akureyrar kostar pening. Fyrir þann pening óskaði ég mér helst að veitt sé góð þjónusta í staðinn. Því miður gekk það ekki eftir í ferð minni að þessu sinni. Mig langar til að nefna dæmi.

Ein af ástæðum þess að við hjónin skruppum norður var að skella okkur á skíði. Til þess keyptum við okkur aðgang að skíðasvæði Hlíðarfjalls í þrjá daga þar sem rekstaraðilar höfðu nýfengið heimild til að hleypa 50 prósent af annars leyfilegum hámarksfjölda inn á svæðið. Þrátt fyrir að aðeins helmingur fékk að komast að stóðum við í biðröðum nánast allan daginn. Hluti vandans er takmörkuð, og í sumum tilfellum engin virkni skíðalyfta svæðisins. Til dæmis var önnur stólalyftan aldrei í notkun þá daga sem við vorum þarna sem hefði annars hjálpað mikið til við að dreifa mannskapnum betur um skíðasvæðið. Þá velti ég því fyrir mér hvort skíðasvæðin hér séu einfaldlega í stakk búin til að taka á móti slíkum fjölda, líkt og ég hef stundum velt fyrir mér hvort erlendir skemmtigarðar ættu ekki að setja þak á gestafjölda með það fyrir augum að gestirnir njóti heimsóknarinnar sem best.

Það hefði verið gaman að ná meiru en 15 mínútum í pottinum.

Fyrsta daginn ákváðum við að hætta að skíða rétt fyrir kl. 18 en þá var ríflega klukkutími til lokunar. Ástæðan var sú að okkur var einfaldlega orðið nokkuð kalt eftir mikla kyrrstöðu í löngum biðröðum. Þess vegna ákváðum við að það gæti verið gott að skella sér í heitu pottana í sundlaug Akureyrar. Þangað mættum við kl. 18:28 og borguðum 2.200 krónur fyrir aðgöngu. Við vorum ekki fyrr búin að þrífa okkur og renna okkur ofan í pottinn þegar tilkynnt er í hátalarakerfinu að verið væri að loka lauginni. Hverjum datt í hug að það væri í lagi að selja gestum ofan í laug, á fullu verði, fyrir um það bil 15 mínútna dvöl? Og það án þess að láta vita af því fyrirfram. Hverjum datt síðan í hug að láta sundlaugina loka á sama tíma og skíðasvæðið, á háannatíma skíðavertíðarinnar í bænum?

Við ætluðum að njóta samlokanna í fjallinu. Fjórir dagar framyfir fór hins vegar með lystina.

Sökum Covid-faraldursins vorum við óviss um þjónustustig skíðasvæðisins og nestuðum okkur því upp með viðkomu í Nettó á Akureyri. Þar keyptum við svona fyrirfram útbúnar brauðsamlokur, annars vegar með hangikjötssalati og hins vegar rækjusalati. Þegar upp í fjall var komið kom í ljós að þær fyrrnefndu runnu út fyrir tveimur dögum og þær síðarnefndu fyrir fjórum dögum. Þar með fjaraði út áhugi okkar á að njóta samlokanna með heitu súkkulaðinu.

Á þriðja skíðadegi mættum við galvösk upp í fjall skömmu fyrir auglýsta opnun svæðisins. Þá var bongó-blíða, besta veðrið allan þann tíma sem við dvöldum fyrir norðan. Þá var hins vegar allt stopp og tilkynnt að svæðið yrði ekki opnað strax því það var hvasst um nóttina og því var ekki hægt að troða brekkurnar. Snemma um morguninn var hins vegar stillt og virkilega fallegt veður. Þrátt fyrir það bólaði ekkert á troðurum svæðisins og það var ekki fyrr en klukkan sló tólf á hádegi sem þeir siluðust upp í fjallið. Þá beið mikill fjölda iðkenda spenntur eftir að nýta skíðakortin sín og góða veðrið. Aðeins voru opnaðar tvær stuttar diskalyftur til að byrja með fyrir allan þennan fjölda og það var ekki fyrr en sólin var gengin bakvið fjöllin sem stólalyftan var opnuð. Þá tóku við hinar löngu biðraðir á nýjan leik…

Spennandi verður að sjá hvað Akureyrarbær býður upp á um páskana.

Ég vona að þið fyrirgefið þetta nöldur í mér. Það er bara svo auðvelt að veita betri þjónustu með því að hafa hlutina einfaldlega í lagi. Fólk greiðir oft talsverðar upphæðir fyrir veitingar, gistingu og afþreyingu hérlendis og því getur það verið svekkjandi þegar tilfinningin er sú að ekki hafi allt verið reynt til að veita sem best í staðinn. Sjálfur er ég búinn að panta fyrir fjölskylduna á Akureyri um páskana og er strax orðinn kvíðinn fyrir því hvað þá kemur upp á.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -