2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Jöfnuður og fjölbreytni

Eftir / Loga Einarsson formann Samfylkingarinnar

Markmið heilbrigðisteymisins í yfirstandandi krísu hefur verið að verja þau sem veikust eru gagnvart veirunni og það hefur tekist vel, þótt við bíðum með að fagna sigri þar til þríeykið leyfir. Í efnahagsaðgerðunum fram undan verður að nota sömu aðferðir og gegn veirunni, taka mið af hagsmunum heildarinnar. Það gildir nefnilega líka á veirulausum tímum, að enginn keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Og þótt veiran hafi sett flestallt í nýtt samhengi voru áskoranirnar risastórar áður en hún kom til. Talsvert var farið að kólna í efnahagslífinu og þrátt fyrir góðæri síðustu ára búa tugþúsundir við skort. Aðgerðirnar sem við ráðumst í vegna efnahagskreppunnar geta aukið jöfnuð og dregið úr fátækt, ef haldið er rétt á spilunum. En vanhugsaðar aðgerðir eða aðgerðaleysi getur haft þveröfug áhrif.

Styðjum við fleira en fyrirtæki

AUGLÝSING


Skynsamleg efnahagsstjórn snýst um að efla sérhvern einstakling og verja viðkvæmustu hópana; allar aðgerðir þurfa að taka mið af þessu. Ójöfnuður og fátækt sogar mátt úr samfélögum en mikill jöfnuður er ekki bara réttlætismál, og ekki einungis líklegastur til að tryggja friðsamt og kraftmikið samfélag, heldur kemur hann sér vel þegar syrtir í álinn.

Í augnablikinu erum við að slökkva elda og verja fyrirtækin í landinu – en í framhaldinu þurfum við að styðja betur við fólk. Við þurfum einnig að hafa kjark og framsýni til að ráðast í breytingar á skattkerfinu; deila gæðum jafnar og tryggja að auðlindir okkar skili almenningi sanngjörnum arði. Óhjákvæmilegt er að þau sem eiga meira borgi meira – og þeim sem eiga minna sé hlíft.

Öflugt velferðarkerfi og fjölbreytt atvinnulíf

Samstaða, samábyrgð og æðruleysi almennings er allt saman ómetanlegt en síðustu vikur hafa líka fært okkur heim sanninn um að við verðum að eiga öfluga sameiginlega sjóði sem geta tryggt öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, velferðarþjónustu og öryggisnet þegar á reynir. Til þessara sameiginlegu sjóða þurfa allir landsmenn að leggja sinn sanngjarna skerf.

Um leið og það þarf að bregðast skjótt við yfirstandandi vá með festu og dirfsku þurfum við nefnilega líka að þora að lyfta höfðinu enn hærra – líta til lengri framtíðar.

Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari erfiðu reynslu, sem hjálpar okkur til þess að byggja upp betra samfélag í kjölfarið?

Við höfum m.a. lært hve samkennd og samhjálp fleyta okkur langt. Og við höfum áttað okkur enn betur á nauðsyn þess að styrkja sameiginlega innviði og tryggja þeim nægjanlegt fé til að þeir gagnist vel í góðu árferði en geti líka staðist erfiðari þolraunir. Við höfum horfst í augu við að borga verður grunnstéttum í framlínunni mannsæmandi laun. Og það hefur runnið upp fyrir okkur að skjóta þarf stoðum undir miklu fjölbreyttara atvinnulíf – hlúa að því fíngerðara og smáa – skapa fleiri störf sem byggja á hugviti. Til þess þurfum við að ráðast í byltingarkennda sókn í menntamálum.

Tvö orð þurfa að verða leiðarstef í leiðangrinum fram undan: Jöfnuður og fjölbreytni.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu. >

 

 

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni