• Orðrómur

Með logandi píkuna í báðum lúkum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Talandi um konur. Ég mun vera ein slík. Ekki bara er ég með legháls heldur líka móðurlíf og svo eru það bannsettir hormónarnir sem allt glæða lífi á björtustu dögum og tendra bál sálarinnar þegar sá tími mánaðarins rennur upp.

Samviskusöm sem ég nú er og þar var mér ekki leghálskrabbamein efst í huga heldur blessað breytingaskeiðið, pantaði ég mér einlæg á svip, tíma hjá mínum innkirtlafræðing fyrir skömmu. Þannig vill nefnilega til að ekki aðeins er ég kona sem fer á blæðingar fyrir allan peninginn, heldur er ég líka með ofvirkan skjaldkirtil í ofanálag.

Blaðskellandi arkaði ég því inn og bað blessaðan sérfræðinginn að bæta á venjulega blaðið og haka við hormóna þá sem risu þegar ég varð kynþroska og eru sennilega farnir að þreytast. „Ég er nú fimmtug,“ sagði ég léttlynd og skellti upp úr. „Kannski komið tæm á testó?“ spurði ég lymskulega og skáskaut fágaðri athugasemd um óútskýrða þyngdaraukningu undir borðið. Ekki að ég kunni illa við kílóafjöldann en svona upp úr þurru og það úti í sveit þykir mér ráðgáta verð íhugunar. Út gekk ég svo brosandi frá sérfræðingnum og bretti upp aðra ermina á rannsóknarstofunni. Innti hjúkrunarfræðing eftir biðtíma svara og uppskar loforð um sólarhring.

- Auglýsing -

Ég bý úti á landi og gerði ekki ráð fyrir að þurfa að leggja aftur í bæjarferð þá vikuna, ók þjóðveginn og andaði léttar. Nú myndu svörin streyma inn, sjokkið koma og svo tæki hormónameðferð bráðlega yfir. Kílóin myndu auðvitað fjúka í kjölfarið, ég yngjast um áratugi og sennilega yrði mér meinað um inngöngu á kaffihús innan tíðar, allt sökum ungæðislegs yfirbragðs.

Jafnvel yrði ég skikkuð aftur í grunnskóla eftir tveggja vikna hormónameðferð?

Þolinmóð ákvað ég þó að bíða svara í tvo daga. Lagðist óþreyjufull á koddann tvo daga í röð og reif svo upp símann þegar þriðji dagur rann upp. Hringdi í ofvæni á rannsóknarstofuna og sagði: „Eru niðurstöður komnar?“ þegar ég hafði gefið upp kennitölu mína. „Því miður má ég ekki gefa þér þær upplýsingar. Slíkt myndi varða við persónuverndarlög,“ svaraði konan á línunni. „Ha?“ sagði ég forviða enda nýbúin að þylja upp fullt nafn og kennitölu  í símtólið. „Persónuverndarlög? Já, en þú …. þetta er mitt eigið blóð! Hvað er að ykkur?“

- Auglýsing -

Kennitala mín, lögheimili og fullt nafn mitt fóru nú gegnum huga mér. Blóð mitt og heilsa, hormónar, mín almáttuga píka og hæfilegur skammtur hamingju þess tíma sem ég enn á ólifað fuðruðu upp fyrir hugskotum mínum meðan konan hélt áfram. Persónuverndarlög hefðu meira vægi en aðgangur minn að eigin blóðprufum. „Já, þú hefðir eiginlega átt að nefna þetta áður en við tókum blóð, sko, við megum ekki gefa þessar niðurstöður í síma ….“

Þó kortér væri í mánaðamót, bensíntankurinn gott sem tómur og ég íklædd náttbuxum, ákvað ég að láta ekkert standa í vegi fyrir því verðuga markmiði að höndla heilsufarslega hamingju minnar eigin píku. Greip bíllyklana, sagði andstutt: „Ég er að koma. Ég ek til Reykjavíkur“ í símann og brunaði út á strigaskóm. Ók í loftköstum til borgarinnar, lagði vegabréf mitt á afgreiðsluborð rannsóknarstofu og sagði: „Komdu með niðurstöðurnar. Núna.“

Þarna blöstu svörin við mér öll sem eitt. Skjaldkirtilshormón mín eru í ágætu lagi og það er bætiefnabúskapur líkamans líka. Hins vegar hafði sérfræðingurinn gleymt að haka við hormóna þá sem gera mig að konu.

- Auglýsing -

Hún gleymdi að bæta blóðprufunni við á rannsóknarblaðið.

Örmagna eftir rykugan rúntinn til borgarinnar settist ég ráðalaus niður með Kókómjólk og pírði augun mót sólu. Mér hefur ekkert gengið að bóka leghásskimun og hef ekki hugmynd um hvort mitt eigið breytingaskeið er jafnvel gengið yfir. Hvers vegna ég hef bætt á mig fimmtán kílóum svona út í bláinn á undanförnum mánuðum og hvort konan ég megi í raun reikna með að fara nokkru sinni aftur á blæðingar.

Get ég einu sinni orðið ólétt?

Ég á tíma hjá kvensjúkdómalækni í næstu viku. Tímann tókst mér að bóka í tölvupósti eftir að hafa hringt á heilsugæslu þar sem mér var vísað á samhæfingastöð krabbameinsskimanna þegar ég hafði gloprað orðinu „legháls“ út úr mér, aðeins til að finna símanúmer sem svo reyndist símsvari á þeirri ágætu upplýsingasíðu.

Þegar ég svo örvingluð orðin, hringdi loks í Landlækni í þeirri von að einhver ágæt símadaman þar gæti lóðsað mig í átt að raunhæfri sýnatöku ásamt blóðprufum sem skæru væntanlega úr um frjósemi mína – lærðist mér að kvensjúkdómalæknir sá sem fer fyrir umræddum málaflokki hjá embættinu væri einnig sjálfstætt starfandi sérfræðingur á eigin stofu og gegndi aðeins hlutastöðu hjá hinu opinbera. Ágætt væri ef ég vildi hringja í næstu viku eða senda tölvupóst, nema ef vera skyldi að ég fyndi fræðsluefni á opinberum upplýsingaveitum í millitíðinni.

Ekki að ég hafi neina hugmynd um hvernig fræðslubæklingar, kynningarrit og jafnvel kennslumyndbönd geti stuðlað að bættu hormónaflæði miðaldra konu né hindrað útbreiðslu krabbameins sem á upptök sín í móðurlífi mínu. Ég þakka mínum sæla fyrir góða heilsu. En mér er farið að renna í grun að muni veikindi láta á sér kræla hér á bæ, muni ég þurfa að lesa mig í gegnum einkenni og jafnvel krækja mér í kennslublöðung ef verkja verði vart. Líta kannski á aðra vefsíðu?

Mér er allsendis hulin ráðgáta hvort kvensjúkdómalæknir minn vill mæla kvenhormón mín með annarri blóðprufu nú í næstu viku, eða hvort ég fæ annan fræðslubækling að launum eftir ferðina upp í Kópavog sem sannarlega mun hafa áhrif á bensínmælinn. Í tölvupósti okkar á milli nú í þessari viku sagði hann mér nefnilega að … „konur færu ekki á slík hormón sem breytingaskeiðið krefst, nema til að auka þægindi þeirra sömu í daglegu lífi.“

Ég varð dálítið undrandi þegar svarið barst.

Það er ég hins vegar ekki viss um að mér muni gagnast nokkuð að biðja um skimun. Eftir viðtalið sem ég horfði á í Kastljósi nú í gærkvöldi er mér nefnilega búið að lærast að einungis fullfrískar konur og helst þær sem enn eru á yngri árum, hljóta náð þessa dagana. Hinar og þar með talin ég, geta bara þolinmóðar beðið þarfagreiningar.

Hann sagði þetta sjálfur, forstjórinn. Að þó frískar konur þættu til fyrirmyndar væri annað uppi á teningnum þegar kona með sögu um heilsubrest í móðurlífi mætti til skoðunar, að ekki væri minnst á ef grunur léki á meini. „Þá þarf að handvinna þetta allt saman,“ sagði Óskar Reykdalsson í Kastljósi og bætti því við að heilbrigðisstarfsmenn þyrftu í slíkum tilfellum að fara inn í gömlu skimunarskránna. „… sem er svolítið þreytt og þarf að endurnýja.“

Erna og Óskar tókust á um leghálsskimanir: „Kona úti í bæ“ að rúlla upp ríkisstarfsmanni

Orðin „kæri Óskar,“ flugu mér í hug meðan ég horfði á Kastljós í gærkvöldi. „Ég stend hér með logandi píkuna í lúkunum, komin á miðjan aldur. Í guðs bænum, maður minn, ekki tala um skimunarskrá rétt eins og móðurlíf mitt sé orðið þreytt og í fullri þörf fyrir endurnýjun. Ég á bara eina píku, þú skilur, og henni verður ekki skilað til himna fyrr en ég sjálf kveð.“

Gangi mér vel í tíma kvensjúkdómalæknis næstkomandi þriðjudag! 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

HVAR ERU STYRKTARAÐILAR KSÍ?

Hallsteinn Arnarson skrifar:Íþróttum fylgja eftirsóknarverð gildi. Þess vegna vilja fyrirtæki styrkja íþróttastarf og þannig samsama sig slíkum...

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -