Fimmtudagur 2. maí, 2024
6.4 C
Reykjavik

Minningarorð um Kristján Orra og Skarphéðinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mig langar að rita nokkur minningarorð um þá Kristján Orra Magnússon og Skarphéðinn G. Þórisson, sem létust í flugslysinu fyrir austan á dögunum.

Kristján Orri

Kristján Orra kynntist ég í menntaskóla en frumlegur húmor hans heillaði mig strax. Hann fékk mig meðal annars með til að búa til handrit að stuttmynd um endurkomu Pappírs Pésa en þá voru liðin þó nokkur ár frá síðustu myndinni um þann furðulega karakter. Handritið okkar fjallaði um niðurbrotinn Pappírs Pésa sem var gleymdur og bjó hjá mömmu sinni, sem var manneskja og pabba sínum, stór Frissi Fríski ferna. En þá fékk Pappírs Pési símtal frá Hollywood þar sem honum var boðinn kvikmyndasamningur og fór hann því út í leit að frægð og frama en Hollywoodmyndin átti að vera action mynd. Við vorum búnir að teikna upp rosalega listrænt atriði þar sem Pési áttar sig á að hann hafi selt sálu sína til Hollywood með því að hverfa frá listrænum gildum sínum til að gera heimskulega sprengjumynd fyrir Hollywood. Atriðið átti meðal annars að sýna Pésa brenna. Kristján Orri hafði teiknað og klippt út Pappírs Pésa í fullri stærð og við tókum upp lokaatriðið en þá átti ég að vakna upp af þessari hræðilegu martröð og róta í vídjóspólum og skella í tækið til að sjá að gamli góði Pappírs Pési var enn á lífi og í góðum gír. Nafnið á stuttmynd okkar Kristjáns Orra átti að heita Pappírs Pési: Beyond Justice en nafnið fengum við úr action-mynda nafnavél. Við hins vegar kláruðum aldrei myndina en ég var nýlega að spá í að heyra í honum með þá hugmynd að klára myndina, bara upp á grínið en þar sem ég læt svo oft ekkert verða af hugmyndum mínum, gerði ég það ekki.

Húmorinn hans var sem sagt svona, stórfurðulegur oft og þess vegna frábær, frískandi. Kristján Orri var líka virkilega almennilegur maður en ég man eftir því þegar Höttur hafði siglt til Vestmannaeyja, lengri leiðina, til að keppa í körfu, hér um árið, en nokkrir úr liðinu þoldu illa veltinginn í Herjólfi og voru jafnvel farnir að íhuga að flytja til Eyja, frekar en að fara aftur með bátnum. Kristján Orri bauðst þá til að fljúga þeim liðsfélögum sínum frekar aftur á „meginlandið“, enda eðalmaður á ferð.

Kristjáns Orra verður afar sárt saknað af öllum sem þekktu hann. Ég sendi fjölskyldu og vinum hans innilegar samúðarkveðjur mínar.

 

- Auglýsing -

Skarphéðinn Þóris

Skarphéðinn kenndi mér náttúrufræði í Menntaskólanum á Egilsstöðum en fróðari mann um dýr og náttúru hef ég aldrei kynnst. Hann var líka lúmskur húmoristi og eitursvalur, rólegur og yfirvegaður. Okkur nemendunum þótti fyndið að ef efnið sem átti að fjalla um í tímanum, var að okkar mati leiðinlegt, gerðum við í því að spyrja Skarphéðinn út í hreindýr og þá fór allur tíminn í að ræða um hreindýr, enda hafði hann ástríðu fyrir þeim fallegu dýrum.

Skarphéðinn hafði að ég held nokkuð gaman af mér, eða að minnsta kosti ljóðum mínum því hann keypti alltaf bækurnar af mér, sem ég fékk honum í hönd heim að dyrum í Fellabæ. Kannski var það bara þörf hans til að styðja við unga listamenn sem fékk hann til að kaupa af mér bækurnar, sem er í sjálfu sé mjög fallegt og göfugt. Hann var varnur að heilsa mér ef við hittumst á förnum vegi, hvort sem var í Reykjavík eða þegar ég hef kíkt heim í fríum og við spjallað stuttlega og mig grunar að hann hafi gert það við flesta fyrrum nemendur sína, hann var bara þannig maður.

- Auglýsing -

Ég sendi fjölskyldu og vinum Skarphéðins mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Fríðu Jóhannesdóttur kunni ég engin deili á en sendi auðvitað fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Ps. Takk fyrir samúðarkveðjurnar, þó mér finnist ég ekki eiga þær sérstaklega skilið enda til fólk sem var mun nánari þeim báðum en ég. En samfélagið allt er í sárum fyrir austan og öll þurfum við að halda vel utan um hvort annað í gegnum þessa sorg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -