„Ég ætla að leika mér meira í golfi,“ segir Sigurgeir Erlendsson, Geiri bakari, í samtali við Mannlíf. En hann hefur rekið Geirabakarí, í Borgarnesi síðastliðin 35 ár. Nú er komið að leiðarlokum og Geiri sem er 69 ára snýr sér að áhugamálunum.
Segist hann ekki eiga von á því að leiðast þar sem hann eigi mörg áhugamál sem hann hafi ekki náð að sinna sökum anna síðustu ár. „Ég er mikill áhugamaður um veiði og útivist “ segir hann.

Geiri bakari og Annabella Albertsdóttir þakka fyrir sig og bjóða gestum og gangandi til veislu, fimmtudaginn 16. mars frá 15:30 til 17:30. Með þessu vilja þau þakka íbúum og velunnurum fyrir síðustu 35 ár sem þau hafa rekið Geirabakarí, sem er staðsett við enda Borgarfjarðarbrúar á Þjóðvegi 1.
Geirabakarí hefur verið vinsæll áningastaður hjá ferðalöngum sem eiga leið í gegn um Borgarnes enda bakkelsið þar margrómað og ekki síst ástarpungarnir sem eru landsfrægir fyrir gula litinn.