Miðvikudagur 29. mars, 2023
0.3 C
Reykjavik

Jakob Möller hættur hjá VSV eftir 52 ára starf: „Ég var alla vega ekki rekinn, svo mikið er víst“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég ákvað í vetur að láta staðar numið núna í sumar og stend við það. Nú er komið að þeim tímamótum og ég ætla að byrja á því að taka mér gott frí,“ segir Jakob Möller sem er hættur hjá VSV og Fiskiðjunni í Vestmannaeyjum eftir 52 ára starf.

Á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar birtist viðtal við Jakob Möller í tilefni þess að hann er að hætta hjá fyrirtækinu eftir 52 ára farsælt starf. Hér er brot úr viðtalinu.

„Föst vinna verður að baki en ég útiloka ekki að láta sjá mig hér aftur tímabundið í vinnugalla. Ef Vinnslustöðina sárvantar mann til að hlaupa í skarðið í loðnu og makríl á næsta ári þá mæti ég. Auðvitað! Enda er alltaf gaman á vertíð.“

Jakob Möller er Hafnfirðingur að uppruna. Hann kom hingað til Eyja fyrst sem peyi að sumarlagi 10 ára gamall og flutti svo alveg með móður sinni árið 1969, 16 ára gamall. Þá varð hann fljótlega sumarstarfsmaður í Vinnslustöðinni.

Eftir gos, 1974, varð Jakob fastráðinn starfsmaður Vinnustöðvarinnar og hefur unnið þar allar götur síðan þá ef frá er skilinn skammur tími í Fiskiðjunni. Þetta eru því orðin liðlega 52 ár – heill starfsaldur – og mestallur tíminn í sama fyrirtækinu, Vinnslustöðinni!

„Ég hef unnið í öllum deildum Vinnslustöðvarinnar í landi og verið þar verkstjóri. Laust fyrir aldamótin tók ég við starfi móttökustjóra og bætti síðar við mig verkstjórn í saltfiskvinnslunni. Þegar skipaafgreiðsla var stofnuð á vegum Hafnareyrar, dótturfélags VSV, varð ég verkstjóri þar en áfram á launaskrá hjá Vinnslustöðinni.

- Auglýsing -

Vinnudagarnir eru alltaf langir og oftar en ekki hef ég unnið líka um helgar. Enginn endist þannig áratugum saman nema hafa gaman af því sem hann gerir og að vera á vinnustað þar sem viðkomandi líður vel. Hvoru tveggja á við mig og hvers vegna hefði ég þá átt að flytja mig um set á vinnumarkaði?“

Þjóðhátíð um helgina? Nei!

Þegar nú Jakob vaknar og fer á kreik að morgni sunnudagsins 31. júlí 2022 hlýtur tilfinningin að verða sérstök því þá rennur upp síðasti vinnudagurinn hans.

– Þú verður sem sagt fjarri góðu gamni í Herjólfsdal um helgina. Ætlarðu ekki að mæta á þjóðhátíð?

- Auglýsing -

„Nei! Vinnslustöðin heldur áfram að veiða og vinna makríl hvað svo sem þjóðhátíð líður og síðasta vaktin mín er á sunnudaginn. Ég skila mínu þá eins og hingað til. Síðan kveð ég bara og held heim á leið.“

– Svo vill til að einmitt á sunnudaginn kemur stíga rokkararnir í Rolling Stones á svið í Stokkhólmi, allir í framlínunni komnir langt fram á efri ár. Jaggerinn varð 79 ára á þriðjudaginn var. Hann er tíu árum eldri en þú og hamast enn …

„Hann eldist vel, karlinn, en hefur tæplega þurft að púla mikið líkamlega um dagana.  Vaktirnar mínar voru yfirleitt frá því klukkan sex á morgnana til fimm síðdegis en ég lét það nánast aldrei duga og bætti jafnvel við nokkrum klukkutímum.

Í janúar 2023 verð ég sjötugur og hefði getað unnið hér lengur en ákvað sjálfur að segja stopp. Ég var alla vega ekki rekinn, svo mikið er víst!

Jagger má hamast á sviðinu áfram mín vegna og það fram á níræðisaldurinn en ég ætla að tóna niður tilveruna.“

Hægt er að lesa allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -