Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Ósáttir með heimastjórn Fljótsdalshéraðs: „Þá böðlast ég áfram í að vekja á þessu athygli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ef þetta verða einu viðbrögðin að vísa á einhvern annan þá gerist bara það sem hefur alltaf gerst sem er ekki neitt,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í samtali við Austurfrétt.

Þeir Þórhallur og Þorvaldur Hjarðar frá ferðafélaginu fóru á fund fyrir stuttu með heimastjórn Fljótsdalshéraðs þar sem þeir ræddu slæmt ástand á vegslóðum og kynntu fjölmörg dæmi um utanvegaakstur á vegum utan alfaraleiða en Múlaþing ber ábyrgð á þeim og skal viðhalda.

Drullusvað.
Ljósmynd: Þórhallur Þorsteinsson

Um er að ræða nokkra vegi á Brúardölum líkt og frá Kárahnjúkastíflu yfir Sauðárstíflu, gegnum Brúardal, framhjá Fagradal og yfir á veginn við Álfadalsá að því er fram kemur hjá Austurfrétt.

Þeir félagar fóru þess á leit að Múlaþing réðist í úrbætur og löguðu vegslóða á hálendinu sem allra fyrst. Segir Þórhallur að slíkt þurfi ekki að kosta mikið og áætlar að um tíu milljónir ættu að duga.

„Við erum ekki að fara fram á mikið. Það þarf engar stóraðgerðir til að bæta úr heldur í raun aðeins að lagfæra spotta hér og þar sem eru sérstaklega slæmir og ferðafólk fer utanvega til að forðast. Ég myndi halda að slíkar lagfæringar yrðu varla dýrari en tíu milljónir eða svo og það strax myndi án vafa minnka allan utanvegaakstur.“

Þórhallur segist mest vonsvikinn yfir viðbrögðum heimastjórnar Fljótsdalshéraðs vegna erindisins en í mörg ár hefur hann barist gegn utanvegaakstri og hefur hann hvað eftir annað óskað eftir aðstoð ríkis og sveitarfélaga í þeirri baráttu.

- Auglýsing -

Samkvæmt Austurfrétt tók heimastjórnin vel í erindið og bókaði að því yrði beint til sveitastjórnar Múlaþings, að koma ábendingum þeirra áfram til stjórnvalda sem og Vegagerðarinnar.

Þórhallur segist hafa fengið þessi viðbrögð áður og er hann vonlítill um að eitthvað komi út úr slíkum tilmælum frekar en áður.

„Það er segin saga þegar menn benda á einhverja allt aðra að það er að mínu viti ávísun á að ekkert gerist. En þar sem ég er þrjóskari en allt sem þrjóskt er þá böðlast ég áfram í að vekja á þessu athygli.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -