Uppgjör Frosta Logasonar: Skipulögð árás

top augl

Frosti Logason var gestur Reynis Traustasonar í þættinum Mannlífið þar sem hann lýsir sinni hlið á þeim málum sem komu upp í hans fyrra sambandi sem seinna urðu til þess að hann varð fyrir því sem hann kallar slaufunarárás sem hófst þegar fyrrverandi kærasta hans kom fram í þætti Eddu Falak þar sem hún sakaði Frosta um að hafa hótað því að birta af sér myndir í kjölfar sambandsslita þeirra fyrir rúmum áratug.

Frosti segist hafa gert sér grein fyrir því að árásin á sig hafi verið skipulögð í þaula og við hvað væri að eiga þegar hann sá að á milli fjölmargra Twitter færsla frá Eddu Falak, daginn sem viðtalið við fyrrverandi kærustu Frosta birtist, þar sem hún beinir spjótum sínum að Frosta hafi Edda birt skjáskot af nafnlausum samskiptum í skilaboðaformi sem lýsir nauðgunarsögu.

Frosti vill meina að nauðgunarsagan sé í fyrsta lagi fölsun og hins vegar hafi hún ætlað að fá þá sem fylgdust með henni á Twitter þann daginn til að komast að þeirri niðurstöðu að Frosti væri nauðgari í ofanálag.

„Þegar hún setur út þessa nauðgunarsögu þá fattaði ég einmitt að þessi manneskja sem var verið að lyfta upp til vegs og virðingar í samfélaginu og það var bara korter í að hún fengi Fálkaorðu að þetta væri gríðarlega óheiðarleg og óvönduð manneskja.“

„Það kemur bara þetta sem maður hefur heyrt í gegnum tíðina að narsissistar geta náð langt, geta náð upp í topp fyrirtækja o.s.fr. því þeir víla ekkert fyrir sér, svífast einskis og vaða áfram. Það er eins og það sem þessi manneskja hefur gert og kom í ljós að hún hafi komið fram í viðtölum og logið því blákalt að hún hafi starfað í fjárfestingabönkum og stóru lyfjafyrirtæki. Síðar þá sagði hún að þetta hafi verið missögn og ýjaði að því að hún hafi verið í starfsnámi í gegnum skólann en það er heldur ekki rétt, hún hefur aldrei stigið fæti inn í Nova Nordisk.“

„Ég gerði mér bara grein fyrir því að eins og ég segi að það væri eitthvað verulega bogið þarna af því að eftir allar mínar sáttatilraunir og útrétta sáttarhönd, skilyrðislausa afsökunarbeiðni og svo framvegis þá sé ég bara að það er eitthvað meira að gerast þarna heldur en bara eitthvað heiðarlegt uppgjör.“

„Þegar ég fer að kanna þetta út frá því að ég upplifði það að Edda Falak er manneskja sem hikar ekki við það að ljúga upp á mig nauðgun þá kemur upp úr kafinu að í forsögu hennar eru ljót tilfelli og þetta með lygarnar um starfsvettvanginn í Kaupmannahöfn er bara brotabrot af því. Inni á ritstjórnum allra fjölmiðla hafa allir heyrt þessar sögur, sem ég hef fengið staðfestar, að hún hefur hótað fyrrverandi kærasta eftir að hún hafi haldið fram hjá honum að ef hann myndi segja frá framhjáhaldinu myndi hún skrifa um það að hún hafi beitt sig ofbeldi og hún laug að einum fyrrverandi kærasta sínum að hún væri með krabbamein.“

„Það grófasta í þessu fannst mér þegar ég áttaði mig á að hún hafi verið í öllum þessum fjölmiðlum … þá sat hún fyrir framan hljóðnemann og kamerurnar og sagði að hún hafi orðið fyrir kynbundnu áreiti inni á vinnustöðum sem hún hafði aldrei starfað á. Hún sagði síðar þetta hafi verið missögn, hún hafi verið þar í starfsnámi, en það er haugalygi líka.“

Uppljóstranirnar hafa haft afleiðingar fyrir Eddu Falak sem Frosti segir eðlilegt.

„Já, eðlilega. Ef þú ætlar að starfa í fjölmiðlum þá er eiginlega það eina sem þú mátt ekki gera það er að segja ósatt. Blaðamaður sem hefur verið staðinn að því að vera ósannsögull ítrekað og sagt ósatt bæði í fjölmiðlum og annarsstaðar, hann á mjög erfitt uppdráttar í þessu fagi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni