Mánudagur 11. desember, 2023
1.8 C
Reykjavik

Af hverju er barninu ekki bjargað?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni.

Hvernig má það vera að móðir sem hefur fengið á sig ákærur og margar ábendingar frá félagsmálayfirvöldum síðastliðin sjö ár sé enn með forsjá yfir barni sem bæði leikskóli, skóli og barnaverndarnefnd hafa bent á að sé vanrækt? Spurningu sem þessari er vandsvarað en langlundargeð þeirra er gæta eiga að réttindum barna virðist ótrúlegt og erfitt að sjá að þar sé hagsmuna barnsins gætt í hvítvetna.

Ég kynntist aðstæðum þessa barns þegar ég varð vitni að mörgu af því er henti það í gegnum starf mitt. Ég var í hópi þeirra er lét vita af því er ég hafði séð og hef reynt að fylgjast með og aðstoða barnið eftir fremsta megni. Það er þó lítið sem maður getur gert þegar móðirin bregst ókvæða við öllum leiðbeiningum og tilboðum um aðstoð. Hún hefur engan áhuga á að tala við neinn og telur sig ekki þurfa hjálp. Að hennar mati eru afskipti annarra það eina sem að er í hennar lífi.

Barnið sem um ræðir sýnir augljós merki kvíða og þroskaskerðingar. Það mætir ekki í skólann og þá sjaldan að það kemur er það nestislaust, ekki í viðeigandi útifatnaði og iðulega illa hirt. Aldrei er barnið látið læra heima og það fær ekki að fara í afmæli bekkjarsystkina sinna. Hér er um litla stúlku að ræða og hún er oft hvorki þrifin né klædd í fatnað er hæfir veðri, aðstæðum og líkamsvexti. Til er í dæminu að hún sé í fötum sem eru fimm númerum of lítil og skóm sem hún vart getur troðið sér í lengur. Hún er iðulega illa lyktandi og hárið í mikilli flækju.

Vegna neyslunnar er móðirin oft fjarverandi frá heimilinu bæði á nóttu sem degi en þær mæðgur eiga ekkert öruggt húsaskjól.

Móðir þessa barns er í neyslu. Veruleikaskyn hennar er verulega skerrt og hún hefur slegið fram ýmsum fullyrðingum sem reynast ekki eiga við nein rök að styðjast m.a. kvaðst vera í vinnu hjá fyrirtæki er kannast ekki við að hafa nokkru sinni ráðið hana. Hún telur sig eiga inni peninga víða þótt engin fótur finnist fyrir því. Vegna neyslunnar er móðirin oft fjarverandi frá heimilinu bæði á nóttu sem degi en þær mæðgur eiga ekkert öruggt húsaskjól. Þegar þær fá húsnæði er leigusalinn fljótur að átta sig á að hér er um óáreiðanlegan leigjanda að ræða og segja upp samningnum. Oft er litla stúlkan því látin hýrast eftirlitslaus í litlu rými í húsnæði sem ekki ætti að vera í útleigu. Hér er um að ræða hurðarlaus háaloft, gluggalausar kompur þar sem hverjir sem er geta auðveldlega gengið inn og út. Í slíkum aðstæðum situr lítið barn sem á enga vini á fleti án nokkurar afþreyingar tímunum saman. Það hefur ekki aðgang að síma eða nokkru öðru öryggistæki.

Endalausir sénsar

Móðirin þiggur atvinnuleysisbætur en starfar á krá hverja nótt meðan barnið er eitt og eftirlitslaust heima. Hún neytir eiturlyfja daglega, í viðurvist barns og mætir ekki á boðaða fundi barnaverndarnefndar. Þrátt fyrir allt þetta og að velviljaðir hafa margoft sent tilkynningar til barnaverndarnefndar hefur móðirin enn forsjá barnsins. Stúlkan hefur fundist ein og umkomulaus á umferðareyju eftir klukkan átta að kvöldi. Þá hafði hún lagt af stað í leit að félagsskap og aðstoð eftir að hafa verið ein heima í margar klukkustundir. Móðir svaraði ekki í síma fyrr en nokkrum klukkustundum eftir að barnið hafði verið hirt upp af götunni og brást þá við með líflátshótunum gagnvart þeim er tóku það inn.

- Auglýsing -

Til eru umsagnir leikskólakennara frá því barnið er á fyrsta ári er vitna um vanrækslu. Sjö árum síðar er staðan sú sama og móðurinni gefin endalaus tækifæri til að bæta sig. Móðir fyrst, barnið svo virðist vera mottó yfirvalda í þessu tilviki – en spurningin er sú, er barnið ekki búið að þola nóg? Ég og nokkrir aðilar óskyldir barninu höfum orðið vitni að þessu öllu og leitast við eftir fremsta megni að bæta úr með hjálp yfirvalda en við erum afllaus og megum í raun ekkert gera. Móðirin er mjög mótsnúin öllum er reyna að skipta sér á nokkurn hátt af aðstæðum þeirra mæðgna og hefur ráðist á fólk með svívirðingum, hótunum og jafnvel ofbeldi. Þetta vita barnaverndaryfirvöld.

Þegar stúlkan var þriggja ára gömul eignaðist hún stjúpmóður sem hóf að berjast fyrir að fá forsjá hennar. Sú barátta stendur enn og orð hennar og rök virðast lítinn hljómgrunn fá í kerfinu. Hún gekkst fyrir því að koma stúlkunni í málörvunartíma og sálfræðimat en móðirin stöðvaði umsvifalaust þá vinnu. Í stað þess að gleðjast yfir að barnið fengi hjálp snerist móðirin öndverð gegn öllu og sakaði stjúpmóðurina um fordóma og hatur. Barnið hafði aldrei farið til tannlæknis þegar stjúpmóðirin kom inn í líf þess og hefði líklega aldrei farið ef ekki væri fyrir hana. Fyrstu jólin upplifði hún þriggja ára gömul á heimili föður síns og stjúpu og haldið var upp á afmælið hennar í fyrsta sinn það ár líka. Síðan hafa þau haldið henni veislu ár hvert en þurft að standa í alls konar stríði til að geta komið því við.

Stöðugleiki á heimili föðursins

- Auglýsing -

Faðirinn á heimili, öruggt húsaskjól. Þar eru tveir aðilar með fastar tekjur. Meðan hún dvelur þar fer hún í skólann, er þvegin, vel nærð og klædd eftir aðstæðum í föt sem passa. Hún býr þar við almennt öryggi og þarf ekki að óttast óvæntar uppákomur eða vera skilin eftir. Ekkert af þessu er nóg. Réttur móðurinnar er öllu öðru yfirsterkari og ekki kemur til greina að svipta hana forsjá barnsins. Ég hef leitast við að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að hafa áhrif á barnaverndaryfirvöld en hef upplifað að ekki sé á mig hlustað. Mér finnst eins og vitnisburður minn, sem þó er óháður aðili og alls óskyld barninu, sé ekki metinn trúverðugur. Þegar ég hef talað við fulltrúa í félagsþjónustunni situr það fólk þögult og þakkar mér síðan fyrir og vísar mér á dyr.

Það er sama hvernig er talað til hennar og reynt að brydda upp á þeim málefnum er þarf að ræða, hún stekkur upp á nef sér og ryður úr sér ókvæðisorðum.

Mér finnst mjög alvarlegt að barn sem býr við þroskaskerðingu fái ekki aðstoð við hæfi. Það er vanræksla í sjálfu sér af hálfu foreldris að láta ekki greina slíkt hjá barninu sínu og afla sér upplýsinga um hvernig hægt sé að koma til móts við þarfir þess. Móðirin hefur upplýsingar um að fagfólk telji að þörf sé á að skoða barnið og setja það í greiningarferli. Hún hefur samt sem áður ekki pantað tíma og ekki sinnt beiðnum um að gera það. Henni virðist sérlega uppsigað við öll yfirvöld og vera ófær um að vinna með öðrum. Samskipti við hana einkennast ævinlega af uppþotum. Það er sama hvernig er talað til hennar og reynt að brydda upp á þeim málefnum er þarf að ræða, hún stekkur upp á nef sér og ryður úr sér ókvæðisorðum.

Faðirinn er hæglátur og til baka og þegar foreldrarnir eru kölluð saman á fund hefur hann sig aldrei í frammi. Hann virðist lítinn baráttuvilja hafa þegar kemur að því að takast á við barnsmóður sína en er allur að vilja gerður að vinna með fagmönnum. Stjúpmóðirin hefur reynt að standa upp í hárinu á móðurinni og beita sér af alefli fyrir hönd barnsins en eingöngu uppskorið reiði, hótanir og yfirgang fyrir viðleitni sína. Að mínu mati er ekki hægt að hjálpa þessu barni fyrr en það hefur verið tekið af móður sinni þar sem hún beinlínis stendur í vegi fyrir þroska þess og velferð.

Barnavernd í molum

Eftir að hafa fylgst með þessu máli er ég sannfærð um að barnavernd á Íslandi er í molum. Starfsfólk er of fátt, eftirlit of lítið og kerfið allt svifaseint. Að auki finnst mér of oft verið að reyna að vinna með fólki sem ekki sýnir neinn samstarfsvilja. Það þarf að grípa inn í fyrr. Barnið á að njóta vafans og þá einkanlega barn með sérþarfir. Við erum barnvænt samfélag og Íslendingar almennt elska börn. Sú viðleitni að búa vel að yngstu aldurshópunum sést vel á löggjöfinni og því umhverfi sem við búum honum. En alltaf má gera betur og þónokkuð vantar á til að við getum talist með fremstu þjóðum á þessu sviði. Eitt af því er þessi gríðarlega sterki réttur móður umfram föður. Þegar þörf er á afskiptum ætti ávallt að meta foreldrarna hlutlaust og veita forsjánna þeim er betur er í stakk búinn til að veita barninu gott heimili. Þá skiptir engu máli hvors kyns það foreldri er.

Stöðugleiki er einstaklega mikilvægur í lífi ungra barna. Það þarf að tryggja þeim góðan aðbúnað og umönnun. Með því að bregðast við strax og finna leið er tryggir þetta er ekki verið að ráðast á eða útiloka foreldri í vanda úr lífi barnsins síns. Þvert á móti er verið að gefa því tækifæri til að endurskoða það sem miður hefur farið og byggja sig upp án íþyngjandi ábyrgðar. Sýni foreldri vilja og viðleitni er alltaf hægt að endurskoða ákvarðanir og gefa því tækifæri að nýju. Enginn hefur gott af að komast endalaust upp með að hegða sér á óæskilegan og skaðlegan hátt.

Uppfært: Vikan hefur fengið þær upplýsingar að búið sé að bregðast við ástandinu og er barnið komið í öruggt umhverfi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -