Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Borðaði spagettí í jólamatinn klædd lopapeysu og síðum nærbuxum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Auður Jónsdóttir rithöfundur segist hafa upplifað alls konar ólík og eftirminnileg jól, en það eru þó þau jól sem ekki voru haldin á hefðbundinn hátt sem koma fyrst upp í huga hennar þegar hún er beðin að rifja upp sína skemmtilegustu jólaminningu. Spagettí í jólamatinn í nístandi köldu húsnæði í Barcelona og óvenjulegt jólasamkvæmi í Kaupmannahöfn eru efst á blaði.

„Eiginlega, þegar ég hugsa út í það, hef ég upplifað alls konar mjög ólík og eftirminnileg jól,“ segir Auður hugsi.  „Ég man eftir jólum þegar ég var nýflutt til Barcelona, ásamt fyrrverandi eiginmanni, og við ætluðum að kaupa humra á stóra matarmarkaðnum í hátíðarmatinn. Við fórum þangað á síðustu stundu en þegar til kastanna kom, þá voru þeir lifandi með bundnar klær og mér óx þetta eitthvað í augum, minnug bíómyndar þar sem lifandi humrar sluppu lausir, svo það endaði með að við borðuðum bara spagettí í ískulda því við bjuggum í risi sem var kynnt upp með einhvers konar sólarkyndingu sem virkaði ekki sem skyldi svo við skulfum úr kulda. Ég hafði þá fengið lopapeysu frá ömmu minni í jólajöf og var í henni og sennilega þremur pörum af ullarsokkkum og í síðum nærbuxum og líklega mest langað til að vera í úlpu. En það var mjög fallegt í Barcelona á þessum tíma, í hverfinu okkar lá stöðug angan af kryddum og reykelsum, ilmurinn var reyndar ekki bara á jólunum heldur alla daga því þarna voru margar búðir og líka veitingastaðir í eigu araba. Eitthvað svo sensjúal andrúmsloft sem gerði jólin einstaklega jólaleg.“

Auður lætur þó ekki þar staðar numið og jólaminningarnar streyma fram.

„Eins man ég eftir jólum þegar ég var ung, líka með fyrrverandi eiginmanni, í Kaupmannahöfn,“ heldur hún áfram. „Fyrstu jólin sem við héldum tvö í útlöndum og það var svolítil upplifun að halda dönsk jól því þá rann svo vel upp fyrir manni að íslensku hefðirnar voru svo margar danskar. Allt þetta ömmulega reyndist bara vera danskt. En við buðum íslenskum námsmanni að borða með okkur hangikjöt og líka frænku minni sem dvaldi í borginni. Hann var frekar hæglátur með eftirnafnið bóndi, og sómdi sér vel með hangikjötinu, en hún kom hins vegar blaðskellandi dressuð fyrir gott djamm með fullan poka af grasi, til að setja í jónu, sem hún, að mig minnir, hafði fengið í jólagjöf frá starfsfélögum á breskri búllu í bænum, en hún var á leið að hitta þá eftir hangikjötið. Við snertum þó ekki á því heldur létum hangikjötið og orabaunirnar nægja og þetta urðu einhvern vegin svo mikið jól eins og ég hafði ímyndað mér þau hjá íslenskum námsmönnum í Köben. En þau urðu fallega hátíðleg og man að það var svo gaman að halda upp á jólin í fyrsta sinn upp á eigin spýtur.“

Eitthvað fleira sem rifjast upp?

„Held ég láti þetta duga, gæti haldið endalaust svona áfram,“ segir Auður og brosir við minningarnar. „Man reyndar að í Köben fannst mér mjög þægilegt þegar það allra heilagasta var skollið á að geta hlaupið út í nærliggjandi búð múslima og keypt krydd sem vantaði. Inni á heimilinu ríkti hátíðleikinn og RUV að senda út hátíðlega þögnina, en úti  í fjölmenningarlegu hverfinu ríkti allt annar veruleiki og bara fólk að tjilla. Jú, og svo man ég ein jólin þegar mamma var hjá okkur í Köben, einbeitt að elda þegar löggan hljóp inn í garðinn og gott ef það hljóp ekki skot úr byssu. Allavega gall í henni: „Er bara verið að skjóta fólk hérna úti í garði hjá ykkur? En já, gleðileg jól!““

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -