Laugardagur 27. apríl, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Byrjaði átta ára á sjónum: „Ég kom ekki heim fyrr en að hausti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hannes Oddssson var skipstjóri á vélbátnum Mumma sem fórst á Vestfjarðamiðum. Tveir komust af. Fjórir drukknuðu. Hann og hinn sem komst af biðu lengi í björgunarbáti í brjáluðu veðrinu. „Hann var alltaf slöngufullur af sjó; fengum alltaf þakið yfir okkur í hvert skipti. Ég sagði við Óla „nú bíðum við og heyrum þegar brotið kemur“. Um leið og við heyrðum það skella á bátnum þá hentum við okkur út í síðuna og veltum honum svoleiðis.“ Hannes segir að slysið komi endalaust upp í hugann. Hann hélt þó áfram á sjónum en hafið togaði snemma í hann. Átta ára gamall byrjaði hann á sjónum og tæplega sextugur hætti hann. Hér er brot úr viðtalinu:

Það ólgaði blóðið

Hann sem hélt áfram á sjónum eftir að hafa staðið andspænis dauðanum á hafinu fæddist á Akureyri en var ársgamall þegar flutt var til Siglufjarðar. Og hann segist hafa byrjað í sjómennsku átta ára gamall. „Þetta var þannig að ég hafði verið í sveit inni í Fljótum. Það var náttúrlega moldargólf í bænum.“

Hannes talar um hafragrautinn sem hann fékk í sveitinni. „Það var eldað upp á vikuna. Grauturinn var orðinn þannig að þú gast bara skorið hann niður með hnífi. Maður sat yfir þessu í einn og hálfan til tvo tíma þar til maður var rekinn frá borðinu. Síðan hef ég ekki getað litið á þetta.

Mér hundleiddist þarna og strauk og fannst niðri við Ketilás. Það var farið með mig á Siglufjörð. Svo var bróðir pabba í heimsókn; hann var vélstjóri á báti frá Reykjavík. Á síld. 30 tonna bátur ef hann náði því. Með tvo nótabáta. Og ég fékk að vera með; ég var allt sumarið á síldinni.“

Og kunni vel við það?

- Auglýsing -

„Alveg rosalega, maður.“

Þannig að sjómennskan var í blóðinu.

„Bara átta ára polli.

Ég kom ekki heim fyrr en að hausti.

- Auglýsing -

Sumarið eftir var ég alveg óður að reyna að fá pláss á einhverju síldarskipi. Það ólgaði blóðið. Og Stebbi, bróðir mömmu, fékk pláss fyrir mig á Skaftfellingi frá Vestmannaeyjum með toppskipstjóra. Helgi Bergvins hét hann. Frægur aflamaður í Vestmannaeyjum. Og síldin var fyrir utan Siglufjörð. Þannig að það þurfti að taka út og kasta og taka síldina inn aftur. Ég var svo heppinn að hún var horfin, síldin fyrir utan Siglufjörð. Ég kom ekki heim fyrr en að hausti.“

Níu ára gamall. Polli.

Þegar ég kom niður á bryggju þá var báturinn farinn.

Hvernig var hægt að notast við stráklinginn um borð?

„Ég var ekkert að vinna að öðru leyti nema að þvo galla niðri í stíu. Þeir létu mig hafa skrubb og smíðuðu borð fyrir mig og svo skrubbaði ég og fékk einhvern tíkall fyrir eða eitthvað. Svo var það einu sinni á Húsavík að við fórum að landa. Þetta var á laugardegi og ég fór upp í búð að kaupa nammi. Það var þvaga og opið til klukkan 12. Svo loksins komst ég að að kaupa brjóstsykurspoka. Svo kom ég niður á bryggju og ég bauð náttúrlega skipstjóranum mola. Honum fannst hann svo góður brjóstsykurinn að hann sendi mig upp í búð til að kaupa fyrir sig. Svo gerði ég það og ég komst loksins að eftir dúk og disk og þegar ég kom niður á bryggju þá var báturinn farinn.“

Hannes litli var eitthvað að væflast á bryggjunni með brjóstsykurspokann þegar sjómaður á öðrum báti sem lá við bryggju kallaði í hann og spurði hvort hann hafi ekki verið á Skaftfellingi. „Jú,“ sagði níu ára pollinn sem var svo spurður hvort hann vildi ekki fara með þeim báti. Og það gerði hann. „Við vorum rétt komnir út í miðjan flóann þegar við sáum reykjarmökk. Þá var það Skaftfellingur á fullri leið til baka að ná í guttann. Ég var svo hífður á milli.“

Hannes var á Dagnýju sumarið eftir. Aðstoðarkokkur. „Það var þriggja hæða lúkar á þessu skipi. Þetta var tréskip stórt og mikið. Og ég var þarna aðstoðarkokkur 10 ára.“ Hann hlær. „Alltaf þegar átti að fara að vaska upp þá faldi ég mig. „Hvar er helvítis guttinn,“ sagði karlinn alltaf.“

Svo var það Frigg í tvö sumur. „Þá var ég fullgildur háseti 13 ára gamall. Þá kunni ég öll handtök og allt.“

Horfa má á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -