Miðvikudagur 18. september, 2024
11.1 C
Reykjavik

Áhrifavaldur safnaði milljón á sólarhring fyrir UNICEF

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það sem gerir mig svo meyran er bara hvað er til mikið af góðu fólki. Og hvað þúsund kall getur orðið stór. Þetta sýnir okkur það,“ segir ljósmyndarinn og Instagram-stjarnan Helgi Ómarsson sem var hóflega bjartsýnn þegar hann hóf söfnun fyrir neyðartjaldi í Sönnum gjöfum UNICEF meðal fylgjenda sinna á Instagram á þriðjudag.

 

Tjaldið kostar tæpar 158 þúsund krónur en viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og rúmum sólarhring síðar hafði safnast rúmlega ein milljón króna á reikninginn sem Helgi stofnaði. Þessa peninga nýtti Helgi svo til að kaupa hjálpargögn á Sannargjafir.is í dag.

Tekið skal fram að þessi söfnun var algjörlega að frumkvæði Helga sem vildi bara gera eitthvað fallegt fyrir börn í neyð og mun þetta dásamlega framtak svo sannarlega nýtast þeim.

Auk neyðartjaldsins, sem nýtist á stríðs- og hamfarasvæðum sem til dæmis heilsugæsla, bráðabirgðaskóli eða barnvænt svæði þar sem börn geta leikið sér og fengið að vera börn við erfiðar aðstæður, þá var augljóslega afgangur til að kaupa mikið af hjálpargögnum.Bóluefni gegn mislingafaraldri sem nú kostar þúsundir barna lífið í Kongó og Suður Kyrrahafi, jarðhnetumauki sem bjargar lífi vannærðra barna um allan heim, vatnshreinsitöflur sem á augnabliki breyta óhreinu og sýktu vatni í drykkjarhæft vatn og hlýjan fatnað fyrir veturinn svo fátt eitt sé nefnt.

Helgi leitaði í gær ráða hjá starfsfólki UNICEF á Íslandi um hvernig best væri að ráðstafa fjármununum svo þeir nýtist sem best í það sem mest þörf er fyrir. Og það er óhætt að segja að peningurinn hafi verið vel nýttur.

Fyrir upphæðina sem safnaðist keyptu Helgi og fylgjendur hans í sameiningu:

- Auglýsing -

3 vatnsdælur

2.000 skammta af næringarríku jarðhnetumauki.

12 kassa af hlýjum vetrarfatnaði.

- Auglýsing -

2 skóla í kassa.

200.000 vatnshreinsitöflur sem hreinsa milljón lítra af vatni.

1.000 skammta af bóluefni gegn mislingum.

Og síðast en ekki síst:

ÞRJÚ neyðartjöld. Sannarlega ótrúlegt.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir framtak Helga og hópsins í kringum hann einstaklega gleðilegt og glæsilegt.

„Allir sem keypt hafa Sanna gjöf hjá UNICEF  hafa upplifað þessa einstöku tilfinningu sem því fylgir. Það eru einhverjir töfrar í því sem erfitt er að koma í orð og tengjast því að láta gott af sér leiða, vitandi það að gjöf þín mun skipta sköpum. Það var ótrúlega spennandi fyrir okkur að fylgjast með söfnuninni hjá Helga og sjá þennan samtakamátt, samhug og góðvild hóps fólks safnast saman í eitt. Helgi og þessi hundruð einstaklinga sem lögðu söfnun hans lið eiga eitthvað meira en hrós skilið, það þarf bara að knúsa þetta fólk og við beinum því til ættingja þeirra og vina að gera það,“ segir Bergsteinn brosandi.

„Við erum ótrúlega þakklát Helga fyrir þetta framtak hans og gjafirnar sem hann keypti munu nýtast vel og skipta sköpum fyrir líf barna í neyð. Því getum við lofað. Fyrir hönd allra hér hjá UNICEF á Íslandi þakka ég ykkur öllum kærlega fyrir stuðninginn.“

Helgi viðurkennir að vera sjálfur eftir sig eftir þetta ferðalag.

„Ég er bara svo þakklátur hvað það er til margt gott fólk. Stundum er maður of fastur í að spá hvað heimurinn getur verið ósanngjarn og vondur. En gott fólk með fallegt hjartalag er ljós í öllu myrkri. Nú þurfum við að vera duglegri að gefa í hjálparstarf, kaupa minni óþarfa og setja peninginn þar sem þörfin er mest,“ segir Helgi. „Að hugsa til þess hvað okkur tókst að gera fyrir fólk í erfiðum aðstæðum er klikkað. Takk fyrir mig og takk fyrir að vera öll svona yndisleg.“

Hægt er að finna Helga á Instagram undir notendanafninu @helgiomarsson og sjá þegar hann tilkynnir 13 þúsund fylgjendum sínum frá innkaupunum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -