Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Hæstaréttarforsetinn sem tók út brennivín á kostnaðarverði…og allir hinir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áfengið hefur orðið mörgum góðum drengjum, og stúlkum, að falli þótt ekki hafi alltaf farið hátt fyrir því. Aftur á móti kviknar áhugi landans á því þegar þingmenn og landsþekktir embættismenn fara óhóflega í samskiptum sínum við Bakkus.

Lítum á nokkur dæmi þessi efnis…..

Taldi sig beittann órétti

Árið 1988 sagði Magnús Thoroddsen, forseti Hæstaréttar og handhafi forsetavalds, af sér embætti í kjölfar gríðarlegra innkaupa á áfengi á kostnaðarverði. Á tæpum tveimur árum hafði Magnús keypt 2.160 flöskur af áfengi, þar af voru 84 flöskur af léttvíni en allt hitt var sterkt áfengi.

Magnús sagði í samtali við Morgunblaðið að hann teldi að kaup sín á miklu magni af áfengi á kostnaðarverði brytu ekki í bága við almenna réttlætiskennd eða siðferði.

„Þessi réttur til að taka út áfengi á kostnaðarverði hefur fylgt forseta Hæstaréttar þegar hann hefur verið handhafi forsetavalds. Ég þekki ekki neinar reglur sem setja hatt á það hvað megi taka mikið. Þetta eru hlunnindi sem fylgja starfinu og menn hafa notfært sér þetta áður “ sagði Magnús sem taldi sig beittann órétti.

- Auglýsing -

Ældi yfir farþega

Árið 2015 rataði Ásmundur Einar Davíðsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokks og núverandi félags- og barnamálaráðherra, í fréttirnar þegar hann ældi út um allt í flugi til Washington. Hann var í vinnuferð með utanríkismálanefnd Alþingis ásamt fjölda þingmanna. Hann hafnaði því með öllu að hafa verið ölvaður þótt fáir hafi lagt trú á það og fjöldi farþega hafi borið þess vitni að hann hafi drukkið stíft í fluginu. Ásmundur ku hafa kastað upp yfir nokkur sæti við salernisaðstöðu vélarinnar. Sjálfur kvaðst Ásmundur hafa verið með magakveisu auk þess að hafa tekið svefnlyf.

„Ég pantaði tíma um leið og ég kom heim og er eflaust á leiðinni í einhverjar magarannsóknir.“ sagði Ásmundur í viðtali við DV á sínum tíma.

- Auglýsing -

Jón Baldvin skrautlegur

Samskipti Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi þingmanns og ráðherra við áfengi hafa löngum verið skrautleg. Til að mynda keypti hann hundrað flöskur af freyðivíni og sex af sterku á sérkjörum fyrir afmæli fyrir afmæli vinar síns, Ingólfs Margeirssonar, árið 1988. Í kjölfarið á því var rifjað upp þegar ofurölvi Jón Baldvin stökk allsnakinn út í sundlaug þar sem nemendur Menntaskólans á Ísafirði voru að dimmitera. Hann var þá skólastjóri skólans.

Eyþór á staurnum

Það var árið 2006 að Eyþór Arnalds, núverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ók drukkinn á ljósastaur á Sæbrautinni. Eyþór má eiga það að hann reyndi aldrei að þræta fyrir það að honum hafi orðið á.

„Hvort sem maður er í framboði eða ekki á enginn að setjast undir stýri undir áhrifum. En það sem er mikilvægast er að gera sér grein fyrir því að þetta voru klárlega mistök,“ sagði Eyþór í viðtali við Fréttablaðið á sínum tíma. Hann fór í meðferð í kjölfarið.

Icesave ræðan illskiljanlega

Það var sláandi áberandi að Sigmundur Ernir Rúnarsson, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, var drukkinn í pontu þegar hann hélt einkennilega ræðu um Icesave málið árið 2009. Hann þrætti þó fyrir, sagðist aðeins hafa drukkið tvö vínglös í golfmóti hjá MP banka en ekki verið ölvaður. Fæstir tóku þó mark á því og höfðu almannatengslar á því orð að Sigmundur Ernir hefði einfaldlega átt að játa á sig sökina og biðja þjóðina afsökunar.

„Hjólum í helvítis tíkina“

Þeir sem eru eldri tvævetra muna eftir því þegar íslenskt samfélag fór nánast á hliðina árið 2018 þegar fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Flokks fólksins náðust á upptöku á Klaustursbarnum. Augljóslega var töluvert áfengi haft um hönd þegar þeir fóru að tjá sig um hina ýmsu samstarfsmenn, en aðallega konur, á hinu háa Alþingi. Um var að ræða Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Braga Sveinsson, Bergþór Ólason og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur úr Miðflokknum og Karl Gauta Hjalta­son­ og Ólaf Ísleifs­son­ úr Flokki fólksins.

Þar ræddu þeir útlit kvenkyns þingmanna, hver væri „heit“ og ekki heyrðist betur en þeir gerðu grín að fötlun þingkonu. Einnig heyrðust ummáli á við „Hjólum í helvítis tíkina“ sem Gunnar Bragi Sveinsson lét falla um Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og fyrrverandi samherja sinn í Framsóknarflokknum. Önnur niðurlægjandi ummæli voru „Þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu“ sem Bergþór Ólason sagði við Ólaf og Karl Gauta þegar hann var að reyna að fá þá til liðs við Miðflokkinn. Hann var þar að vísa til Ingu Snælands, formanns Flokks fólksins.

Sig­mund­ur Davíð brást fyrst­ur við og sagði að um hler­an­ir væri að ræða. Anna Kolbrún brást fljótt við með afsökunarbeiðni en treglega gekk að fá karlmennina til þess. Þeir báðu þó afsökunar á ummælum sínum, með misjöfnum hætti og eftirsjá þó, en konur á Alþingi funduðu og ræddu ummælin.

Það er kaldhæðið til þess að hugsa en þetta sama kvöld og afsökunarbeiðnirnar duttu inn var hin árlega þingmannaveisla á Bessastöðum. Heimildir herma að það hafi ekki verið mikið fjör á fólki það kvöldið og kul í lofti.

Skál í boðinu!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -