• Orðrómur

Gunnar var tekinn af lífi með skammbyssuskoti í hnakkann: „Ég varð of­boðs­lega hræddur“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Snemma í janúarmorgni árið 1968 fannst 43 ára gamall leigubílstjóri hjá Hreyfli, Gunnar Sigurður Tryggvason, skotinn í hnakkann í bifreið sinni við Laugalæk í Laugarnesi. Á vettvangi morðsins fannst skothylki úr 32 kalibera skammbyssu en síðar kom í ljós að byssunni hafði að öllum líkindum verið stolið af heimili Jóhannesar Jósefssonar, oftast kenndan við Hótel Borg, nokkrum árum fyrr, en Jóhannes hafði verið þekktur byssusafnari.

Aðeins átta þúsund eintök höfðu verið framleidd af umræddri byssu og þótti ljóst að henni hefði verið smyglað til landsins þar sem aðeins lögregla hafði rétt til að hafa slíkt vopn undir höndum.

Ríflega 53 árum síðar er málið enn óupplýst.

- Auglýsing -

Talið um ránmorð að ræða

Það voru vegfarendur sem tilkynntu málið til lögreglu. Bifreið Gunnars reyndist í gangi, biðljósin tendruð og sat Gunnar undir stýri með skotsár hægra megin á hnakkanum. Gjaldmælir bifreiðarinnar var í gangi og þá var búið að taka annað af tveimur veskjum Gunnars. Taldi lögregla því að um ránmorð væri að ræða.

Lögregla hóf þegar leit að hverjum þeim sem hefðu orðið varir við mannaferðir í hverfinu um nóttina auk þess kannað var hvort leigubifreiðar eða aðrar bifreiðar hefðu tekið upp farþega nálægt morðstaðnum.

- Auglýsing -

„Við mælumst eindregið til þess að fólk hafi samband við okkur hið bráðasta ef það telur sig geta gefið einhverjar upplýsingar, hvað litlar sem þær kunna að virðast,“ sagði Ingólfur Þorsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á fundi með fréttamönnum síðar þennan sama dag.

Fólk var fyllt miklum óhug yfir málinu og var um fátt annað talað en þennan skelfilega glæp sem vart mátti kalla annað en aftöku.

Og dagarnir liðu

- Auglýsing -

Gjaldmælir bílsins var enn í gangi og gat því lögregla áætlað dánartíma Gunnars. Var álitið að hann hefði látist á tímabilinu frá klukkan 05.15 til klukkan 06.00 þennan morgun. Ferðir hans þessa nótt voru skoðaðar og var síðasta skráða ferð hans rétt fyrir klukkan 4 um nóttina.

Hvað hann gerði frá þeim tíma þar til hann lést er ekki vitað. Dagarnir liðu en ekki tókst lögreglu að finna neinar frekari vísbendingar í málinu. Ákváðu leigubílstjórar hjá Hreyfli að veita hverjum þeim sem gæti gefið upplýsingar um morðingja Gunnars hundrað þúsund krónur.

Í DV segir að hreyfing hafi ekki komist á málið fyrr ári síðar þegar að hjón í Reykjavík sem höfðu leyst til sín leigubifreið, og voru að þrífa hana, fundu fullhlaðna skammbyssu í hanskahólfinu. „Leigubílstjórinn sem hafði misst bifreiðina kom að heimili hjónanna til að sækja eigur sínar og tók hann þá eftir því að byssuna vantaði. Sagðist hann vilja fá hana aftur en hjónin neituðu og sögðu að hana yrði hann að sækja til lögreglunnar. Hann hafði samband við lögreglu og sagðist hafa fundið umrædda byssu upp úr miðjum janúar árið 1969 á gólfi leigubifreiðar sinnar.

Ítarlega var fjallað um málið í þætti Sannra íslenskra sakamála og var þar umræddur leigubílstjóri kallaður Sigurður. Hann neitaði alfarið sök en var vistaðu gæsluvarðhald þar sem dvaldi í 11 mánuði. Hann hélt fast við þá sögu að hafa fundið byssuna í bifreið sinni þegar hann var að þrífa hana. Farið var með byssuna til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, þar sem í ljós kom að um var að ræða sömu byssu og notuð var í morðinu á Gunnari.

Breytti framburði sínum

Enn fremur segir í grein DV: „Við húsleit á heimili Sigurðar fundust tvær byssukúlur, önnur var sömu tegundar og notuð var í morðinu á Gunnari. Þar að auki fannst lykill á lyklakippu Sigurðar að heimili hótelstjórans á Borg og sagðist Sigurður við yfirheyrslur ekki vita hvernig hann hefði komist þangað. Kona Sigurðar sagði að hann hefði sofið við hlið sér alla nóttina þegar morðið var framið. Þremur og hálfum mánuði eftir að Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald vildi Sigurður leiðrétta framburð sinn.

Sagði hann að nokkrum árum áður hefði hann verið staddur í sumarhúsi hótelstjóra Hótels Borg og þar hefði hann tekið hálfan annan pakka af skammbyssuskotum. Í annað skipti hefði hótelstjórinn hringt í hann og beðið hann að líta á bilað sjónvarpstæki. Við þetta tækifæri hefði hann stolið umræddri skammbyssu og tekið hana með sér til að selja hana. Hann hefði geymt hana í bifreið sinni en í millitíðinni hafi bifreiðin verið tekin vegna skuldar þar sem hún stóð í porti leigubílastöðvarinnar. Lyklana hefði hann skilið eftir í kveikjulásnum þar sem næturvörður gætti bifreiðanna. Næturvörðurinn sagðist ekki hafa orðið var við mannaferðir umrædda nótt.

Sýknaður af morði 

Í viðtali við Sönn íslensk sakamál sagði Sigurður að heimska hans hafi orðið til þess að hann sagði ekki allan sannleikann strax frá upphafi. Vitni sögðu að hegðun hans hafi ekki breyst dagana eftir morðið og virtist engin sýnileg ástæða fyrir því að hann hefði átt að fremja morðið. Hann sagðist ekki hafa þekkt Gunnar, aldrei talað við hann en þó séð hann.

Svo fór að Sigurður var ákærður í málinu en sýknaður af morðákæru en sakfelldur fyrir stuld á byssunni. Einn dómari skilaði sérákvæði og taldi hann sekan. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms, en líkt og í fyrra skiptið skilaði einn dómari sératkvæði og vildi sakfella Sigurð fyrir morðið. Í viðtalinu í Sönnum íslenskum sakamálum sagði Sigurður að hann hefði verið ósáttur við málalyktir í ljósi þess að sératkvæði var skilað og dómurinn var ekki samhljóða. „Maður er bitur eftir þetta og þetta er hlutur sem fer aldrei úr manni, aldrei.“

Frásögn Valgeirs

Sigursteinn Másson, fjölmiðlamaður rifjaði upp málið í hlaðvarpinu Sönn íslensk sakamál í fyrra þar sem fjallað eru um frá­sögn Val­geirs Skagfjörð og hálf­systur hans Sigur­björgu Stein­dórs­dóttur frá árinu 1969. Eftir því sem þar fram kemur var þeim sem börnum þá ógnað af mann vopnuðum skammbyssu. Kynnti maðurinn sig og sagðist heita Þráinn.

Sigur­steinn grunar að sá maður hafi verið Þráinn Hleinar Kristjáns­son sem lést árið 2018. Hann varð ná­granna sínum að bana á Hverfis­götu árið 1979.

„Mamma var mjög veik manneskja, var virkur alkó­hól­isti og átti við geð­truflanir að stríða, og án þess að í­grunda það eitt­hvað á­kvað hún að gerast mál­svari vinar síns. Hún bjó til fjar­vistar­sönnun fyrir hann í þeirri von að hann yrði látinn laus, bjó til ein­hverjar sögur og flækti málin frekar en hitt. Þetta var ofsa­lega leiðin­legt og var ekki til þess að bæta þá óvissu sem ríkti í málinu,“ sagði Valgeir.

„Svo var það einn sunnu­dags­morgun, um ári eftir morðið, að mamma var ein­hvers staðar úti á djammi og ég og eldri systir mín því ein heima. Þá kom allt í einu ein­hver maður inn í í­búðina okkar. Hann gekk bara inn, settist við eld­hús­borðið okkar og dró upp skamm­byssu. Ég man að ég varð of­boðs­lega hræddur.“

Í við­talinu er haft eftir Val­geiri að maðurinn hafi farið að sýna honum byssuna, þar sem hann hafi verið strákurinn á heimilinu. Hann hafi síðan sagt við Val­geir að hann hafi myrt Gunnar leigu­bíl­stjóra. „Grunurinn beindist að þessum vini mömmu af því að hann hafði verið að vinna um tíma hjá Jóhannesi á Hótel Borg,“ sagði Valgeir í viðtalinu. Lög­reglan fann byssuna sem talið er að hafi verið notuð við morðið, í hanska­hólfi leigu­bíls vinar mömmu Val­geirs sem í viðtali við DV sig ekki telja mjög gáfulegt að geyma morð­vopn í hanska­hólfinu á bílnum sínum og væri umhugsunarvert hvort byssunni hefði verið plantað.

„En það eru margar sögur alltaf í gangi um þetta mál og maður veit ekki hverju maður á trúa.“

Vildi hreinsa saklausan mann

Sigur­steinn telur á­kveðin líkindi með morðunum tveimur en tekur fram að ekki sé hægt að full­yrða um slíkt. Sigur­steinn setti upp eigin sak­bendingu og sýndi syst­kinunum fimm myndir og var ein myndin af Þránni. Bæði syst­kinin bentu, nú öllum þessum árum seinna á mynd númer þrjú, mynd af Þránni. Munu maðurinn og móðir þeirra systkina hafa verið æskuvinir og hafi hann sem leigubílstjóri oft skutlað þeim systkinum.

Valgeir sagðist hafa ákveðið að tjá sig ef það mætti verða til þess að hreinsa hugsan­lega sak­lausan mann af á­sökun um framið morð. En ég get auð­vitað ekki dæmt um það, ég var bara krakki. En ég á­kvað samt að segja frá minni upp­lifun af þessu máli.“

Sigur­steinn Más­son sagði í Kast­ljósi um málið að ekki væri hægt að full­yrða um sekt Þráins en um væri að ræða sterka vís­bendingu.

„Ég er ekki með þessu að segja að þetta sé maðurinn sem varð Gunnari Tryggva­syni að bana. Það er full á­stæða til í ljósi þessara upp­lýsinga að skoða þetta betur. Nú er þessi maður, sem að hugsan­lega mögu­lega ógnaði syst­kinunum, látinn. Hann verður ekki sóttur til saka héðan í frá. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að það var annar maður í 11 mánuði í gæslu­varð­haldi grunaður um morðið á Gunnari á sínum tíma. Hans fjöl­skylda, börn og barna­börn eiga líka rétt á því að fá að vita hvað raun­veru­lega gerðist þarna ef mögu­leiki er að varpa frekara ljósi á málið“.

Morðið á Gunnari Sigurði telst enn óupplýst og er enn opið hjá lögreglu.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -