Hannes skilur ekki viðbrögðin vegna ummæla hans um Hildi – „Þær ganga fram með frekju og ofsa“

Deila

- Auglýsing -

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands furðar sig á hörðum viðbrögðum vegna ummæla hans um Hildi Lillendahl. Hann segir öfgafemínista með tvöfalda siðferðismælikvarða spilla umræðumenningu á Íslandi.

„Prófessor við Háskólann, Kristín Björnsdóttir, hvetur Hildi í athugasemd við Twitter færslu hennar til að senda kæru á hendur mér til deildarforseta í stjórnmálafræðideild. Kæru fyrir hvað? Að spyrja, hvort einhverjar skýringar séu til á þessari ólíku meðferð og afgreiðslu málanna tveggja? Er ekki kominn tími til að afhjúpa hræsni og öfgar þessa fólks,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á Facebook.

Segist hann á dögunum einfaldlega hafa beðið Facebook um skýringar á því hvers vegna Kristinn Sigurjónsson var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík vegna tiltölulega saklausra ummæla sinna um konur á meðan Hildur hélt sínu starfi hjá Reykjavíkurborg þrátt fyrir meinleg ummæli.

„Ég bað hér á Facebook um skýringar á því, væru einhverjar til, væru einhverjar til, að Kristinn Sigurjónsson væri rekinn frá Háskólanum í Reykjavík fyrir tiltölulega saklaus (en ef til vill óheppileg) almenn ummæli um konur undir fullu nafni í lokuðum spjallhópi á netinu, en Hildur Lilliendahl héldi starfi sínu hjá Reykjavíkurborg fyrir ótrúlega meiðandi árásir og ofbeldishugrenningar á netinu undir dulnefni um nafngreinda einstaklinga. Spurning mín var um hina ólíku meðferð og afgreiðslu málanna tveggja,“ skrifar Hannes og vísar þar eldri Facebook-færslu sína.

Í eldri færslunni segist Hannes telja að það sem Kristinn skrifaði sé meinlaust, á meðan það sem sem Hildur skrifaði hafi verið meinlegt. Munurinn sé líka sá að Reykjavíkurborg sé kostuð af fé skattgreiðenda, en ekki Háskólinn í Reykjavík þótt mögulega hafi ákveðnir starfsmenn hans réttarstöðu opinberra starfsmanna eftir sameiningu við Tækniskólann.

Þessi fyrri færsla Hannesar vakti talsverða athygli og deildi Hildur henni sjálf á twitter. „Jæja. Þetta kom mjög out of nowhere. Ég er nemandi við stjórnmálafræðideild HÍ. Hvað geri ég í þessu,“ spurði hún þar og fékk ýmsar ráðleggingar, þar á meðal frá Kristínu Björnsdóttur prófessor sem segir bréf á deildarforseta vera fyrsta skrefið samkvæmt ferlunum. Svar Kristínar er nú tilefni þess að Hannes tjáir sig aftur um málið á Facebook.

„Eru allir orðnir hræddir við þessa öfgafemínista með sinn tvöfalda siðferðismælikvarða, þar sem sumum leyfist allt og öðrum ekkert? Þær ganga fram með frekju og ofsa og spilla stórkostlega umræðumenningu á Íslandi,“ skrifar Hannes á Facebook og deilir frétt Stundarinnar um málið.

- Advertisement -

Athugasemdir