• Orðrómur

Hilda Jana galopnar sig um neysluna, þunglyndið og kvíðann: „Á tímapunkti sagði ég bara „fuck it““

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ákveðið var á fundi kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi 7. apríl sl. að Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, yrði í 2. sæti á framboðslista flokksins í kjördæminu. Hún talar hér meðal annars um æskuna og unglingsárin, þunglyndið og kvíðann, neysluna, ástina, fjölmiðlaferilinn, stjórnmálin og Duracell-kanínu.

Hilda Jana Gísladóttir fæddist í Reykjavík.

„Ætli ég muni ekki fyrst eftir mér þegar ég bjó við Leifsgötu í Reykjavík þar sem ég bjó frá tveggja til 10 ára aldurs. Þar átti ég ævintýraheim sem mér fannst vera risastór en svo þegar maður heimsækir Leifsgötuna núna þá er hún nú ekki mjög stór. Ég var rosalega mikill klifurköttur. Mér fannst það vera ægilega skemmtilegt að klifra. Svo á ég margar æskuminningar frá Ólafsfirði en ég var þar mikið á sumrin hjá ömmu og afa. Það má segja að ég hafi verið gaur. Ég var ekki prinsessa. Ég var mikið í stígvélum, skítug og mikið úti að brasa svo sem að veiða síli í tjörninni í bænum. Ég var rosalega orkumikill krakki. Mamma sagði mér að stundum þegar þau pabbi voru á ferðalagi með mér þá áttu þau til að láta mig úr bílnum til að ég fengi að hlaupa og tappa af mér orku.“

- Auglýsing -

Mér fannst ég tilheyra einhverjum og vera hluti af einhverju þegar ég drakk.

Árin liðu. Hilda Jana hætti að klifra upp í tré og veiða síli í tjörninni fyrir norðan.

Hún varð unglingur. Laugarnesskóli. Melaskóli. Hagaskóli. Hún var stundum með kjaft.

- Auglýsing -

Hún var í fimleikum og fótbolta en handboltinn var stóra áhugamálið og æfði hún með KR.

„Unglingsárin voru erfið. Þetta var flókinn tími. Ég glímdi við þunglyndi og kvíða. Mér fór að líða illa andlega þegar ég var í 8. bekk. Mér leið eins og geimveru. Þetta hafði áhrif á skapið, ég var erfið í umgengni og stundum pirruð og leiðinleg heima við. Mér fannst ég vera öðruvísi en allir aðrir, sérstök, mér fannst enginn skilja mig og mér fannst ég hvergi passa inn. Mér fannst ég hvorki tilheyra fjölskyldunni né bekknum; mér fannst ég þó tilheyra handboltaliðinu sem ég var í. Ég komst síðar að því að ég er ekkert sérstök, ég var í raun eins og flestir aðrir. Það gerðist á einhverjum tímapunkti að ég sagði svolítið bara „fuck it“. Mér var bara alveg sama. Ég ætlaði bara að gefa skít í allt. Ég átti góða foreldra sem sýndu mér alla þá umhyggju sem hægt er að óska sér og það var ekkert í umhverfinu sem útskýrði líðan mína. Það er hins vegar ofboðslega sár tilfinning að upplifa að maður tilheyri ekki hvort sem sú tilfinning er síðan byggð á réttu eða röngu. Sjálfsmyndin var ofboðslega slæm. Mér fannst ég ekki vera klár og mér fannst ég ekki líta vel út; mér fannst ég einhvern veginn alveg ómöguleg. Ég sá mig allavega þannig. Svo horfi ég í dag á myndir af þessari fallegu, skemmtilegu og blíðu stelpu sem ég var og hugsa með mér hvernig ég gat hugsað svona um mig. Það er svo ósanngjarnt.“

Tímarnir voru aðrir og síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

- Auglýsing -

Ég var í dagneyslu í þrjá mánuði og var alveg búin á því og endaði í meðferð um haustið. Ég var þá orðin andlega gjaldþrota.

„Það var ekkert verið að tala um þunglyndi eða kvíða á þessum tíma. Á hvaða grunni átti maður að byrja? Maður þekkti varla orðin. Og ég sá enga ástæðu til að tala um þetta. Ég sé í dag að það er svo mikilvægt að gera það.“

Í neyslu

Hilda Jana var 13 ára þegar hún fékk sér fyrsta sopann. Henni leist ekki á og smakkaði ekki áfengi í heilt ár á eftir.

„Mér fannst þetta vera alveg skelfilegt.“

Svo segist hún hafa byrjað að drekka eins og margir unglingar. Fór í partí og drakk.

„Mér fannst ég tilheyra einhverjum og vera hluti af einhverju þegar ég drakk.“

Hún vildi drekka eins og hinir sem voru byrjaðir að drekka.

Hún hékk eftir 9. bekk oft í leiktækjasal í miðbænum ásamt vinkonum sínum og fleirum og stundum var drukkið, sumir reyktu hass og ávísanir voru falsaðar.

Hann er ótrúlega skemmtilegur, blíður, hugulsamur, klár og heillandi. Hann heillaði mig hreinlega upp úr skónum.

Svo lauk grunnskólanum og sumarið á eftir var mikið djammað. Síðan hóf hún nám við Kvennaskólann. Hún og vinkonur hennar fóru út að skemmta sér um hverja helgi og stundum oftar. Stundum kom hún ekki heim í nokkra sólarhringa og allt þetta hafði áhrif á námið.

Hilda Jana segist svo hafa farið í mikla neyslu þegar hún var 16 ára.

„Við bjuggum á þessum tíma í einni af jólatrésblokkunum úti á Granda og ég man að pabbi skrifaði einu sinni ljóð um það þegar hann horfði á bílljósin út um gluggann og kvíðahnúturinn í maganum stækkaði af því að ég var ekki komin heim. Svo endaði ljóðið á því að hann sagði að undir morgun hafi ég komið heim og hann hafi litið í augu mín brúnu og séð að þetta væri ekki ég.“

 

Ekki þú

 

Út um gluggann

horfi ég á gul augu

nálgast húsið

 

það er nótt

og ég er hræddur

því þú ert

ekki komin heim

 

í hvert sinn

þegar gulu augun

aka fram hjá

og það ert ekki þú

vex ótti minn

 

undir morgun

dotta ég

en vakna þegar útidyrnar opnast

og þú kemur inn

 

ég horfi í

brúnu augun þín

dimmu

 

og sé

að þetta ert ekki þú

(-Gísli Gíslason

í ljóðabókinni „Hamingjusmiðurinn“ árið 1994.)

Ég gjörsamlega bugaðist bæði andlega og líkamlega.

Drykkjan jókst og jókst og jókst. Og hún fór að dópa.

„Ég sleppti einhvern veginn bremsunni. Mér var alveg sama um sjálfa mig og allt. Svo umgekkst ég mikið af fólki sem var að nota efni og mér fannst þetta ekkert vera mál þegar ég horfði á það. Þetta var spennandi. Skemmtilegt ævintýri. Það var mikið hlegið og engin ábyrgð. Þetta hjálpaði svo sem ekki þunglyndinu; það sem gerðist var að mér leið sífellt verr og það fór að byggjast upp vítahringur og það var erfitt að vera edrú.“

Ég heillaðist mjög fljótt af fjölmiðlunum

Hilda Jana flutti að heiman þegar hún var 17 ára. Hún leigði litla íbúð ásamt tveimur vinkonum sínum og fljótlega var orðið ansi mannmargt þar inni. Stundum þegar vinkonurnar vöknuðu vissu þær ekki hvaða fólk var þar inni. Þær voru í stanslausri neyslu allt sumarið. Hilda Jana drakk á hverjum degi og tók eiturlyf.

„Ég var í dagneyslu í þrjá mánuði og var alveg búin á því og endaði í meðferð um haustið. Ég var þá orðin andlega gjaldþrota. Vinur minn, sem hafði farið í meðferð, hafði sagt að ég þyrfti að fara að gera eitthvað í mínum málum og að ég gæti fengið hjálp á Vogi. Ég vissi að ég gæti ekki haldið svona áfram.“

Hún hafði sagt að sér hafi liðið eins og geimveru.

„Þegar ég fór í meðferð þegar ég var 18 ára þá leið mér pínulítið eins og ég væri komin á plánetuna mína þar sem allir væru geimverur eins og ég, ekki með neitt á hreinu.“

Fyrst eftir meðferðina dvaldi hún á áfangaheimili fyrir konur, Dyngjunni. Hún féll nokkrum sinnum næsta ár og fór nokkrum sinnum í meðferð en komst að lokum á beinu brautina

Hilda Jana hóf nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla eftir meðferðina, varð ófrísk og flutti haustið 1996 til Akureyrar ásamt þáverandi sambýlismanni sínum en foreldrar hennar höfðu þá flutt norður. Hún hóf þá nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og varð stúdent þaðan árið 1997, 21 árs, og útskrifaðist síðan með B.ed gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2003.

Ég vil geta horft í spegil og verið stolt af mér.

Hilda Jana lærði margt af þessari lífsreynslu – að vera í neyslu.

„Þótt ég hefði viljað sleppa því að upplifa þetta þá bý ég alltaf að þessari reynslu. Ég held að ég hafi í fyrsta lagi lært ofboðslega mikið um þakklæti, lært að bera virðingu fyrir sjálfri mér og öðrum og að hafa meiri skilning á því hvað við erum öll ólík en á sama tíma svo breysk og brothætt. Ég bý alveg rosalega mikið að bæði þessum meðferðum og allri þessari vinnu. Ég fór til sálfræðinga og fór að hugleiða og hreyfa mig. Mér finnst ég ennþá byggja á þeim grunni sem ég fékk í gegnum þetta ferli. Ég er þakklát fyrir það en ég hefði alveg viljað læra þetta án þess. Mér finnst þetta hafa mótað lífsviðhorf mitt og þetta hefur kennt mér að meta þetta smáa, meta mig og fjölskyldu mína. Það var yndislegt að sjá eftir þetta tímabil hvað fjölskylda mín er yndisleg og það var erfitt að horfast í augu við hvað ég hafði verið erfið.“

Brjálæðislega hrædd

Hún var komin norður með þáverandi kærasta sínum og þar fæddist dóttir þeirra í janúar árið 1997.

„Ég var svo mikill krakki. Ég vissi ekkert hvað ég væri að fara út í. Auðvitað breytti fæðing dóttur minnar öllu lífinu. Á augabragði var ég allt í einu ekki númer eitt heldur eitthvað líf sem ég bar ábyrgð á sem var mikilvægara en allt annað. Tilkoma hennar breytti öllu. Hún var augasteinn minn sem allt snerist um.“

Sambandi Hildu Jönu og barnsföður hennar lauk fjórum árum síðar.

Ég þarf að hugsa rosalega vel um mig. Ég hef bara þessa andlegu veikleika.

„Við vorum óskaplega miklir vinir en það er rosalegt skipbrot þegar maður er búinn að vera með einhverjum í sex ár. Við vorum trúlofuð.“

Hún kynntist núverandi eiginmanni sínum, Ingvari Má Gíslasyni, um fjórum mánuðum síðar. Hann var þjálfari Morfísliðs Verkmenntaskólans á Akureyri og vildi sameiginlegur vinur þeirra að þau hittust og myndu ræða saman um femínisma.

„Það var það málið sem liðið átti að ræða um í keppninni og vinur minn vissi að ég hefði sterkar skoðanir á jafnréttismálum.“

Þau hittust, ræddu um feminísma og urðu bálskotin í hvort öðru.

Hún hlær.

Hvað heillaði hana við Ingvar?

„Hann er ótrúlega skemmtilegur, blíður, hugulsamur, klár og heillandi. Hann heillaði mig hreinlega upp úr skónum. Við kynntumst í október og urðum formlega kærustupar í desember og þá fór ég ásamt dóttur minni í jólaboð til fjölskyldu hans. Hann fór eiginlega ekkert heim eftir okkar fyrstu kynni. Við vorum sannfærð um það frá alveg frá byrjun að þetta væri bara málið.“

Það var þessi ofboðslega hræðsla; stöðuga, viðvarandi hræðsla sem lamaði mig á sínum tíma. Kannski finnst einhverjum þetta hljóma dramatískt en líkaminn gaf undan.

Hilda Jana og Ingvar eignuðust saman tvær dætur sem í dag eru 15 og 16 ára.

Elsta dóttir Hildu Jönu hefur glímt við þunglyndi og kvíða eins og móðir sín og fór eins og hún í neyslu á unglingsárunum.

„Það var auðvitað ofboðslega sársaukafull upplifun og gerði mann svolítið hjálparvana að geta ekki aðstoðað betur en á sama tíma er það stórkostlegt að fylgjast með henni blómstra í dag; hún blómstrar eins og fegursta blóm,“ segir Hilda Jana en dóttir hennar fór í meðferð fyrir nokkrum árum og klárar háskólanám næsta vetur.

„Ég held að ekkert hafi haft eins mikil áhrif á mig eins og þegar hún var í neyslu. Ég gjörsamlega bugaðist bæði andlega og líkamlega. Mér fannst vera erfiðara að upplifa hana í neyslu heldur en sjálfa mig. Það var þessi ofboðslega hræðsla; stöðuga, viðvarandi hræðsla sem lamaði mig á sínum tíma. Kannski finnst einhverjum þetta hljóma dramatískt en líkaminn gaf undan. Ég fékk illt í bakið, magann og höfuðið og var alveg ónýt. Þegar hún fór síðan í meðferð þá dvaldi ég í fjórar vikur á heilsustofnuninni í Hveragerði til að byggja mig upp. Þetta var búið að vera hræðilegt. Ég held að það sé ekkert annað orð yfir það að óttast að missa barnið sitt. Ég var sjúklega hrædd um dóttur mína. Ég var brjálæðislega hrædd um að missa hana.“

Þegar hún fór síðan í meðferð þá dvaldi ég í fjórar vikur á heilsustofnuninni í Hveragerði til að byggja mig upp. Þetta var búið að vera hræðilegt.

Mér leið hryllilega

Eftir að Hilda Jana flutti norður vann hún um tíma í forvarnarfræðslu og vann á meðferðarheimili. Hún fór síðan í kennaranám við Háskólann á Akureyri og varð formaður félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og sem slíkur vann hún þátt um skólann sem var birtur á sjónvarpsstöðinni Aksjón.

„Sem formaður félagsins var ég að reyna að vekja athygli á skólanum og óskaði eftir því að þessi litla sjónvarpsstöð gerði þætti um Háskólann á Akureyri. Þeir sögðu að það væri alveg gerlegt ef ég tæki að mér að sjá um þættina. Það var ekki það sem ég ætlaði mér en það endaði þannig að fyrsta starfið mitt í fjölmiðlum var að gera hinn epíska þátt Háskólahornið með Baldvin Z á hinni feikifínu sjónvarpsstöð Aksjón.“

Jú, boltinn fór að rúlla og vann hún hjá Aksjón 70% vinnu síðasta árið sitt við skólann. Eftir það var ekki aftur snúið í mörg ár. Hún varð síðar fréttamaður á Aksjón, Stöð 2 og RÚV og síðar framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4.

„Ég heillaðist mjög fljótt af fjölmiðlunum. Mér fannst þetta alveg brjálæðislega skemmtilegt og áhugavert og var ráðin í sumarstarf hjá stöðinni. Í kjölfarið var gerður samningur við Stöð 2 um að Aksjón gerði fréttir fyrir þá á Norðurlandi. Ég átti eitt ár eftir í kennaranáminu og ég heillaðist bara algerlega þannig að ég var eiginlega komin í 70% vinnu með síðasta árinu í náminu. Ég fór síðan að kenna aðeins en ég var alltaf viðloðandi Aksjón þangað til ég fór að vinna hjá RÚV árið 2006. Ég missti síðan vinnuna þar árið 2009 í samdrætti eftir hrunið; mér leið satt best að segja hryllilega þegar ég missti vinnuna hjá RÚV. Mér fannst ég rosalega mikill kúkur í lauginni.“

Hún íhugaði í kjölfarið og í hruninu að sækja jafnvel um vinnu í Noregi en það var ekki um auðugan garð að gresja á vinnumarkaðnum. Hún fékk svo vinnu hjá sjónvarpsstöðinni N4.

„Það hafði verið slökkt á stöðinni og var það Þorvaldur heitinn Jónsson sem réð mig en hann var yndislegur maður og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Það voru auk mín, sem var eini dagskrárgerðarmaðurinn, tveir tæknimenn í vinnu og eini tekjugrunnurinn voru bæjarstjórnarfundir sem voru teknir upp. Við fórum síðan að leika okkur; við ákváðum til dæmis að fjalla um vélsleða og fórum þá upp á Súlur á vélsleða og fjölluðum um vélsleða með löngum viðtölum. Það var síðan sami þáttur sýndur á hálftíma fresti allan sólarhringinn. Svo leið tíminn og kom í ljós í Gallup-mælingu að áhorf var mikið og við sáum að við þyrftum að gera eitthvað meira.“

Það hefur auðvitað verið sérstaklega spennandi verkefni að prófa að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn.

Og þau gerðu eitthvað meira og nokkrum árum síðar voru starfsmenn orðnir 18 og Hilda Jana orðin framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4.

„Ég elskaði að taka viðtöl. Við höfum öll sögu að segja og við erum öll merkileg og mikilvæg. Svo finnst mér vera mikilvægt að íbúar um allt land taki þátt í samfélagsumræðunni og það er mikið ríkidæmi að hafa ferðast um allt svæðið og kynnst fyrirtækjum og einstaklingum og fá innsýn inn í umhverfið mitt.“

Hilda Jana vann hjá N4 þar til hún ákvað að fara í framboð í sveitarstjórnarkosningum árið 2018.

Byggðajöfnuður

Hvers vegna að fara út í stjórnmál?

„Það hafði blundað lengi í mér. Ég held að það sé engin tilviljun að margir fjölmiðlamenn hafa áhuga á stjórnmálum og öfugt. Fjölmiðlamenn hafa áhuga á samfélaginu. Kona sem hafði verið með mér í kennaranáminu á sínum tíma minnti mig á það á Facebook nýlega að ég hefði þá sagt við hana að ég ætlaði mér að fara á þing en að ég ætlaði bara að mennta mig fyrst. Þannig að þetta er ekkert nýtilkomið. Ég hafði ekki tekið þátt í flokkspólitísku starfi áður en ég bauð mig fram 2018 en hafði haft gríðarlega mikinn áhuga á samfélaginu mínu og reynt að hafa jákvæð áhrif á það. Ég var bún að vera meira og minna í fjölmiðlum í 18 ár þegar mér bauðst að fara í sveitarstjórnarmálin. Það var mikið heillaskref og kom held ég engum á óvart sem þekkir mig.“

Hvers vegna Samfylkingin?

„Samfylkingin hefur alltaf verið sá flokkur sem ég hef samsamað mig best við hugmyndafræðilega. Ég hef alltaf horft til jafnaðarmanna á hinum Norðurlöndunum og þessi skandinavíska hugmyndafræðilega nálgun hefur alltaf heillað mig mest.“

Hilda Jana segir að í hlutverki bæjarfulltrúa hafi hún lagt mikið af mörkum í verkefnum landshlutasamtakanna en hún er einnig formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

„Við sameinuðum þrjú félög, AFE, AÞ og Eyþing, í ein samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eða SSNE. Það fór mikil vinna og kraftur í að móta þau samtök sem ég er ofboðslega stolt af að hafa verið þátttakandi í því. Ég finn strax að samtökin eru mikilvægur og öflugur samstarfsvettvangur sveitarstjórna á svæðinu auk þess að vera mikilvægur samstarfsvettvangur ríkis og sveitarfélaga. Ég gæti listað upp heilmikið af verkefnum sem ég er stolt af í starfi mínu í bæjarstjórn en mín upplifun er að mikilvægast af öllu sé að það gerir í raun enginn einn neitt í stjórnmálastarfi, enda þarf á endanum alltaf að ná að minnsta kosti helmings stuðningi við öll framfaramál. Þess vegna skiptir sköpum að vera kraftmikill hluti af öflugu teymi og það er ég sannfærð um að ég hafi verið. Það hefur auðvitað verið sérstaklega spennandi verkefni að prófa að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn. Mikilvægast er síðan auðvitað að vera trúr sinni hugmyndafræði, missa ekki sjónar af heildarmarkmiðum og gleyma því aldrei að kjörnir fulltrúar eru þar í umboði almennings. Þá finnst mér ákaflega mikilvægt að taka þátt í þroskaðri samfélagsumræðu og bera virðingu fyrir því að það eru ekki og verða aldrei allir sammála um allt. Maður má hins vegar ekki láta það stöðva sig í að berjast fyrir framfaramál sem maður hefur einlæga trú á, á sama tíma og sú umræða getur og á að mínu mati að grundvallast á mannvirðingu.“

Svo hef ég mikinn áhuga á málefnum tengdum andlegu heilbrigði, sem gefur kannski auga leið.

Hilda Jana er spurð hvað hún hafi fram að færa ef hún kemst á þing.

„Ég brenn fyrir jöfnuði. Sérstaklega byggðajöfnuði. Og mér finnst ég hafa mikið fram að færa í því með hvaða hætti við þurfum að byggja á heildstæðri nálgun á því hvernig við ætlum að byggja upp þetta land með sterka höfuðborg og öfluga landsbyggð. Það er verkefni sem ég tel að ég geti lagt lóð á vogarskálarnar við að gera betur. Upplifun mín er að við séum að vannýta hluta landsmanna sem telja um 36% en það eru þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Við höfum ótrúleg tækifæri til að gera betur þar. Ég bind vonir við að geta verið öflugur þátttakandi í því að geta gert gott samfélag betra og geta haft áhrif sérstaklega á byggðaþróun í landinu. Svo hef ég mikinn áhuga á málefnum tengdum andlegu heilbrigði, sem gefur kannski auga leið.“

Ekki Duracell-kanína

Hún talaði um þunglyndi og kvíða. Það er eitthvað sem hefur fylgt henni í gegnum lífið og í dag er hún með verkfæri til að berjast.

„Það hafa í gegnum árin komið sveiflur í því öllu saman. Þetta er eitthvað sem maður lærir að lifa með og vinna úr. Það er hins vegar ekki hægt að kveikja og slökkva í þeim efnum. Ég fékk á sínum tíma fullt af tólum og tækjum til þess að vinna með sjálf og það eru þrjú atriði sem ég þarf alltaf að hafa í huga: Er ég að heyfa mig, borða og sofa hæfilega? Og ég þarf að opna mig og tala um hlutina ef eitthvað gengur á og taka lífinu ekki of alvarlega.

Ég þarf að hugsa rosalega vel um mig. Ég hef bara þessa andlegu veikleika. Það er eitthvað að fara að gerast þegar ég verð þreytt og mig langar til að vera í friði og þá hef ég þessa fyrrnefndu þrjá þætti í huga. Þeir þrír þættir er eins og grunnurinn að húsinu mínu; ef þeir eru ekki í lagi þá er eiginlega ekki hægt að fara að vinna í neinu öðru. Það er mín reynsla. Síðan get ég byggt ofan á þetta hús með hugleiðslu, jóga, öndunaræfingum og samveru við fjölskyldu og vini. Svo á ekki að hika við að leita sér sérfræðiaðstoðar til dæmis sálfræðings þegar maður er kominn upp við vegg. Ég hef gert það til dæmis eftir að dóttir mín fór í neyslu. Ef ég fæ mikinn kvíða þá er ákaflega verðmætt að muna að hann líður hjá.“

Upplifun mín er að við séum að vannýta hluta landsmanna sem telja um 36% en það eru þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Hilda Jana hefur af og til í gegnum árin tekið þunglyndis- og kvíðalyf.

„Þau geta hjálpað en eru ekki töfralausn. Þetta er bara vinna eins og hvað annað og tekur oft svolítinn tíma.“

Eiginmaður og þrjár dætur.

Hilda Jana segist vera mikil fjölskyldumanneskja. Og fjölskyldan á hund. Það er Cavalier King Spaniel-tíkin Gola. Hún er þriggja ára, algert æði og finnst gott að láta knúsa sig.

Hilda Jana hjólar, gengur, skokkar og fer á gönguskíði þegar er nægur snjór; hún datt einmitt í vetur þegar hún var á gönguskíðum og sleit liðband í öðrum þumalfingrinum og er að jafna sig eftir aðgerð. Hún lyftir upp hendinni og blasir við myndarlegt ör.

„Ég hef stundum sagt að ég sé með „kveikt og slökkt takka“; stundum er ég til í að vera á milljón en næstu stund til í að gera nákvæmlega ekki neitt. Mér finnst stundum alveg geggjað að vera ein heima eða með fjölskyldunni og kúra uppi í sófa. Ég er ekki Duracell-kanína sem er alltaf að. Ég er búin að læra að vera dugleg að hvíla mig og hlusta til dæmis á hljóðbók og hafa það notalegt.“

Hilda Jana Gísladóttir er orkubolti sem áður var gaur sem klifraði upp í tré og veiddi síli. Hún er hætt að rífa kjaft en hver veit hvað mun gerast ef hún fer á þing þar sem oft er verið að munnhöggvast. Tíminn mun leiða það í ljós.

Hvað með draumana almennt?

Hún segist vera búin að vera að lifa drauma sína í mörg ár.

Ég brenn fyrir jöfnuði. Sérstaklega byggðajöfnuði.

„Draumarnir mínir snúast um að eiga þessa yndislegu fjölskyldu, reyna að láta gott af mér leiða og leggja mitt af mörkum til að gera gagn. Lífið leiðir mig alltaf eitthvert áfram. Kannski mun ég setjast á þing og það gæti orðið brjálæðislega skemmtilegt. Ef ekki þá held ég kannski áfram í sveitarstjórnarmálum. Ef ekki þá er ég búin að vera að leika mér í mastersnámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði.

Ég er búin að vanda mig eins og ég get í lífinu, hef reynt að vera lærdómsfús og reynt að gera allt sem í mínu valdi stendur til að láta gott af mér leiða. Og ég vil halda áfram að gera það. Ég vil geta horft í spegil og verið stolt af mér. Það er minn æðsti mælikvarði. Hann tengist minni eigin samvisku. Það er eini raunverulegi dómurinn að geta sagt við sjálfa mig að ég sé búin að gera allt sem ég get og að ég vinni af heilindum og kærleika.“

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -