Sunnudagur 4. desember, 2022
-1.2 C
Reykjavik

Hanna Rún varð fyrir miklu einelti: „Mér fannst ég vera skilin útundan og skildi þetta ekki alveg“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hún hefur sigrað hverja danskeppnina af annarri í mörg ár og dansar nú í gegnum
lífið með dansfélaga sínum og eiginmanni. Hanna Rún Bazev Óladóttir talar um
æskuna, dansinn, eineltið og kjaftasögurnar sem tengjast oft afbrýðisemi, ástina,
tímabundu lömunina í öðrum fætinum, gigtina og Rússland. Hér er brot úr viðtalinu.

Einelti

Hanna Rún talar um hvað þurfi til að vera góður dansari. „Það þarf mikinn metnað og maður þarf náttúrulega að vera tilbúinn til að fórna ýmsu. Foreldrar mínir voru duglegir að tala um það við mig að ef maður ætlaði að verða bestur væri ekkert sem héti að reykja eða drekka og eitthvað djamm. Ég var alveg til í það og skildi það vel. Þetta er líka mikið hausinn; þegar maður er á toppnum, alveg sama í hverju það er, fylgir því mikið baktal og afbrýðisemi og það brýtur fólk oft niður og það gefst upp. Ég var mjög ung þegar mömmur annarra stelpna í dansinum fóru að tala illa um mig og ég sá skrifað leiðinlega um mig. Og oft sá maður og heyrði eitthvað frá fólki sem maður vissi ekki einu sinni hvert var. Þegar kennararnir klipptu út greinar um mig og hengdu á veggi í skólastofunni voru settar teiknibólur yfir augun á mér á myndunum. Það var auðvitað ekkert skemmtilegt að sjá það, sérstaklega þegar ég var svona ung.“

Hún segir að einhvern tímann hafi öllum stelpunum í bekknum verið boðið í afmæli – nema henni. Síðan var sett sú regla að annað hvort yrði öllum stelpunum eða þá öllum krökkunum boðið. „Mér fannst ég vera skilin útundan og skildi þetta ekki alveg. En þetta var afbrýðisemi. Mamma og pabbi hafa alltaf verið og eru enn 100% með mér í þessu og þau studdu mig mikið, töluðu við mig og útskýrðu fyrir mér ef ég skildi ekki hvers vegna fólk lét svona. Ég hafði ekkert gert því. Ég skildi ekki af hverju það var svona leiðinlegt við mig. Þetta var afbrýðisemi. Ég átti vinkonu sem var mjög góð í fimleikum og ég fann bara til stolts gagnvart henni. Mér fannst kúl að eiga hana sem vinkonu. Þannig að ég skildi ekki af hverju fólk vildi vera leiðinlegt við mig.“
Hún nefnir fleiri dæmi. Það var reynt að hrinda henni og meiða svo hún gæti ekki keppt í dansi. Eineltið fólst þó mest í útilokun. „Ég var mikið ein á unglingsárunum og þegar við fluttum í Garðabæ voru komnar fullt af sögum um mig svo sem að ég væri að deita gullsmiðinn í Gullsmiðju Óla og að hann gæfi mér skartgripi. Spáði enginn í að ég er Óladóttir? Það voru alltaf einhverjar svona lygasögur. Ég sagði oft við mömmu og pabba: „Vitið þið hver er nýjasta sagan?“ Svo nennti ég ekki að spá í þetta.“

Hvaða áhrif hafði þetta á Hönnu Rún? „Ég var alltaf svo dugleg að tala við mömmu og pabba og þau sögðu að ég ætti að láta þetta fara inn um annað eyrað og út um hitt; ég ætti ekki að spá í þetta vegna þess að þetta fólk væri að reyna að skemma fyrir mér. Þannig að ég nýtti þetta frekar sem auka bensín á tankinn hjá mér: Ég ætlaði ekki að sýna þessu fólki að þetta hefði áhrif á mig. Ég var mikið ein heima og var sjálfri mér næg og er enn í dag; ég orti mikið ljóð, spilaði á píanó, söng og málaði og teiknaði.

Þar sem ég var í dansinum notaði ég mikið brúnkukrem og var mikið förðuð og fólk dæmdi mig út frá því og hélt að ég væri svaka góð með mig, snobbuð, drykki og reykti. Ég hafði aldrei drukkið eða reykt og þegar fólk hélt að ég væri að djamma og drekka var ég í raun bara heima að spila á píanó eða mála á meðan aðrir voru að djamma. Þannig að fólk vissi ekki neitt. Ég vildi verða best í dansinum og sökkti mér í hann. Foreldrar mínir útbjuggu speglasal heima þar sem ég gat dansað og svo lá ég yfir spólum og upptökum frá einkatímum sem voru teknir upp og skoðaði hvað ég gæti lagað fyrir næstu æfingu.“

- Auglýsing -

Viðtalið við Hönnu Rún má lesa í heild sinni í vefútgáfu nýjasta tímarits Mannlífar, hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -