Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Jón Ívar segir slúðrað að hann fái ekki vinnu: „Vinsælasti maður landsins reisti mér níðstöng“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Boston, kemur Elísabet Guðmundsdóttur, fyrrverandi lækni, til varnar í aðsendir grein í Morgunblaðinu. Jón Ívar hefur hefur á árinu boðað hugmyndir um COVID sem eru ekki í takt við skoðanir meirihluta læknastéttarinnar, líkt og Elísabeta. Hugmyndir Jóns hafa þó verið talsvert hófsamari en þó kvartar hann undan því að hafa lent í hakkavél samfélagsins.

„Nú hillir undir endalok Covid-19- faraldursins með tilkomu bóluefna sem munu að öllum líkindum færa okkur nær því sem kallast eðlilegt líf. Ég spáði því í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. að bóluefni myndi í besta falli koma fram í lok þessa árs, og trúði því varla sjálfur þá, en með grettistaki hefur tekist að þróa virk bóluefni á undraverðum tíma. Við getum því leyft okkur að líta bjartari augum til komandi árs og hljóta margir að bera meiri von í brjósti. Það á þó ekki við um alla. Margir eiga um sárt að binda, hafa misst vinnuna, hætt í skóla eða kljást við einmanaleika, þunglyndi og kvíða. Fólk hefur líka borist á banaspjót í faraldrinum,“ segir Jón Ívar í Morgunblaðinu.

Sjá einnig: Elísabet lýtalæknir opnar sig: „Meðhöndlaði mig sjálf með lyfjum sem ég hafði aðgang að sem læknir“

Hann segir mikilvægt að læknar þori að tjá sig. „Mér hefur blöskrað framkoma fjölmiðla, virkra í athugasemdum og kollega í garð Elísabetar Guðmundsdóttur læknis. Ég tek það fram að ég þekki hana ekki persónulega og ég er alls ekki sammála öllu sem hún hefur gert eða haldið fram. Það er eðlilegt að læknar séu ósammála þegar kemur að nýjum sjúkdómi sem hefur alvarlegar heilsufarslegar og samfélagslegar afleiðingar. Þekking á Covid-19 er í stöðugri þróun og enn fyrirfinnast ýmis álitamál. Þess vegna er mikilvægt að sem flestar raddir heyrist og læknar og aðrir þori að tjá sig,“ segir Jón Ívar og bætir við að Elísabet hafi verið hófsöm í byrjun.

Elísabet steig í upphafi fram með hógværa umræðu um mikilvægi D-vítamíns og að hafa skóla opna fyrir ungt fólk. Hún fékk strax framan í sig mótvind sem vatt upp á sig og nú er svo komið að hún hefur misst vinnuna og lækningaleyfið og sætir lögreglurannsókn. Nú þekki ég ekki til hvers vegna hún missti vinnuna og lækningaleyfið. Það getur vel verið að fyrir því séu gildar ástæður. En það breytir því ekki að fjölmiðlar hafa tekið þátt í mannorðsmorði í beinni og meira að segja aðstoðaryfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra sá ástæðu til að lýsa því yfir á upplýsingafundi að Elísabet væri ekki með lækningaleyfi! Það er deginum ljósara að hvaða manneskja sem er í þessari stöðu Elísabetar hlýtur að vera undir miklu álagi. Fjölmiðlar og aðrir ættu að sjá sóma sinn í að gefa henni andrými í þessum aðstæðum,“ segir Jón Ívar.

Hann segist hafa lent sjálfur í þessu á árinu: „Nú hef ég sjálfur lent í orrahríð vegna skoðana minna og reisti vinsælasti maður landsins mér níðstöng í fjölmiðlum, ekki einu sinni, heldur tvisvar, og minntist m.a. í síðari grein sinni á mína fjölskylduhagi og börnin mín. Hlaust af því mikil þórðargleði hjá ákveðnum hópi lækna og öðrum sem voru mér ósammála um áherslur vegna Covid-19. Orðið á götunni hjá kollegum mínum á Íslandi er að ég hafi stimplað mig út úr læknastéttinni og ég muni e.t.v. eiga erfitt með að fá vinnu ef ég flytti heim. Því neita ég reyndar að trúa.“

- Auglýsing -

Hann segist vera svona í eðli sínu. „Ég hef kynnst vönduðu fólki sem hefur kennt mér margt og víkkað sjóndeildarhringinn. Ég er í eðli mínu það sem á ensku kallast „contrarian“ sem byrjaði held ég þegar ég af einhverjum ástæðum neitaði staðfastlega að horfa á myndina Grease í æsku þrátt fyrir miklar vinsældir og sá hana ekki fyrr en á fullorðinsárum. Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera þannig gerður, en ég er orðinn vanur að takast á við gagnrýni og lít á hana sem tækifæri til að læra eitthvað nýtt. Þetta hugarfar nýtist líka vel í nýsköpun. Hugtakið „tíundi maðurinn“ er mér t.a.m. að skapi, en þá er t.d. miðað við að ef 10 manns eru á fundi og allir eru sammála þá verður a.m.k. einn að vera á móti og finna planinu sem flest til foráttu til að afhjúpa veikleika og finna bestu leiðina. William Kaplan gerir þessu efni ágæt skil í bókinni „Why dissent matters“. Ég vil því hvetja þá sem hafa eitthvað að segja til að stíga fram og láta í sér heyra,“ segir Jón Ívar.

Hann hvetur þó fólk til þess að tjá skoðanir sínar. „ Ég skil vel að fólk veigri sér við því miðað við ofangreint, en það er mjög óæskilegt þegar „groupthink“ er normið og fólki er refsað fyrir að stíga fram með skoðanir sem ganga gegn fjöldanum. Við sem samfélag þurfum að passa okkur á því að láta það ekki gerast. Annað sem ég vil hvetja til er að fólk sýni meiri háttvísi á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum fjölmiðla. Mér finnst í raun ótrúlegt að fólk vilji koma fram undir nafni með sumt af því sem þar er látið flakka. Það eru margir ljón á bak við lyklaborðið, en gullna reglan ætti að vera sú að einungis pikka inn hluti sem þú treystir þér til að segja við manneskjuna augliti til auglitis.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -