Sunnudagur 29. janúar, 2023
0.8 C
Reykjavik

Kynþáttafordómar eru að aukast

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þau Pape Mamadou Faye, Árni Sigurgeirsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir hafa upplifað kynþáttafordóma á eigin skinni frá blautu barnsbeini. Þau eru stöðugt látin finna fyrir því að uppruni þeirra geri þau frábrugðin öðrum Íslendingum.

 

Pape, Árni og Sanna eru sammála um að hatursorðræða og fordómar séu að aukast og vilja að gripið verði til ráðstafana til að hefta útbreiðslu þeirra sem allra fyrst.

Pape Mamadou Faye

 

Pape Mamadou Faye flutti til Íslands frá Senegal ellefu ára gamall.

Pape hefur undanfarin ár spilað með Víkingi í Ólafsvík og komst í fréttir fyrr í sumar þegar hann tjáði sig um þau ummæli Björgvins Stefánssonar, leikmanns KR, að það væri svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum eftir atvik í leik sem Björgvin var að lýsa. Pape segir þau ummæli hafa haft djúpstæð áhrif á sig, en það sem kannski hafi sært mest hafi verið hve margir voru tilbúnir að réttlæta þau og gera lítið úr þeim.

„Ég varð reiður, ég viðurkenni það, og enn reiðari vegna viðbragðanna.“

„Ég hef áður farið í svona viðtöl og sagt frá minni reynslu,“ segir hann. „Og ég hef upplifað að margir trúa mér ekki. Halda því blákalt fram að svona hlutir gerist ekki á Íslandi. Mér finnst mjög undarlegt að fólk sem aldrei hefur lent í neinu svona taki þá afstöðu, hvers vegna ætti ég að vera að ljúga þessu? Þetta viðhorf er svo hættulegt. Það kom svo vel í ljós í þessu atviki með Björgvin í sumar, það voru nánast allir tilbúnir til að verja hann og gera lítið úr þessum ummælum, en þetta hafði mikil áhrif á mig og ég átti erfitt með svefn þetta kvöld. Ég varð reiður, ég viðurkenni það, og enn reiðari vegna viðbragðanna. Það virtist öllum finnast þetta allt í lagi.“

Árni Sigurgeirsson

- Auglýsing -

 

Árni Sigurgeirsson var ættleiddur frá Indónesíu af íslenskum foreldrum þegar hann var fjögurra mánaða gamall. Hann hefur aldrei þekkt annað en íslenskt umhverfi, hefur aldrei komið til Indónesíu einu sinni, og segir það því hafa verið nokkuð skondið þegar hrópað var á hann að koma sér heim þegar hann var á gangi á Laugaveginum.

„Ég svaraði sallarólegur að ég væri nú einmitt að drífa mig heim í Garðabæinn,“ segir hann og glottir. „Það þaggaði mjög snögglega niður í þeim sem æpti.“

- Auglýsing -

Spurður um uppvaxtarárin í Mosfellsbæ, hvort hann hafi orðið fyrir fordómum þar sem barn, segist hann auðvitað hafa fundið fyrir þeim stundum og þá aðallega þegar hann var að keppa í handbolta.

„Maður var alltaf skilgreindur út frá húðlitnum á vellinum.“

„Það var enginn í mínum árgangi ættleiddur,“ segir hann. „Enda var það ekki orðið algengt á þeim tíma. Ég var eini brúni strákurinn í bekknum og á þeim tíma gerði ég mér enga grein fyrir því hvað fordómar voru, en það kom fyrir að maður varð fyrir einhverju fordómatengdu aðkasti. Ég var mikið í íþróttum og alltaf einn af hópnum en þegar kom að keppnisleikjum í handboltanum var maður oft kallaður ýmsum nöfnum, bæði af krökkum í hinum liðunum og foreldrunum á línunni. Það var reyndar tekið fyrir þetta á endanum en það var þó nokkuð algengt að leikmenn hins liðsins væru hvattir af áhorfendum til að „taka svarta blettinn úr umferð“ og svo framvegis. Maður var alltaf skilgreindur út frá húðlitnum á vellinum. Sem betur fer voru þjálfarar og aðrir foreldrar fljótir að bregðast við og þetta varð smám saman minna áberandi.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir

 

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi fór ung að verða fyrir kynþáttafordómum sem hún segir að hafi aðallega verið í formi forvitni en hún hafi ekki séð það þá, hafi áttað sig á því þegar hún líti til baka.

Sanna segist hafa verið svo „heppin“ að hafa ekki orðið fyrir mjög grófum kynþáttafordómum, en það sé auðvitað fáránlegt að líta á það sem heppni.

„Ég hef ekki orðið fyrir mjög ljótum eða ofbeldisfullum fordómum,“ útskýrir hún. „Það var kallað á eftir mér „hey, negri, ég skeit á þig áðan,“ og svona komment, en aðallega er þetta forvitni, fólk spyr hvaðan ég sé, hvort ég sé ættleidd, furðar sig á því hvað ég tali góða íslensku og alls konar svona spurningar, jafnvel frá ókunnugu fólki.

Ég hef alltaf litið svo á að ég hafi verið heppin, en ég er auðvitað farin að sjá það núna að það segir mikið um ástandið í þessum málum að líta á það sem heppni að verða ekki fyrir ofbeldi vegna litarhaft míns.“

Lestu viðtölin í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -