2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Nýr grænn sáttmáli – minni ójöfnuður og endurnýjanleg orka

Bandaríska þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez heldur áfram að sýna pólitískt hugrekki. Á stuttum tíma hefur hún orðið svo gott sem heimsfræg og nýtur mikilla vinsælda, einkum meðal ungs fólks í Bandaríkjunum. Skal engan undra, enda fer hugrekki og alþýðleiki hennar saman við pólitíska innistæðu sem sést meðal annars með framlagningu hennar á ályktun um Grænan nýjan sáttmála eða „Green New Deal“ í samstarfi við Edward Markey.

Hugmyndin þótti djörf í kjölfar kosninga í nóvember. Þingkonan fór strax að þreifa fyrir stuðningi meðal demókrata fyrir sáttmálanum og hefur, mörgum að óvörum, fengið talsverðan stuðning þrátt fyrir að sáttmálinn þyki róttækur en um 60 þingmenn og 9 öldungardeildarþingmenn styðja hann nú.

Heitið á sáttmálanum vísar til Nýja sáttmála „New Deal“ Roosevelts, sem hafði að geyma aðgerðir til að rétta af bandarískt samfélag eftir kreppuna miklu á fyrrihluta síðustu aldar. Að mati margra m.a. Paul Krugman lagði sú stefna grunninn að blómaskeiði millistéttarinnar eftir kreppuna allt þar til Ronald Reagan fór að lækka skatta á eignafólk og hina ríku þegar hann varð forseti mörgum áratugum seinna.

Markmið nýja græna sáttmálans eru nokkuð skýr. Sáttmálin tengir saman aðgerðir í umhverfismálum og aðgerðir til að draga úr ójöfnuði, einkum með því að skapa störf. Bandaríkin eiga að vera leiðandi afl á alþjóðavettvangi við að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga.

Markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2030

AUGLÝSING


Sáttmálin leggur til að allt verði knúið af endurnýjanlegri orku í Bandaríkjunum innan 10 ára- 20 ára. Meginmarkmið er að ná kolefnishlutleysi árið 2030. Inngangsorðin – sem eru áhrifamikil – byggja á vísindum (m.a. frá IPCC) um áhrif loftslagsbreytingar á jörðina og í Bandaríkjunum til framtíðar, sem og um skaðsemi áframhaldandi notkunar jarðefnaeldsneytis. Talið er einfaldlega að teikn á lofti um hlýnun jarðar stofni þjóðaröryggi Bandaríkjanna í hættu.

Störf verða til þar sem nauðsynlegt er að uppfæra flesta innviði, einkum í strandsamfélögum – svo sem vegi – til að aðlaga þá breyttri framtíð og sáttmálinn talar um sköpun hátæknistarfa til að mæta því að samfélagið verði knúið af endurnýjanlegri orku. Fjárfestingar verða dýrar og hafa stuðningsmenn sáttmálans talað um að það eigi að fjármagna með skattlagningu á hina ríku sem og lántöku hins opinbera.

Sáttmálinn talar ekki beint um fjármögnun en Ocasio-Cortez hefur bent á að kostnaður við að gera ekkert verði mun meiri, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Morgunljóst er að ef vísindin hafa rétt fyrir sér um hvað 2° hlýnun þýði þá mun kostnaður bandarísks samfélags verða gígantískur.

Hver sem örlög sáttmálans verða í þinginu hefur Alexandriu Ocasio-Cortez að minnsta kosti tekist að koma nauðsynlegum tillögum um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum á kortið. Mynd / Agustin Lautaro

En hversu róttæk er stefnan? Það fer eftir því hvaða augum maður lítur á loftslagsmálin og alvarleika þeirra. Það er hægt að rökstyðja að það sé róttækt aðgerðarleysi að gera ekkert róttækt í loftslagsmálum. Að minnsta kosti er það léleg efnahagsstefna að gera lítið, en svo dæmi sé tekið gefa spár til kynna að samanlagt fjárhaglegt tjón á fasteignamarkaði geti numið þúsund billjónum dollara.

Þar eru áhrif á líf og heilsu fólks ótalin – áhrif á matvælaframleiðslu og almennt öryggi Bandaríkjamanna vegna fleiri ofsaveðra, aukningu á þurrkum, villieldum, sjávarmálshækkun og svo framvegis. Ef menn telja að líta beri framhjá vísindum í sambandi við loftslagsbreytingar – þá er sáttmálinn býsna róttækur. Athygli vekur að ekki er talað um losunarheimildir eða græna skatta per se, eins og algengt er orðið innan Evrópu heldur er fókusinn einfaldlega á að skipta um orkugjafa.

Nýr grænn sáttmáli er þörf bylting að mati margar. Sáttmálinn er ekki fullkominn og margt vantar til að fullgera stefnuna, eins og beinar áþreifanlegar aðgerðir sem að sögn Ocasio-Cortez eigi að fylgja í kjölfarið. Engu að síður er hann stórt skref fyrir þjóð sem er nokkuð á eftir Evrópusambandinu í aðgerðum til að sporna við loftslagsbreytingum. Trump vill beinlínis út úr Parísarsamkomulaginu sem Obama þrýsti mjög á að yrði að veruleika. Hver sem örlög sáttmálans verða í þinginu hefur þingkonunni róttæku að minnsta kosti tekist að koma nauðsynlegum tillögum um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum á kortið. Og þannig holar dropinn steininn.

Sjá einnig: Ný þingkona hristir upp í húsinu

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is