Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða viðvörun fyrir morgundaginn vegna norðan ofsaveðurs og stórhríðar á Ströndum og Norðurlandi vestra. Rauða viðvörunin gildir frá 17:00 á morgun til klukkan 01:00 aðra nótt.
„Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands um rauðu viðvörunina.
Slæmt veður verður um land allt á morgun og gildir appelsínugul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi, Norðurlandi og hálendinu. Á Austfjörðum og Suðausturlandi er viðvörunin gul.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir fólk á að huga að lausamunum og tryggja að þeir fjúki ekki. „Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám í kvöld og fyrramálið, en útlitið er allt annað en gott fyrir morgundaginn.“