Sunnudagur 5. maí, 2024
6.1 C
Reykjavik

Brynjar í Berlín: „Miðaldra karlmenn eru nákvæmlega eins og þeir voru fyrir 40 árum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brynjar Níelsson, fyrrum aðstoðamaður dómsmálaráðherra, situr ekki auðum höndum eftir að hann missti vinnuna í sumar. Eða það er að segja, hann situr ekki auðum höndum heima hjá sér, hann er á ferðalagi.

Brynjar skrifaði skondna færslu á Facebook þar sem hann segir frá fimmta degi sínum og eiginkonu hans, Soffíu, í þýsku höfuðborginni, Berlín. Eins og vanalega notar Brynjar tækifærið og skýtur á vinstri menn og fleiri en það gerir hann með lúmskum húmor, sem hann er löngu orðinn þekktur fyrir. Helsta niðurstaða Brynjars á Berlínarbúum er sú að þeir hafi lítið breyst síðustu 40 árin, þó ekki fari mikið fyrir yfirvaraskeggjum.

Færsluna skemmtilegu má lesa hér að neðan:

„Dagur 5 í Berlín. Ég er að verða eins og gamli vélstjórinn á Tene og sendi daglega fróðleik heim. Kann að vera að það sé meiri sannleikur í dagbók vélstjórans.

Ég fór í morgun að styttunum af Marx og Engels. Þeir voru miklir félagsvísindamenn og ekki síðri en þeir bestu í dag. Helsta vísindaafrek þeirra var hinn vísindalegi sannleikur sósíalismans. Mér skilst að þeirra afrek í þessum fræðum séu enn í hávegum höfð, meira að segja á Íslandi. Hér í Berlín nýtur Die Linke, sem eru leyfar af gamla austur þýska kommúnistaflokknum, talsverðs fylgis ásamt græningjum og einhvers konar pírataflokki.
Sumir segja að Berlín sé mikil fjölmenningarborg. Ég verð ekki var við það. Miðaldra karlmenn eru nákvæmlega eins og þeir voru fyrir 40 árum, með sítt að aftan og gullkeðju um hálsins og úlnliðinn. Yfirvaraskeggið að vísu ekki eins áberandi. Unga fólkið ekki heldur mikið breyst. Ráfar um á milli kaffihúsa, vefja sér jónu, húðflúrað um allan líkamann og halda að þau séu listamenn.
En það sem hefur breyst er að Berlínarbúar, eins og Þjóðverjar almennt, eru mikið til hættir að eignast börn. Held að ég hafi séð eina barnakerru alla ferðina og það voru sennilega túristar. Hins vegar eiga þeir nóg af hundum. Hér er á hverju horni boðið upp á hundanámskeið og hundaþjálfun. Soffía velti fyrir sér af hverju einhverjum hugmyndaríkum bisnessmanni hafi ekki dottið í hug að koma á svona námskeiðum og þjálfun fyrir eiginmenn.
Ég hef komist að því í þessari ferð að Þjóðverjar eru ekki eins praktískir og ég hélt. Þeir eru með fjöldann allan af starfsmönnum í óþarfa. Í öllum stofnunum og söfnum eru starfsmenn að ráfa um í reiðileysi og þarna eru meira að segja lyftuverðir, sem ég hélt að væri útdauð stétt. Mér fannst eins og væri kominn 60 ár aftur í tímann þegar pikkolóstrákarnir voru á Hótel Borg. Rafmagnsverkfræðingarnir, sem eru með í för, eru búnir að reikna það út að þetta séu brotamenn í samfélagsþjónustu.
Þetta er Brynjar Níelsson, sem talar frá Berlín.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -