Sunnudagur 3. desember, 2023
1.1 C
Reykjavik

Er ekki kominn tími til að draga rétt fólk fyrir dómsstóla?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég var rétt skriðin yfir tvítugt þegar myndin Aðför að lögum eftir Sigurstein Másson var frumsýnd árið 1997, en þar var almenningi í fyrsta sinn gerð almennilega grein fyrir aðdraganda þess að sexmenningarnir svokölluðu voru dæmdir sekir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980. Fram að þessum tíma vissi ég lítið meira um málið en það sem ég hafði lesið í fréttasafninu Öldin okkar og að pabbi hafði einhvern tímann sagt mér að hann héldi að þessi ungmenni hefðu ekkert haft með málið að gera. Þessi mynd sem Sævar Marínó Ciesielski barðist fyrir að yrði gerð markaði þáttaskil í málinu og er upphaf þess að fólk fór að líta það öðrum augum. Þarna voru fyrst birt gögn sem sýndu alvarlega misbresti á rannsókninni og yfirheyrslum sakborninga.

Barátta sexmenninganna og aðstandenda þeirra fyrir réttlæti í þessu máli hefur staðið um árabil og síðasta haust fengu þeir loksins uppreista æru fyrir dómi og lögum, ja, nema Erla Bolladóttir. Hún var nefnilega ekki dæmd fyrir morð, bara meinsæri. Meinsæri sem var þvingað upp á hana með ólöglegum yfirheyrslum, löngum einangrunarvistum, kynferðisofbeldi og hótunum. Í viðtali við Erlu í Mannlífi í dag segir hún að Björn Bergsson, formaður endurupptökunefndar, hafi útskýrt ástæðuna þannig fyrir henni að það væri „ekki inni í myndinni að sýkna [hana] af meinsæri þar sem glæpurinn „lægi fyrir“. Að þeir væru með skýrslu sem [hún] hefði skrifað undir og í því væri glæpur [hennar] fólginn. Alveg óháð því hvernig því var náð fram.“ Erla segist í framhaldinu hafa „innt hann eftir því hvort það angraði ekkert rökhugsun þeirra að samþykkja endurupptöku á morðunum þar sem sýkna var ljós en samþykkja að [þau] hefðu engu að síður verið að taka saman ráð [sín] um eitthvað sem aldrei gerðist.“

„Hvaða toppar í samfélaginu hafa hag af því að sannleikurinn upplýsist aldrei?“

Í kjölfarið á sýknu morðanna baðst ríkisstjórnin hlutaðeigandi afsökunar, alla nema Erlu auðvitað því hún er jafnsek og áður fyrir dómum og lögum. Hún er orðin einhvers konar afgangsstærð í þessu máli sem yfirvöld virðast ekki alveg vita hvað þau eiga að gera við. Jafnvel Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga og hefur virt að vettugi fund við Erlu sem hún þó sjálf boðaði til.

Hvað útskýrir áratugalanga þöggun stjórnvalda í þessu máli? Hvað höfðu yfirvöld að fela þá og hvað hafa þau að fela enn þann dag í dag? Hvaða toppar í samfélaginu hafa hag af því að sannleikurinn upplýsist aldrei? Löngu er ljóst að ætlunin var aldrei að komast að því sem þarna gerðist í raun og veru. Er ekki kominn tími til að draga rétt fólk fyrir dómsstóla, ekki bara þá sem báru ábyrgð á dauða Guðmundar og Geirfinns, heldur þá sem með valdníðslu hafa dregið saklaust fólk á asnaeyrunum allt þess líf?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -