Föstudagur 19. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Erlendir bankar tapa milljörðum

Þegar fótspor Árna og Róberts komu í ljós hafði Björgólfur Thor þetta að segja:„Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóða stefnt í voða. Lægra verður varla lagst."

10 árum eftir að Landsbankinn féll hefur skiptum á eignarhaldsfélaginu Samson, aðaleiganda bankans, verið lokið. Samson var fjárfestingafélag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum við umdeilda einkavæðingu hans árið 2002. Björgólfur Thorog tengdir aðilir voru um langt skeið stærstu lántakar bankans.

Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu 77,4 milljörðum kóna, en ekki fengust nema 6,5 milljarðar upp í þær, eða sem nemur 8,6%. Samson var lýst gjaldþrota þann 12. nóvember 2008.

Að því er Stundin greinir frá eru það fyrst og fremst fjármálastofnanir sem tapa á gjaldþroti Samson. Þannig tapaði hinn suður-afríski Standard Bank 12,8 milljörðum króna og hinn þýski Commerzbank 23,8 milljörðum. Þá voru kröfur Glitnis 9 milljarðar króna og gamla Landsbankans 5 milljarðar.

Segja má að skiptalok á Samson séu einn síðasti anginn í uppgjöri Björgólfs Thors við fjármálahrunið 2008. Björgólfsfeðgar voru fyrir hrun meðal helstu burðarása í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun og áttu stóra hluti í félögum og Eimskip, Straumi-Burðarási, Gretti fjárfestingafélagi svo og Landsbankanum.

Öll þessi félög urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu miklum fjárhæðum og hluthafar Landsbankans og Straums Fjárfestingabanka töpuðu öllu sínu hlutafé en tugir þúsunda Íslendinga voru hluthafar í umræddum félögum Björgólfur eldri lýsti sig gjaldþrota árið 2009 og var það eitt stærsta persónlega gjaldþrot Evrópu á sínum tíma. Alls var lýst kröfum upp á 85 milljarða króna í bú Björgólfs eldri, en kröfuhafar fengu aðeins 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur eða 0.04%. Staða Björgólfs Thors var öllu flóknari og tók nokkur ár að vinna úr skuldum hans. Sjálfur lýsti hann því að persónulegt tjón hans vegna hruns bankakerfisins hafi numið nærri 100 milljörðum króna. Ætla má að fjárhagslegt tap annarra hluthafa og kröfuhafa í skráðum félögum í hans eigu, þ.m.t. Landsbanki Íslands, Eimskipafélag Íslands og Straumi Fjárfestingabanka hafi numið hundruðum milljarða króna. Skuldir félaga honum tengdum voru margfalt hærri en nú, 10 árum síðar, er Björgólfur Thor aftur kominn í hóp ríkustu manna heims og hafa tugi milljarða afskriftir félaga í hans eigu ekki bein áhrif á hann.

Hátt fall og upprisa

Árið 2007 ákveður Björgólfur Thor að kaupa út alla hluthafa lyfjafyrirtækisins Actavis og fékk til þess 4 milljarða evra lán frá Deutsche Bank. Lánið stóð í 5,8 milljörðum kóna árið 2009 en fall íslenska fjármálakerfisins þýddi að Björgólfur Thor var kominn í afar þrönga stöðu. Við tók afar flókin skuldaúrlausn því ekki eingöngu var fjárhagsleg framtíð Björgólfs Thors í húfi, heldur hefði þýski bankinn tapað milljörðum evra ef Actavis hefði orðið ógjaldfært. Niðurstaðan varð sú að Deutsche Bank tók Actavis yfir samhliða því sem unnið var að skuldauppgjöri við þýska bankann. Í apríl 2012 var svo tilkynnt að lyfjafyrirtækið Watson hefði eignast Actavis og átti það stóran þátt í skuldauppgjöri Björgólfs við Deutsche Bank.

„Allar skuldir greiddar“

Það er svo í ágúst 2014 sem Björgólfur Thor sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir að skuldauppgjöri hans og Novators, fjárfestingafélags hans, sé að fullu lokið. Alls hafi hann greitt 1.200 milljarða króna til lánardrottna, þar af 100 milljarða til íslenskra banka og dótturfélaga þeirra. Í þessu ferli hafi nánast allt verið sett að veði, svo sem húseignir hans í Reykjavík og á Þingvöllum hans, einkaþotan og snekkjan.

„Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma,“ sagði Björgólfur Thor í yfirlýsingu sem gefin var út á þeim tíma. „Til að svo mætti verða þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“ Fjárhagslegar afskriftir félaga í hans eigu virðast haldið utan við þetta „heildaruppgjör“ Björgólfs Thors líkt og 70 milljarða króna afskrift kröfuhafa Samson sýnir.

Óhætt er að segja að síðan þá hafi hagur Bjögólfs Thors vænkast. Hann hefur hagnast á hlutum sínum í lyfjageiranum, virði pólska fjarskiptafyrirtækisins Play hefur aukist mjög og á dögunum var tilkynnt að Novator muni hagnast um allt að 20 milljarða króna við sölu á tölvuleikjaframleiðandanum CCP til suður-kóreska fyritækisins Pearl Abbys.

Umsvif Björgólfs Thors á Íslandi eru jafnframt þónokkur. Þannig er hann eða félög honum tengd með eignarhluti í gagnaveri Verne Global og verktakafyrirtækinu Arnarhvoli ehf. Þá hefur auðmaðurinn verið orðaður við Grósku hugmyndahús, Ásbrú ehf., flugfélagið Wow air ehf. og lánveitingar til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV, svo fáein dæmi sé nefnd.

Björgólfur Thor er aftur kominn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Tímaritið metur eignir hans á 1,8 milljarða dollara og segir þar að hann sé eini milljarðamæringur Íslands (í dollurum talið). Björgólfur Thor er skráður með lögheimili sitt í Bretlandi.

Hársnyrting og góður dreitill að hætti villta vestursins

Á Laugaveginum er að finna einstaklega frumlega og skemmtilega hársnyrtistofu sem hefur vakið athygli fyrir að vera svo miklu meira en hársnyrtistofa. Stíllinn á stofunni minnir óneitanlega á villta vestrið og aðkoman heillar.

Hjónin Jón A. Sveinsson meistari í hársnyrtiiðn, ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrún Elísabet Ómarsdóttir heildsali.

Okkur lék forvitni að vita nánar hvers konar hársnyrtistofa Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon er og hvað hún hefur upp á að bjóða. Við hittum eigendur hársnyrtistofunnar margbrotnu, hjónin Jón A. Sveinsson, meistara í hársnyrtiiðn, og er ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrúnu Elísabetu Ómarsdóttur heildsala, en hún er kölluð Beta, og fræddust við frekar um tilurð fyrirtækisins og hugmyndafræðina bak við stofuna.

Nonni er fæddur og uppalinn í faginu og fór að læra háriðn árið 1993 og opnaði Quest í apríl 1999. Beta var að vinna í snyrtivörugeiranum þar til þau tóku við stofu foreldra Nonna árið 2007. Hjónin eru að eigin sögn bæði miklir sælkerar og njóta þess að ferðast, hlusta, skoða, neyta og njóta saman.

Segið okkur aðeins frá hugmyndinni bak við Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon og tilurð? „Hugmyndin varð bara til og er í raun enn að verða til. Við erum alltaf saman og eiginlega alltaf í vinnunni og stofan í raun sameiginlegt áhugamál okkar. Okkur datt í hug að gera bara allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það undir sama þakið.“

Hvernig mynduð þið lýsa hársnyrtistofunni í einni málsgrein? „Góð tónlist, ljúffengir drykkir, skemmtilegt fólk og þægilegt andrúmsloft.“

Á hársnyrtistofan sér fyrirmynd úti í heimi? „Nei, í rauninni ekki. Það var engin ein stofa sem við höfðum í huga. Þetta bara gerðist mjög lífrænt. Gamlar bækur og bíómyndir um sögu rakarans eru okkar helstu fyrirmyndir.“

Hársnyrting og viskíbar er skemmtileg samsetning og minnir á villta vestrið. Stofan hlýtur að vera vinsæl meðal viðskiptavina og laða þá að. Eru ekki margir fastakúnnar sem njóta þess að láta dekra við sig og fá smávegis viskídreitil? „Jú, svo sannarlega. Þetta smellpassar saman. Fólk kemur og nærir sig að innan og utan. Seinnipartstímar dagsins eru orðnir ansi fljótir að fyllast og menn eru yfirleitt með tímana sína fastbókaða langt fram í tímann og reyna oft að koma með vinum sínum og halda fundi,“ segir Nonni og brosir.

Við höfum heyrt að þið bjóðið einnig upp á smakkanir sem hafa notið mikilla vinsælla. Frumleikinn er við völd og þið hafið verið með ýmsar samsetningar. Okkur langar að heyra aðeins meira af því. „Við erum sérlegt áhugafólk um lífsins lystisemdir, til að mynda mat og vín. Við höfum sankað að okkur yndislega ljúffengu og spennandi úrvali af viskíi sem okkur fannst við verða að deila með öðrum. Þannig að við settum saman nokkrar smakkferðir þar sem við höfum tekið saman, til dæmis nokkur viskí sem okkur finnst lýsa vel þeirri miklu flóru sem bragðheimur viskís hefur upp á að bjóða. Einnig höfum við verið að para saman viskí og bjór og það kemur ótrúlega skemmtilega á óvart. Við höfum stúderað aðeins sögu kokteilsins og hvernig hugsanlega fyrstu viskíkokteilarnir hafi smakkast.“

Þið hafið boðið upp á fjölmarga viðburði af ýmsu tagi, getur þú sagt okkur aðeins frá því konsepti? „Við höfum haldið listsýningar, verið með ljóðaupplestur, einkapartí og mikið af tónleikum. Við erum til dæmis búin að vera Off-Venue á Airwaves þrjú ár í röð og svo fengum við að hýsa tónleikaröð Sofar Sound í eitt skipti sem var frábært. Okkur finnst alveg nauðsynlegt að brjóta upp daglegu rútínuna svona endrum og sinnum.“

Hvar getur fólk fylgst með því sem er í boði hjá ykkur að hverju sinni? „Við reynum að vera dugleg á samfélagsmiðlum, t.d. er www.questsaloon.is síðan okkar á Facebook og þar er hægt að fylgjast með og senda okkur fyrirspurnir. Svo erum við á Instagram, VK og Twitter sem #questsaloon eða #nonniquest.“

Einnig er hægt að kaupa ýmsan varning hjá ykkur, ýmis konar hársnyrtivörur og fylgihluti, ekki satt? „Við erum líka með heildsölu á hárlitum og hárefnum frá Goldwell, DENMAN og KMS California sem við seljum á aðrar stofur og einnig til viðskiptavina okkar. Á barnum/afgreiðslunni er skemmtilega fjölbreytt flóra af hárefnum, skeggvörum, burstum, bjór, viskíi og ýmsu öðru skemmtilegu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Mini. 

 

Vitum við eitthvað um ójöfnuð?

Konráð S. Guðjónsson.

Lífið væri talsvert auðveldara ef hið rétta væri alltaf augljóst og aldrei án togstreitu milli ýmissa þátta. Þannig myndi Facebook eflaust loga mun sjaldnar, stjórnmál fengju minni athygli og margir fræðimenn myndu missa vinnuna svo fátt eitt sé nefnt. Við gætum sett tærnar upp í loftið og leyft litlausu lífinu að líða áfram.

Efnahagslegur ójöfnuður og túlkun á þróun, umfangi og áhrifum hans kemur upp í hugann í þessu samhengi. Það vill væntanlega enginn að allir þénuðu og ættu jafnmikið. Til hvers að taka áhættu og leggja sig almennt fram ef svo er í pottinn búið? Líklega yrði lítið eftir til skiptanna. Það vill heldur enginn að fáir fái notið alls þess sem líf í auðugu landi hefur upp á að bjóða. Sannleikurinn liggur einhvers staðar á milli og til að finna hann er fyrsta spurningin: Vitum við hvernig ójöfnuður þróast?

Svarið fer eftir því hvern þú spyrð. Mjög oft heyrist að ójöfnuður fari vaxandi. Sé því mótmælt, t.d. ef tekjur þeirra tekjulægstu hækka um fleiri prósentustig en annarra, heyrist að enginn lifi á prósentum eða að krónutöluhækkanir tekna séu meiri hjá þeim tekjuhærri, svo að ójöfnuður sé að aukast.

Játning: Ég lifi á prósentum

Þó að enginn lifi tæknilega séð á prósentum, þá er það engu að síður þannig að ef kaupmáttur einhvers eykst um 10% getur viðkomandi keypt 10% meira af öllu því sem hann eða hún keypti áður. Krónutöluhækkanir eru vissulega meiri hjá þeim sem eiga meira eða hafa meiri tekjur og slíkur samanburður getur verið gagnlegur. En ólíkt því sem oft er haldið fram er rangt að ójöfnuður aukist við það eitt að þeir tekjuhæstu fái meiri hækkun í krónum talið.

Tökum dæmi: Jón er með 300 þús. kr. á mánuði og Gunna er með 900 þús. kr. Segjum að Jón hækki um 10% í tekjum á ári en Gunna um 5%. Gunna hækkar fyrst meira í krónum talið en á endanum þurrkast bilið út og eftir 24 ár er Jón kominn með hærri tekjur en Gunna og ójöfnuðurinn nær horfinn. Hægt er að gera ótal útfærslur af þessu dæmi en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er því stærðfræðileg staðreynd að jöfnuður eykst, ef hlutur þeirra í lægstu þrepunum vex hlutfallslega hraðar en þeirra í efri þrepunum. Um þetta er ekki hægt að deila.

Hvað með ójöfnuð á Íslandi?

Tekjujöfnuður á Íslandi mældist árið 2016 sá mesti í Evrópu (miðað við GINI-stuðulinn). Fyrir utan fjármálakreppuna og aðdraganda hennar hefur jöfnuður haldist stöðugur og var árið 2016 sá nákvæmlega sami og 2004. Nýjustu tölur um tekjur einstaklinga árið 2017 benda svo eindregið til þess að tekjujöfnuður hafi aukist, einmitt þar sem lægstu tekjuhóparnir hækkuðu áberandi mest.

Eignaójöfnuð er erfiðara að fullyrða um einkum þar sem gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð). Þrátt fyrir þessa annmarka heyrist oft margt fullyrt um eignaójöfnuð, þar með talið að eignaójöfnuður fari vaxandi. Ekki einu sinni þau gögn sem liggja fyrir styðja þá fullyrðingu. Hlutdeild efstu 5%, 1% og 0,1% í eigin fé landsmanna hefur í öllum tilvikum lækkað hvert einasta ár frá 2010 til 2016. Það þýðir að virði hreinna eigna þeirra hefur vaxið hægar en annarra, sem bendir til þess að eignajöfnuður fari vaxandi.

Röng sjúkdómsgreining – rangar lausnir

Vaxandi ójöfnuði er stundum kennt um ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Það er þó eilítið eins og að setja plástur á sár sem er gróið að ráðast í aðgerðir gegn ójöfnuði þegar hann er einmitt að minnka frekar en aukast. Það sem jafnvel er verra er að slíkar aðgerðir geta gert alla landsmenn jafnari gagnvart heiminum, eða með öðrum orðum, fátækari.

Heimildir:

https://www.althingi.is/altext/148/s/0041.html

http://appsso.eurostat.ec.europa.eu/nui/show.do?dataset=ilc_di12

http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__3_tekjur__2_tekjur_silc/LIF01110.px/

https://vi.is/malefnastarf/utgafa/stadreyndir/tekjujofnudur-stadreynd/

Konráð S. Guðjónsson er hagfræðingur Viðskiptaráðs. Greinin birtist fyrst í Mannlífi 21. september, 2018.

Karlmenn veigra sér við að leita aðstoðar

Mynd/Pixabay

Í umræðu um átröskun hefur athyglin fyrst og fremst beinst að konum en í umfjöllun í nýjasta hefti Læknablaðsins er rætt við Guðlaugu Þorsteinsdóttur geðlækni sem segist telja að átröskun sé algengari meðal karla en tölur segja til um þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en konur. María Þóra Þorgeirsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri í átröskunarteymi Landspítalans, tekur undir þessi orð Guðlaugar. „Það er sú tilfinning sem við höfum að átröskun sem lýsir sér í togstreitu gagnvart mat og eigin líkama, sé vangreindur vandi hjá karlmönnum. Það er ákveðið stigma hjá körlum því fólk tengir átröskunarvanda fyrst og fremst við konur og það skilar sér í því að karlar þora ekki eða átta sig ekki á því að þeir eigi mögulega við átröskunarvanda að stríða,“ segir María.

 

Getur birst í vöðvafíkn

Hjá körlum getur átröskun tengst svokallaðri líkamsskynjunarröskun, en í slíkum tilfellum upplifir fólk líkama sinn ekki eins og hann er. Þetta getur meðal annars birst í vöðvafíkn. „Þá átta menn sig ekki á því hvað þeir eru í raun og veru orðnir stórir, og geta ekki hætt að lyfta lóðum og stjórna mataræði á óheilbrigðan hátt til að breyta líkama sínum. Svo er það hinn hópurinn sem er ekki að reyna að auka við vöðva en flakkar talsvert  í þyngd og á í mikilli tilfinningalegri togstreitu gagnvart mat.“

Rétt eins og hjá konunum segir María Þóra að karlar verði fyrir áhrifum frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þar birtist ákveðnar glansmyndir af því hvernig karlar eiga að líta út og engin ástæða sé til þess að þessar glansmyndir hafa minni áhrif á karla en konur.

 

Íþróttafólk í áhættuhópi

Einnig hefur verið sýnt fram á samspil íþrótta og átröskunar en nýleg íslensk rannsókn leiddi í ljós að íþróttafólk er í sérstökum áhættuhópi við að fá átröskunarsjúkdóma. Þannig höfðu 25% kvenna neikvæða líkamsímynd og átröskunareinkenni og 14% karla. Gunnhildur Gunnarsdóttir, sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild, kannast við tilfelli þar sem ofþjálfun og átröskun haldast í hendur. „Við vitum að unglingar sem stunda mikla líkamsrækt fá stundum misgáfuleg ráð frá þjálfurum.“

Í ofangreindu viðtali við Guðlaugu er sérstaklega komið inn á neyslu orkudrykkja og fæðubótarefna og hún leggur mikla áherslu á að neysla slíkra efna geti aldrei komið í stað matar. Þetta eigi sérstaklega við um börn. „Orkudrykkir og fæðubótarefni eru of einhæf orkuinntaka og geta haft slæm áhrif á þroska barna og unglinga. Fyrir fullorðna einstaklinga er mikilvægt að átta sig á því að orkudrykkir og fæðubótarefni geta aldrei komið í staðinn fyrir mat. Það er ekki hægt að lifa á slíku.“

Gerendur hafa tvíeflst við #metoo

||||
||||

Eftir alla umræðuna í kjölfar #metoo-byltingarinnar á síðasta ári kemur mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON eins og kjaftshögg. Hefur þá ekkert breyst? Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Margrét Erla Maack skemmtikraftur segja málið dæmigert. Þess séu jafnvel dæmi að karlar hafi tvíeflst í áreitninni eftir #metoo-byltinguna.

„Nei, því miður, það kemur ekkert á óvart í þessu máli,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON. „Mín reynsla af þessum málum, í gegnum einstaklinga sem hafa leitað til okkar hjá BSRB, er að mjög algengt er að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti. Rannsóknir sýna að það eru margir sem ákveða að stíga ekki fram vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að það verði brugðist við með viðeigandi hætti.“
Spurð hversu algengt þetta vandamál sé, hvernig mál BSRB fái til dæmis til umfjöllunar, segir Sonja að þau séu ekkert mjög mörg, hvorki hjá BSRB né öðrum samtökum á vinnumarkaði, og ástæðan sé meðal annars sú að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað eftir aðstoð.
„Þannig að áhersla #metoo-samstarfsnefndar 16 samtaka og stofnana, sem stofnuð var af BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagi Íslands og FKA, er meðal annars á að gera upplýsingar aðgengilegrium hvert sé hægt að sækja sér aðstoð og stuðning. Til dæmis með opnun vefsíðu þar sem allar upplýsingar um ferlið koma fram.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, segir mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti..

Fjórir gerendur, engin viðbrögð
Beðin um að nefna dæmi um mál sem hafa komið á hennar borð er Sonja skjót til svars. „Það leitaði til mín kona sem hafði birt frásögn sína hjá #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur, þar sem hún lýsti kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum. Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt. Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka. Eftir að hún leitaði til okkar tók við margra mánaða tímabil þar sem við reyndum að ná fram einhverjum breytingum hjá fyrirtækinu, en ekkert gerðist. Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni.“
Sonja segir þetta eitt af verstu málum sem hún hafi fengið til umfjöllunar, einkum vegna fjölda gerendanna, en það séu vissulega alls konar mál sem komi fram. „Allt frá nauðgun á vinnustaðstengdum viðburði yfir í kynbundnu áreitnina sem er þá meira svona karlremba þar sem karlmenn viðhalda valdastöðu sinni á vinnustaðnum með því að grafa undan konunum.“

Dæmi um að karlar hafi tvíeflst eftir #metoo
Hefur ástandið þá ekkert lagast eftir #metoo-umræðuna? „Það voru vissulega okkar væntingar,“ segir Sonja. „En ég upplifi það ekki af þeim málum sem hafa verið að koma til umfjöllunar undanfarið. Upplifunin er sú að stjórnendur vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, þekkja ekki reglurnar nægilega vel og svo er þetta að vissu leyti þverfaglegt ferli. Það þarf líka að skilja sálfræðilegu og andlegu afleiðingarnar á þolandann til að réttum aðferðum sé beitt. Það kemur til dæmis fram í reglugerðum sem eiga að gilda um þetta að alltaf eigi að ræða við einn aðila í einu, en það eru fjölmörg dæmi um það að atvinnurekendur taki það feilspor að kalla bæði þolandann og gerandann saman á fund og ætla að fara að ræða málið. Það virkar eðlilega ekki.“

Sumir hafa haft á orði að ástandið hafi að mörgu leyti versnað eftir #metoo-byltinguna. Nú fóðri menn áreitnina með því að það sé fyndið að áreita „kellingarnar“ fyrir þetta „#metoo-kjaftæði“. Sonja segir að dæmi séu um það.„Það er auðvitað mjög mismunandi menning á vinnustöðum,“ segir hún. „En eins og í dæmi Orkuveitunnar þá erum við að tala um fyrirtæki sem hefur lagt mikla vinnu í jafnréttismálin og er jafnvel fyrirmynd annarra fyrirtækja í þeim efnum, en það skilar sér greinilega ekki. Á öðrum vinnustöðum eru dæmi um að karlarnir sem þar vinna hefi tvíeflst og nýtt #metoo-umræðuna til þess að gera meira grín og meira lítið úr konunum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana.“

Beðin um dæmi um slíkan vinnustað segir Sonja að þau séu fjölmörg, en hún muni sérstaklega eftir einu tilviki. „Það sem við þurfum virkilega að taka inn í þessa vitundarvakningu er staða kvenna af erlendum uppruna,“ segir hún. „Eitt dæmi um vinnustað þar sem menn hafa tvíeflst er staður þar sem kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en flestar konurnar eru af erlendum uppruna. Þar varð áreitnin meiri eftir #metoo-byltinguna og allt gert til að grafa undan konunum og brjóta þær markvisst niður.“

Margrét Erla og Sonja Ýr hafa báðar lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Helmingur fyrirtækja hefur ekki jafnlaunastefnu
Hvað telur Sonja að sé hægt að gera til að raunveruleg breyting eigi sér stað?

„Þessar reglur sem ég var að vísa í áðan segja að atvinnurekendur eigi annars vegar að gera áhættumat, meta hættuna á því að fólk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi í vinnunni, og gera í framhaldi af því áætlun um forvarnir og viðbrögð. Í rannsókn sem var gerð í vor á hundrað stærstu vinnustöðum landsins til að kanna hvort #metoo-umræðan hefði haft áhrif á vinnustaðamenningu þeirra, sýndu niðurstöðurnar að rúmlega fjórðungur af þessum stærstu vinnustöðum höfðu ekki framkvæmt áhættumat og tólf prósent höfðu ekki unnið áætlun um forvarnir eins og þeim er skylt að gera. Helmingur fyrirtækjanna hafði enga jafnlaunastefnu og tólf prósent ekki jafnréttisstefnu, sem lög segja fyrir um að verði að vera á öllum vinnustöðum þar sem starfa 25 manns eða fleiri. Það eru sem sagt alls ekki allir vinnustaðir sem hafa tekið umræðuna til sín. Fyrsta skrefið er auðvitað að taka umræðuna um hvernig hegðun fólk vill hafa á vinnustaðnum og hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Það þarf að senda skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið og um leið skilaboð um hvert fólk getur leitað. Það þarf að búa til þannig andrúmsloft á vinnustaðnum að fólk treysti sér til þess að stíga fram. Þegar koma upp svona mál eins og hjá Orkuveitunni og starfsfólkið upplifir það að þolandinn er látinn fara þýðir það auðvitað að fólk óttast að segja frá, fólk vill passa upp á sitt eigið starf. Þannig að þessi viðbrögð eru í raun þöggunartækni.“

Ég spyr Sonju hvort hún hafi sjálf lent í áreitni á vinnustað og viðbrögðin eru dæmigerð. „Nei,“ segir hún strax en bætir svo við eftir stutta umhugsun. „Jú, jú, ég hef lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað, bullið í mér. Það hafa allir lent í þessu en fólk grefur það bara og heldur áfram í staðinn fyrir að það sé nokkuð gert í því. Á einum vinnustaðnum sagði ég upp út af þessu, enda hafði ég ekki hugmynd um að það væri hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu í svona málum.“

Spurð hvort hún hafi það á tilfinningunni að afgreiðsla þessara mála sé eitthvað að þokast í rétta átt dregur Sonja við sig svarið.
„Það er meira mín tilfinning að núna sé samstaðan meiri og fólk upplifi að það er ekki eitt í þessu. Krafturinn í þessari byltingu hjálpar fólki að hætta að gera lítið úr þeim atvikum sem það lendir í. Og það sem ég er líka að vona, og hef fundið fyrir, er að fólk hjálpast meira að. Samkenndin í þessum málum hefur aukist og það er stuðningur inni á vinnustaðnum fyrir þá sem hafa lent í einhverju og fólk er duglegra við að benda strax á ef eitthvað fer úrskeiðis þótt það verði ekki fyrir áreitninni sjálft. Og það á við bæði um karla og konur. Þannig að já, þetta er eitthvað að þokast. En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

Margrét Erla Maack hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa.

„Var hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair“
Margrét Erla Maack, er sama sinnis og Sonja, hún segir að málið komið ofboðslega lítið á óvart, þegar hún er spurð um álit á viðbrögðum ON við kvörtunum Áslaugar Thelmu Einarsdóttur um kynferðislega áreitni framkvæmdastjórans Bjarna Más Júlíussonar. „Það er hún sem er vandamálið. Hún á að halda kjafti. Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir hún.Margrét Erla viðurkennir þó að hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig þetta mál var höndlað.

„Maður heldur alltaf að þetta sé búið,“ andvarpar hún. „Sérstaklega í ljósi þeirra byltinga sem hafa orðið undanfarin ár. Maður heldur alltaf þegar svona fréttir koma upp að þetta hljóti að vera síðasta konan sem lendir í þessu.“

Margrét Erla hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. „Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“

Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.

„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist.“

#metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni
Margrét Erla segir þessa reynslu fyrir tólf árum langt frá því einsdæmi, það sé nánast undantekningalaust einhver dónakall á þeim skemmtunum þar sem hún kemur fram sem líti á það sem sjálfsagt mál að áreita hana kynferðislega. „Síðasta stóra uppákoman sem ég lenti í var á árshátíð hjá stóru opinberu fyrirtæki í orkugeiranum þar sem einn maður lét mig bara ekki vera. Ég benti honum á að ég væri að vinna vinnuna mína og hann ætti að láta mig í friði en það þýddi ekkert. Hann spurði hvort hann mætti klípa mig í rassinn og lét sér ekki segjast þótt ég neitaði. Þannig að ég talaði við skemmtinefndina og vinkonu mína sem er háttsett innan fyrirtækisins sem talaði við manninn og hann kom voða lúpulegur og baðst afsökunar, en hélt því fram að þetta væri ekkert alvarlegt af því að hann hefði spurt um leyfi og að honum hefði bara fundist þetta fyndið út af „þessu #metoo“. Þá gekk hann alveg fram af mér. Honum, og mörgum fleirum, finnst sem sagt #metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni og kalla það brandara.“

Strax daginn eftir hafði Margrét Erla samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins og fékk standard svar um að þetta færi í ferli og síðan yrði heyrt í henni frekar. Síðan gerðist ekkert fleira og mánuði síðar skrifaði hún pistil um uppákomuna í Kjarnann og þá loks fékk hún viðbrögð frá fyrirtækinu. Var kölluð í viðtal og fór síðan í gegnum stefnumótun með forsvarsmönnum fyrirtækisins um að setja skýrar reglur um svona framkomu. „Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þótt áreitnin fari ekki fram á vinnustað á vinnutíma þá gilda sömu reglur um framkomu við samstarfsfólk á samkomum á vegum fyrirtækisins eins og innan veggja vinnustaðarins.“

Margrét segir fyrirtækið sem um ræðir að mörgu leyti sambærilegt við OR og að þar hafi ráðið ríkjum jakkafataklæddir menn alveg fram á síðustu ár, það sé tiltölulega nýskeð að konur komist til áhrifa innan þessara fyrirtækja og karlarnir reyni með öllum ráðum að verja sitt yfirráðasvæði.

„Þetta eru litlir kallar sem er ógnað og eru að reyna að púffa sig upp og sýna hvers þeir eru megnugir,“ segir hún. „Í starfi mínu sem plötusnúður finn ég vel fyrir þessari áráttu karlmanna sem hafa verið einráðir á sínu sviði allt of lengi til að gera lítið úr konum sem koma inn á sviðið. Þeir byrja alltaf á að benda á að það séu nú ekki margar konur í þessari stöðu og halda svo áfram að reyna að draga mann niður svo þeim líði betur.“

Margrét Erla Maack og Sonja Ýr Þorbergsdóttir segja að í kjölfar #metoo hafi ástandið sums staðar versnað og áreitnin aukist. Sonja telur þó að málin séu eitthvað að þokast í rétta átt. „En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

„Æ, já, hann er alltaf svona“
Það sem Margréti Erlu finnst einna ógnvænlegast er að það virðist sem allir viti af þessari framkomu ákveðinna manna, en það sé bara horft fram hjá því.

„Í hvert einasta skipti sem ég hef kvartað hef ég fengið svarið: „Æ, já, hann er alltaf svona.“ Samt er þessari týpu alltaf boðið í öll samkvæmi á vegum fyrirtækisins. Ég hef meira að segja verið í veislu hjá háttsettu fólki í þjóðfélaginu, þar sem maður var látinn skrifa undir trúnaðarsamning um að segja ekki frá, þar sem eiginmaður einnar konunnar sem vann þarna var þekktur fyrir að vera ógeðslegur og það voru vaktir hjá konunum í veislunni við að passa hver aðra fyrir honum. Þannig að í staðinn fyrir að bjóða honum ekki voru allir á fullu að kóa með þessari framkomu. Það var svakaleg upplifun.“

Margrét Erla segir þessa þöggun og meðvirkni vera stærsta hjallann sem þurfi að yfirstíga til að einhver breyting verði á meðhöndlun slíkra mála.

„Það þarf að vera skýrt verklag innan fyrirtækja um það hvernig eigi að taka á slíkum brotum,“ segir hún. „Það er allt of algengt að konur þori ekki að kvarta yfir áreitninni af ótta við að missa vinnuna og vera álitnar „sú týpa“. Það þýðir ekkert að skrifa í jafnréttisáætlun að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin ef það fylgir engin útlistun á því hvernig eigi að bregðast við þegar hún kemur upp. Hvað þýðir það að einhver framkoma sé ekki liðin? Á bara að skamma fólk og láta svo eins og ekkert hafi gerst? Það verða að vera skýrt markaðar afleiðingar af svona brotum. Pabbi minn hefur unnið mikið við meðferð fíknisjúklinga og hann hefur bent mér á að það sem margir karlmenn byggi sjálfsvirðingu sína á sé vinnan. Þótt konan fari frá þeim og börnin hætti að tala við þá gera þeir ekkert í sínum málum, en ef þeir missa vinnuna fara þeir að taka á vandanum. Þannig að ég held að eina leiðin til þess að menn fari að taka þetta alvarlega sé að það sé í alvörunni ekki liðið á vinnustaðnum.“

Spurð hvort henni finnist ástandið ekkert hafa skánað við #metoo-byltinguna segir Margrét Erla að það séu tvær hliðar á því máli. „#metoo hefur auðvitað gefið fólki rödd,“ segir hún hugsi. „Núna er fólk tilbúið að tala um þetta vandamál. En mér finnst viðhorfið dálítið vera það að fólki sé hrósað fyrir að stíga fram og segja frá, en svo sé ekki farið neitt lengra með málið. Það sé litið svo á að með því að hvetja fólk til að tala sé málinu lokið.“

Skikka þarf gerendur í sálfræðitíma
Í máli Áslaugar Thelmu gagnvart OR hefur þó komist hreyfing á málin og hver framkvæmdastjórinn af öðrum fallið. Hjálpar það ekkert?

„Mig langar að trúa því,“ segir Margrét Erla og andvarpar. „En það ömurlega er að þegar svona gerist þá fer allt ferlið að verða loðnara. Það fara að koma fram meiri hótanir þannig að málin verða umdeildari, sem fyllir mann vonleysi. Ég þurfti til dæmis að leita lengi á fjölmiðlunum til að finna nafnið á framkvæmdastjóranum sem áreitti Áslaugu Thelmu. Áherslan í fréttaflutningnum var öll á henni og manninum hennar. Við erum einhvern veginn miklu meira tilbúin að nafngreina þolandann en gerandann. Hún er alltaf bara „þessi týpa“ sem er með vesen, í staðinn fyrir að áherslan sé á að benda á að gerandinn sé ógeðskall.“

Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að viðhorfið breytist?

„Ef ég væri dónakall gæti ég svarað því,“ segir Margrét Erla og hlær kalt. „Þá gæti ég sagt þér hvað ég væri hrædd við ef það kæmist upp um mig í svona máli. En það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta er alvöruvandamál, viðurkenna að rótin að þessari framkomu er að körlum finnst þeim ógnað og að þeir eru litlir í sér. Þannig að ég segi að fyrsta mál á dagskrá þegar svona kemur upp sé að skikka gerandann í sálfræðitíma eða áfengismeðferð. Skikka hann til að horfa inn á við. Það er nefnilega svo algengt viðhorf hjá karlmönnum að það sé skortur á karlmennsku að leita sér hjálpar. Og ef það dugar ekki til að menn taki sig á séu þeir bara reknir. Það verður að vera algjörlega kristalsskýr aðgerðaáætlun til að taka á svona málum innan fyrirtækja. Við verðum að hætta þessari meðvirkni. Núna!”

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Video – upptaka og leikstjórn / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Fagnar doktorsvörn með dragi

Thomas Brorsen Smidt bregður sér í hlutverk dragdrottningarinnar Jackie Moon í tilefni af háskólaútskrift.

„Við höfum engar áhyggjur af því að vanalegu gestunum okkar verði á einhvern hátt misboðið, þeir munu pottþétt skemmta sér. Ég er miklu stressaðri yfir því hvað foreldrum mínum, tengdaforeldrum og öllum fræðimönnunum á eftir að finnast. Vonandi fá þau ekki algjört sjokk,“ segir Thomas Brorsen Smidt, um sýninguna Jackie Moon’s Graduation Show, sem hann stendur fyrir á Gauknum í kvöld klukkan níu.

Viðburðurinn er svolítið óvenjulegur því hér er á ferð drag-sýning sem er haldin í tilefni af doktorsvörn Thomasar í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hvernig kom það eiginlega til? „Sko, í stuttu máli snýst ritgerðin mín um hversu erfitt er að innleiða jafnréttisreglur innan veggja akademíunnar, tiltölulega þurrt viðfangsefni sem á ekkert skylt við drag. Bara ekki neitt. En, hins vegar lærir maður í kynjafræði að kyn og kyngervi eru félagslega mótað en ekki fastmótað, einskonar leikur og hvað er drag annað en einmitt leikur með kyngervi og kyn? Þar sem hlutirnir er ýktir upp úr öllu valdi, sem fær fólk ekki aðeins til að hlæja heldur til að átta sig á hversu fáránlegt þetta tvennt getur verið. Að því leytinu til má alveg ætla að drag sé í raun ekkert síður pólitískt en kynjafræðin. Þess vegna fannst mér tilvalið að fagna útskriftinni með dragi.“

„Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“

Fjöldi litríkra skemmtikrafta treður upp á Gauknum í kvöld, þeirra á meðal Hans, Deff Starr, Lola Von Heart, James the Creature og dragdrottningin Ms. Ronya, sem kemur alla leið frá Skotlandi og svo Thomas sjálfur, sem mun bregða sér í hlutverk gestgjafans og drottningarinnar Jackie Moon. En Thomas er einn fárra gagnkynhneigðra karla á landinu sem starfa sem dragdrottning og hann segir marga verða vægast sagt hissa þegar þeir komast að því. „Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“

Hann segir að hvað sem fólki finnist um það þá geti það alla vega stólað á eitt í kvöld: Að það muni skemmta sér konunglega. „Hafi það ekki komið á sýningu hjá mér áður þá á það sko gott í vændum.“

Einstakt sjávarútsýni og fjölbreyttar leiðir fyrir hreyfingu og útivist

Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað til móts við ylströndina í Nauthólsvík, í fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna.

Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar. Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar afar vandaðar. Umhverfið laðar að fólk á öllum aldri og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina sem er iðandi af lífi yfir sumarmánuðina. Stutt er í allar áttir og þjónustu. Jafnframt er stutt í leik- og grunnskóla og afþreyingu fyrir fjölskyldur. Í Bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir að verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.

Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 26 eru hinar glæsilegustu. Þær eru frá tveggja til fjögurra herbergja í þriggja hæða fjölbýlishúsi með lyftu. Stæði fylgir öllum íbúðum í lokaðri bílgeymslu sem eru mikil lífsgæði. Allar íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar verða afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar verður áhersla lögð á stílhreint yfirbragð. Ljósgrái liturinn verður í forgrunni í eldhúsinu, vandaðar innréttingar frá Brúnás gefa rýminu sterkan svip og svartur steinn í borðplötunni. Vönduð eldhústæki og -tól fylgja íbúðinni. Umfram allt er hugsað fyrir því að rýmið nýtist sem best.

Á baðherbergjum verða gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Baðherbergin verða búin vönduðum innréttingum frá Brúnás, þar sem ljósgrái liturinn verður í forgrunni. Borðplöturnar verða úr steini sem gefur rýminu fallega áferð og nýting á rýminu verður í hávegum höfð.

Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir íbúum kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengið að fullu og í sameign verður vönduð lyfta í stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum.

Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgarsvæðinu. Sjón er sögu ríkari.
Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasöluna í síma: 562-4250.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Fjárfesting fasteignasalan.

 

Dreymir um lítinn fiskibát með stórri vél

Bárður Hreinn Tryggvason er sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu og er tveggja barna faðir. Hann á þau Silju Rún sem er tvítug og er að ljúka stúdentsprófi um áramótin og Tryggva Snæ, fimmtán ára nemanda við Sjálandsskóla. Kærasta Bárðar er Lilja Hildur Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og er verkefnisstjóri á menntasviði Landspítalans. Hún er einnig með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur á þrjú börn, á aldrinum átta ára, sextán ára og tuttugu og fimm ára, og eitt barnabarn. Bárður og Hildur búa hvort í sínu lagi eins og er, bæði í Kópavogi.

Bárður Tryggvason, sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa vinnu eru samskipti við fólkið sem stendur í fasteignaviðskiptum á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða stærstu samninga þess á lífsleiðinni. Mestu skuldbindingarnar sem eru lánin sem það tekur og þá er í flestum tilvikum um að ræða lánagjörning í fjörutíu ár sem er um það bil hálf mannsævi, það segir allt sem segja þarf um hversu stór þessi ákvörðun er að að taka lán og kaupa íbúð. Það er svo gefandi þegar vel tekst til og allt gengur upp og allir ganga ánægðir og sáttir frá borði. Ég hef alla tíð tekið starfið mikið inn á mig, ef svo má að orði komast. Síðan eru það vinnufélagarnir og umhverfið, að geta nýtt keppnisskapið sem er mikið hjá mér, að ég ætla og veit að ég hef, þó að ég segi sjálfur frá. En mesta ánægjan eru ánægðir viðskiptavinir.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hefðbundinn vinnudagur hjá mér er frá klukkan 9.00 – 17.00 á daginn og oft lengur, en fyrstu tuttugu og fimm árin gæti ég trúað að þetta hafi verið ekki undir 60-70 tímum á viku. Í dag er þetta öðruvísi, ég fer þrisvar í viku í fótbolta í hádeginu í 1,5 klst, en það hef ég gert síðustu tíu árin og eru ómissandi fyrir mig, því að þetta útheimtir oft mikið álag.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili? „Fallega samsett húsgögn og hlutir sem passa saman og umfram allt eru þægileg. Svo ekki sé minnst á fallega myndlist á veggjum. Ég hef safnað að mér fallegri myndlist undanfarin ár og hef komið inn á glæsileg heimili en það er eitthvað sem vantar og það er eitthvað fallegt á veggina. En það er bara mín skoðun.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Minn stíll er einfaldleikinn, ekki vera með of mikið af húsgögnum/hlutum og láta hlutina passa saman og mynda fallegt og notalegt heimili.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Pálmar Kristmundsson er minn uppáhalds, hann hefur teiknað falleg hús og byggingar sem ég hef hrifist af í gegnum tíðina.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Gæti nefnt Alvar Aalto hinn finnska sem var bæði húsgagnahönnuður og arkitekt, svo ég nefni nú einhvern.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Það er lítill fiskibátur með stórri vél og kemst hratt, en það er draumurinn einhvern tímann. Ég er frá Hellissandi og uppalinn þar við sjóinn. Var á skaki þrjú sumur með mági mínum. En það sem skýrir það er að þegar að þú ert kominn út á sjó í góðu veðri, þá hverfur allt sem að heitir stress. Þú ferð að slaka á og gleymir þér.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn er brúnn.“

Hvar líður þér best? „Ég held að ég geti sagt að mér líði best með fjölskyldunni og að atast með henni í einhverju. Síðan að fara vestur á Snæfellsnes á æskuslóðirnar í fallegu veðri. Fara í fótbolta með stákunum en ég spila með Luns United í hádeginu og Svíkingum vinum mínum á mánudögum. Það er svo margt sem að ég gæti talið upp.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Fallegur dagur að hausti, kaldur og sólin á lofti á sér engan sinn líka, síðan haustlitirnir þegar að þeir birtast í sínu fegursta formi. Vantar heita pottinn.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Veit ekki, en gæti nefnt Bautann á Akureyri, alltaf sérstök stemning að borða þar. Var á Akureyri í menntaskóla í fjóra vetur.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Já, það eru lítil falleg einbýlishús í grónum hverfum eins og hægt er að sjá til dæmis fyrir norðan á Akureyri. Hvaða stíll það er, veit ég ekki.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „vera meðvitaður um stað og stund og láta ekkert fara í taugarnar á sér, lífið er svo stutt. Halda síðan vel utan um fjölskylduna og vinina, ekkert gefur lífinu meira gildi en það að hafa gott fólk í kringum sig.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Brautryðjendur á íslenskum netmarkaði

Skanva.is er nýleg netverslun í eigu Skanva Group sem er fyrirtæki í Danmörku sem á einnig netverslanir skanva.no í Noregi og Vinduesgrossisten.dk í Danmörku. Hanna G. Guðmundsdóttir Overby er svæðisstjóri á Íslandi fyrir Skanva.is og við heimsóttum hana á dögunum og fengum innsýn í hvað fyrirtækið hefur upp á að bjóða.

Hanna G. Guðmundsdóttir Overby er svæðisstjóri á Íslandi fyrir Skanva.is.

„Skanva.is er brautryðjandi á íslenskum markaði, þar sem við erum fyrsta fyrirtækið sem býður upp á netverslun fyrir glugga og hurðir. Það hefur aldrei verið auðveldara fyrir Íslendinga að kaupa glugga og hurðir, hvar og hvenær sem er. Verðið er líka óþekkt á Íslandi, en ástæðan er sú að við getum hagrætt mikið í rekstrinum þegar viðskiptavinirnir ganga frá pöntuninni sjálfir á Netinu og þar með skilar sparnaðurinn sér beint til viðskiptavinarins. Einnig er ástæðan fyrir því að við getum boðið lægra verð sú að viðskiptavinirnir kaupa beint af framleiðanda og sleppa því einum millilið í kaupferlinu. Við erum með sýningarsal úti á Granda í Reykjavík, þar sem hægt er að koma og sjá sýnishorn af vörunum okkar.“

Brynjar Valþórsson er sölumaður hjá Skanva.is í sýningarsalnum úti á Granda og með honum á myndinni er Jørgen Tranholm, einn af eigendum Skanva.is.

Hvar fer framleiðslan fram? „Við framleiðum okkar eigin glugga og hurðir í verksmiðjunni okkar í Hvíta-Rússlandi. Þar erum við með danskan framleiðslustjóra sem sér um að gæðin standist þær kröfur sem gerðar eru. Það er hægt að velja um tré, tré/ál og plast í glugga og hurðir. Allar vörur frá okkur eru með tíu ára ábyrgð. Við erum ekki með neinn lager heldur eru allar pantanir sérsmíðaðar og framleiddar eftir málum og óskum viðskiptavina okkar.“

Þjónusta og vörur Skanva hafa hlotið mjög góðar móttökur á Íslandi. „Við höfum fengið mjög jákvæðar móttökur á Íslandi, við höfum átt erfitt með að svara öllum fyrirspurnum innan þokkalegs tímaramma þar sem fyrirspurnirnar hafa verið svo margar. Við höfum líka fundið fyrir efasemdum um fyrirtækið, til dæmis á samfélagsmiðlum, þar sem fólki finnst verðið of gott til að vera satt. Við skiljum það vel þar sem við erum með áður óþekkt verð og það tekur alltaf tíma fyrir markaðinn að kynnast nýjum spilurum.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Skanva.

Fjölbreytt vöruúrval er af gluggum, hurðum og fylgihlutum í sýningarsal Skanva.is úti á Granda, eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

 

Hágæðavörur fyrir útivistina, líkamsræktina, fjallgöngur og ferðalög

Verslunin og heildsalan Sportís hefur haslað sér völl hér á landi og þykir hafa afar gott vöruúrval og sérlega góða þjónustu. Við heimsóttum Skúla J. Björnsson í Mörkina og kynntum okkur tilurð fyrirtækisins og það sem Sportís hefur upp á að bjóða. En Skúli annast daglegan rekstur fyrirtækins og hefur unnið í þessum bransa frá árinu 1983 en áður var hann meðal annars forstöðumaður félagsmiðstöðvar.

Skúli J. Björnsson og Anna S. Garðarsdóttir stofnuðu fyrirtækið Sportís árið 1983. Hér er Skúli með dóttur sinni Sigrúnu Kristínu sem er verkefnisstjóri hjá Sportís.

Segðu okkur aðeins frá tilurð verslunarinnar Sportís og helstu áherslum ykkar í vöruúrvali og þjónustu? „Sportís ehf var stofnað af mér og konu minni, Önnu S. Garðarsdóttur, í febrúar árið 1983 og markmiðið var að reka heildverslun með vandaðar vörur á sviði íþróttafatnaðar, eingöngu góð vörumerki. Við höfum byggt upp fjölda þekktra vörumerkja á þessum tíma.“

Getur þú sagt okkur meira um vöruúrvalið? „Í verslun okkar í Mörkinni 6 erum við með íþróttaskó og starfsfólk okkar er þrautþjálfað í að veita leiðbeiningar í vali á hvers kyns íþróttaskóm. Við bjóðum upp á mikið úrval af hlaupaskóm, utanvegaskóm og innanhússskóm fyrir alla. Einnig erum við með útivistar- og vetrarfatnað og margt fleira. Við erum með mikið af CASALL-æfingafatnaði fyrir konur, það er merki sem allar konur elska. Casall er þekkt fyrir gæði og endingu.
Kari Traa er nýtt norskt merki – heitir eftir skíðadrottningu og margföldum ólympíugullhafa. Það merki býður mjög öfluga línu af sportfatnaði fyrir konur og hefur vakið mikla athygli fyrir merino-ullarlínuna sem er litrík og flott. Ennfremur erum við með mikið úrval af REIMA-barnafatnaðnum sem er finnsk gæðavara með mikið úrval af vetrargöllum, lambhúshettum og öllum þeim fatnaði sem fær börnin til að vilja vera úti.“

Skúli nefnir einnig að þau séu með Canada Goose-merkið sem er þekkt um allan heim fyrir hlýju, vönduðu og fallegu vetrarúlpurnar. „Canada Goose er mjög vinsælt merki hjá Sportís og við erum með landsins mesta úrval af þessum frábæru úlpum. Nýjar og spennandi úlpur voru að koma og nú er hægt að fara að njóta vetrarins.“

Hvert er ykkar aðalsmerki í vörutegundum? „Öll okkar merki eru aðalsmerki – en til að nefna einhver má nefna Canada Goose sem er heimsfrægt og hefur verið framleitt frá árinu 1957 og nýtur mikilla vinsælda. Finnska barnafatamerkið Reima sem var stofnað árið 1944. Asics er toppurinn í hlaupaskóm og er fyrsta val alvöruhlaupara. Asics er japanskt fyrirtæki stofnað árið 1949. Við seljum öll þessi merki og fleiri einnig í heildsölu til valinna endursöluaðila um land allt.“

Leggið þið mikið upp úr að vera með hágæða útivistarfatnað og vörur fyrir þá sem stunda útivist? „Við seljum vörur fyrir útivist, göngur, ræktina, ferðalög og fleira.“

Mynd / Hallur Karlsson

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Sportís. 

 

Blóðappelsínu-spritz

|
|

Frískandi kokteill þar sem blandaður er saman nýkreistur blóðappelsínusafi, prosecco og kryddaður sætur vermouth. Ef blóðappelsínur eru ekki fáanlegur má nota bleikan greipaldinsafa í staðinn.

Blóðappelsínu-spritz
fyrir 1 glas
30 ml sætur vermouth
30 ml blóðappelsínusafi
Prosecco

Setjið klaka í glas eða belgmikið vínglas og hellið sætum vermouth og blóðappelsínusafa ofan í. Fyllið með Prosecco og skreytið með appelsínusneið.

Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu

2. tbl. 2018
Mynd / Heiðdís Guðbjörg

Fljótlegur og bragðgóður réttur sem er tilvalinn fyrir önnum kafið fólk.

Við könnumst flest við þá tímapressu sem hlýst af því að koma sér heim eftir langan vinnudag og þurfa að koma mat á borðið fyrir svangt heimilisfólk á skikkanlegum tíma. Þá getur verið freistandi að kaupa skyndibita eða eitthvað annað fljótlegt sem fyllir magann en gerir kannski ekki mikið fyrir næringu og bragðlauka. Best er að eiga í handraðanum nokkrar uppskriftir að fljótlegum og bragðgóðum réttum sem ekki krefjast hálfa körfu af hráefni. Þessi réttur er tilvalinn í miðri viku fyrir önnum kafið fólk en hann er útgáfa af hinum klassíska franska rétti Sole Meunière. Hann er auðveldur, fljótlegur og einstaklega barnvænn.

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu
fyrir 4
½ dl möndlur
1 1/2 dl hveiti
4 roðflettir sporðbitar af hvítum fiski (t.d. koli, ýsa eða þorskur)
salt og pipar
2 msk. olía
2 msk. ósaltað smjör

Hellið möndlunum á stóra pönnu. Hitið yfir meðalháum hita þar til möndlurnar fara að ilma og eru orðnar gylltar að lit, setjið til hliðar. Látið hveiti í fat og setjið til hliðar. Þerrið fiskinn með eldhúspappír og saltið og piprið fiskinn báðum megin. Veltið honum upp úr hveitinu og hristið bitana aðeins til að losa umfram hveiti af fiskinum. Hitið olíu á stórri pönnu yfir meðalháum hita. Bætið smjörinu á pönnuna þegar olían er orðin heit og dreifið úr því. Leggið fiskinn á pönnuna og steikið þar til fiskurinn er orðinn gylltur, 2-3 mín. Snúið fiskinum við og eldið þar til hann hefur eldast í gegn og er orðinn gylltur, 1-3 mínútur (fer eftir þykkt fiskbitans). Takið hann af pönnunni og hellið fitunni frá.

Sósa
4 msk. ósaltað smjör
2 msk. steinselja, söxuð
1 msk. ferskur sítrónusafi

Setjið pönnuna aftur yfir meðalháan hita og setjið smjörið út á. Eldið þar til smjörið fer að gyllast, u.þ.b. 2 mín. Hrærið steinseljuna og sítrónusafann saman við og hellið yfir fiskinn. Berið fram með steiktum kartöflum, sítrónubátum og grænu salati.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Við eigum Ísland, það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það“

Hávær krafa er um að lífeyrissjóðirnir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð.

Lífeyrissjóðir landsins eiga stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Vegna fjármagnshafta, stækkunar þeirra og þátttöku í endurreisn íslenskra fyrirtækja áttu sjóðirnir tæplega helming allra skráðra hlutabréfa í lok árs 2016 og um 70 prósent skuldabréfa. Mörg þeirra félaga sem lífeyrissjóðirnir eru sameiginlega ráðandi eigendur selja vörur og þjónustu sem landsmenn nota á hverjum degi. Og mörg þeirra hafa hækkað laun stjórnenda sinna þannig að laun forstjóra skráðra fyrirtækja eru nú að meðaltali 16 sinnum lágmarkslaun. Auk þess er til staðar kaupaukakerfi innan margra félaga sem gerir þeim kleift að greiða æðstu stjórnendum sínum bónusa.
Hávær krafa er um að lífeyrissjóðirnir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð. Sú krafa kemur fyrst og fremst frá fulltrúum launafólks, verkalýðshreyfingum landsins. En hana er líka að finna á meðal fulltrúa atvinnurekenda sem sitja í stjórnum sjóðanna.
Þessi krafa birtist ansi skýrt á fundi sem Efling stóð fyrir um liðna helgi með þeim tveimur sem sækjast eftir að verða næsti forseti Alþýðusambands Íslands, Sverri Mar Albertssyni og Drífu Snædal (sjá mynd). Á fundinum sagði Sverrir meðall annars að verkalyðsfélögin ættu Ísland. „Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“ Drífa sagðist sammála honum.

Ítarleg fréttaskýring er um baráttuna um íslenskt atvinnulíf í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hægt er að lesa skýringuna í heild á vef Kjarnans.

Orkuveita Reykjavíkur: Endalaus uppspretta átaka

Fréttir af kynferðislegri áreitni innan Orkuveitu Reykjavíkur í liðinni viku er aðeins eitt af mörgum hitamálum sem hafa blossað upp í kringum starfsemi fyrirtækisins. Allt frá því Orkuveitan var sett á fót með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1999 hafa deilur um reksturinn blossað upp með reglulegu millibili og þær jafnvel endað með falli borgarstjórnarmeirihluta. Mannlíf rifjar upp nokkur af helstu hitamálunum.

 

Rándýrar höfuðstöðvar

Bygging höfuðstöðva OR er um margt sorgarsaga sem enn sér ekki fyrir endann á. Kostnaður við bygginguna nam alls 5,8 milljörðum króna og fór hann 4 milljarða fram úr áætlun. Árið 2013 var ákveðið að selja húsnæðið til lífeyris- og fjárfestingasjóða til að grynnka á erfiðri skuldastöðu fyrirtækisins og leigja það af nýjum eigendum; 5,1 milljarður fékkst fyrir húsið. Síðan kemur í ljós að stór hluti vesturhússins er ónýtur vegna rakaskemmda og að kostnaður við viðgerðir geti numið allt að 7 ½ milljarði króna. Í fyrra kaupir Orkuveitan húsið aftur fyrir 5,5 milljarða, en kaupin voru forsenda þess að hægt væri að ráðast í nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu vegna skemmda.

Eitt flottasta eldhús landsins

Árið 2010 beindist athygli landsmanna að stórglæsilegu eldhúsi höfuðstöðva OR eftir að kynningarmyndband fyrirtækisins fór í dreifingu á Netinu. Myndbandið, sem var tæpar 10 mínútur að lengd, var framleitt af kynningardeild fyrirtækisins árið 2004. Var ásókn fagaðila og rekstraraðila í að skoða eldhúsið svo mikil að ákveðið var að gera myndbandið til að draga úr slíkum heimsóknum. Alfreð Þorsteinsson, sem var stjórnarformaður OR á þeim tíma sem eldhúsið var byggt, þvertók fyrir að um of mikinn íburð hafi verið að ræða. „Það var ekkert bruðlað sérstaklega í uppbyggingu þessa eldhúss.“ Almenningur var á öðru máli.

Sértækar skuldaaðgerðir

Rekstur Orkuveitunnar fór afar illa út úr efnahagshruninu enda hafði íslenska krónan hríðfallið og stærstur hluti lána í erlendri mynt. Um mitt ár námu skuldir fyrirtækisins 227 milljörðum króna. Stjórn fyrirtækisins réðist í umfangsmiklar aðgerðir til að bjarga fyrirtækinu sem fólust meðal annars í niðurskurði, hækkun gjaldskráa og endurfjármögnun lána. Var aðgerðaáætlunin nefnd Planið. Áætlunin gekk eftir og gott betur og skilaði hún sér í 60 milljarða króna í bættri sjóðsstöðu, eða 10 milljörðum umfram það sem upphaflega var reiknað með.

Mislukkuð tilraun með risarækjur

Um aldamótin hóf Orkuveitan tilraunir í að koma á fót risarækjueldi. Fyrirtækið lagði fram stofnfé og var áformað að fleiri aðilar kæmu inn í verkefnið sem myndu á endanum taka yfir verkefnið og hefja risarækjueldi í stórum stíl. Þeir létu hins vegar aldrei sjá sig. Alfreð Þorsteinsson, þáverandi stjórnarformaður, sagði þetta hluti af lögboðinni skyldu Orkuveitunnar um að taka þátt í nýsköpun og þegar fyrsta risarækjan var boðin til átu árið 2004 sagði hann ljóst að tilraunin hafði heppnast. Voru menn á þessum tímapunkti á því að risarækjan ætti eftir að slá í gegn. En risarækjudraumarnir runnu út í sandinn og í september 2007 tók stjórn OR þá ákvörðun að hætta risarækjueldinu. Lét Haukur Leósson, þá stjórnarformaður, hafa eftir sér að tilraunastarfsemin hafi ekki skilað fyrirtækinu krónu.

Stórslys í Andakílsá

Starfsmenn Orku náttúrunnar urðu uppvísir að ólögmætri og saknæmri háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar í Borgarfirði í fyrravor. Gríðarlegt magn aurs flæddi út í Andakílsá með meðfylgjandi stórtjóni fyrir lífríki árinnar. Orkustofnun sektaði ON um eina milljón króna vegna atviksins, enda hafði tilskilinna leyfa fyrir tæmingunni ekki verið aflað. Áhrifanna gætir enn og var engin laxveiði stunduð í Andakílsá í sumar frekar en í fyrra.

REI sprengir borgarstjórn

Á haustmánuðum 2007, þegar sjálfstraust íslenskra viðskiptamanna náði hæstu hæðum, voru uppi stórar hugmyndir um að ráðast í orkuútrás. Til þess stofnaði OR dótturfyrirtækið Reykjavik Energy Invest – REI. Þegar fréttir bárust af því að til stæði að sameina REI og Geysi Green Energy, sem var í eigu FL Group og Glitnis banka, runnu hins vegar tvær grímur á borgarfulltrúa. Þær deilur mögnuðust þegar í ljós kom að útvaldir lykilstarfsmenn áttu að fá kaupréttarsamninga sem mögulega hefði fært þeim háar fjárhæðir. Ekkert varð þó að samrunanum þar sem borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk vegna málsins.

Barist um Hitaveitu Suðurnesja

Síðsumars 2009 risu enn og aftur upp harðar deilur í borgarstjórn þegar Orkuveitan ákvað að ganga til viðræðna við kanadíska fyrirtækið Magma Energy um sölu á 32% hlut OR í Heitaveitu Suðurnesja. Var átakapunkturinn sá að verið væri að færa orkuauðlindir þjóðarinnar í hendur einkaaðila. Kaupin, sem voru reyndar aðeins hluti af harðri baráttu um eignarhald í HS, gengu engu að síður í gegn og á kanadíska félagið – í gegnum sænskt dótturfyrirtæki – enn meirihluta í HS.

Orkufyrirtæki á fjarskiptamarkaði

Á dögum R-listans varð fyrirtæki að nafni Lína.net að einu helsta deiluefninu milli meirihlutans og minnihlutans sem endurspeglaðist í stöðugum skeytasendingum milli Alfreðs Þorsteinssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem þá var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Lína.net var fjarskiptafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar sem átti að sjá um ljósleiðaravæðingu höfuðborgarsvæðisins en varð í augum sjálfstæðismanna, sem töldu fjarstæðu að fyrirtæki í eigu borgarinnar væri að standa í rekstri á samkeppnismarkaði, holdgervingur sóunar almannafjár. Lína.net rann síðar inn í Gagnaveitu Reykjavíkur sem er dótturfélag Orkuveitunnar.

„Aldrei litið á okkur sem poppstjörnur“

Bjarni Lárus Hall, söngvari hljómsveitarinnar Jeff Who? segir meðlimi sveitarinnar aldrei hafa ætlað sér að leggja Ísland að fótum sér, þrátt fyrir miklar vinsældir á sínum tíma, og að endurkomutónleikarnir um helgina séu alls ekki tilraun til að reyna að slá í gegn að nýju.

Hljómsveitin Jeff Who? var geysivinsæl fyrir áratug eða svo en hvarf síðan alfarið úr sviðsljósinu. Nú blása meðlimir hljómsveitarinnar til tvennra tónleika um helgina þar sem söngvarinn Bjarni Lárus Hall verður auðvitað í forgrunni. Hann segir þó markmiðið ekki vera að slá í gegn á ný. Þetta séu bara sex vinir að skemmta sér saman.
„Ekki spila, ég er í viðtali,“ er það fyrsta sem ég heyri Bjarna Lárus Hall segja þegar ég hringi í hann. Hann er sem sé staddur á æfingu með hljómsveitinni Jeff Who? þar sem verið er að fínpússa prógrammið fyrir tónleika helgarinnar.

Auk Bjarna skipa þeir Ásgeir Valur Flosason, Elís Pétursson, Valdimar Kristjónsson, Þormóður Dagsson og Þorbjörn Sigurðsson hljómsveitina en þeir hafa allir verið nánir vinir síðan á menntaskólaárunum í MR. Þeir slógu óvænt í gegn um miðjan síðasta áratug, gáfu út tvær plötur og áttu hittarann Barfly sem tröllreið útvarpsstöðvum mánuðum saman en síðan hvarf hljómsveitin nánast af yfirborði jarðar og hefur ekki heyrst síðan. Nú skella þeir á tvennum endurkomutónleikum, í kjölfar tónleika Írafárs og nýs lags frá Stjórninni. Hvað er í gangi, er endurkoma hljómsveita frá síðustu áratugum það heitasta í dag? „Ha, nei, við vorum nú ekkert að pæla í því,“ segir Bjarni gáttaður. „Mér hafði ekki dottið það í hug einu sinni að við fylgdum einhverju trendi.“
Er hugsunin kannski sú að nú eru þeir sem voru aðdáendur á sínum tíma orðnir miðaldra, stöndugt fólk sem hefur efni á að sækja tónleika? „Ja, það hjálpar auðvitað,“ svarar Bjarni og hlær. „Við erum samt alls ekki að þessu fyrir peninginn. Þetta var bara hugmynd sem kom upp hjá okkur Þorra trommara yfir bjórglasi þegar við fórum að ræða það að okkur langaði til að fara að spila aftur saman. Við drifum í því að tala við hina strákana og þeir voru allir til í slaginn, þannig að hér erum við í dag, sex vinir í góðum fíling að undirbúa tónleika.“

„Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“

Aldrei verið svona góðir
Spurður hvort meðlimir hljómsveitarinnar séu í jafngóðu formi og þeir voru á velmektardögunum fyrir rúmum áratug fullyrðir Bjarni að þeir séu ennþá betri. „Ég get svarið það,“ segir hann. „Ég held ég hafi aldrei heyrt okkur svona góða.“
Hafið þið allir verið í tónlistariðkun síðan þið hættuð? „Já, já, við höfum verið að gera alls konar hluti í tónlist,“ segir Bjarni. „Allir að spila hingað og þangað. Við höfum bara ekki spilað saman sem band undanfarin tíu ár. Ég og Valdimar höfum verið að spila dálítið saman og erum meira að segja búnir að taka upp plötu. En við höfum alltaf hist reglulega allir saman og rætt málin.“

Þannig að vináttan hefur haldist? Hvers vegna hættuð þið þá að spila saman á sínum tíma? „Eiginlega bara vegna þess að við vorum alltaf að spila fyrir sama fólkið og vorum orðnir svolítið leiðir á því,“ útskýrir Bjarni. „Við spiluðum bara saman af því að okkur þótti það svo ógeðslega gaman. Þannig að við hættum því bara þegar það hætti að vera gaman. Það var engin dramatík í kringum það.“

Sprenging í hlustendahópnum með Barfly
Voru það ekki svakaleg viðbrigði að fara úr því að vera hljómsveit skólafélaga í MR sem fannst bara gaman að spila saman í það að verða ein vinsælasta hljómsveit landsins? „Jú, þetta gerðist frekar hratt,“ viðurkennir Bjarni. „Við áttum tvö lög sem voru mikið spiluð á X-inu og svo þegar Barfly kom út varð sprenging í hlustendahópnum á nokkrum dögum.“
Bjarni vill alls ekki gangast við því að hinar skyndilegu vinsældir og nánast stöðugt tónleikahald hafi haft mikil áhrif á þá félaga. „Við ákváðum bara að gera þetta vel,“ segir hann. „Og ef einhver hringdi og bað okkur að spila sögðum við bara já. Við pældum ekki mikið í því að við værum vinsælir. Vorum bara band sem spilaði á tónleikum þegar við vorum beðnir um það. Við litum aldrei á okkur sem einhverjar poppstjörnur og það var aldrei markmiðið að leggja Ísland að fótum okkar. Lífið breyttist í rauninni voðalega lítið, nema bara að við spiluðum miklu oftar en við höfðum gert áður.“
Spurður hvort endurkomutónleikarnir um helgina séu upphafið á nýrri tilraun til að slá í gegn og hvort plata sé í undirbúningi segir Bjarni að þeir séu bara ekki farnir að hugsa svo langt. „Við erum ekkert að pæla langt fram í tímann,“ fullyrðir hann. „En það hefur verið ógeðslega gaman hjá okkur og gengið mjög vel, þannig að maður veit aldrei hvað gerist. Hins vegar er það alveg á hreinu að þetta er alls ekki meðvituð tilraun til að reyna að slá í gegn aftur, við ætlum bara að hafa gaman að þessu.“

Hræsni gagnvart Ísrael
Árið 2015 tók Bjarni þátt í undankeppni Eurovision með lag sitt Brotið gler og fékk tvo félaga sína úr Jeff Who? til að spila það með sér. Hann vill þó undirstrika að það sé mikill misskilningur að Jeff Who? hafi ætlað sér að taka þátt í Eurovision. Það myndi aldrei gerast. En hvað finnst honum um kröfuna um að sniðganga Eurovision í Ísrael á næsta ári vegna framgöngu Ísraela gagnvart Palestínumönnum? „Æ, ég veit það ekki,“ segir hann þreytulega. „Ég er ekki hlynntur því sem Ísrael er að gera gagnvart Palestínumönnum, en þetta er samt bara söngvakeppni og þeir taka þátt í henni. Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“
Ætlar þú að senda lag í undankeppnina fyrir næsta ár? „Ég bara veit það ekki,“ segir Bjarni hugsi. „Núna hugsa ég bara um æfinguna sem er að byrja og tónleikana um helgina. Ég fer ekkert að pæla í Eurovision fyrr en þessir tónleikarnir eru búnir. Þeir eru það sem skiptir máli núna. Allt annað kemur bara í ljós.“

Fyrri tónleikar Jeff Who? eru á Græna hattinum á Akureyri í kvöld, 21. september, og þeir seinni í Bæjarbíói í Hafnarfirði annað kvöld.

Mynd / Lilja Jóns

Sjálfsmorð móðurinnar stærsta áfallið

Jane Fonda rifjar upp móðurmissinn í nýrri heimildarmynd.

Í nýrri heimildarmynd frá HBO, Jane Fonda í fimm þáttum sem frumsýnd verður 24. september, opnar Jane Fonda sig um hvernig það hafi verið að alast upp hjá móður sem þjáðist af geðhvarfasýki og hvernig sjálfsmorð móðurinnar, þegar Jane var 12 ára, hafi átt stærstan þátt í því að móta sjálfsmynd hennar og upplifun af heiminum. Hún segist þó smátt og smátt hafa lært að skilja móður sína og fyrirgefa henni.

Móðir Jane hét Frances Ford Seymour og var kanadísk kona sem giftist Henry Fonda árið 1936. Saman eignuðust þau tvö börn, Jane og Peter. Fljótlega kom í ljós að Frances þjáðist að geðhvörfum og árið 1950, þegar Jane var 12 ára, framdi hún sjálfsmorð með því að skera sig á háls á geðsjúkrahúsinu þar sem hún dvaldi.

Dauði hennar var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir Jane og ekki varð auðveldara að sætta sig við sjálfsmorð móðurinnar við það að rekast á umfjöllun um það í kvikmyndatímariti eftir að faðir hennar, Henry Fonda, hafði sagt Jane og bróður hennar að móðir þeirra hefði dáið eftir hjartaáfall.

„Sem barn kennir maður alltaf sjálfri sér um,“ útskýrði leikkonan í viðtali á people.com. „Vegna þess að barnið getur ekki ásakað fullorðnu manneskjuna sem það þarf á að halda til að komast af. Það tekur langan tíma að komast yfir sektarkenndina,“ sagði hún.

En eftir að hún varð fullorðin ákvað Jane að reyna að kynnast móður sinni, læra að skilja hana og tileinkaði henni sjálfsævisögu sína, My Life So Far sem kom út árið 2005. Hún segist hafa fengið aðgang að sjúkraskýrslum móður sinnar og loks fengið að kynnast henni og meta þessa konu.
„Ég þekkti hana aldrei,“ segir leikkonan í fyrrnefndu viðtali. „En ég er búin að fyrirgefa henni og mér.“

Hér fyrir neðan má skoða kynningarstikluna fyrir Jane Fonda í fimm þáttum, sem eins og áður sagði verður frumsýnd 24. september á HBO.

Kynntist eiginmanninum 14 ára gömul

Camilla Rut prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar. Í einlægu viðtali dregur hún ekkert undan og talar um uppeldið í krossinum, óvænta athygli, taugaáfall sem hún fékk kjölfar brúðkaups síns og söngferilinn.

 

Camilla hefur með einlægni sinni og hispurslausri framkomu fangað huga og hjörtu fjölmargra Íslendinga. Á degi hverjum hleypir hún tugum þúsunda fylgjenda inn í líf sitt og sýnir bæði góðar og slæmar hliðar þess.

Í dag er Camilla í fullu starfi við það að sinna sínum miðlum, auk þess sem hún er að hefja feril í tónlist. „Dæmigerður dagur í mínu lífi er ekki til, ég er rosalega mikið út um allt að græja og gera,“ segir hún. „Ég sit á allskonar fundum og er stöðugt að vinna mig áfram. Það kemur aldrei sá dagur að ég sé ekki með neitt á dagskránni. Ég viðurkenni alveg að þetta hefur reynst mér frekar erfitt, þar sem ég er svo rosaleg rútínumanneskja. Ég vil helst hafa dagana mína eins, en þegar ég er ekki í fastri vinnu frá 9-5 gefur það augaleið að það gengur ekki alltaf upp. Svo á ég líka allskonar drauma sem ég er að vinna í að uppfylla og verkefni sem ég er að hrinda í framkvæmd, lífið kemur ekki til mín á silfurfati svo ég ætla að leggja hart að mér til þess að koma mér þangað sem ég vil fara.“

Kynntist eiginmanninum fjórtán ára

Camilla og eiginmaður hennar, Rafn Hlíðkvist, hafa verið saman í rúm tíu ár en hún var aðeins fjórtán ára þegar þau kynntust. „Við byrjuðum samband okkar mjög rólega, þar sem ég var svo ung. Rabbi er fimm árum eldri en ég og bar fullkomna virðingu fyrir því að ég væri að stíga mín fyrstu skref í þessu öllu saman. Við höfum gengið í gegnum svo margt saman á þessum tíu árum en einhvern veginn alltaf náð að halda okkar striki sem er nú aðallega honum og hans yfirvegun að þakka. Ég telst seint vera yfirveguð og róleg því eins og ég segi þá stjórnast ég af tilfinningum en hann hefur tök á mér sem enginn annar hefur,“ segir Camilla og bætir við að þau hafi verið óaðskiljanleg frá fyrstu kynnum. „Við smullum saman eins og flís við rass. Á meðan ég er algjört fiðrildi og tilfinningavera þá er hann rólegur og jarðbundinn, svo það má segja að hann dragi mig niður á jörðina á meðan ég dreg hann upp með mér, svo við hittumst oftast á miðri leið. Samband okkar hefur verið ferðalag og mikill lærdómur fyrir okkur bæði en í gegnum allt er þessi skilyrðislausa ást sem stendur svo sterk. Við trúlofuðum okkur um verslunarmannahelgina árið 2014 en vissum ekki þá að laumufarþegi var um borð. Sléttri viku eftir að við trúlofuðum okkur komumst við að því að ég væri ólétt af litla stráknum okkar – og þvílík hamingja.“

Sonur þeirra, Gabríel, kom svo í heiminn fyrir rúmum þremur árum. Camilla segir að eins klisjukennt og það hljómi, hafi sonurinn komið inn í líf þeirra á hárréttum tíma og breytt öllu til hins betra.

„Meðgangan og fæðingin var hryllingur en þetta litla barn hefur verið draumur síðan við fengum hann í hendurnar. Ég fékk rosalegt fæðingarþunglyndi og átti mjög erfitt fyrstu mánuðina. Í orlofinu hafði ég gaman af því að fylgjast með öðrum á samfélagsmiðlum og fljótlega kviknaði sú hugmynd að kannski hefði fólk áhuga á því sem ég hefði að segja. Ég opnaði aðganginn minn og var ekki með neitt sérstakt markmið. Ég einblíndi ekki á neitt afmarkað málefni, heldur var ég bara að spjalla um lífið og tilveruna. Meðal þess sem ég ræddi opinskátt var fæðingarþunglyndið. Markmið mitt var samt ekki beint að peppa aðra, heldur var ég að þessu aðallega til að peppa sjálfa mig og ég fann fljótt að þetta var hvati til þess að laga mitt eigið hugarfari. En boltinn fór fljótt að rúlla og fylgjendatalan jókst með hverjum degi. Að mörgu leyti var ég heppin, varðandi tímasetningu og annað en á þessum tíma var ekki mikið um það að fólk væri að opna sig og segja frá persónulegri lífsreynslu fyrir framan ókunnugt fólk á Snapchat.“

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Camillu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir
/Förðun: Sara Dögg Johansen með YSL

Ed Sheeran hlakkar til að spila fyrir Íslendinga

Tónlistarmaðurinn heldur tónleika á Laugardalsvelli næsta sumar.

Ed Sheeran mun halda sína fyrstu tónleika á Íslandi þann 10. ágúst 2019. Í myndbandi sem kappinn birti á YouTube sendir hann Íslendingum kveðju og segist hlakka til að spila fyrir þá. Hann hafi reyndar komið til Íslands áður en aldrei spilað þar og hann sé mjög spenntur.

Tónleikarnir á Íslandi eru hluti af Evróputúr stjörnunnar sem mun standa yfir frá maí til ágúst 2019 og auk þess að spila fyrir okkur mun Ed halda tónleika í Frakklandi, Portúgal, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki, Rúmeníu, Tékklandi, Lettlandi, Rússlandi, Finnlandi, Danmörku og Ungverjalandi og svo að sjálfsögðu í heimalandi sínu Bretlandi þar sem síðustu tónleikar túrsins verða.

Miðasala á tónleikana hefst klukkan 9 fimmtudaginn 27. september á TIX.is/Ed og í boði eru 30.000 miðar á mismunandi og misdýrum svæðum svallarins.

Í myndbandinu hér fyrir neðan er Ed brosandi út að eyrum á meðan hann sendir Íslendingum kveðju sína og ekki annað að sjá en að hann meini hvert orð.

Reyna að ná sambandi við Michelle Obama með myndbandi

|
|

Rúna Magnúsdóttir og Nick Haines gripu til nýstárlegra aðgerða við að ná sambandi við forsetafrúna fyrrverandi.

Rúna og Nick póstuðu myndbandinu á þriðjudaginn

„Við þurftum alveg að taka hugrekkispillu til að þora að gera þetta,“ segir Rúna Magnúsdóttir sem ásamt Nick Haines, félaga sínum í samtökunum The Change Makers, hefur póstað myndbandi þar sem þau freista þess að ná sambandi við Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, til að fá hana til að skrifa inngang að bók sem þau hafa skrifað.

„Okkur leið eins og við værum að afhjúpa okkur með því að gera þetta myndband,“ segir Rúna. „En um leið vorum við að stíga út fyrir boxið. Við höfðum ekki hugmynd um hvernig við ættum að ná sambandi við Michelle en svo fórum við að hugsa um kenninguna um að við séum öll tengd, það sem kallast á ensku „Six degrees of separation“, og samkvæmt henni ætti að vera einhver sem þekkir okkur sem þekkir einhvern sem þekkir Michelle svo við ákváðum að gefa þessu séns og láta reyna á þessa kenningu.“

Rúna og Nick póstuðu myndbandinu á þriðjudaginn, en hafa enn ekki fengið viðbrögð frá Michelle. Rúna segist þó ekki vera búin að gefa upp vonina. „Það má alveg segja að í hvert sinn sem einhver deilir myndbandinu á samfélagsmiðlum þá opnist ný leið til að ná til hennar. Svo við sjáum bara til. Kannski svarar hún, kannski ekki.“

Spurð hvaða félagsskapur The Change Makers sé segir Rúna það vera hóp af fólki víðsvegar um heim sem hafi sameinast um það að hvetja fólk til að stíga út fyrir boxin sem samfélagið setji fólk stöðugt í. Bókin sem hún og Nick voru að skrifa fjalli einmitt um það hvernig þessi box hamli okkur sem manneskjum.
„No more Boxes hreyfingin sprettur af því að við í The Change Makers vorum beðin um að taka þátt í pallborðsumræðum hjá Sameinuðu þjóðunum í mars síðastliðnum. Þar var okkar hlutverk að ræða hvað hægt væri að gera til að ná þessum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030. Þessi markmið lúta að sjálfbærni, jafnrétti kynjanna og þar fram eftir götunum. Niðurstaða okkar var sú að það sem fyrst og fremst hamlaði allri þróun væri þessi eilífa árátta okkar mannfólksins að setja okkur sjálf og alla aðra í fyrirframákveðin box, hvort sem það snýr að kyni, kynþætti, bakgrunni, trúarbrögðum eða einhverju öðru. Það er alltaf verið að troða fólki í einhver box og afleiðingin er sú að við nýtum einungis brotabrot af þeim hæfileikum, möguleikum og eiginleikum sem hver manneskja kemur með á þessa jörð. Það bara gengur ekki lengur. Þannig að við ákváðum að vekja fólk til umhugsunar um þessar hömlur sem við setjum á okkur og hvert annað og vekja fólk til vitundar um það hvað það getur gert til þess að sú breyting sem við viljum sjá í heiminum í dag geti átt sér stað,“ segir Rúna og það er ljóst að þetta málefni er henni hjartans mál.

Þú getur lagt þitt að mörkum við að hjálpa Rúnu og Nick að ná sambandi við forsetafrúna með því að kíkja á myndbandið og ekki sakar að endurpósta því á samfélagsmiðlunum. Því eins og Rúna segir; það er aldrei að vita nema athygli Michelle vakni ef nógu margir pósta því.

Þeir sem vilja fylgjast með því hvernig Rúnu og Nick gengur að ná sambandi við frúna, eða bara kynna sér hvað þau eru að gera geta svo kíkt á síðuna þeirra.

https://www.nomoreboxesmovement.com/

Karlar sem finnst þeim ógnað beita kynferðislegri áreitni

Í nýju tölublaði Mannlífs er fjallað um veggina sem konur lenda á þegar þær kvarta undan kynferðislegu áreiti á vinnustað.

 

Margrét Erla Maack, sem hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman, hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, segir mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti.

Margréti og Sonju kemur ekki á óvart hvernig stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa tekið á kynferðislegri áreitni innan fyrirtæksins. Þær segja að í kjölfar #metoo byltingarinnar séu þess dæmi að ástandið hafi sums staðar versnað og áreitnin aukist. Á sumum vinnustöðum nýti tilteknir karlar umræðuna til að gera enn minna úr konum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana. Margrét Erla og Sonja Ýr eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Erlendir bankar tapa milljörðum

Þegar fótspor Árna og Róberts komu í ljós hafði Björgólfur Thor þetta að segja:„Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóða stefnt í voða. Lægra verður varla lagst."

10 árum eftir að Landsbankinn féll hefur skiptum á eignarhaldsfélaginu Samson, aðaleiganda bankans, verið lokið. Samson var fjárfestingafélag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum við umdeilda einkavæðingu hans árið 2002. Björgólfur Thorog tengdir aðilir voru um langt skeið stærstu lántakar bankans.

Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu 77,4 milljörðum kóna, en ekki fengust nema 6,5 milljarðar upp í þær, eða sem nemur 8,6%. Samson var lýst gjaldþrota þann 12. nóvember 2008.

Að því er Stundin greinir frá eru það fyrst og fremst fjármálastofnanir sem tapa á gjaldþroti Samson. Þannig tapaði hinn suður-afríski Standard Bank 12,8 milljörðum króna og hinn þýski Commerzbank 23,8 milljörðum. Þá voru kröfur Glitnis 9 milljarðar króna og gamla Landsbankans 5 milljarðar.

Segja má að skiptalok á Samson séu einn síðasti anginn í uppgjöri Björgólfs Thors við fjármálahrunið 2008. Björgólfsfeðgar voru fyrir hrun meðal helstu burðarása í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun og áttu stóra hluti í félögum og Eimskip, Straumi-Burðarási, Gretti fjárfestingafélagi svo og Landsbankanum.

Öll þessi félög urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu miklum fjárhæðum og hluthafar Landsbankans og Straums Fjárfestingabanka töpuðu öllu sínu hlutafé en tugir þúsunda Íslendinga voru hluthafar í umræddum félögum Björgólfur eldri lýsti sig gjaldþrota árið 2009 og var það eitt stærsta persónlega gjaldþrot Evrópu á sínum tíma. Alls var lýst kröfum upp á 85 milljarða króna í bú Björgólfs eldri, en kröfuhafar fengu aðeins 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur eða 0.04%. Staða Björgólfs Thors var öllu flóknari og tók nokkur ár að vinna úr skuldum hans. Sjálfur lýsti hann því að persónulegt tjón hans vegna hruns bankakerfisins hafi numið nærri 100 milljörðum króna. Ætla má að fjárhagslegt tap annarra hluthafa og kröfuhafa í skráðum félögum í hans eigu, þ.m.t. Landsbanki Íslands, Eimskipafélag Íslands og Straumi Fjárfestingabanka hafi numið hundruðum milljarða króna. Skuldir félaga honum tengdum voru margfalt hærri en nú, 10 árum síðar, er Björgólfur Thor aftur kominn í hóp ríkustu manna heims og hafa tugi milljarða afskriftir félaga í hans eigu ekki bein áhrif á hann.

Hátt fall og upprisa

Árið 2007 ákveður Björgólfur Thor að kaupa út alla hluthafa lyfjafyrirtækisins Actavis og fékk til þess 4 milljarða evra lán frá Deutsche Bank. Lánið stóð í 5,8 milljörðum kóna árið 2009 en fall íslenska fjármálakerfisins þýddi að Björgólfur Thor var kominn í afar þrönga stöðu. Við tók afar flókin skuldaúrlausn því ekki eingöngu var fjárhagsleg framtíð Björgólfs Thors í húfi, heldur hefði þýski bankinn tapað milljörðum evra ef Actavis hefði orðið ógjaldfært. Niðurstaðan varð sú að Deutsche Bank tók Actavis yfir samhliða því sem unnið var að skuldauppgjöri við þýska bankann. Í apríl 2012 var svo tilkynnt að lyfjafyrirtækið Watson hefði eignast Actavis og átti það stóran þátt í skuldauppgjöri Björgólfs við Deutsche Bank.

„Allar skuldir greiddar“

Það er svo í ágúst 2014 sem Björgólfur Thor sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir að skuldauppgjöri hans og Novators, fjárfestingafélags hans, sé að fullu lokið. Alls hafi hann greitt 1.200 milljarða króna til lánardrottna, þar af 100 milljarða til íslenskra banka og dótturfélaga þeirra. Í þessu ferli hafi nánast allt verið sett að veði, svo sem húseignir hans í Reykjavík og á Þingvöllum hans, einkaþotan og snekkjan.

„Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma,“ sagði Björgólfur Thor í yfirlýsingu sem gefin var út á þeim tíma. „Til að svo mætti verða þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“ Fjárhagslegar afskriftir félaga í hans eigu virðast haldið utan við þetta „heildaruppgjör“ Björgólfs Thors líkt og 70 milljarða króna afskrift kröfuhafa Samson sýnir.

Óhætt er að segja að síðan þá hafi hagur Bjögólfs Thors vænkast. Hann hefur hagnast á hlutum sínum í lyfjageiranum, virði pólska fjarskiptafyrirtækisins Play hefur aukist mjög og á dögunum var tilkynnt að Novator muni hagnast um allt að 20 milljarða króna við sölu á tölvuleikjaframleiðandanum CCP til suður-kóreska fyritækisins Pearl Abbys.

Umsvif Björgólfs Thors á Íslandi eru jafnframt þónokkur. Þannig er hann eða félög honum tengd með eignarhluti í gagnaveri Verne Global og verktakafyrirtækinu Arnarhvoli ehf. Þá hefur auðmaðurinn verið orðaður við Grósku hugmyndahús, Ásbrú ehf., flugfélagið Wow air ehf. og lánveitingar til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV, svo fáein dæmi sé nefnd.

Björgólfur Thor er aftur kominn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Tímaritið metur eignir hans á 1,8 milljarða dollara og segir þar að hann sé eini milljarðamæringur Íslands (í dollurum talið). Björgólfur Thor er skráður með lögheimili sitt í Bretlandi.

Hársnyrting og góður dreitill að hætti villta vestursins

Á Laugaveginum er að finna einstaklega frumlega og skemmtilega hársnyrtistofu sem hefur vakið athygli fyrir að vera svo miklu meira en hársnyrtistofa. Stíllinn á stofunni minnir óneitanlega á villta vestrið og aðkoman heillar.

Hjónin Jón A. Sveinsson meistari í hársnyrtiiðn, ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrún Elísabet Ómarsdóttir heildsali.

Okkur lék forvitni að vita nánar hvers konar hársnyrtistofa Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon er og hvað hún hefur upp á að bjóða. Við hittum eigendur hársnyrtistofunnar margbrotnu, hjónin Jón A. Sveinsson, meistara í hársnyrtiiðn, og er ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrúnu Elísabetu Ómarsdóttur heildsala, en hún er kölluð Beta, og fræddust við frekar um tilurð fyrirtækisins og hugmyndafræðina bak við stofuna.

Nonni er fæddur og uppalinn í faginu og fór að læra háriðn árið 1993 og opnaði Quest í apríl 1999. Beta var að vinna í snyrtivörugeiranum þar til þau tóku við stofu foreldra Nonna árið 2007. Hjónin eru að eigin sögn bæði miklir sælkerar og njóta þess að ferðast, hlusta, skoða, neyta og njóta saman.

Segið okkur aðeins frá hugmyndinni bak við Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon og tilurð? „Hugmyndin varð bara til og er í raun enn að verða til. Við erum alltaf saman og eiginlega alltaf í vinnunni og stofan í raun sameiginlegt áhugamál okkar. Okkur datt í hug að gera bara allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það undir sama þakið.“

Hvernig mynduð þið lýsa hársnyrtistofunni í einni málsgrein? „Góð tónlist, ljúffengir drykkir, skemmtilegt fólk og þægilegt andrúmsloft.“

Á hársnyrtistofan sér fyrirmynd úti í heimi? „Nei, í rauninni ekki. Það var engin ein stofa sem við höfðum í huga. Þetta bara gerðist mjög lífrænt. Gamlar bækur og bíómyndir um sögu rakarans eru okkar helstu fyrirmyndir.“

Hársnyrting og viskíbar er skemmtileg samsetning og minnir á villta vestrið. Stofan hlýtur að vera vinsæl meðal viðskiptavina og laða þá að. Eru ekki margir fastakúnnar sem njóta þess að láta dekra við sig og fá smávegis viskídreitil? „Jú, svo sannarlega. Þetta smellpassar saman. Fólk kemur og nærir sig að innan og utan. Seinnipartstímar dagsins eru orðnir ansi fljótir að fyllast og menn eru yfirleitt með tímana sína fastbókaða langt fram í tímann og reyna oft að koma með vinum sínum og halda fundi,“ segir Nonni og brosir.

Við höfum heyrt að þið bjóðið einnig upp á smakkanir sem hafa notið mikilla vinsælla. Frumleikinn er við völd og þið hafið verið með ýmsar samsetningar. Okkur langar að heyra aðeins meira af því. „Við erum sérlegt áhugafólk um lífsins lystisemdir, til að mynda mat og vín. Við höfum sankað að okkur yndislega ljúffengu og spennandi úrvali af viskíi sem okkur fannst við verða að deila með öðrum. Þannig að við settum saman nokkrar smakkferðir þar sem við höfum tekið saman, til dæmis nokkur viskí sem okkur finnst lýsa vel þeirri miklu flóru sem bragðheimur viskís hefur upp á að bjóða. Einnig höfum við verið að para saman viskí og bjór og það kemur ótrúlega skemmtilega á óvart. Við höfum stúderað aðeins sögu kokteilsins og hvernig hugsanlega fyrstu viskíkokteilarnir hafi smakkast.“

Þið hafið boðið upp á fjölmarga viðburði af ýmsu tagi, getur þú sagt okkur aðeins frá því konsepti? „Við höfum haldið listsýningar, verið með ljóðaupplestur, einkapartí og mikið af tónleikum. Við erum til dæmis búin að vera Off-Venue á Airwaves þrjú ár í röð og svo fengum við að hýsa tónleikaröð Sofar Sound í eitt skipti sem var frábært. Okkur finnst alveg nauðsynlegt að brjóta upp daglegu rútínuna svona endrum og sinnum.“

Hvar getur fólk fylgst með því sem er í boði hjá ykkur að hverju sinni? „Við reynum að vera dugleg á samfélagsmiðlum, t.d. er www.questsaloon.is síðan okkar á Facebook og þar er hægt að fylgjast með og senda okkur fyrirspurnir. Svo erum við á Instagram, VK og Twitter sem #questsaloon eða #nonniquest.“

Einnig er hægt að kaupa ýmsan varning hjá ykkur, ýmis konar hársnyrtivörur og fylgihluti, ekki satt? „Við erum líka með heildsölu á hárlitum og hárefnum frá Goldwell, DENMAN og KMS California sem við seljum á aðrar stofur og einnig til viðskiptavina okkar. Á barnum/afgreiðslunni er skemmtilega fjölbreytt flóra af hárefnum, skeggvörum, burstum, bjór, viskíi og ýmsu öðru skemmtilegu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Mini. 

 

Vitum við eitthvað um ójöfnuð?

Konráð S. Guðjónsson.

Lífið væri talsvert auðveldara ef hið rétta væri alltaf augljóst og aldrei án togstreitu milli ýmissa þátta. Þannig myndi Facebook eflaust loga mun sjaldnar, stjórnmál fengju minni athygli og margir fræðimenn myndu missa vinnuna svo fátt eitt sé nefnt. Við gætum sett tærnar upp í loftið og leyft litlausu lífinu að líða áfram.

Efnahagslegur ójöfnuður og túlkun á þróun, umfangi og áhrifum hans kemur upp í hugann í þessu samhengi. Það vill væntanlega enginn að allir þénuðu og ættu jafnmikið. Til hvers að taka áhættu og leggja sig almennt fram ef svo er í pottinn búið? Líklega yrði lítið eftir til skiptanna. Það vill heldur enginn að fáir fái notið alls þess sem líf í auðugu landi hefur upp á að bjóða. Sannleikurinn liggur einhvers staðar á milli og til að finna hann er fyrsta spurningin: Vitum við hvernig ójöfnuður þróast?

Svarið fer eftir því hvern þú spyrð. Mjög oft heyrist að ójöfnuður fari vaxandi. Sé því mótmælt, t.d. ef tekjur þeirra tekjulægstu hækka um fleiri prósentustig en annarra, heyrist að enginn lifi á prósentum eða að krónutöluhækkanir tekna séu meiri hjá þeim tekjuhærri, svo að ójöfnuður sé að aukast.

Játning: Ég lifi á prósentum

Þó að enginn lifi tæknilega séð á prósentum, þá er það engu að síður þannig að ef kaupmáttur einhvers eykst um 10% getur viðkomandi keypt 10% meira af öllu því sem hann eða hún keypti áður. Krónutöluhækkanir eru vissulega meiri hjá þeim sem eiga meira eða hafa meiri tekjur og slíkur samanburður getur verið gagnlegur. En ólíkt því sem oft er haldið fram er rangt að ójöfnuður aukist við það eitt að þeir tekjuhæstu fái meiri hækkun í krónum talið.

Tökum dæmi: Jón er með 300 þús. kr. á mánuði og Gunna er með 900 þús. kr. Segjum að Jón hækki um 10% í tekjum á ári en Gunna um 5%. Gunna hækkar fyrst meira í krónum talið en á endanum þurrkast bilið út og eftir 24 ár er Jón kominn með hærri tekjur en Gunna og ójöfnuðurinn nær horfinn. Hægt er að gera ótal útfærslur af þessu dæmi en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er því stærðfræðileg staðreynd að jöfnuður eykst, ef hlutur þeirra í lægstu þrepunum vex hlutfallslega hraðar en þeirra í efri þrepunum. Um þetta er ekki hægt að deila.

Hvað með ójöfnuð á Íslandi?

Tekjujöfnuður á Íslandi mældist árið 2016 sá mesti í Evrópu (miðað við GINI-stuðulinn). Fyrir utan fjármálakreppuna og aðdraganda hennar hefur jöfnuður haldist stöðugur og var árið 2016 sá nákvæmlega sami og 2004. Nýjustu tölur um tekjur einstaklinga árið 2017 benda svo eindregið til þess að tekjujöfnuður hafi aukist, einmitt þar sem lægstu tekjuhóparnir hækkuðu áberandi mest.

Eignaójöfnuð er erfiðara að fullyrða um einkum þar sem gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð). Þrátt fyrir þessa annmarka heyrist oft margt fullyrt um eignaójöfnuð, þar með talið að eignaójöfnuður fari vaxandi. Ekki einu sinni þau gögn sem liggja fyrir styðja þá fullyrðingu. Hlutdeild efstu 5%, 1% og 0,1% í eigin fé landsmanna hefur í öllum tilvikum lækkað hvert einasta ár frá 2010 til 2016. Það þýðir að virði hreinna eigna þeirra hefur vaxið hægar en annarra, sem bendir til þess að eignajöfnuður fari vaxandi.

Röng sjúkdómsgreining – rangar lausnir

Vaxandi ójöfnuði er stundum kennt um ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Það er þó eilítið eins og að setja plástur á sár sem er gróið að ráðast í aðgerðir gegn ójöfnuði þegar hann er einmitt að minnka frekar en aukast. Það sem jafnvel er verra er að slíkar aðgerðir geta gert alla landsmenn jafnari gagnvart heiminum, eða með öðrum orðum, fátækari.

Heimildir:

https://www.althingi.is/altext/148/s/0041.html

http://appsso.eurostat.ec.europa.eu/nui/show.do?dataset=ilc_di12

http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__3_tekjur__2_tekjur_silc/LIF01110.px/

https://vi.is/malefnastarf/utgafa/stadreyndir/tekjujofnudur-stadreynd/

Konráð S. Guðjónsson er hagfræðingur Viðskiptaráðs. Greinin birtist fyrst í Mannlífi 21. september, 2018.

Karlmenn veigra sér við að leita aðstoðar

Mynd/Pixabay

Í umræðu um átröskun hefur athyglin fyrst og fremst beinst að konum en í umfjöllun í nýjasta hefti Læknablaðsins er rætt við Guðlaugu Þorsteinsdóttur geðlækni sem segist telja að átröskun sé algengari meðal karla en tölur segja til um þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en konur. María Þóra Þorgeirsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri í átröskunarteymi Landspítalans, tekur undir þessi orð Guðlaugar. „Það er sú tilfinning sem við höfum að átröskun sem lýsir sér í togstreitu gagnvart mat og eigin líkama, sé vangreindur vandi hjá karlmönnum. Það er ákveðið stigma hjá körlum því fólk tengir átröskunarvanda fyrst og fremst við konur og það skilar sér í því að karlar þora ekki eða átta sig ekki á því að þeir eigi mögulega við átröskunarvanda að stríða,“ segir María.

 

Getur birst í vöðvafíkn

Hjá körlum getur átröskun tengst svokallaðri líkamsskynjunarröskun, en í slíkum tilfellum upplifir fólk líkama sinn ekki eins og hann er. Þetta getur meðal annars birst í vöðvafíkn. „Þá átta menn sig ekki á því hvað þeir eru í raun og veru orðnir stórir, og geta ekki hætt að lyfta lóðum og stjórna mataræði á óheilbrigðan hátt til að breyta líkama sínum. Svo er það hinn hópurinn sem er ekki að reyna að auka við vöðva en flakkar talsvert  í þyngd og á í mikilli tilfinningalegri togstreitu gagnvart mat.“

Rétt eins og hjá konunum segir María Þóra að karlar verði fyrir áhrifum frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þar birtist ákveðnar glansmyndir af því hvernig karlar eiga að líta út og engin ástæða sé til þess að þessar glansmyndir hafa minni áhrif á karla en konur.

 

Íþróttafólk í áhættuhópi

Einnig hefur verið sýnt fram á samspil íþrótta og átröskunar en nýleg íslensk rannsókn leiddi í ljós að íþróttafólk er í sérstökum áhættuhópi við að fá átröskunarsjúkdóma. Þannig höfðu 25% kvenna neikvæða líkamsímynd og átröskunareinkenni og 14% karla. Gunnhildur Gunnarsdóttir, sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild, kannast við tilfelli þar sem ofþjálfun og átröskun haldast í hendur. „Við vitum að unglingar sem stunda mikla líkamsrækt fá stundum misgáfuleg ráð frá þjálfurum.“

Í ofangreindu viðtali við Guðlaugu er sérstaklega komið inn á neyslu orkudrykkja og fæðubótarefna og hún leggur mikla áherslu á að neysla slíkra efna geti aldrei komið í stað matar. Þetta eigi sérstaklega við um börn. „Orkudrykkir og fæðubótarefni eru of einhæf orkuinntaka og geta haft slæm áhrif á þroska barna og unglinga. Fyrir fullorðna einstaklinga er mikilvægt að átta sig á því að orkudrykkir og fæðubótarefni geta aldrei komið í staðinn fyrir mat. Það er ekki hægt að lifa á slíku.“

Gerendur hafa tvíeflst við #metoo

||||
||||

Eftir alla umræðuna í kjölfar #metoo-byltingarinnar á síðasta ári kemur mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON eins og kjaftshögg. Hefur þá ekkert breyst? Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Margrét Erla Maack skemmtikraftur segja málið dæmigert. Þess séu jafnvel dæmi að karlar hafi tvíeflst í áreitninni eftir #metoo-byltinguna.

„Nei, því miður, það kemur ekkert á óvart í þessu máli,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON. „Mín reynsla af þessum málum, í gegnum einstaklinga sem hafa leitað til okkar hjá BSRB, er að mjög algengt er að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti. Rannsóknir sýna að það eru margir sem ákveða að stíga ekki fram vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að það verði brugðist við með viðeigandi hætti.“
Spurð hversu algengt þetta vandamál sé, hvernig mál BSRB fái til dæmis til umfjöllunar, segir Sonja að þau séu ekkert mjög mörg, hvorki hjá BSRB né öðrum samtökum á vinnumarkaði, og ástæðan sé meðal annars sú að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað eftir aðstoð.
„Þannig að áhersla #metoo-samstarfsnefndar 16 samtaka og stofnana, sem stofnuð var af BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagi Íslands og FKA, er meðal annars á að gera upplýsingar aðgengilegrium hvert sé hægt að sækja sér aðstoð og stuðning. Til dæmis með opnun vefsíðu þar sem allar upplýsingar um ferlið koma fram.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, segir mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti..

Fjórir gerendur, engin viðbrögð
Beðin um að nefna dæmi um mál sem hafa komið á hennar borð er Sonja skjót til svars. „Það leitaði til mín kona sem hafði birt frásögn sína hjá #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur, þar sem hún lýsti kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum. Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt. Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka. Eftir að hún leitaði til okkar tók við margra mánaða tímabil þar sem við reyndum að ná fram einhverjum breytingum hjá fyrirtækinu, en ekkert gerðist. Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni.“
Sonja segir þetta eitt af verstu málum sem hún hafi fengið til umfjöllunar, einkum vegna fjölda gerendanna, en það séu vissulega alls konar mál sem komi fram. „Allt frá nauðgun á vinnustaðstengdum viðburði yfir í kynbundnu áreitnina sem er þá meira svona karlremba þar sem karlmenn viðhalda valdastöðu sinni á vinnustaðnum með því að grafa undan konunum.“

Dæmi um að karlar hafi tvíeflst eftir #metoo
Hefur ástandið þá ekkert lagast eftir #metoo-umræðuna? „Það voru vissulega okkar væntingar,“ segir Sonja. „En ég upplifi það ekki af þeim málum sem hafa verið að koma til umfjöllunar undanfarið. Upplifunin er sú að stjórnendur vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, þekkja ekki reglurnar nægilega vel og svo er þetta að vissu leyti þverfaglegt ferli. Það þarf líka að skilja sálfræðilegu og andlegu afleiðingarnar á þolandann til að réttum aðferðum sé beitt. Það kemur til dæmis fram í reglugerðum sem eiga að gilda um þetta að alltaf eigi að ræða við einn aðila í einu, en það eru fjölmörg dæmi um það að atvinnurekendur taki það feilspor að kalla bæði þolandann og gerandann saman á fund og ætla að fara að ræða málið. Það virkar eðlilega ekki.“

Sumir hafa haft á orði að ástandið hafi að mörgu leyti versnað eftir #metoo-byltinguna. Nú fóðri menn áreitnina með því að það sé fyndið að áreita „kellingarnar“ fyrir þetta „#metoo-kjaftæði“. Sonja segir að dæmi séu um það.„Það er auðvitað mjög mismunandi menning á vinnustöðum,“ segir hún. „En eins og í dæmi Orkuveitunnar þá erum við að tala um fyrirtæki sem hefur lagt mikla vinnu í jafnréttismálin og er jafnvel fyrirmynd annarra fyrirtækja í þeim efnum, en það skilar sér greinilega ekki. Á öðrum vinnustöðum eru dæmi um að karlarnir sem þar vinna hefi tvíeflst og nýtt #metoo-umræðuna til þess að gera meira grín og meira lítið úr konunum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana.“

Beðin um dæmi um slíkan vinnustað segir Sonja að þau séu fjölmörg, en hún muni sérstaklega eftir einu tilviki. „Það sem við þurfum virkilega að taka inn í þessa vitundarvakningu er staða kvenna af erlendum uppruna,“ segir hún. „Eitt dæmi um vinnustað þar sem menn hafa tvíeflst er staður þar sem kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en flestar konurnar eru af erlendum uppruna. Þar varð áreitnin meiri eftir #metoo-byltinguna og allt gert til að grafa undan konunum og brjóta þær markvisst niður.“

Margrét Erla og Sonja Ýr hafa báðar lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Helmingur fyrirtækja hefur ekki jafnlaunastefnu
Hvað telur Sonja að sé hægt að gera til að raunveruleg breyting eigi sér stað?

„Þessar reglur sem ég var að vísa í áðan segja að atvinnurekendur eigi annars vegar að gera áhættumat, meta hættuna á því að fólk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi í vinnunni, og gera í framhaldi af því áætlun um forvarnir og viðbrögð. Í rannsókn sem var gerð í vor á hundrað stærstu vinnustöðum landsins til að kanna hvort #metoo-umræðan hefði haft áhrif á vinnustaðamenningu þeirra, sýndu niðurstöðurnar að rúmlega fjórðungur af þessum stærstu vinnustöðum höfðu ekki framkvæmt áhættumat og tólf prósent höfðu ekki unnið áætlun um forvarnir eins og þeim er skylt að gera. Helmingur fyrirtækjanna hafði enga jafnlaunastefnu og tólf prósent ekki jafnréttisstefnu, sem lög segja fyrir um að verði að vera á öllum vinnustöðum þar sem starfa 25 manns eða fleiri. Það eru sem sagt alls ekki allir vinnustaðir sem hafa tekið umræðuna til sín. Fyrsta skrefið er auðvitað að taka umræðuna um hvernig hegðun fólk vill hafa á vinnustaðnum og hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Það þarf að senda skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið og um leið skilaboð um hvert fólk getur leitað. Það þarf að búa til þannig andrúmsloft á vinnustaðnum að fólk treysti sér til þess að stíga fram. Þegar koma upp svona mál eins og hjá Orkuveitunni og starfsfólkið upplifir það að þolandinn er látinn fara þýðir það auðvitað að fólk óttast að segja frá, fólk vill passa upp á sitt eigið starf. Þannig að þessi viðbrögð eru í raun þöggunartækni.“

Ég spyr Sonju hvort hún hafi sjálf lent í áreitni á vinnustað og viðbrögðin eru dæmigerð. „Nei,“ segir hún strax en bætir svo við eftir stutta umhugsun. „Jú, jú, ég hef lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað, bullið í mér. Það hafa allir lent í þessu en fólk grefur það bara og heldur áfram í staðinn fyrir að það sé nokkuð gert í því. Á einum vinnustaðnum sagði ég upp út af þessu, enda hafði ég ekki hugmynd um að það væri hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu í svona málum.“

Spurð hvort hún hafi það á tilfinningunni að afgreiðsla þessara mála sé eitthvað að þokast í rétta átt dregur Sonja við sig svarið.
„Það er meira mín tilfinning að núna sé samstaðan meiri og fólk upplifi að það er ekki eitt í þessu. Krafturinn í þessari byltingu hjálpar fólki að hætta að gera lítið úr þeim atvikum sem það lendir í. Og það sem ég er líka að vona, og hef fundið fyrir, er að fólk hjálpast meira að. Samkenndin í þessum málum hefur aukist og það er stuðningur inni á vinnustaðnum fyrir þá sem hafa lent í einhverju og fólk er duglegra við að benda strax á ef eitthvað fer úrskeiðis þótt það verði ekki fyrir áreitninni sjálft. Og það á við bæði um karla og konur. Þannig að já, þetta er eitthvað að þokast. En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

Margrét Erla Maack hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa.

„Var hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair“
Margrét Erla Maack, er sama sinnis og Sonja, hún segir að málið komið ofboðslega lítið á óvart, þegar hún er spurð um álit á viðbrögðum ON við kvörtunum Áslaugar Thelmu Einarsdóttur um kynferðislega áreitni framkvæmdastjórans Bjarna Más Júlíussonar. „Það er hún sem er vandamálið. Hún á að halda kjafti. Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir hún.Margrét Erla viðurkennir þó að hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig þetta mál var höndlað.

„Maður heldur alltaf að þetta sé búið,“ andvarpar hún. „Sérstaklega í ljósi þeirra byltinga sem hafa orðið undanfarin ár. Maður heldur alltaf þegar svona fréttir koma upp að þetta hljóti að vera síðasta konan sem lendir í þessu.“

Margrét Erla hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. „Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“

Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.

„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist.“

#metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni
Margrét Erla segir þessa reynslu fyrir tólf árum langt frá því einsdæmi, það sé nánast undantekningalaust einhver dónakall á þeim skemmtunum þar sem hún kemur fram sem líti á það sem sjálfsagt mál að áreita hana kynferðislega. „Síðasta stóra uppákoman sem ég lenti í var á árshátíð hjá stóru opinberu fyrirtæki í orkugeiranum þar sem einn maður lét mig bara ekki vera. Ég benti honum á að ég væri að vinna vinnuna mína og hann ætti að láta mig í friði en það þýddi ekkert. Hann spurði hvort hann mætti klípa mig í rassinn og lét sér ekki segjast þótt ég neitaði. Þannig að ég talaði við skemmtinefndina og vinkonu mína sem er háttsett innan fyrirtækisins sem talaði við manninn og hann kom voða lúpulegur og baðst afsökunar, en hélt því fram að þetta væri ekkert alvarlegt af því að hann hefði spurt um leyfi og að honum hefði bara fundist þetta fyndið út af „þessu #metoo“. Þá gekk hann alveg fram af mér. Honum, og mörgum fleirum, finnst sem sagt #metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni og kalla það brandara.“

Strax daginn eftir hafði Margrét Erla samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins og fékk standard svar um að þetta færi í ferli og síðan yrði heyrt í henni frekar. Síðan gerðist ekkert fleira og mánuði síðar skrifaði hún pistil um uppákomuna í Kjarnann og þá loks fékk hún viðbrögð frá fyrirtækinu. Var kölluð í viðtal og fór síðan í gegnum stefnumótun með forsvarsmönnum fyrirtækisins um að setja skýrar reglur um svona framkomu. „Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þótt áreitnin fari ekki fram á vinnustað á vinnutíma þá gilda sömu reglur um framkomu við samstarfsfólk á samkomum á vegum fyrirtækisins eins og innan veggja vinnustaðarins.“

Margrét segir fyrirtækið sem um ræðir að mörgu leyti sambærilegt við OR og að þar hafi ráðið ríkjum jakkafataklæddir menn alveg fram á síðustu ár, það sé tiltölulega nýskeð að konur komist til áhrifa innan þessara fyrirtækja og karlarnir reyni með öllum ráðum að verja sitt yfirráðasvæði.

„Þetta eru litlir kallar sem er ógnað og eru að reyna að púffa sig upp og sýna hvers þeir eru megnugir,“ segir hún. „Í starfi mínu sem plötusnúður finn ég vel fyrir þessari áráttu karlmanna sem hafa verið einráðir á sínu sviði allt of lengi til að gera lítið úr konum sem koma inn á sviðið. Þeir byrja alltaf á að benda á að það séu nú ekki margar konur í þessari stöðu og halda svo áfram að reyna að draga mann niður svo þeim líði betur.“

Margrét Erla Maack og Sonja Ýr Þorbergsdóttir segja að í kjölfar #metoo hafi ástandið sums staðar versnað og áreitnin aukist. Sonja telur þó að málin séu eitthvað að þokast í rétta átt. „En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

„Æ, já, hann er alltaf svona“
Það sem Margréti Erlu finnst einna ógnvænlegast er að það virðist sem allir viti af þessari framkomu ákveðinna manna, en það sé bara horft fram hjá því.

„Í hvert einasta skipti sem ég hef kvartað hef ég fengið svarið: „Æ, já, hann er alltaf svona.“ Samt er þessari týpu alltaf boðið í öll samkvæmi á vegum fyrirtækisins. Ég hef meira að segja verið í veislu hjá háttsettu fólki í þjóðfélaginu, þar sem maður var látinn skrifa undir trúnaðarsamning um að segja ekki frá, þar sem eiginmaður einnar konunnar sem vann þarna var þekktur fyrir að vera ógeðslegur og það voru vaktir hjá konunum í veislunni við að passa hver aðra fyrir honum. Þannig að í staðinn fyrir að bjóða honum ekki voru allir á fullu að kóa með þessari framkomu. Það var svakaleg upplifun.“

Margrét Erla segir þessa þöggun og meðvirkni vera stærsta hjallann sem þurfi að yfirstíga til að einhver breyting verði á meðhöndlun slíkra mála.

„Það þarf að vera skýrt verklag innan fyrirtækja um það hvernig eigi að taka á slíkum brotum,“ segir hún. „Það er allt of algengt að konur þori ekki að kvarta yfir áreitninni af ótta við að missa vinnuna og vera álitnar „sú týpa“. Það þýðir ekkert að skrifa í jafnréttisáætlun að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin ef það fylgir engin útlistun á því hvernig eigi að bregðast við þegar hún kemur upp. Hvað þýðir það að einhver framkoma sé ekki liðin? Á bara að skamma fólk og láta svo eins og ekkert hafi gerst? Það verða að vera skýrt markaðar afleiðingar af svona brotum. Pabbi minn hefur unnið mikið við meðferð fíknisjúklinga og hann hefur bent mér á að það sem margir karlmenn byggi sjálfsvirðingu sína á sé vinnan. Þótt konan fari frá þeim og börnin hætti að tala við þá gera þeir ekkert í sínum málum, en ef þeir missa vinnuna fara þeir að taka á vandanum. Þannig að ég held að eina leiðin til þess að menn fari að taka þetta alvarlega sé að það sé í alvörunni ekki liðið á vinnustaðnum.“

Spurð hvort henni finnist ástandið ekkert hafa skánað við #metoo-byltinguna segir Margrét Erla að það séu tvær hliðar á því máli. „#metoo hefur auðvitað gefið fólki rödd,“ segir hún hugsi. „Núna er fólk tilbúið að tala um þetta vandamál. En mér finnst viðhorfið dálítið vera það að fólki sé hrósað fyrir að stíga fram og segja frá, en svo sé ekki farið neitt lengra með málið. Það sé litið svo á að með því að hvetja fólk til að tala sé málinu lokið.“

Skikka þarf gerendur í sálfræðitíma
Í máli Áslaugar Thelmu gagnvart OR hefur þó komist hreyfing á málin og hver framkvæmdastjórinn af öðrum fallið. Hjálpar það ekkert?

„Mig langar að trúa því,“ segir Margrét Erla og andvarpar. „En það ömurlega er að þegar svona gerist þá fer allt ferlið að verða loðnara. Það fara að koma fram meiri hótanir þannig að málin verða umdeildari, sem fyllir mann vonleysi. Ég þurfti til dæmis að leita lengi á fjölmiðlunum til að finna nafnið á framkvæmdastjóranum sem áreitti Áslaugu Thelmu. Áherslan í fréttaflutningnum var öll á henni og manninum hennar. Við erum einhvern veginn miklu meira tilbúin að nafngreina þolandann en gerandann. Hún er alltaf bara „þessi týpa“ sem er með vesen, í staðinn fyrir að áherslan sé á að benda á að gerandinn sé ógeðskall.“

Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að viðhorfið breytist?

„Ef ég væri dónakall gæti ég svarað því,“ segir Margrét Erla og hlær kalt. „Þá gæti ég sagt þér hvað ég væri hrædd við ef það kæmist upp um mig í svona máli. En það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta er alvöruvandamál, viðurkenna að rótin að þessari framkomu er að körlum finnst þeim ógnað og að þeir eru litlir í sér. Þannig að ég segi að fyrsta mál á dagskrá þegar svona kemur upp sé að skikka gerandann í sálfræðitíma eða áfengismeðferð. Skikka hann til að horfa inn á við. Það er nefnilega svo algengt viðhorf hjá karlmönnum að það sé skortur á karlmennsku að leita sér hjálpar. Og ef það dugar ekki til að menn taki sig á séu þeir bara reknir. Það verður að vera algjörlega kristalsskýr aðgerðaáætlun til að taka á svona málum innan fyrirtækja. Við verðum að hætta þessari meðvirkni. Núna!”

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Video – upptaka og leikstjórn / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Fagnar doktorsvörn með dragi

Thomas Brorsen Smidt bregður sér í hlutverk dragdrottningarinnar Jackie Moon í tilefni af háskólaútskrift.

„Við höfum engar áhyggjur af því að vanalegu gestunum okkar verði á einhvern hátt misboðið, þeir munu pottþétt skemmta sér. Ég er miklu stressaðri yfir því hvað foreldrum mínum, tengdaforeldrum og öllum fræðimönnunum á eftir að finnast. Vonandi fá þau ekki algjört sjokk,“ segir Thomas Brorsen Smidt, um sýninguna Jackie Moon’s Graduation Show, sem hann stendur fyrir á Gauknum í kvöld klukkan níu.

Viðburðurinn er svolítið óvenjulegur því hér er á ferð drag-sýning sem er haldin í tilefni af doktorsvörn Thomasar í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hvernig kom það eiginlega til? „Sko, í stuttu máli snýst ritgerðin mín um hversu erfitt er að innleiða jafnréttisreglur innan veggja akademíunnar, tiltölulega þurrt viðfangsefni sem á ekkert skylt við drag. Bara ekki neitt. En, hins vegar lærir maður í kynjafræði að kyn og kyngervi eru félagslega mótað en ekki fastmótað, einskonar leikur og hvað er drag annað en einmitt leikur með kyngervi og kyn? Þar sem hlutirnir er ýktir upp úr öllu valdi, sem fær fólk ekki aðeins til að hlæja heldur til að átta sig á hversu fáránlegt þetta tvennt getur verið. Að því leytinu til má alveg ætla að drag sé í raun ekkert síður pólitískt en kynjafræðin. Þess vegna fannst mér tilvalið að fagna útskriftinni með dragi.“

„Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“

Fjöldi litríkra skemmtikrafta treður upp á Gauknum í kvöld, þeirra á meðal Hans, Deff Starr, Lola Von Heart, James the Creature og dragdrottningin Ms. Ronya, sem kemur alla leið frá Skotlandi og svo Thomas sjálfur, sem mun bregða sér í hlutverk gestgjafans og drottningarinnar Jackie Moon. En Thomas er einn fárra gagnkynhneigðra karla á landinu sem starfa sem dragdrottning og hann segir marga verða vægast sagt hissa þegar þeir komast að því. „Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“

Hann segir að hvað sem fólki finnist um það þá geti það alla vega stólað á eitt í kvöld: Að það muni skemmta sér konunglega. „Hafi það ekki komið á sýningu hjá mér áður þá á það sko gott í vændum.“

Einstakt sjávarútsýni og fjölbreyttar leiðir fyrir hreyfingu og útivist

Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað til móts við ylströndina í Nauthólsvík, í fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna.

Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar. Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar afar vandaðar. Umhverfið laðar að fólk á öllum aldri og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina sem er iðandi af lífi yfir sumarmánuðina. Stutt er í allar áttir og þjónustu. Jafnframt er stutt í leik- og grunnskóla og afþreyingu fyrir fjölskyldur. Í Bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir að verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.

Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 26 eru hinar glæsilegustu. Þær eru frá tveggja til fjögurra herbergja í þriggja hæða fjölbýlishúsi með lyftu. Stæði fylgir öllum íbúðum í lokaðri bílgeymslu sem eru mikil lífsgæði. Allar íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar verða afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar verður áhersla lögð á stílhreint yfirbragð. Ljósgrái liturinn verður í forgrunni í eldhúsinu, vandaðar innréttingar frá Brúnás gefa rýminu sterkan svip og svartur steinn í borðplötunni. Vönduð eldhústæki og -tól fylgja íbúðinni. Umfram allt er hugsað fyrir því að rýmið nýtist sem best.

Á baðherbergjum verða gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Baðherbergin verða búin vönduðum innréttingum frá Brúnás, þar sem ljósgrái liturinn verður í forgrunni. Borðplöturnar verða úr steini sem gefur rýminu fallega áferð og nýting á rýminu verður í hávegum höfð.

Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir íbúum kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengið að fullu og í sameign verður vönduð lyfta í stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum.

Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgarsvæðinu. Sjón er sögu ríkari.
Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasöluna í síma: 562-4250.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Fjárfesting fasteignasalan.

 

Dreymir um lítinn fiskibát með stórri vél

Bárður Hreinn Tryggvason er sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu og er tveggja barna faðir. Hann á þau Silju Rún sem er tvítug og er að ljúka stúdentsprófi um áramótin og Tryggva Snæ, fimmtán ára nemanda við Sjálandsskóla. Kærasta Bárðar er Lilja Hildur Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og er verkefnisstjóri á menntasviði Landspítalans. Hún er einnig með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur á þrjú börn, á aldrinum átta ára, sextán ára og tuttugu og fimm ára, og eitt barnabarn. Bárður og Hildur búa hvort í sínu lagi eins og er, bæði í Kópavogi.

Bárður Tryggvason, sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa vinnu eru samskipti við fólkið sem stendur í fasteignaviðskiptum á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða stærstu samninga þess á lífsleiðinni. Mestu skuldbindingarnar sem eru lánin sem það tekur og þá er í flestum tilvikum um að ræða lánagjörning í fjörutíu ár sem er um það bil hálf mannsævi, það segir allt sem segja þarf um hversu stór þessi ákvörðun er að að taka lán og kaupa íbúð. Það er svo gefandi þegar vel tekst til og allt gengur upp og allir ganga ánægðir og sáttir frá borði. Ég hef alla tíð tekið starfið mikið inn á mig, ef svo má að orði komast. Síðan eru það vinnufélagarnir og umhverfið, að geta nýtt keppnisskapið sem er mikið hjá mér, að ég ætla og veit að ég hef, þó að ég segi sjálfur frá. En mesta ánægjan eru ánægðir viðskiptavinir.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hefðbundinn vinnudagur hjá mér er frá klukkan 9.00 – 17.00 á daginn og oft lengur, en fyrstu tuttugu og fimm árin gæti ég trúað að þetta hafi verið ekki undir 60-70 tímum á viku. Í dag er þetta öðruvísi, ég fer þrisvar í viku í fótbolta í hádeginu í 1,5 klst, en það hef ég gert síðustu tíu árin og eru ómissandi fyrir mig, því að þetta útheimtir oft mikið álag.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili? „Fallega samsett húsgögn og hlutir sem passa saman og umfram allt eru þægileg. Svo ekki sé minnst á fallega myndlist á veggjum. Ég hef safnað að mér fallegri myndlist undanfarin ár og hef komið inn á glæsileg heimili en það er eitthvað sem vantar og það er eitthvað fallegt á veggina. En það er bara mín skoðun.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Minn stíll er einfaldleikinn, ekki vera með of mikið af húsgögnum/hlutum og láta hlutina passa saman og mynda fallegt og notalegt heimili.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Pálmar Kristmundsson er minn uppáhalds, hann hefur teiknað falleg hús og byggingar sem ég hef hrifist af í gegnum tíðina.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Gæti nefnt Alvar Aalto hinn finnska sem var bæði húsgagnahönnuður og arkitekt, svo ég nefni nú einhvern.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Það er lítill fiskibátur með stórri vél og kemst hratt, en það er draumurinn einhvern tímann. Ég er frá Hellissandi og uppalinn þar við sjóinn. Var á skaki þrjú sumur með mági mínum. En það sem skýrir það er að þegar að þú ert kominn út á sjó í góðu veðri, þá hverfur allt sem að heitir stress. Þú ferð að slaka á og gleymir þér.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn er brúnn.“

Hvar líður þér best? „Ég held að ég geti sagt að mér líði best með fjölskyldunni og að atast með henni í einhverju. Síðan að fara vestur á Snæfellsnes á æskuslóðirnar í fallegu veðri. Fara í fótbolta með stákunum en ég spila með Luns United í hádeginu og Svíkingum vinum mínum á mánudögum. Það er svo margt sem að ég gæti talið upp.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Fallegur dagur að hausti, kaldur og sólin á lofti á sér engan sinn líka, síðan haustlitirnir þegar að þeir birtast í sínu fegursta formi. Vantar heita pottinn.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Veit ekki, en gæti nefnt Bautann á Akureyri, alltaf sérstök stemning að borða þar. Var á Akureyri í menntaskóla í fjóra vetur.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Já, það eru lítil falleg einbýlishús í grónum hverfum eins og hægt er að sjá til dæmis fyrir norðan á Akureyri. Hvaða stíll það er, veit ég ekki.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „vera meðvitaður um stað og stund og láta ekkert fara í taugarnar á sér, lífið er svo stutt. Halda síðan vel utan um fjölskylduna og vinina, ekkert gefur lífinu meira gildi en það að hafa gott fólk í kringum sig.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Brautryðjendur á íslenskum netmarkaði

Skanva.is er nýleg netverslun í eigu Skanva Group sem er fyrirtæki í Danmörku sem á einnig netverslanir skanva.no í Noregi og Vinduesgrossisten.dk í Danmörku. Hanna G. Guðmundsdóttir Overby er svæðisstjóri á Íslandi fyrir Skanva.is og við heimsóttum hana á dögunum og fengum innsýn í hvað fyrirtækið hefur upp á að bjóða.

Hanna G. Guðmundsdóttir Overby er svæðisstjóri á Íslandi fyrir Skanva.is.

„Skanva.is er brautryðjandi á íslenskum markaði, þar sem við erum fyrsta fyrirtækið sem býður upp á netverslun fyrir glugga og hurðir. Það hefur aldrei verið auðveldara fyrir Íslendinga að kaupa glugga og hurðir, hvar og hvenær sem er. Verðið er líka óþekkt á Íslandi, en ástæðan er sú að við getum hagrætt mikið í rekstrinum þegar viðskiptavinirnir ganga frá pöntuninni sjálfir á Netinu og þar með skilar sparnaðurinn sér beint til viðskiptavinarins. Einnig er ástæðan fyrir því að við getum boðið lægra verð sú að viðskiptavinirnir kaupa beint af framleiðanda og sleppa því einum millilið í kaupferlinu. Við erum með sýningarsal úti á Granda í Reykjavík, þar sem hægt er að koma og sjá sýnishorn af vörunum okkar.“

Brynjar Valþórsson er sölumaður hjá Skanva.is í sýningarsalnum úti á Granda og með honum á myndinni er Jørgen Tranholm, einn af eigendum Skanva.is.

Hvar fer framleiðslan fram? „Við framleiðum okkar eigin glugga og hurðir í verksmiðjunni okkar í Hvíta-Rússlandi. Þar erum við með danskan framleiðslustjóra sem sér um að gæðin standist þær kröfur sem gerðar eru. Það er hægt að velja um tré, tré/ál og plast í glugga og hurðir. Allar vörur frá okkur eru með tíu ára ábyrgð. Við erum ekki með neinn lager heldur eru allar pantanir sérsmíðaðar og framleiddar eftir málum og óskum viðskiptavina okkar.“

Þjónusta og vörur Skanva hafa hlotið mjög góðar móttökur á Íslandi. „Við höfum fengið mjög jákvæðar móttökur á Íslandi, við höfum átt erfitt með að svara öllum fyrirspurnum innan þokkalegs tímaramma þar sem fyrirspurnirnar hafa verið svo margar. Við höfum líka fundið fyrir efasemdum um fyrirtækið, til dæmis á samfélagsmiðlum, þar sem fólki finnst verðið of gott til að vera satt. Við skiljum það vel þar sem við erum með áður óþekkt verð og það tekur alltaf tíma fyrir markaðinn að kynnast nýjum spilurum.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Skanva.

Fjölbreytt vöruúrval er af gluggum, hurðum og fylgihlutum í sýningarsal Skanva.is úti á Granda, eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

 

Hágæðavörur fyrir útivistina, líkamsræktina, fjallgöngur og ferðalög

Verslunin og heildsalan Sportís hefur haslað sér völl hér á landi og þykir hafa afar gott vöruúrval og sérlega góða þjónustu. Við heimsóttum Skúla J. Björnsson í Mörkina og kynntum okkur tilurð fyrirtækisins og það sem Sportís hefur upp á að bjóða. En Skúli annast daglegan rekstur fyrirtækins og hefur unnið í þessum bransa frá árinu 1983 en áður var hann meðal annars forstöðumaður félagsmiðstöðvar.

Skúli J. Björnsson og Anna S. Garðarsdóttir stofnuðu fyrirtækið Sportís árið 1983. Hér er Skúli með dóttur sinni Sigrúnu Kristínu sem er verkefnisstjóri hjá Sportís.

Segðu okkur aðeins frá tilurð verslunarinnar Sportís og helstu áherslum ykkar í vöruúrvali og þjónustu? „Sportís ehf var stofnað af mér og konu minni, Önnu S. Garðarsdóttur, í febrúar árið 1983 og markmiðið var að reka heildverslun með vandaðar vörur á sviði íþróttafatnaðar, eingöngu góð vörumerki. Við höfum byggt upp fjölda þekktra vörumerkja á þessum tíma.“

Getur þú sagt okkur meira um vöruúrvalið? „Í verslun okkar í Mörkinni 6 erum við með íþróttaskó og starfsfólk okkar er þrautþjálfað í að veita leiðbeiningar í vali á hvers kyns íþróttaskóm. Við bjóðum upp á mikið úrval af hlaupaskóm, utanvegaskóm og innanhússskóm fyrir alla. Einnig erum við með útivistar- og vetrarfatnað og margt fleira. Við erum með mikið af CASALL-æfingafatnaði fyrir konur, það er merki sem allar konur elska. Casall er þekkt fyrir gæði og endingu.
Kari Traa er nýtt norskt merki – heitir eftir skíðadrottningu og margföldum ólympíugullhafa. Það merki býður mjög öfluga línu af sportfatnaði fyrir konur og hefur vakið mikla athygli fyrir merino-ullarlínuna sem er litrík og flott. Ennfremur erum við með mikið úrval af REIMA-barnafatnaðnum sem er finnsk gæðavara með mikið úrval af vetrargöllum, lambhúshettum og öllum þeim fatnaði sem fær börnin til að vilja vera úti.“

Skúli nefnir einnig að þau séu með Canada Goose-merkið sem er þekkt um allan heim fyrir hlýju, vönduðu og fallegu vetrarúlpurnar. „Canada Goose er mjög vinsælt merki hjá Sportís og við erum með landsins mesta úrval af þessum frábæru úlpum. Nýjar og spennandi úlpur voru að koma og nú er hægt að fara að njóta vetrarins.“

Hvert er ykkar aðalsmerki í vörutegundum? „Öll okkar merki eru aðalsmerki – en til að nefna einhver má nefna Canada Goose sem er heimsfrægt og hefur verið framleitt frá árinu 1957 og nýtur mikilla vinsælda. Finnska barnafatamerkið Reima sem var stofnað árið 1944. Asics er toppurinn í hlaupaskóm og er fyrsta val alvöruhlaupara. Asics er japanskt fyrirtæki stofnað árið 1949. Við seljum öll þessi merki og fleiri einnig í heildsölu til valinna endursöluaðila um land allt.“

Leggið þið mikið upp úr að vera með hágæða útivistarfatnað og vörur fyrir þá sem stunda útivist? „Við seljum vörur fyrir útivist, göngur, ræktina, ferðalög og fleira.“

Mynd / Hallur Karlsson

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Sportís. 

 

Blóðappelsínu-spritz

|
|

Frískandi kokteill þar sem blandaður er saman nýkreistur blóðappelsínusafi, prosecco og kryddaður sætur vermouth. Ef blóðappelsínur eru ekki fáanlegur má nota bleikan greipaldinsafa í staðinn.

Blóðappelsínu-spritz
fyrir 1 glas
30 ml sætur vermouth
30 ml blóðappelsínusafi
Prosecco

Setjið klaka í glas eða belgmikið vínglas og hellið sætum vermouth og blóðappelsínusafa ofan í. Fyllið með Prosecco og skreytið með appelsínusneið.

Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu

2. tbl. 2018
Mynd / Heiðdís Guðbjörg

Fljótlegur og bragðgóður réttur sem er tilvalinn fyrir önnum kafið fólk.

Við könnumst flest við þá tímapressu sem hlýst af því að koma sér heim eftir langan vinnudag og þurfa að koma mat á borðið fyrir svangt heimilisfólk á skikkanlegum tíma. Þá getur verið freistandi að kaupa skyndibita eða eitthvað annað fljótlegt sem fyllir magann en gerir kannski ekki mikið fyrir næringu og bragðlauka. Best er að eiga í handraðanum nokkrar uppskriftir að fljótlegum og bragðgóðum réttum sem ekki krefjast hálfa körfu af hráefni. Þessi réttur er tilvalinn í miðri viku fyrir önnum kafið fólk en hann er útgáfa af hinum klassíska franska rétti Sole Meunière. Hann er auðveldur, fljótlegur og einstaklega barnvænn.

Þorskur í sítrónu- og smjörsósu
fyrir 4
½ dl möndlur
1 1/2 dl hveiti
4 roðflettir sporðbitar af hvítum fiski (t.d. koli, ýsa eða þorskur)
salt og pipar
2 msk. olía
2 msk. ósaltað smjör

Hellið möndlunum á stóra pönnu. Hitið yfir meðalháum hita þar til möndlurnar fara að ilma og eru orðnar gylltar að lit, setjið til hliðar. Látið hveiti í fat og setjið til hliðar. Þerrið fiskinn með eldhúspappír og saltið og piprið fiskinn báðum megin. Veltið honum upp úr hveitinu og hristið bitana aðeins til að losa umfram hveiti af fiskinum. Hitið olíu á stórri pönnu yfir meðalháum hita. Bætið smjörinu á pönnuna þegar olían er orðin heit og dreifið úr því. Leggið fiskinn á pönnuna og steikið þar til fiskurinn er orðinn gylltur, 2-3 mín. Snúið fiskinum við og eldið þar til hann hefur eldast í gegn og er orðinn gylltur, 1-3 mínútur (fer eftir þykkt fiskbitans). Takið hann af pönnunni og hellið fitunni frá.

Sósa
4 msk. ósaltað smjör
2 msk. steinselja, söxuð
1 msk. ferskur sítrónusafi

Setjið pönnuna aftur yfir meðalháan hita og setjið smjörið út á. Eldið þar til smjörið fer að gyllast, u.þ.b. 2 mín. Hrærið steinseljuna og sítrónusafann saman við og hellið yfir fiskinn. Berið fram með steiktum kartöflum, sítrónubátum og grænu salati.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Við eigum Ísland, það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það“

Hávær krafa er um að lífeyrissjóðirnir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð.

Lífeyrissjóðir landsins eiga stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Vegna fjármagnshafta, stækkunar þeirra og þátttöku í endurreisn íslenskra fyrirtækja áttu sjóðirnir tæplega helming allra skráðra hlutabréfa í lok árs 2016 og um 70 prósent skuldabréfa. Mörg þeirra félaga sem lífeyrissjóðirnir eru sameiginlega ráðandi eigendur selja vörur og þjónustu sem landsmenn nota á hverjum degi. Og mörg þeirra hafa hækkað laun stjórnenda sinna þannig að laun forstjóra skráðra fyrirtækja eru nú að meðaltali 16 sinnum lágmarkslaun. Auk þess er til staðar kaupaukakerfi innan margra félaga sem gerir þeim kleift að greiða æðstu stjórnendum sínum bónusa.
Hávær krafa er um að lífeyrissjóðirnir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð. Sú krafa kemur fyrst og fremst frá fulltrúum launafólks, verkalýðshreyfingum landsins. En hana er líka að finna á meðal fulltrúa atvinnurekenda sem sitja í stjórnum sjóðanna.
Þessi krafa birtist ansi skýrt á fundi sem Efling stóð fyrir um liðna helgi með þeim tveimur sem sækjast eftir að verða næsti forseti Alþýðusambands Íslands, Sverri Mar Albertssyni og Drífu Snædal (sjá mynd). Á fundinum sagði Sverrir meðall annars að verkalyðsfélögin ættu Ísland. „Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“ Drífa sagðist sammála honum.

Ítarleg fréttaskýring er um baráttuna um íslenskt atvinnulíf í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hægt er að lesa skýringuna í heild á vef Kjarnans.

Orkuveita Reykjavíkur: Endalaus uppspretta átaka

Fréttir af kynferðislegri áreitni innan Orkuveitu Reykjavíkur í liðinni viku er aðeins eitt af mörgum hitamálum sem hafa blossað upp í kringum starfsemi fyrirtækisins. Allt frá því Orkuveitan var sett á fót með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1999 hafa deilur um reksturinn blossað upp með reglulegu millibili og þær jafnvel endað með falli borgarstjórnarmeirihluta. Mannlíf rifjar upp nokkur af helstu hitamálunum.

 

Rándýrar höfuðstöðvar

Bygging höfuðstöðva OR er um margt sorgarsaga sem enn sér ekki fyrir endann á. Kostnaður við bygginguna nam alls 5,8 milljörðum króna og fór hann 4 milljarða fram úr áætlun. Árið 2013 var ákveðið að selja húsnæðið til lífeyris- og fjárfestingasjóða til að grynnka á erfiðri skuldastöðu fyrirtækisins og leigja það af nýjum eigendum; 5,1 milljarður fékkst fyrir húsið. Síðan kemur í ljós að stór hluti vesturhússins er ónýtur vegna rakaskemmda og að kostnaður við viðgerðir geti numið allt að 7 ½ milljarði króna. Í fyrra kaupir Orkuveitan húsið aftur fyrir 5,5 milljarða, en kaupin voru forsenda þess að hægt væri að ráðast í nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu vegna skemmda.

Eitt flottasta eldhús landsins

Árið 2010 beindist athygli landsmanna að stórglæsilegu eldhúsi höfuðstöðva OR eftir að kynningarmyndband fyrirtækisins fór í dreifingu á Netinu. Myndbandið, sem var tæpar 10 mínútur að lengd, var framleitt af kynningardeild fyrirtækisins árið 2004. Var ásókn fagaðila og rekstraraðila í að skoða eldhúsið svo mikil að ákveðið var að gera myndbandið til að draga úr slíkum heimsóknum. Alfreð Þorsteinsson, sem var stjórnarformaður OR á þeim tíma sem eldhúsið var byggt, þvertók fyrir að um of mikinn íburð hafi verið að ræða. „Það var ekkert bruðlað sérstaklega í uppbyggingu þessa eldhúss.“ Almenningur var á öðru máli.

Sértækar skuldaaðgerðir

Rekstur Orkuveitunnar fór afar illa út úr efnahagshruninu enda hafði íslenska krónan hríðfallið og stærstur hluti lána í erlendri mynt. Um mitt ár námu skuldir fyrirtækisins 227 milljörðum króna. Stjórn fyrirtækisins réðist í umfangsmiklar aðgerðir til að bjarga fyrirtækinu sem fólust meðal annars í niðurskurði, hækkun gjaldskráa og endurfjármögnun lána. Var aðgerðaáætlunin nefnd Planið. Áætlunin gekk eftir og gott betur og skilaði hún sér í 60 milljarða króna í bættri sjóðsstöðu, eða 10 milljörðum umfram það sem upphaflega var reiknað með.

Mislukkuð tilraun með risarækjur

Um aldamótin hóf Orkuveitan tilraunir í að koma á fót risarækjueldi. Fyrirtækið lagði fram stofnfé og var áformað að fleiri aðilar kæmu inn í verkefnið sem myndu á endanum taka yfir verkefnið og hefja risarækjueldi í stórum stíl. Þeir létu hins vegar aldrei sjá sig. Alfreð Þorsteinsson, þáverandi stjórnarformaður, sagði þetta hluti af lögboðinni skyldu Orkuveitunnar um að taka þátt í nýsköpun og þegar fyrsta risarækjan var boðin til átu árið 2004 sagði hann ljóst að tilraunin hafði heppnast. Voru menn á þessum tímapunkti á því að risarækjan ætti eftir að slá í gegn. En risarækjudraumarnir runnu út í sandinn og í september 2007 tók stjórn OR þá ákvörðun að hætta risarækjueldinu. Lét Haukur Leósson, þá stjórnarformaður, hafa eftir sér að tilraunastarfsemin hafi ekki skilað fyrirtækinu krónu.

Stórslys í Andakílsá

Starfsmenn Orku náttúrunnar urðu uppvísir að ólögmætri og saknæmri háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar í Borgarfirði í fyrravor. Gríðarlegt magn aurs flæddi út í Andakílsá með meðfylgjandi stórtjóni fyrir lífríki árinnar. Orkustofnun sektaði ON um eina milljón króna vegna atviksins, enda hafði tilskilinna leyfa fyrir tæmingunni ekki verið aflað. Áhrifanna gætir enn og var engin laxveiði stunduð í Andakílsá í sumar frekar en í fyrra.

REI sprengir borgarstjórn

Á haustmánuðum 2007, þegar sjálfstraust íslenskra viðskiptamanna náði hæstu hæðum, voru uppi stórar hugmyndir um að ráðast í orkuútrás. Til þess stofnaði OR dótturfyrirtækið Reykjavik Energy Invest – REI. Þegar fréttir bárust af því að til stæði að sameina REI og Geysi Green Energy, sem var í eigu FL Group og Glitnis banka, runnu hins vegar tvær grímur á borgarfulltrúa. Þær deilur mögnuðust þegar í ljós kom að útvaldir lykilstarfsmenn áttu að fá kaupréttarsamninga sem mögulega hefði fært þeim háar fjárhæðir. Ekkert varð þó að samrunanum þar sem borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk vegna málsins.

Barist um Hitaveitu Suðurnesja

Síðsumars 2009 risu enn og aftur upp harðar deilur í borgarstjórn þegar Orkuveitan ákvað að ganga til viðræðna við kanadíska fyrirtækið Magma Energy um sölu á 32% hlut OR í Heitaveitu Suðurnesja. Var átakapunkturinn sá að verið væri að færa orkuauðlindir þjóðarinnar í hendur einkaaðila. Kaupin, sem voru reyndar aðeins hluti af harðri baráttu um eignarhald í HS, gengu engu að síður í gegn og á kanadíska félagið – í gegnum sænskt dótturfyrirtæki – enn meirihluta í HS.

Orkufyrirtæki á fjarskiptamarkaði

Á dögum R-listans varð fyrirtæki að nafni Lína.net að einu helsta deiluefninu milli meirihlutans og minnihlutans sem endurspeglaðist í stöðugum skeytasendingum milli Alfreðs Þorsteinssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem þá var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Lína.net var fjarskiptafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar sem átti að sjá um ljósleiðaravæðingu höfuðborgarsvæðisins en varð í augum sjálfstæðismanna, sem töldu fjarstæðu að fyrirtæki í eigu borgarinnar væri að standa í rekstri á samkeppnismarkaði, holdgervingur sóunar almannafjár. Lína.net rann síðar inn í Gagnaveitu Reykjavíkur sem er dótturfélag Orkuveitunnar.

„Aldrei litið á okkur sem poppstjörnur“

Bjarni Lárus Hall, söngvari hljómsveitarinnar Jeff Who? segir meðlimi sveitarinnar aldrei hafa ætlað sér að leggja Ísland að fótum sér, þrátt fyrir miklar vinsældir á sínum tíma, og að endurkomutónleikarnir um helgina séu alls ekki tilraun til að reyna að slá í gegn að nýju.

Hljómsveitin Jeff Who? var geysivinsæl fyrir áratug eða svo en hvarf síðan alfarið úr sviðsljósinu. Nú blása meðlimir hljómsveitarinnar til tvennra tónleika um helgina þar sem söngvarinn Bjarni Lárus Hall verður auðvitað í forgrunni. Hann segir þó markmiðið ekki vera að slá í gegn á ný. Þetta séu bara sex vinir að skemmta sér saman.
„Ekki spila, ég er í viðtali,“ er það fyrsta sem ég heyri Bjarna Lárus Hall segja þegar ég hringi í hann. Hann er sem sé staddur á æfingu með hljómsveitinni Jeff Who? þar sem verið er að fínpússa prógrammið fyrir tónleika helgarinnar.

Auk Bjarna skipa þeir Ásgeir Valur Flosason, Elís Pétursson, Valdimar Kristjónsson, Þormóður Dagsson og Þorbjörn Sigurðsson hljómsveitina en þeir hafa allir verið nánir vinir síðan á menntaskólaárunum í MR. Þeir slógu óvænt í gegn um miðjan síðasta áratug, gáfu út tvær plötur og áttu hittarann Barfly sem tröllreið útvarpsstöðvum mánuðum saman en síðan hvarf hljómsveitin nánast af yfirborði jarðar og hefur ekki heyrst síðan. Nú skella þeir á tvennum endurkomutónleikum, í kjölfar tónleika Írafárs og nýs lags frá Stjórninni. Hvað er í gangi, er endurkoma hljómsveita frá síðustu áratugum það heitasta í dag? „Ha, nei, við vorum nú ekkert að pæla í því,“ segir Bjarni gáttaður. „Mér hafði ekki dottið það í hug einu sinni að við fylgdum einhverju trendi.“
Er hugsunin kannski sú að nú eru þeir sem voru aðdáendur á sínum tíma orðnir miðaldra, stöndugt fólk sem hefur efni á að sækja tónleika? „Ja, það hjálpar auðvitað,“ svarar Bjarni og hlær. „Við erum samt alls ekki að þessu fyrir peninginn. Þetta var bara hugmynd sem kom upp hjá okkur Þorra trommara yfir bjórglasi þegar við fórum að ræða það að okkur langaði til að fara að spila aftur saman. Við drifum í því að tala við hina strákana og þeir voru allir til í slaginn, þannig að hér erum við í dag, sex vinir í góðum fíling að undirbúa tónleika.“

„Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“

Aldrei verið svona góðir
Spurður hvort meðlimir hljómsveitarinnar séu í jafngóðu formi og þeir voru á velmektardögunum fyrir rúmum áratug fullyrðir Bjarni að þeir séu ennþá betri. „Ég get svarið það,“ segir hann. „Ég held ég hafi aldrei heyrt okkur svona góða.“
Hafið þið allir verið í tónlistariðkun síðan þið hættuð? „Já, já, við höfum verið að gera alls konar hluti í tónlist,“ segir Bjarni. „Allir að spila hingað og þangað. Við höfum bara ekki spilað saman sem band undanfarin tíu ár. Ég og Valdimar höfum verið að spila dálítið saman og erum meira að segja búnir að taka upp plötu. En við höfum alltaf hist reglulega allir saman og rætt málin.“

Þannig að vináttan hefur haldist? Hvers vegna hættuð þið þá að spila saman á sínum tíma? „Eiginlega bara vegna þess að við vorum alltaf að spila fyrir sama fólkið og vorum orðnir svolítið leiðir á því,“ útskýrir Bjarni. „Við spiluðum bara saman af því að okkur þótti það svo ógeðslega gaman. Þannig að við hættum því bara þegar það hætti að vera gaman. Það var engin dramatík í kringum það.“

Sprenging í hlustendahópnum með Barfly
Voru það ekki svakaleg viðbrigði að fara úr því að vera hljómsveit skólafélaga í MR sem fannst bara gaman að spila saman í það að verða ein vinsælasta hljómsveit landsins? „Jú, þetta gerðist frekar hratt,“ viðurkennir Bjarni. „Við áttum tvö lög sem voru mikið spiluð á X-inu og svo þegar Barfly kom út varð sprenging í hlustendahópnum á nokkrum dögum.“
Bjarni vill alls ekki gangast við því að hinar skyndilegu vinsældir og nánast stöðugt tónleikahald hafi haft mikil áhrif á þá félaga. „Við ákváðum bara að gera þetta vel,“ segir hann. „Og ef einhver hringdi og bað okkur að spila sögðum við bara já. Við pældum ekki mikið í því að við værum vinsælir. Vorum bara band sem spilaði á tónleikum þegar við vorum beðnir um það. Við litum aldrei á okkur sem einhverjar poppstjörnur og það var aldrei markmiðið að leggja Ísland að fótum okkar. Lífið breyttist í rauninni voðalega lítið, nema bara að við spiluðum miklu oftar en við höfðum gert áður.“
Spurður hvort endurkomutónleikarnir um helgina séu upphafið á nýrri tilraun til að slá í gegn og hvort plata sé í undirbúningi segir Bjarni að þeir séu bara ekki farnir að hugsa svo langt. „Við erum ekkert að pæla langt fram í tímann,“ fullyrðir hann. „En það hefur verið ógeðslega gaman hjá okkur og gengið mjög vel, þannig að maður veit aldrei hvað gerist. Hins vegar er það alveg á hreinu að þetta er alls ekki meðvituð tilraun til að reyna að slá í gegn aftur, við ætlum bara að hafa gaman að þessu.“

Hræsni gagnvart Ísrael
Árið 2015 tók Bjarni þátt í undankeppni Eurovision með lag sitt Brotið gler og fékk tvo félaga sína úr Jeff Who? til að spila það með sér. Hann vill þó undirstrika að það sé mikill misskilningur að Jeff Who? hafi ætlað sér að taka þátt í Eurovision. Það myndi aldrei gerast. En hvað finnst honum um kröfuna um að sniðganga Eurovision í Ísrael á næsta ári vegna framgöngu Ísraela gagnvart Palestínumönnum? „Æ, ég veit það ekki,“ segir hann þreytulega. „Ég er ekki hlynntur því sem Ísrael er að gera gagnvart Palestínumönnum, en þetta er samt bara söngvakeppni og þeir taka þátt í henni. Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“
Ætlar þú að senda lag í undankeppnina fyrir næsta ár? „Ég bara veit það ekki,“ segir Bjarni hugsi. „Núna hugsa ég bara um æfinguna sem er að byrja og tónleikana um helgina. Ég fer ekkert að pæla í Eurovision fyrr en þessir tónleikarnir eru búnir. Þeir eru það sem skiptir máli núna. Allt annað kemur bara í ljós.“

Fyrri tónleikar Jeff Who? eru á Græna hattinum á Akureyri í kvöld, 21. september, og þeir seinni í Bæjarbíói í Hafnarfirði annað kvöld.

Mynd / Lilja Jóns

Sjálfsmorð móðurinnar stærsta áfallið

Jane Fonda rifjar upp móðurmissinn í nýrri heimildarmynd.

Í nýrri heimildarmynd frá HBO, Jane Fonda í fimm þáttum sem frumsýnd verður 24. september, opnar Jane Fonda sig um hvernig það hafi verið að alast upp hjá móður sem þjáðist af geðhvarfasýki og hvernig sjálfsmorð móðurinnar, þegar Jane var 12 ára, hafi átt stærstan þátt í því að móta sjálfsmynd hennar og upplifun af heiminum. Hún segist þó smátt og smátt hafa lært að skilja móður sína og fyrirgefa henni.

Móðir Jane hét Frances Ford Seymour og var kanadísk kona sem giftist Henry Fonda árið 1936. Saman eignuðust þau tvö börn, Jane og Peter. Fljótlega kom í ljós að Frances þjáðist að geðhvörfum og árið 1950, þegar Jane var 12 ára, framdi hún sjálfsmorð með því að skera sig á háls á geðsjúkrahúsinu þar sem hún dvaldi.

Dauði hennar var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir Jane og ekki varð auðveldara að sætta sig við sjálfsmorð móðurinnar við það að rekast á umfjöllun um það í kvikmyndatímariti eftir að faðir hennar, Henry Fonda, hafði sagt Jane og bróður hennar að móðir þeirra hefði dáið eftir hjartaáfall.

„Sem barn kennir maður alltaf sjálfri sér um,“ útskýrði leikkonan í viðtali á people.com. „Vegna þess að barnið getur ekki ásakað fullorðnu manneskjuna sem það þarf á að halda til að komast af. Það tekur langan tíma að komast yfir sektarkenndina,“ sagði hún.

En eftir að hún varð fullorðin ákvað Jane að reyna að kynnast móður sinni, læra að skilja hana og tileinkaði henni sjálfsævisögu sína, My Life So Far sem kom út árið 2005. Hún segist hafa fengið aðgang að sjúkraskýrslum móður sinnar og loks fengið að kynnast henni og meta þessa konu.
„Ég þekkti hana aldrei,“ segir leikkonan í fyrrnefndu viðtali. „En ég er búin að fyrirgefa henni og mér.“

Hér fyrir neðan má skoða kynningarstikluna fyrir Jane Fonda í fimm þáttum, sem eins og áður sagði verður frumsýnd 24. september á HBO.

Kynntist eiginmanninum 14 ára gömul

Camilla Rut prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar. Í einlægu viðtali dregur hún ekkert undan og talar um uppeldið í krossinum, óvænta athygli, taugaáfall sem hún fékk kjölfar brúðkaups síns og söngferilinn.

 

Camilla hefur með einlægni sinni og hispurslausri framkomu fangað huga og hjörtu fjölmargra Íslendinga. Á degi hverjum hleypir hún tugum þúsunda fylgjenda inn í líf sitt og sýnir bæði góðar og slæmar hliðar þess.

Í dag er Camilla í fullu starfi við það að sinna sínum miðlum, auk þess sem hún er að hefja feril í tónlist. „Dæmigerður dagur í mínu lífi er ekki til, ég er rosalega mikið út um allt að græja og gera,“ segir hún. „Ég sit á allskonar fundum og er stöðugt að vinna mig áfram. Það kemur aldrei sá dagur að ég sé ekki með neitt á dagskránni. Ég viðurkenni alveg að þetta hefur reynst mér frekar erfitt, þar sem ég er svo rosaleg rútínumanneskja. Ég vil helst hafa dagana mína eins, en þegar ég er ekki í fastri vinnu frá 9-5 gefur það augaleið að það gengur ekki alltaf upp. Svo á ég líka allskonar drauma sem ég er að vinna í að uppfylla og verkefni sem ég er að hrinda í framkvæmd, lífið kemur ekki til mín á silfurfati svo ég ætla að leggja hart að mér til þess að koma mér þangað sem ég vil fara.“

Kynntist eiginmanninum fjórtán ára

Camilla og eiginmaður hennar, Rafn Hlíðkvist, hafa verið saman í rúm tíu ár en hún var aðeins fjórtán ára þegar þau kynntust. „Við byrjuðum samband okkar mjög rólega, þar sem ég var svo ung. Rabbi er fimm árum eldri en ég og bar fullkomna virðingu fyrir því að ég væri að stíga mín fyrstu skref í þessu öllu saman. Við höfum gengið í gegnum svo margt saman á þessum tíu árum en einhvern veginn alltaf náð að halda okkar striki sem er nú aðallega honum og hans yfirvegun að þakka. Ég telst seint vera yfirveguð og róleg því eins og ég segi þá stjórnast ég af tilfinningum en hann hefur tök á mér sem enginn annar hefur,“ segir Camilla og bætir við að þau hafi verið óaðskiljanleg frá fyrstu kynnum. „Við smullum saman eins og flís við rass. Á meðan ég er algjört fiðrildi og tilfinningavera þá er hann rólegur og jarðbundinn, svo það má segja að hann dragi mig niður á jörðina á meðan ég dreg hann upp með mér, svo við hittumst oftast á miðri leið. Samband okkar hefur verið ferðalag og mikill lærdómur fyrir okkur bæði en í gegnum allt er þessi skilyrðislausa ást sem stendur svo sterk. Við trúlofuðum okkur um verslunarmannahelgina árið 2014 en vissum ekki þá að laumufarþegi var um borð. Sléttri viku eftir að við trúlofuðum okkur komumst við að því að ég væri ólétt af litla stráknum okkar – og þvílík hamingja.“

Sonur þeirra, Gabríel, kom svo í heiminn fyrir rúmum þremur árum. Camilla segir að eins klisjukennt og það hljómi, hafi sonurinn komið inn í líf þeirra á hárréttum tíma og breytt öllu til hins betra.

„Meðgangan og fæðingin var hryllingur en þetta litla barn hefur verið draumur síðan við fengum hann í hendurnar. Ég fékk rosalegt fæðingarþunglyndi og átti mjög erfitt fyrstu mánuðina. Í orlofinu hafði ég gaman af því að fylgjast með öðrum á samfélagsmiðlum og fljótlega kviknaði sú hugmynd að kannski hefði fólk áhuga á því sem ég hefði að segja. Ég opnaði aðganginn minn og var ekki með neitt sérstakt markmið. Ég einblíndi ekki á neitt afmarkað málefni, heldur var ég bara að spjalla um lífið og tilveruna. Meðal þess sem ég ræddi opinskátt var fæðingarþunglyndið. Markmið mitt var samt ekki beint að peppa aðra, heldur var ég að þessu aðallega til að peppa sjálfa mig og ég fann fljótt að þetta var hvati til þess að laga mitt eigið hugarfari. En boltinn fór fljótt að rúlla og fylgjendatalan jókst með hverjum degi. Að mörgu leyti var ég heppin, varðandi tímasetningu og annað en á þessum tíma var ekki mikið um það að fólk væri að opna sig og segja frá persónulegri lífsreynslu fyrir framan ókunnugt fólk á Snapchat.“

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Camillu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir
/Förðun: Sara Dögg Johansen með YSL

Ed Sheeran hlakkar til að spila fyrir Íslendinga

Tónlistarmaðurinn heldur tónleika á Laugardalsvelli næsta sumar.

Ed Sheeran mun halda sína fyrstu tónleika á Íslandi þann 10. ágúst 2019. Í myndbandi sem kappinn birti á YouTube sendir hann Íslendingum kveðju og segist hlakka til að spila fyrir þá. Hann hafi reyndar komið til Íslands áður en aldrei spilað þar og hann sé mjög spenntur.

Tónleikarnir á Íslandi eru hluti af Evróputúr stjörnunnar sem mun standa yfir frá maí til ágúst 2019 og auk þess að spila fyrir okkur mun Ed halda tónleika í Frakklandi, Portúgal, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki, Rúmeníu, Tékklandi, Lettlandi, Rússlandi, Finnlandi, Danmörku og Ungverjalandi og svo að sjálfsögðu í heimalandi sínu Bretlandi þar sem síðustu tónleikar túrsins verða.

Miðasala á tónleikana hefst klukkan 9 fimmtudaginn 27. september á TIX.is/Ed og í boði eru 30.000 miðar á mismunandi og misdýrum svæðum svallarins.

Í myndbandinu hér fyrir neðan er Ed brosandi út að eyrum á meðan hann sendir Íslendingum kveðju sína og ekki annað að sjá en að hann meini hvert orð.

Reyna að ná sambandi við Michelle Obama með myndbandi

|
|

Rúna Magnúsdóttir og Nick Haines gripu til nýstárlegra aðgerða við að ná sambandi við forsetafrúna fyrrverandi.

Rúna og Nick póstuðu myndbandinu á þriðjudaginn

„Við þurftum alveg að taka hugrekkispillu til að þora að gera þetta,“ segir Rúna Magnúsdóttir sem ásamt Nick Haines, félaga sínum í samtökunum The Change Makers, hefur póstað myndbandi þar sem þau freista þess að ná sambandi við Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, til að fá hana til að skrifa inngang að bók sem þau hafa skrifað.

„Okkur leið eins og við værum að afhjúpa okkur með því að gera þetta myndband,“ segir Rúna. „En um leið vorum við að stíga út fyrir boxið. Við höfðum ekki hugmynd um hvernig við ættum að ná sambandi við Michelle en svo fórum við að hugsa um kenninguna um að við séum öll tengd, það sem kallast á ensku „Six degrees of separation“, og samkvæmt henni ætti að vera einhver sem þekkir okkur sem þekkir einhvern sem þekkir Michelle svo við ákváðum að gefa þessu séns og láta reyna á þessa kenningu.“

Rúna og Nick póstuðu myndbandinu á þriðjudaginn, en hafa enn ekki fengið viðbrögð frá Michelle. Rúna segist þó ekki vera búin að gefa upp vonina. „Það má alveg segja að í hvert sinn sem einhver deilir myndbandinu á samfélagsmiðlum þá opnist ný leið til að ná til hennar. Svo við sjáum bara til. Kannski svarar hún, kannski ekki.“

Spurð hvaða félagsskapur The Change Makers sé segir Rúna það vera hóp af fólki víðsvegar um heim sem hafi sameinast um það að hvetja fólk til að stíga út fyrir boxin sem samfélagið setji fólk stöðugt í. Bókin sem hún og Nick voru að skrifa fjalli einmitt um það hvernig þessi box hamli okkur sem manneskjum.
„No more Boxes hreyfingin sprettur af því að við í The Change Makers vorum beðin um að taka þátt í pallborðsumræðum hjá Sameinuðu þjóðunum í mars síðastliðnum. Þar var okkar hlutverk að ræða hvað hægt væri að gera til að ná þessum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030. Þessi markmið lúta að sjálfbærni, jafnrétti kynjanna og þar fram eftir götunum. Niðurstaða okkar var sú að það sem fyrst og fremst hamlaði allri þróun væri þessi eilífa árátta okkar mannfólksins að setja okkur sjálf og alla aðra í fyrirframákveðin box, hvort sem það snýr að kyni, kynþætti, bakgrunni, trúarbrögðum eða einhverju öðru. Það er alltaf verið að troða fólki í einhver box og afleiðingin er sú að við nýtum einungis brotabrot af þeim hæfileikum, möguleikum og eiginleikum sem hver manneskja kemur með á þessa jörð. Það bara gengur ekki lengur. Þannig að við ákváðum að vekja fólk til umhugsunar um þessar hömlur sem við setjum á okkur og hvert annað og vekja fólk til vitundar um það hvað það getur gert til þess að sú breyting sem við viljum sjá í heiminum í dag geti átt sér stað,“ segir Rúna og það er ljóst að þetta málefni er henni hjartans mál.

Þú getur lagt þitt að mörkum við að hjálpa Rúnu og Nick að ná sambandi við forsetafrúna með því að kíkja á myndbandið og ekki sakar að endurpósta því á samfélagsmiðlunum. Því eins og Rúna segir; það er aldrei að vita nema athygli Michelle vakni ef nógu margir pósta því.

Þeir sem vilja fylgjast með því hvernig Rúnu og Nick gengur að ná sambandi við frúna, eða bara kynna sér hvað þau eru að gera geta svo kíkt á síðuna þeirra.

https://www.nomoreboxesmovement.com/

Karlar sem finnst þeim ógnað beita kynferðislegri áreitni

Í nýju tölublaði Mannlífs er fjallað um veggina sem konur lenda á þegar þær kvarta undan kynferðislegu áreiti á vinnustað.

 

Margrét Erla Maack, sem hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman, hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, segir mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti.

Margréti og Sonju kemur ekki á óvart hvernig stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa tekið á kynferðislegri áreitni innan fyrirtæksins. Þær segja að í kjölfar #metoo byltingarinnar séu þess dæmi að ástandið hafi sums staðar versnað og áreitnin aukist. Á sumum vinnustöðum nýti tilteknir karlar umræðuna til að gera enn minna úr konum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana. Margrét Erla og Sonja Ýr eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Raddir