Mánudagur 9. september, 2024
3.3 C
Reykjavik

Helgi Áss, fyrrverandi heimsmeistari, þolir ekki að tapa: Sjálfstæðisflokkurinn á rangri leið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helgi Áss Grétarsson, skákmaður, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi, talar í viðtali við Mannlæifið með Reyni Traustasyni um Sjálfstæðisflokkinn og dvínandi fylgi hans, áhrif þess að verða heimsmeistari í skák 17 ára gamall svo sem óraunhæfar væntingar, áfallið við að þurfa að hætta störfum við Lagadeild Háskóla Íslands, dómstól götunnar og reiðina sem hann upplifði þegar hann árið 2003 talaði skák fyrir einhverju norsku barni.

 

Helgi Áss Grétarsson stefndi á 5. sæti hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavík fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en lenti í 7. sæti og er fyrsti varaborgarfulltrúi flokksins.

„Fyrsti varaborgarfulltrúi hvers flokks, þar á meðal ég, er með fasta stöðu í borgarkerfinu. Ég fæ aðeins lakari starfskjör en aðalborgarfulltrúi.“

Hvernig leið Helga með niðurstöðuna hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík?

„Ég held að tölurnar tali sínu máli. Þetta eru 24,5% í Reykjavík sem er lakasta hlutfallstala Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík; lakari en hún var 2014 sem var þá rúm 25% og ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn til lengri tíma litið eigi mikil sóknarfæri. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn starfar samkvæmt þeim prinsippum sem voru sett þegar flokkurinn var stofnaður – sem er sjálfstæðisstefna, að einstaklingsfrelsið sé varið eftir atvikum líka og atvinnufrelsi og fókusinn sé á grundvelli kröftugs atvinnulífs – þá getum við greitt fyrir velferðina og að það sé stétt með stétt. Ég hef frá því ég var ungur haft mikinn áhuga á stjórnmálum og lesið ævisögur margra stjórnmálamanna og pælt í pólitík alveg síðan ég var smákrakki,“ segir Helgi og nefnir aftur hugtakið stétt með stétt. „Við í stjórnmálasamstarfinu innan Sjálfstæðisflokksins erum öll jöfn og það er mjög mikilvægt að þessi prinsipp séu útfærð og framkvæmd á hverjum degi þannig að fólk upplifi að Sjálfstæðisflokkurinn sé fjöldahreyfing sem tali til þeirra sem eru í efsta lagi samfélagsins og hafa það mjög gott en líka þeirra sem hafa það lakast. Ég held að það stafi líka af því að við erum fámenn hérna; íslenska samfélagið er fámennt. Ég held að sjálfsbjargarviðleitnin sé rík í Íslendingum; hvernig við komum úr fátækt og fleira. Það þýðir að við viljum hafa einstaklinga sem skara fram úr og eru að ná árangri til að síðan hjálpa þeim sem lakar standa þannig að allir einstaklingar eigi séns. Það er allavega eitthvað sem ég stend fyrir í pólitík og tel að það sé undirstaðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stærsti flokkurinn á Íslandi í langan tíma og ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hlúa að þeirri undirstöðu og að hann þurfi að vinna í því að breyta ásýnd sinni og orðspori ef svo má að orði komast og vera tilbúinn að takast á við þær áskoranir sem núna eru uppi og hvernig er sótt að honum á margvíslegum vígstöðvum. Það þýðir meðal annars það að ég er að fara í stjórnmál til þess að standa fyrir eitthvað.“

Punkturinn hjá mér er að ég vil tala um alvöru pólitík fyrir venjulegt fólk.

- Auglýsing -

Helgi segist vilja koma að hlutum og hugmyndum sem komi venjulegu fólki að gagni, búa til kerfi og hafa áhrif á embættismenn og hvernig lög og reglum er framfylgt til þess að manneskjan sem á erfitt með að ná endum saman eigi meiri möguleika á að eiga gott líf. „Og sá sem er hæfileikaríkur og hefur náð miklum árangri hafi líka tækifæri til þess að njóta erfiðisins, að það sé traust heilbrigðiskerfi, traust samgöngumál og svo framvegis. Punkturinn hjá mér er að ég vil tala um alvöru pólitík fyrir venjulegt fólk. Fyrir sem flesta. Í staðinn fyrir til dæmis að einhver jaðarhópur gæti móðgast.

Ég er þeirrar skoðunar í prinsippinu að Sjálfstæðisflokkurinn til lengri tíma litið eigi að standa fyrir ákveðin gildi sem eru traust og hafa staðist tímans tönn og Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft mest áhrif bæði í borgarmálunum, í sögulegu tilliti, og í landsmálunum. Og þessi gildi hafa einhverja merkingu og það á að halda áfram að berjast fyrir þeim.“

 

- Auglýsing -

Þá er fólk á villigötum

En hvað brást í kosningabaráttunni?

Viðræður standa enn yfir og segir Helgi að ekki sé vitað hvar Sjálfstæðisflokkurinn standi og að það sé viðkvæmt að ræða það akkúrat á þessum tímapunkti hvað fór úrskeiðis í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins eða hvað var vel gert í kosningabaráttu flokksins. „Ég tel að það sem er jákvætt sé að það er vilji innan flokksins að ræða það hreinskilnislega hvernig var staðið að hlutum og ég hlakka til þeirrar umræðu. Og ég hef mínar skoðanir á því en ég tel vera óskynsamlegt að ég sé að tjá mig um það hér og nú.“

Helgi segir að almennt séð eigi kosningabarátta fyrst og fremst að snúast um ákveðið grunnfylgi. „Þá þarftu að tala og grípa til ákveðinna aðgerða, svo þarftu að átta þig á andstæðingnum svo sem hvað hann er að fara að gera og grípa til ráðstafana til að mæta þeim aðgerðum. Svo í þriðja lagi þarftu að fara að vinna að því að ná til lausafylgis.“

Helgi segir að það sem sér hafi fundist gaman í pólitíkinni hingað til, en það eru rétt rúmir þrír mánuðir síðan hann byrjaði í pólitík, sé að hann geti notað margt sem tengist hugmyndafræði og herfræði í skák. „Og það þýðir það að svona almennt séð þarftu að vera með skilgreint markmið, þú þarft að vera með konsept sem þurfa að vera skýr og þú þarft að segja „þetta, kjósendur góðir, er það sem við stöndum fyrir, við ætlum að fara með þig hingað og við ætlum að vera öðruvísi en hinir“.

Grasrótin. Hún vill að flokkurinn hafi þá ásýnd og hafi þá ímynd að hann standi með öllum.

Helgi segir að það sé möguleiki á að þeir sem stýra flokknum séu ekki í nægilegum tengslum við þann veruleika sem blasir við mörgum. „Það er eitthvað sem ég vil vinna í og hef áhuga á. Þegar ég tala við sjálfstæðisfólk víða þá er það þetta sem fólk vill að flokkurinn standi fyrir. Grasrótin. Hún vill að flokkurinn hafi þá ásýnd og hafi þá ímynd að hann standi með öllum.“

Er Helgi að tala um að flokkurinn sé of elítískur?

„Ég er þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að endurskoða margt í sínum vinnubrögðum vegna þess að þetta er flokkur sem var með að meðaltali vel yfir 30%; ég held nálægt 40% í alþingiskosningum og á ákveðnu tímabili var hann með yfir 50% í Reykjavík; fyrir hrun var hann með í Reykjavík yfir 40% þó að R-listinn hafi unnið. Og meðaltalið núna er undir 30% í Reykjavík.“

Hann nefnir þá sem eru í forystu flokksins. „Ef þeir halda að þetta sé bara í lagi, að flokkurinn eigi að halda áfram að stefna niður á við og það sé ekki ástæða til að endurskoða starfsaðferðir, endurskoða fyrir hvað við stöndum, hvernig við lítum út og hvernig við komum skilaboðum á framfæri þá held ég að fólk sé á villigötum.“

Aðalatriðið er að það sé lögð vinna í að fara eftir einhverjum prinsippum.

Helgi segir að það þurfi að stefna að því að endurskilgreina flokkinn í huga kjósenda og hann vill taka þátt í þeirri vinnu. „Það er alveg óháð því hverjir eru nákvæmlega í forystu eða hvort henni verði breytt. Aðalatriðið er að það sé lögð vinna í að fara eftir einhverjum prinsippum eins og til dæmis Framsóknarflokkurinn endurskoðaði sínar starfsaðferðir og fleira fyrir nokkrum árum og margir frambjóðendur Framsóknarflokksins hafa gert grein fyrir því. Og það er kominn tími á að Sjálfstæðisflokkurinn fari í sambærilega endurskoðun.“

 

Hungrið

Helgi Áss Grétarsson varð heimsmeistari í skák 17 ára gamall meðal 20 ára og yngri.

„Það hafði mikil áhrif á mitt líf að ná þessari tign svona óvænt og það steig mér til höfuðs og margt sem gerðist og ég hef lært af því ferli mjög mikið. Eitt af því sem ég tek út úr þessu öllu saman er að þegar þú vinnur stóra sigra þá getur það um leið verið hluti af því að þú sért að fara niður. Og þegar þú tapar mikið í lífinu þá getur það verið upphafið að stórum sigrum.“ Helgi segist elska að keppa og vinna og hati að tapa. „Ég bara þoli ekki að tapa. En það sem ég hef lært er að taka bæði sigrum og töpum af ákveðinni auðmýkt. Það er mjög mikilvægt hugtak sem ég er að nota – auðmýkt og þakklæti – vegna þess að það sem ég kalla núllstillingu þýðir það að það gerist eitthvað sem er kannski dramatískt og breytir aðstæðum og þá þarf maður að aðlaga sig að aðstæðunum og núllstilla sig hvort sem það er jákvætt eða slæmt. Því um leið og maður nær að núllstilla sig þá er hausinn miklu skýrari varðandi hvað eigi að gera næst; hvað er best að gera til að bæta stöðuna. Og þá er komið að öðru sem er mikilvægt og það er hungur. Vera alltaf hungraður. Alltaf að sækja fram. Þannig að þetta eru prinsipp sem ég hef tileinkað mér í raun og veru á undanförnum árum. Mér hefur þótt vera þroskandi að vera í pólitík því karakterseinkennið var að ef eitthvað kom óheppilegt upp á þá gat ég tekið því mjög illa. En nú finnst mér ég vera með þroska; ákveðna fjarlægð frá viðburðum til að átta mig á að „ok, þetta er bara svona og hvernig er best að bregðast við“?“

Það lýsti sér í að væntingarnar urðu óraunhæfar og mér leið ekkert sérstaklega vel á eftir.

Það steig Helga til höfuðs að verða heimsmeistari í skák 20 ára og yngri. Hvernig lýsti það sér?

„Það lýsti sér í að væntingarnar urðu óraunhæfar og mér leið ekkert sérstaklega vel á eftir og ég tók nokkur ár í að þroskast og finna sjálfan mig í skákinni aftur. Það varð breyting til batnaðar. Ég flutti til Tékklands og bjó í Prag í tvö ár.“ Hann eignaðist konu og barn og segist þá hafa tekið töluverðum framförum. „Ég sýndi fram á allavega gagnvart sjálfum mér að þetta væri eitthvað sem ég gæti valið. En það var einhvern veginn þannig að ég var búinn að ákveða einhverjum árum fyrir Tékklandsferðina eða -dvölina að afla mér menntunar og fara að starfa við eitthvað annað en við skák.“

Hann einbeitti sér að skákinni í Tékklandi eins og hann hafði gert áður heima á Íslandi. „Málið er að í Tékklandi kynntist ég svo mörgum nýjum hliðum á skákinni. Í Austur-Evrópu eru margir öflugir fagmenn eða fagfólk. Það er bæði hvernig þú þjálfar, hvernig þú hugsar, hvernig þú tekur ákvarðanir og hvernig þú metur stöður. Þetta er eins og iðnaður í raun og veru. Fólk sem sér skákina utan frá heldur að þetta sé einhver dans á rósum eða leikur en þetta er að mörgu leyti tiltölulega stór iðnaður og menntunarstigið í grunninn frá Austur-Evrópu var miklu hærra en á Vesturlöndum.“

Hann talar um fall Berlínarmúrsins og járntjaldsins og segir að eftir það hafi þekking og sá grunnur sem Sovétmenn og aðrir höfðu lagt í skákina dreifst út um allan heim. „Þannig eru til dæmis Indverjar mjög öflugir í dag og Bandaríkjamenn. Skák er ótrúlega fjölbreytt í raun og veru þegar þú þarft að afla þér upplýsinga um öll smáatriði til að geta keppt við þá bestu.“

Ég gat tekið töpum eða áföllum mjög persónulega.

Hvað þarf til að ná miklum árangri? Hvernig þarf ryþminn og hugarfarið að vera til að menn nái langt?

„Prinsippin eru að þú þarft að hafa mjög mikinn áhuga, þú þarft að vera tilbúinn að leggja á þig mjög mikla vinnu og þú þarft í raun og veru að elska þetta mjög mikið. Það þarf mikla ástríðu að ég tel. Það var til dæmis eitt sem ég átti mjög erfitt með þegar ég var upp á mitt besta og það var að ég gat tekið töpum eða áföllum mjög persónulega. Ef það gekk vel og svo tapaðir þú í 6. umferð og það voru þrjár umferðir eftir þá gat eitt svona áfall haft veruleg áhrif á það sem gerðist síðar. Og það er það sem ég hef lært almennt sem aðferð í lífinu: Það er sama hvort þú sért að vinna eða tapa. Það er þessi núllstilling.“

 

Erfitt og viðkvæmt mál

Helgi er lögfræðingur og var árið 2019 sagt upp störfum sem dósent við Lagadeild Háskóla Íslands.

„Þetta er erfitt og viðkvæmt mál að tala um en í sem skemmstu máli þá taldi ég að ég hefði skrifað nægilega margar fræðigreinar á tilteknum vettvangi til þess að það ætti að standa mér til boða að fá ráðningu sem væri ótímabundin. Um þetta var ágreiningur og stjórnendur háskólans töldu að reglurnar ættu að vera túlkaðar með öðrum hætti. Þannig að niðurstaðan var sú að ég lét af störfum. Ég var í 13 ár við Lagastofnun HÍ og er þakklátur fyrir þau ár. Þetta hefur kennt mér margt og ég taldi til dæmis að ég væri orðinn frábær kennari og það hefur finnst mér gagnast í stjórnmálum. En í sem skemmstu máli þá tel ég að stjórnendur HÍ og fyrst og fremst fólk innan lagadeildarinnar hafi þá áhuga á að reglurnar væru túlkaðar þannig að ég léti af störfum.“

Ágreiningurinn 2019 snerist um það hvort ég hefði haft fullnægjandi framlag til fræðaheimsins.

Hvað með LÍÚ og styrktarstöðu?

„Ég var starfsmaður Lagastofnunar Háskóla Íslands 2006-2012 og sá samningur var milli mín, Lagastofnunar og HÍ og hann var fjármagnaður síðan með samningi sem Lagastofnun gerði við Landssamband íslenskra útvegsmanna. Það var þannig að Lagastofnun var að reyna að auka rannsóknarvirkni meðal annars á sviði auðlindaréttar og gerði samning við LÍÚ og svo var verið að reyna að finna starfsmann og ég var ekki sá fyrsti sem leitað var til en ég ákvað að taka þetta verkefni með trompi og skrifaði mikið um sögu fiskveiða eða fiskveiðistjórnunar og kynnti mér nákvæmlega hvernig stjórnkerfi fiskveiða hefur þróast. Þetta er mjög flókið regluverk þannig að ég gaf út fullt af efni á þessum árum. Svo 2012 var ég ráðinn sem kennari og fékk að endingu stöðu dósents vegna þess að ég hafði skrifað það mikið að ég átti rétt á að verða dósent. Það var ýmislegt sem gekk á í mínu lífi á þessum árum og ég þurfti virkilega að taka mig á til þess að verða góður kennari. Það tók mig nokkur ár að ná tökum á því verkefni. Á meðan var ég ekki eins virkur að skrifa um lögfræði eins og ég hafði verið. Það var sem sé þannig að ágreiningurinn 2019 snerist um það hvort ég hefði haft fullnægjandi framlag til fræðaheimsins. Og ég mat að svo væri en stjórnendur háskólans töldu það ekki vera þannig.“

Þannig að Helgi fór.

„Já, það tók mig 18-24 mánuði að jafna mig á þessu af því að ég hafði lagt svo mikið á mig að verða góður kennari. En þá notaði ég skákina. Það er góður kostur að eiga góða fjölskyldu og góðan maka. Í svona áföllum þarf maður að læra það sem ég kallaði áðan auðmýkt.“

 

Dómstóll götunnar

Helgi var ekki feiminn við að gagnrýna RÚV fyrir viðtal við Þórhildi Gyðu sem lýsti áreiti Kolbeins Sigþórssonar knattspyrnumanns. Það þarf svolítinn kjark til að ganga á móti þessari bylgju, MeToo. Flestir fara ofan í holu og segja ekki orð.

Þú ert að fara að saka einhvern um eitthvað sem er alvarlegt sem ekki hefur verið tekið fyrir af hálfu dómstóla.

„Árið 2021 fann ég aftur þörf fyrir að fara að skrifa um samfélagsmál og ég fann að þetta er minn styrkleiki. Og ég fann að aðilar í háskólaumhverfinu höfðu haft slík áhrif á mig að ég hafði dregið úr því og það hafði dregið úr kjarkinum mínum. Það þýddi það að um leið og ég var búinn að vinna mig úr því áfalli að hætta hjá HÍ þá fann ég að fyrir þetta stend ég. Ég stend fyrir eitthvað. Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að skrifa um þessi mál  – það er að segja réttarhöld á samfélagsmiðlum og svo framvegis – er að ég upplifði hvert er viðhorf ungu kynslóðarinnar. Og það hræddi mig svolítið með tilliti til réttlátrar málsmeðferðar og svo hitt að ég taldi mig hafa næga þekkingu á akademíska umhverfinu og þessi hugmyndafræði öll kom frá Bandaríkjunum og var síðan innrætt í akademíuna hér á landi og fer svo inn í skólakerfið „og så videre“. Það er mikilvægt að það sé staðið gegn þessu og sagt „við skulum tala um staðreyndir“. Og það sem ég var fyrst og fremst að gagnrýna þarna í viðtalinu hjá RÚV var þetta tiltekna viðtal: Það laut einfaldlega að því að það voru til gögn. Þú ert að tala við viðmælanda sem var með mjög alvarlegar ásakanir og gefa eitthvað í skyn. Þú ert blaðamaður. Þegar þú birtir þetta viðtal eða áður en það er tekið er eðlilegt að spyrja „hefur þú tök á að reiða fram lögregluskýrslu eða kæruna? Getum við fengið einhver sönnunargögn?“. Það er þannig sem við lögfræðingar vinnum. Þú ert að fara að saka einhvern um eitthvað sem er alvarlegt sem ekki hefur verið tekið fyrir af hálfu dómstóla: Hvernig væri að fá sönnunargögn og heimildir um hvað sé satt og rétt? Það sem greinin mín snerist um var það, að þá hafði verið gert opinbert hverjar væru staðreyndir málsins með tilliti til hvað stæði í lögregluskýrslu.

Það sem var aðalatriðið var að þessi skjöl, þessi trúverðugu gögn, gáfu til kynna að myndin væri önnur en það sem kom fram í viðtalinu. Það er eðlilegt að spyrja hver vinnubrögð fjölmiðlamannsins væru þegar viðtalið var tekið.“

Er Helgi ekkert smeykur við að blanda sér í þetta málefni?

„Ég hef sannað það með verkum mínum að ég stend fyrir ákveðna hluti og ég hef hugrekki til að fylgja þeim eftir. Það er erfitt.“

Fékk hann ekki á sig holskeflu þarna?

„Jú, en hvaða máli skiptir það? Ég er með verkefni eða sýn og það sem er að gerast til dæmis núna í samfélaginu er að það er popúlismi í gangi sem er tilfinningalegur og byggður á því að samfélagsmiðlar eru ný tegund af miðlum og það er svo auðvelt núna að hræra í hausnum á fólki. Það er svo auðvelt að breyta viðhorfum og skoðunum eftir nokkrar sekúndur. Það er hættulegt. Það hefur alltaf sýnt sig þegar kemur ný tækni eða þeir sem berjast fyrir því sem ég kalla ofstæki geti í skjóli þekkingar sinnar, áróðri og fleiru haft óeðlilega mikil áhrif og ég man það svo og met það svo að það verður einhver að vera tilbúinn að standa gegn svona þróun vegna þess að það er þannig sem við verjum siðað samfélag og það er þannig sem við verndum réttarríkið.“

 

Ég var alveg brjálaður

Varaborgarfulltrúi. Hvað með skákina? Jú, Helgi Áss Grétarsson er farinn að tefla meira en hann gerði í mörg ár.

„Ein ástæðan fyrir því að ég er kominn af svona auknum krafti í skákina er að ég varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari í skák mjög óvænt 2018 og komst þá á Ólympíuskákmót. Það var frábær upplifun að fara á Ólympíuskákmót þar sem maður hittir fólk frá öllum heimsálfum. Mér var boðið núna sæti á Ólympíuskákmóti og við förum út 25. júlí held ég og komum til baka 10. ágúst. Ég er að fara núna út til að æfa mig fyrir mótið af því að pólitíkin hefur tekið hug minn og tímann allan í nokkra mánuði en ég á ekki von á öðru en að þetta verði síðustu verkefni mín í skákinni í svolítið langan tíma.“

Hann segist gjarnan vilja geta orðið skáklistinni að liði eins mikið og hann getur vegna þess að hann elski skák. „Mér finnst skák frábær og hún gefur manni mjög mikið og hún þroskar mann. Þetta er mjög gott tæki til að efla hugann; efla mjög marga þætti einstaklingsins. Ég er með þessi verkefni fram til 10. ágúst í skákinni en ég á ekki von á öðru en að þá taki við hinn pólitíski veruleiki og það sem ég vil gera. Ég vil vera öflugur í stjórnmálunum.“

Er Helgi búinn að gefa upp alla von um að verða heimsmeistari?

„Ég held það, því miður. Ég tapaði fyrir núverandi heimsmeistara, Magnus Carlsen, þegar hann ar á 13. ári. Ég varð alveg brjálaður. Ég henti skorblaðinu. Þetta var árið 2003. Það var mikil sorg. Ég var alveg brjálaður að tapa fyrir einhverju norsku barni.“

 

Sjá má viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -