Föstudagur 26. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Sonur og móðir Evu dóu bæði fyrir tilstilli annarra: „Það er ofboðslega sárt að missa fólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eva Hauksdóttir. Íslensku- og bókmenntafræðingur. Lögmaður. Aðgerðasinni sem kallaði sig einu sinni norn. Móðir tveggja sona. Til annars þeirra, Hauks, hefur ekki spurst í þrjú ár þar sem talið er að hann hafi fallið í Sýrlandi. Móðir hennar lést í hittifyrra eftir að hafa lagst inn í hvíldarinnlögn á stofnun en var sett á lífslokameðferð án vitneskju aðstandenda. Málið var sent til landlæknis og er nú á borði lögreglu.

Eva Hauksdóttir var skírð Jóhanna Helga. Hún segist hafa alist upp á nokkrum stöðum á landinu en að sér finnist hún ekki vera tengd neinum stað nema Reykjavík; Njarðvík. Akureyri. Hjalteyri. Hún gekk í níu grunnskóla. Segist hafa verið nörd; orti ljóð, hafði allt annan tónlistarsmekk en flestir jafnaldrar hennar, hafði áhuga á samfélagsmálum og trúmálum en hún fermdist ekki. Og hún fékk áhuga á göldrum. Svo varð hún ástfangin, trúlaus stúlkan, á trúarsamkomu hjá Bahá’í-samfélaginu þar sem hún var virk um nokkurra ára skeið. Hún varð ófrísk 18 ára, gifti sig og eignaðist eldri son sinn, Hauk, árið 1986. Sá yngri, Darri, fæddist tveimur árum síðar. Hjónabandið entist í fjögur ár. Það var þessi fyrrum eiginmaður hennar sem fór að kalla Jóhönnu Helgu Evu eftir að hún bálskotin í honum gaf honum ávaxtakörfu með eldrauðu epli í áður en þau byrjuðu að vera saman. Hún lét síðar breyta nafninu í Þjóðskrá. Eva. Eva eins og sú Eva sem rétti Adam epli.

„Ég ætlaði  að verða lögmaður þegar ég var unglingur og sá þá fyrir mér að þetta yrði eins og í sjónvarpsþáttunum um lögmanninn Matlock; ég sá fyrir mér að ég væri alltaf að gera eitthvað gott – bjarga einhverjum sem væri ásakaður um morð en reyndist vera saklaus. Það var ímyndin. Ég fór hins vegar ekki í lögfræði fyrr en ég var orðin harðfullorðin, 47 ára.“

Eva Hauksdóttir kláraði BA-nám í íslensku, tók MA-próf í almennum bókmenntum frá háskólanum í Leeds og hefur meðal annars starfað við kennslu í grunnskóla, blaðamennsku og þýðingar.

Hún hefur skrifað bók. Bókin hennar „Ekki lita út fyrir – Sjálfshjálparbók handa sjálfri mér og öðrum ýlandi dræsum“ lýsir einsemd mannsins í heimi hræsni og blygðunarkenndar. Í bókinni er fjöldi ljósmynda svo sem nektarmyndir af Evu.

Svo eru það jú galdrarnir. Eva rak um árabil verslun. Nornaverslun. Nornabúð.

- Auglýsing -

„Ég var áhugasöm um mannshugann og allt sem ég taldi vera yfirnáttúrulegt alveg frá því ég var krakki. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu þegar ég var mjög ung að það væri ekki til nein yfirnáttúra en ég taldi samt og tel enn að mannshugurinn sé gríðarlega öflugur og það sé hægt að hafa áhrif á veruleikann með hugsun sinni að ákveðnu marki. Og það er það sem ég kalla galdur. Mér fannst þetta vera skemmtilegt tímabil þegar ég var með Nornabúðina. Ég var að selja alls konar verndargripi og heillagripi og svo var ég með galdur í neytendapakkningum. Þetta tímabil er búið. Ég hef í dag engan áhuga á því að vera að reyna að galdra fyrir fólk en ég fæ af og til einhverjar óskir um það. Ég er svolítið þannig að ég helli mér út í eitthvað og hef áhuga á því í nokkur ár og svo fer ég að gera eitthvað annað. Núna er ég bara í lögfræðinni.“

Mér fannst þetta vera skemmtilegt tímabil þegar ég var með Nornabúðina. Ég var að selja alls konar verndargripi og heillagripi og svo var ég með galdur í neytendapakkningum.

Aktívisti

Eva, áður Jóhanna Helga, er með sterkar skoðanir á hlutunum og sumir tengja hana við það að rífa kjaft opinberlega svo sem á prenti. Hún er það sem kallað er aktívísti. Hún var virk í Saving Iceland og lét heyra í sér þar og svo var það hin svokallaða búsáhaldabylting. Á Wikipedia segir meðal annars þegar Eva er gúggluð:

- Auglýsing -

Aðgerðasinninn Eva

Eva Hauksdóttir var mjög virk í mótmælum búsáhaldabyltingarinnar frá miðjum nóvember 2008 og út janúar 2009 og var þar í hópi aðgerðasinna (e. activist).

Aðgerðasinnar ganga harðar fram

Krafa Evu og annarra aðgerðasinna/anarkista var að reka ríkisstjórnina í burtu og koma á beinu lýðræði í framhaldinu. Einnig gengu aðgerðasinnar harðar fram í mótmælum búsáhaldabyltingarinnar en aðrir mótmælendur. T.d. með því að kveikja í Óslóar jólatrénu sem staðsett var á Austurvelli. Þá ber að nefna áhlaupið á lögreglustöðina við Hverfisgötu 22. nóvember 2008.

Aðkoma Evu í áhlaupinu á lögreglustöðina 22. nóvember 2008

Sonur Evu, Haukur Hilmarsson, var handtekinn 21. nóvember 2008 fyrir að draga Bónusfána að húni efst á þaki Alþingis í miðjum mótmælum. Síðar kom í ljós að ástæða handtökunnar var ekki vegna fánaatviksins heldur vegna fangelsisdóms sem Haukur hafði hlotið en átti eftir að afplána. Hann hafði þó aldrei fengið boðun í afplánun og telja vinir hans og aðstandendur að raunveruleg ástæða handtökunnar hafi verið sú að lögreglan hefði veður af mótmælaaðgerð sem var fyrirhuguð helgina eftir. Í kjölfar handtökunnar réðst fjöldi fólks í áhlaup á lögreglustöðina við Hlemm.

Herská ræða Evu fyrir utan lögreglustöðina

Eva Hauksdóttir hélt ræðu fyrir utan lögreglustöðina hvar hún fór fram á frelsi sonar síns. Eftir að engin viðbrögð fengust frá lögreglu hófu mómælendur áhlaup inn í húsið í gegnum læstar aðaldyr höfuðstöðvar lögreglunnar.

Eva og aðgerðasinnar verða fyrir piparúða lögreglu

Á meðan á mótmælunum stóð beitti lögreglan piparúða og þurftu nokkrir að leita aðhlynningar á slysadeild – meðal annars Eva Hauksdóttir sem þótti mótmæla friðsamlega.

Ónefndur aðili greiðir sekt Hauks

Þegar allt var á suðupunkti í mótmælunum steig ónefndur aðili fram og greiddi sektina hans Hauks sem þar með var sleppt úr haldi.

Þetta að framan er altso á Wikipedia.

Blaðamaður Mannlífs spyr Evu hvað standi upp úr hvað hana varðar þegar kemur að búsáhaldabyltingunni.

„Það er sterk minning þegar Haukur flaggaði Bónusfánanum og þessar aðgerðir sem ég tók sjálf þátt í; þessi stóru mótmæli sem urðu til þess að ríkisstjórnin fór frá. Það eru sterkar minningar. En hvað stendur upp úr? Þetta var mjög skemmtilegur tími á margan hátt. Fólk fann svolítið til sín við að geta sett ríkisstjórn stólinn fyrir dyrnar. Og það er gaman. En þegar maður horfir til baka þá spyr maður sig hverju þetta skilaði og ég er dálítið svekkt. Við fengum ekki einu sinni nýja stjórnarskrá. Það breyttist í rauninni ekki mikið. Þetta voru uppþot. Ekki bylting. Ég ætla samt ekki að gera lítið úr þessu því þetta skipti máli og vakti fólk auðvitað til umhugsunar um byltingu, klíkusamfélagið og spillingu. En það hafa ekki orðið neinar kerfisbreytingar. Það hefur ekki neitt breyst rosalega mikið við þetta.“

Við fengum ekki einu sinni nýja stjórnarskrá. Það breyttist í rauninni ekki mikið. Þetta voru uppþot. Ekki bylting.

Þarf að opna landamærin

Málefni flóttafólks og hælisleitenda hafa verið Evu hugleikin. Hún fór til Palestínu árið 2008 til að styðja Palestínumenn í baráttu þeirra með því að veita Palestínufólki vernd með nærveru sinni eins og hún segir. „Ég var með alþjóðlegri samstöðuhreyfingu. Við vorum til dæmis að fylgja fólki sem var að sækja ólífuuppskeru. Landtökufólk ræðst oft á Palestínumenn með grjótkasti og hermenn eiga það til að loka vegum án heimildar bara til að hindra fólk í að komast leiðar sinnar. Bara það að einhver alþjóðaliði sé á staðnum er vörn því þeir sem brjóta gegn mannréttindum annarra vilja síður að það rati í vestræna fjölmiðla. Þetta var mjög áhugavert, bæði skemmtilegt að kynnast ólíkri menningu en líka átakanlegt að verða vitni að kúgun.

Ég er aðgerðasinni í þeirri merkingu að ég er hlynnt beinum, friðsamlegum aðgerðum en ég hef ekki verið mjög virk sjálf síðustu árin. Það hentar mér mjög vel að skrifa og ég fékk það hlutverk bæði í Saving Iceland og búsáhaldabyltingunni. Eins varðandi flóttafólk en þar hefur framlag mitt að miklu leyti falist í að taka þátt í samfélagsumræðu og skrifa pistla.

Haukur gekkst fyrir stofnun No borders á Íslandi og ég er því sammála að það þurfi að opna landamæri. Mörgum finnst það vera hræðileg hugmynd að allir geti farið allt sem þeir vilja og auðvitað hafa slíkar breytingar vandamál í för með sér. Það þýðir samt ekki að við eigum ekki að opna landamæli heldur skiptir máli hvernig staðið væri að því. Ég held ekki að það væri raunhæft að Ísland eitt landa opni landamæri sín fyrir hverjum sem er fyrir klukkan 10 í fyrramálið. En ég held að það eina raunhæfa sem Evrópa og Vesturlönd geti gert í sambandi við flóttamannastrauminn frá Afríku og Mið-Austurlöndum sé að opna landamærin og hætta að setja fólki þær hömlur sem gilda í dag. Það er til dæmis vesen að fá atvinnuleyfi og þegar fólk má ekki vinna er það áfram illa statt, bara á annan hátt en fyrr. Ég held að vestræn ríki verði bara að sameinast um það að opna landamærin smám saman en ef fólk ætlar að vera þátttakandi í vestrænu samfélagi þá finnst mér í lagi að það þurfi til dæmis að lýsa því yfir að það virði stjórnarskrá landsins og mannréttindi. Ég held til dæmis að það yrði rosalegt vandamál ef við værum komin með tvöfalt lagakerfi. Ég vil gjarnan taka á móti fullt af múslímum en ég vil samt ekki að þetta fari út í það sem hefur orðið í Bretlandi þar sem til eru sérstakir fjölskyldudómstólar sem fylgja sharíalögum. Ég er ekkert frá því að það þyrfti að grípa til einhverra ráða til þess að koma í veg fyrir að það yrði til eitthvað annað ríki í ríkinu.“

En ég held að það eina raunhæfa sem Evrópa og Vesturlönd geti gert í sambandi við flóttamannastrauminn frá Afríku og Mið-Austurlöndum sé að opna landamærin og hætta að setja fólki þær hömlur sem gilda í dag.

Hvað með innviðina ef landamærin yrðu opnuð?

„Við eigum að geta haldið uppi sæmilegu velferðarsamfélagi fyrir alla. Við getum til dæmis hækkað veiðigjöld. Það eru til nógir sjóðir til að sækja í til að stofna fleiri sjúkrahús og skóla en hluti vandans er sá að flóttafólk fær ekki strax aðgang að atvinnumarkaði.“

Týndur

Haukur. Haukur kom í heiminn á rigningardegi í júlí.

„Haukur var ótrúlega hlýðið barn. Hann var ofboðslega rólegur og hugsandi og maður hafði einhvern veginn engar áhyggjur af því að hann myndi einhvern tímann fara sér að voða. Ekki fyrr en hann skreið á unglingsárin en þá hafði hann gaman af alls konar áhættuhegðun; hann hafði meðal annars gaman af flúðasiglingum og að stökkva fram af brúm og klettum í ár. Hann langaði á tímabili til að verða áhættuleikari. Hann fann hins vegar áhættu- og átakaþörf sinni  arveg í pólitík.“

Eva segir að Haukur hafi verið bókaormur sem barn þó hann hafi verið seinlæs og átt í sértækum lestrarerfiðleikum sem hann tókst á við og var hann farinn að lesa mikið sem unglingur. „Sem lítill krakki var hann sjaldan í fótbolta með strákunum þar sem hann vildi frekar vera heima að lesa og ræða heimsmálin. Hann hafði sem unglingur kannski svolítið öðruvísi áhugamál en vinir hans. Hann var félagslyndur og var alls staðar vinsæll. Hann var lítil þegar hann var farinn að hafa áhuga á samfélagsmálum og trúarbrögðum. Hann fermdist ekki og var það upplýst ákvörðun hjá honum. Hann ræddi held ég við þrjá presta og spurði þá út í hluti eins og til dæmis hvað gerist eftir dauðann og ýmis siðferðileg vandamál og honum líkuðu ekki svörin því hann var oft spurður hvað hann héldi sjálfur um þetta þegar hann var að spyrja um boðun kirkjunnar. Hann sá að þetta var ekki fyrir sig. Hann var mjög sjálfstæður og vel hugsandi myndi ég segja frá unga aldri.“

Eva segir að Haukur hafi verið mjög utan við sig.

„Það getur vel verið að hann hafi verið með einhvern athyglisbrest en það var aldrei greint. Hann var sveimhugi og gleymdi og týndi hlutum. Maður gat stundum verið rosalega þreyttur á því. En hann var alltaf ofboðslega skapgóður og það var auðvelt að eiga við hann sem barn.“

Eva segir að Haukur hafi haft áhuga á anarkisma og byltingum frá unga aldri. Og hugur hans leitaði út í heim. Hann hélt til Grikklands árið 2015 þar sem hann dvaldi að mestu í um tvö ár og segir Eva að hann hafi búið í kommúnum eða hústökuhúsum. Svo frétti hún að hann væri kominn til Sýrlands.

„Hann fór án þess að láta okkur vita. Hann fór á bak við okkur. Við, ég og pabbi hans, vissum ekki betur en að hann væri í Grikklandi. Svo leið langur tími án þess að hann hafði samband og við vorum orðin hrædd um hann. Við vorum farin að láta leita að honum í Aþenu og höfðum samband við fullt af vinum hans og þá fréttum við að hann hefði farið til Sýrlands. Ég varð ofboðslega reið. Ég hef aldrei verið eins reið við hann. Og ég var náttúrlega hrædd því við vissum ekki hvar hann var eða hvað hann væri að gera. Okkur var sagt að hann hefði gengið til liðs við hersveitir Kúrda en það gat þýtt margt; var hann í rústabjörgun, vopnaburði eða að hjálpa flóttamönnum? Við vissum það ekki fyrr en löngu síðar. Þegar við loksins náðum tölvupóstsambandi við hann þá þorðum við lítið að pumpa hann vegna þess að hann hafði áhyggjur af tölvupóstnjósnum og símhlerunum. Við vissum að hann myndi ekki svara okkur ef við töluðum um þetta beinum orðum.“

Við vorum farin að láta leita að honum í Aþenu og höfðum samband við fullt af vinum hans og þá fréttum við að hann hefði farið til Sýrlands.

Eva segir að hún og faðir Hauks hafi í raun lítið vitað um dvöl hans í Sýrlandi fyrr en þær hræðilegu fréttir bárust þeim að hans væri saknað eftir loftárás Tyrkja á svæði þar sem hann hefði barist með hersveitum Kúrda.

Þögn.

„Þetta var tilfinningalegur rússíbani. Það fylgir því náttúrlega angist þegar maður er ofboðslega hræddur um það sem manni er kærast í lífinu hvort sem það eru börnin manns eða aðrir nákomnir. Það er misjafnt hvernig fólk tekst á við svona áfall. Ég er mjög heppin að eiga góða að; fólk sem hefur virkilega hjálpað mér og ég tel mig hafa jafnað mig á þessu eins og maður á annað borð jafnar sig á slíku. Það koma þó tímabil ennþá þegar mér finnst ég verða gagntekin af Hauki og get einhvern veginn ekki hugsað um neitt annað í nokkra daga. Svo koma önnur tímabil þar sem mér finnt óþægilegt að rekast á mynd af honum eða sjá eitthvað sem hann skrifaði. Það verður jafnvel þannig að ég forðast það kannski í nokkra daga. Þetta hefur verið að gerast í kringum afmælið hans og í kringum mánaðamótin febrúar og mars en þá fengum við þessar fréttir. Það eru svo margar vondar tilfinningar sem tengjast þessum tíma. Ég er samt ekkert ónýt manneskja eftir þetta. Ég held að aðrir aðstandendur hans hafi flestir tekið sömu afstöðu og ég að við ætlum að reyna að minnast hans með gleði.“

Haukur Hilmarsson

Ég held að aðrir aðstandendur hans hafi flestir tekið sömu afstöðu og ég að við ætlum að reyna að minnast hans með gleði

Leitar að Hauki í draumum

Lík Hauks fannst aldrei.

„Mér fannst það vera ofboðslega erfitt fyrst að það væri ekkert lík. Að fá ekki neina staðfestingu. Ég hef sætt mig við það í þeim skilningi að ég er ekki að velta mér upp úr þessu í dag. En ef ég myndi til dæmis frétta að fjöldagröf hefði fundist á þessu svæði þá veit ég að ég myndi ekkert sofa næstu nótt. Ég veit að það yrði mjög aðkallandi hugmynd að reyna að fara að garfa í þessu aftur; finna líkamsleifar. En þetta er bara veruleiki sem ég get ekki stjórnað og ég hef tekið þá afstöðu að ég ætla ekki að láta þetta eyðileggja líf mitt.“

Haldin var minningarathöfn sumarið 2019 og kom meðal annars fjöldi vina frá útlöndum og þar á meðal fólk sem hafði kynnst Hauki í gegnum aktívisma bæði hér og erlendis.

„Þetta var heil helgi og við vorum með alls konar viðburði. Við héldum málþing í minningu Hauks en hann hefði haft miklu meira gaman af því sjálfur að hafa málþing heldur en hefðbundna útför. Þannig að við létum þetta snúast meira um hugsjónir hans og hugmyndir heldur en einhvern veginn um hann sem persónu. Svo vorum við með minningardagská í Þjóðleikhússkjallaranum þar sem vinir hans komu fram og voru með tónlistaratriði og ljóðalestur og sameiginlegt borðhald.“

Haukur klifraði fyrir rúmum áratug upp á þak Stjórnarráðsins og flaggaði þar fána Jörundar hundadagakonungs skreyttum þremur saltfiskum. „Hann gerði það í minningu eina byltingarmannsins sem uppi hafði verið á Íslandi. Bróðir hans, Darri, fór svo upp á þak Stjórnarrráðsins sumarið 2018 og framdi gjörning í minningu bróður síns. Við vorum þá mjög reið út í bæði utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið þar sem okkur fannst ekki vera nógu mikið gert til að reyna að fá einhver svör um afdrif Hauks frá Tyrklandi en við höfðum enga staðfestingu á því að hann væri dáinn. Við töldum að þessi linkind stæði í sambandi við viðskiptahagsmuni en utanríkisráðuneytið stóð þá í samningaviðræðum við Tyrki um skipakaup. Bróðir hans flaggaði tyrkneska fánanum á þaki Stjórnarráðsins til að minna á þá afstöðu. Það var skemmtileg aðgerð. Falleg aðgerð.“

Eva segist halda að það hefði verið þungbærara ef hún hefði misst Hauk á þann hátt að hann hefði snúið við henni baki og hætt að tala við hana.

„Ég á eingöngu góðar minningar um hann og það er mikil huggun. Ég hef lengi haft þá afstöðu að dauðinn sé hluti af lífinu. Það er sárt að missa fólk. Ofboðslega sárt. Maður gengur í gegnum djúpa sorg. En maður má ekki láta það eyðileggja líf sitt af því að þetta eru hlutir sem við ráðum ekki. Við getum ekki stjórnað því hvort fólk lifir eða deyr. Og við getum ekki stjórnað börnunum okkar þegar þau eru orðin fullorðin. Ég hefði ekki getað bannað Hauki að fara til Sýrlands; ég hefði reynt það ef ég hefði vitað að hann væri að fara – þess vegna sagði hann mér ekki frá því. Ég hefði reynt að stoppa hann með mikilli frekju. En ég hefði ekki getað komið í veg fyrir það endalaust. Og maður á heldur ekki að gera það. Maður getur ekki annað en reynt að taka þessu með æðruleysi og svo gengur það misvel. Maður er ekkert æðrulaus daginn sem maður fær hræðilegar fréttir. Og maður er ekki mjög æðrulaus daginn sem maður fær „nei“ frá stjórnvöldum hvort sem það er utanríkisráðuneytið eða lögreglan. Þá verður maður svolítið brjálaður í bili og ég gekk alveg í gegnum svolítið brjálað tímabil þar sem ég var brjáluð út í Erdogan, forseta Tyrklands, vegna þessarar innrásar. Ég leyfði mér að taka það út með því að skrifa eitthvað ljótt um hann. Ég tókst á við það þannig og ég er viss um að mörgum hafi fundist það vera mjög geðveikislegt. Og það er allt í lagi. Það er allt í lagi að maður verði svolítið geðveikur þegar svona hlutir gerast. Það er hins vegar ekki í lagi að festast í því. Það er ekki í lagi að láta það eyðileggja líf sitt en það er allt í lagi að maður taki út svolítið brjálæði og mikla sorg og sé svolítið leiðinlegur í dálítinn tíma. Fólk verður bara að þola það.“

Eva er spurð hvort hana dreymi stundum Hauk.

„Ég man sjaldan drauma en þegar mig dreymir hann þá dreymir mig sjaldan atburði sem hann er þátttakandi í. Draumarnir snúast meðal annars um að ég er að fara til Sýrlands að leita að honum.“

Það er ekki í lagi að láta það eyðileggja líf sitt en það er allt í lagi að maður taki út svolítið brjálæði og mikla sorg og sé svolítið leiðinlegur í dálítinn tíma. Fólk verður bara að þola það.

Kært til lögreglu

Annað voveiflegt andlát varð í fjölskyldu Evu þegar móðir hennar, Dana Kristín Jóhannsdóttir, lést í október árið 2019.

„Hún var búin að vera sjúklingur í mörg ár og var búin að vera inn og út af spítölum. Hún fór í hvíldarinnlögn á Heilbrigðsstofnun Suðurnesja 1. ágúst árið 2019 og við komumst að því síðar að hún var sett á lífslokameðferð án þess að neinar forsendur væru fyrir því; hún var ekki með lífsógnandi sjúkdóma,“ segir Eva en á meðal þess sem hrjáði móður hennar var meðal annars öndunarfærasjúkdómur og réttstöðublóðþrýsingsfall sem olli því að það leið stundum yfir hana og var hún þess vegna mikið rúmliggjandi.

„Hún var á lífslokameðferð í 11 vikur sem er alveg ótrúlegt; þetta er meðferð sem stendur yfirleitt yfir í örfáa daga eða nokkrar klukkustundir en þá er ekkert gert nema að halda verkjum í skefjum.

Mamma gat alveg borðað og drukkið þegar hún lagðist inn. Svo var farið farið að gefa henni svo mikið af lyfjum að hún var mjög sljó heilu og hálfu dagana. Við þær aðstæður hættir fólk að bera sig eftir mat og vatni og hún var orðin grindhoruð þegar hún dó. Ég held að næringarskortur og ofþornun hafi átt stóran þátt í andláti hennar.

Dana Kristín Jóhannsdóttir
Blessuð sé minning hennar.

Mamma gat alveg borðað og drukkið þegar hún lagðist inn. Svo var farið farið að gefa henni svo mikið af lyfjum að hún var mjög sljó heilu og hálfu dagana.

Fjölskyldufundur var haldinn 15. ágúst þar sem sagt var að hún væri deyjandi. Ekki fékkst þó skýring á ástæðunni. Mamma fór svo að hressast en systir mín hafði fengið því framgengt að dregið yrði úr lyfjagjöfinni. Hún fór að fara meira fram í hjólastól og tjá sig meira. Þá var talað um að hún yrði sett á hjúkrunarheimili. Síðan var farið að gefa henni meiri lyf og við fengum einhvern veginn aldrei nein svör. Það endaði með því að henni fór hratt aftur síðustu vikurnar og við veltum því fyrir okkur hvort starfsmenn væru að gera einhverja vitleysu; þetta gæti ekki verið eðlilegt. Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka hana með okkur en hvað ef hún dæi á leiðinni heim? Við gátum ekki gert það heldur ákváðum við að treysta læknum til þess að taka ákvörðun um hvað væri best að gera.“

Þegar við fórum að lesa sjúkraskýrsluna eftir andlátið sáum við að ýmislegt hafði ekki verið í lagi. Það kom meðal annars fram að mamma hafði reynt að losa sig við lyf en það var ekki virt. Hún spýtti út úr sér töflum, talaði um að hún vildi ekki lyfin, reif úr sér nálar og reif af sér lyfjaplástra. Þegar hún spýtti töflum út úr sér þá voru henni gefin lyf í æð. Og þegar hún reif af sér nálar þá voru settir á hana lyfjaplástrar. Og þegar hún reif þá af sér þá voru þeir settir þar sem hún náði ekki til þeirra.

Við lestur á sjúkraskýrslunni kemur einnig fram að við höfum fengið rangar upplýsingar. Við vissum til dæmis ekkert almennilega um sjúkdómsgreiningar og hvað var raunverulega í gangi fyrr en við fórum að lesa hana. Mamma var ekki með neinn banvænan sjúkdóm.“

Eva segir að systur sínar hafi farið fram á að lík móður þeirra yrði krufið en ekki varð úr því.

„Það var margt sem truflaði okkur. Okkur fannst margt vera einkennilegt og svo mörgum spurningum ósvarað svo við ákváðum að klaga þetta til landlæknis; kvarta undan þessari meðferð og biðja um faglegt álit á því hvort þetta væri í lagi. Þetta tók langan tíma en á endanum kom þetta álit og það var mjög vandað og vel unnið og ég mæli með því ef fólk telur sig eða aðstandendur sína hafa fengið ófullnægjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu að tilkynna það til landlæknis.“

Álit landlæknis kom í febrúar á þessu ári. „Það er umfangsmikil greinargerð og fundið að mörgu en mikilvægasta niðurstaðan er sú að mamma hafi verið sett á lífslokameðferð án þess að fyrir því væru fullnægjandi ástæður. Við kærðum þetta í kjölfarið til lögreglu þar sem við rökstuddum að þarna hefðu átt sér stað refsilagabrot. Málið er í rannsókn.“

Eva segir að niðurstaða landlæknis hafi aukið traust sitt á stjórnsýslunni. Hún er að vonum áhyggjufull út af þeirri meðferð sem móðir hennar fékk. Reið. „Ég er auðvitað slegin yfir því að svona vinnubrögð geti viðgengist á heilbrigðisstofnun. Það er líka ótrúlegt að mamma sé fyrsta eða eina manneskjan sem hefur lent í þessu. Maður hefur áhyggjur af því að það sé kannski hætta á því að ákveðnir hópar fólks séu í hættu á vanrækslu og jafnvel refsiverðri meðferð í heilbrigðiskerfinu. Fólk sem getur ekki gætt réttar síns, eins og aldraðir, útigangsfólk og fleiri hópar. Ég vona að mál móður minnar verði til þess að heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur sem finnst eitthvað athugavert við meðferð sjúklinga láti það í ljós. Almennt er áreiðanlega hægt að treysta læknum en sérfræðingar eru ekki fullkomir frekar en við hin og ef læknir getur ekki gefið trúverðugar skýringar á ákvörðunum sínum þá er kannski eitthvað athugavert við þær.“

Maður hefur áhyggjur af því að það sé kannski hætta á því að ákveðnir hópar fólks séu í hættu á vanrækslu og jafnvel refsiverðri meðferð í heilbrigðiskerfinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -