Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Mesta áskorunin að yfirfæra kolvetnarétti yfir í ketólífsstíl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðalheiður Ásdís Boutaayacht er ein af stofnendum Facebook-hópsins LKL, stuðninghóps kvenna á lágkolvetnamatarræði. Verkefni hennar á árinu eru ótal mörg en þar á meðal er uppskriftabók í vinnslu. Við fengum Aðalheiði til að deila með okkur uppskriftum að ljúffengum karamellu-pekanbitum, kanilköku og mexíkó-veislu en allir eiga réttirnar það sameiginlegt að vera lágkolvetna.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? Það voru fiskbollur í dós með bleikri sósu. Ég var víst einstaklega góð í að hræra uppstúfið á heimilinu sem útskýrir kannski margt því ég geri rosalega gott lágkolvetnauppstúf.

 Skemmtilegast er að finna gamlar uppskriftir og útfæra þær að mínum lífsstíl.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld? Já, mér finnst jafnskemmtilegt að elda og að baka. Skemmtilegast er að finna gamlar uppskriftir og útfæra þær að mínum lífsstíl.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? Ég elda mjög mikið mat sem er með mexíkósku ívafi. Finnst gaman að skoða framandi uppskriftir og færa þær yfir í lágkolvetna. Ég er annars opin fyrir öllu og alltaf gaman að prófa nýtt.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? Þau verða þegar ég hef lítinn tíma til að gera marga hluti. Enda á að reyna að troða því öllu í þennan litla tímaramma sem verður að klessu. Ég læri af þessu með hverju skiptinu og skipulegg mig frekar betur.

Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? Já, alveg heilan helling, til dæmis að avókadó er hægt að nota fyrir alla heimsins hluti, allt frá því að vera álegg á brauð í að vera hluti af súkkulaðiköku eða jafnvel í formi franskra með hamborgaranum.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? Án efa að útfæra allt það sem ég elskaði í kolvetnafyllirínu yfir í minn ketólífsstíl, þar á meðal mexíkóskan mat, það hefur tekist frábærlega. Heldur manni alveg við efnið frá degi til dags.

- Auglýsing -

Kanilterta ömmu

Þessi kaka er ómótstæðileg og ég hef náð meistaralega að gera hana lágkolvetna, sykur- og hveitilausa. Tók uppskriftina hennar ömmu og útfærði hana svona fínt sem hentar öllum á lágkolvetnamataræði.

- Auglýsing -

175 g mjúkt smjör
175 g sukrin gold
2 egg
175 g möndlumjöl
2 msk. kanill
2 tsk. lyftiduft
500 ml þeyttur rjómi (á milli botnana)
1 msk. fínmöluð sæta (þeytt með rjómanum)

Blandið hráefnum í botnana vel saman í hrærivél. Skiptið deiginu upp í 6 jafna parta (u.þ.b. 105 g hver skammtur), smyrjið hverjum parti/botni jafnt og þunnt í hringbotna form á smjörpappír. Gott að nota hringlótt tertuform til að teikna á smjörpappírinn. Bakið botnana við 160°C í 8 mínútur með blæstri, eða við sama hita án blásturs í 13 mínútur. Kælið botnana alveg áður en þeytti rjóminn er settur á milli botnana.

Súkkulaðikrem

40 g 85% Cavalier-súkkulaði
30 g Cavalier-súkkulaðismyrja
10 g Good Good-síróp
30 g smjör

Bræðið smjör í örbylgju og hrærið súkkulaðið saman við heita smjörið þar til allt er uppleyst. Setjið súkkulaðismyrjuna og sírópið saman við og hrærið vel. Dreifið vel úr kreminu yfir kökuna þannig að það leki örlítið niður hliðarnar. Kakan er best þegar hún hefur staðið í kæli í a.m.k. klukkustund.

Karamellupekanbitar

Ég elska ristaðar pekanhnetur og ég elska karamellu, þetta tvennt bara gat ekki klikkað saman.

48 stk. pekanhnetur
100 g Fiber Gold-síróp
50 g smjör
200 ml rjómi
Himalayan-salt eftir smekk
3 dropar English Toffee-stevíudropar

Dreifið pekanhnetum á ofnplötu og hitið á 100°C með blæstri í 10-15 mínútur. Hrærið í þeim á milli og passið að brenna þær ekki.

Setjið smjör og síróp saman á pönnu, leyfið því að malla á ¾ hita þar til blandan dekkist og byrjar að þykkna. Hrærið reglulega í karamellunni. Hellið næst rjómanum saman við og hrærið vel í blöndunni. Lækkið hitann niður í miðlungshitastig og leyfið karamellunni að malla í um 20-25 mínútur, eða þar til hún byrjar að þykkna og dekkjast örlítið.

Gott er að hræra vel í karamellunni á milli og vel í lokin þar til hún verður slétt. Passið að brenna karamelluna ekki við. Raðið pekanhnetunum á smjörpappír í hálfgerðar stjörnur (4 stk. saman) og setjið um það bil 1 matskeið af karamellu fyrir miðju pekanhnetanna þannig að það festi þær saman. Kælið í a.m.k. klukkustund áður en borið er fram.

Mexíkóskur kjúklingaréttur
fyrir fjóra

Ég er alveg viss um það að ég hafi verið Mexíkói í fyrra lífi. Það er ekkert sem ég elska meira í matseld en eitthvað mexíkóskt. Tortilla-flögur, taco, guacomole og ostur.

700 g úrbeinuð kjúklingalæri
150 g mexíkóostur
50 g rauðlaukur
25 g vorlaukur
50 g rjómi (má sleppa)
90 g Philadelphia-rjómaostur með graslauk
1 krukka Hot Taco-sósa frá Santa Maria
50 g rauð paprika
50 g græn paprika
2 tsk. cumminkrydd
2 tsk. paprikukrydd
2 msk. Fiesta de Mexico frá Pottagöldrum
Himalayan-salt
rifinn ostur

Kryddið og saltið kjúkling með öllum kryddunum og Himalayan-saltinu og leyfið að standa meðan þið skerið papriku, rauðlauk, vorlauk og mexíkóost í smáa bita. Smyrjið botn á litlu eldföstu formi með rjómaostinum. Dreifið vorlauk og helmingnum af rauðlauknum yfir rjómaostinn og leggið kryddaðan kjúklinginn yfir. Hellið taco-sósunni jafnt yfir og dreifið vel úr. Dreifið næst paprikum, rest af rauðlauk og mexíkóost yfir taco-sósuna. Hellið rjómanum jafnt yfir allan réttinn.

Setjið inn í ofn og eldið við 180°C á blæstri í 15 mínútur. Takið réttinn út, dreifið rifnum osti eftir smekk yfir réttinn og eldið í 15 mínútur í viðbót.

Berið fram með góðu guacamole, sýrðum rjóma og heimatilbúnum tortillaflögum.

Tortillaflögur

 160 g rifinn mozzarella-ostur
60 g möndlumjöl
1/4 tsk. cumin
1/4 tsk. paprikukrydd
1/8 tsk. cayenne-pipar
1 tsk. þurrkaður kóríander
2 klípur salt

Setjið allt í skál og inn í örbylgjuofn í 1-1 ½ mín. Hnoðið deigið örlítið saman með skeið og setjið á smjörpappír með annan smjörpappír yfir og fletjið út mjög þunnt með kökukefli. Skerið í þríhyrninga með pizzaskera og dreifið á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 200°C án blásturs í 7 mínútur og kveikið síðan á blæstri í 3 mínútur, samtals 10 mínútur. Takið af ofnplötunni og leyfið snakkinu að kólna alveg.

Guacamole

2 avókado
4 kirsuberjatómatar
40 g rauðlaukur
1 g kóríander (ferskt eða þurrkað)
1 msk. Fiesta de Mexico frá Pottagöldrum
1 msk. lime-safi
salt og pipar eftir smekk

Takið stein og hýði af avókadóinu, skerið lauk og tómata niður í bita. Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél/blandara þar til allt er vel blandað saman þannig að laukurinn og tómatarnir eru ekki í stórum bitum. Saltið og piprið eftir smekk. Guacamole geymist best í lokuðu íláti. Til þess að guacamole haldist sem ferskast er gott að hella vatni rólega yfir yfirborðið þannig að það þeki yfir allt.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -