2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Að velja að sjá ekki neitt

Leiðari

Engir eru eins blindir og þeir sem neita að sjá, segir breskt máltæki. Og þetta eru orð að sönnu. Ótrúlega margir neita að horfast í augu við að ofbeldi hefur afleiðingar og kjósa að telja það alfarið á ábyrgð þolandans. Þetta gerist þrátt fyrir að ótal rannsóknir sýni fram á margvíslegan og fjölþættan vanda einstaklinga sem hafa upplifað ofbeldi í einhverri mynd.

Nú síðast steig fram íslenskur þingmaður og fullyrti að starfsfólk Stígamóta hafi talið konu trú um að hún hefði orðið fyrir ofbeldi í vændi. Hann bað konuna að taka ábyrgð á sjálfri sér. Flestir hefðu talið að einmitt það hafi hún gert þegar hún gekk inn á skrifstofu Stígamóta og bað um aðstoð eftir að hafa reynt að takast á við mikla andlega og líkamlega vanlíðan ein.

Áfallastreituröskun er erfiður sjúkdómur. Við þekkjum hann hins vegar mjög vel vegna þess að hermenn og fólk af stríðshrjáðum svæðum þjáist gjarnan af honum. Allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar hafa læknar haft manneskjur til meðhöndlunar með þessa röskun og einkennin eru margvísleg og þótt ekki fái allir öll einkennin eru þó gegnumgangandi mynstur sem allir sjúklingarnir eiga sameiginleg. Allt frá því á sjöunda áratugnum hefur verið vitað að kynferðisofbeldi og annað gróft ofbeldi leiðir til áfallastreitu og það á háu stigi.

Meðal þeirra þess er fólk glímir við er þunglyndi, kvíði, mjög neikvæð sjálfsmynd og skert hæfni til að taka ákvarðanir og framfylgja þeim. Þegar fólk er í þessu ástandi er algengt að það annaðhvort loki sig af í miklu sinnuleysi eða taki mjög óígrundaðar og rangar ákvarðanir. Það er sömuleiðis iðulega mjög leiðitamt og auðvelt að fá það til að gera ýmislegt sem það ella væri ekki tilbúið að gera.

AUGLÝSING


Ofan á þessi sjúkdómseinkenni hjá þolendum ofbeldis bætist við sú staðreynd að búið er að má út öll mörk og skerða mjög virðingu þeirra fyrir eigin líkama. Eftir að hafa skoðað þessar staðreyndir, er einhver hissa á því að rannsóknir sýni að mikill meirihluti þeirra sem starfa í vændi og klámiðnaði hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og það oft langvarandi og frá unga aldri?

Ég man að þegar ég var barn var mér sögð saga af kennara sem barði reglulega þrjá drengi úr nemendahópi sínum. Þetta voru bræður og mjög uppvöðslusamir. Þegar tekið var á kennaranum fyrir þetta og honum bannað að slá drengina sagði hann: „Þeir eru barðir heima og skilja ekki annað.“ Ég man enn hvað þetta stakk mig í hjartað. Tíu ára gömul skildi ég að það er enn verra ofbeldi að níðast á þeim sem aðrir hafa þegar brotið niður en að ráðast gegn manneskju er stendur sterk á svellinu.

Mikið vona ég að réttlætiskennd og dómgreind annarra samborgara minna sé svipuð og þeir skilji að með því að notfæra sér neyð og vanlíðan konu í vændi er verið að beita hana síendurteknu ofbeldi. Og að sá dagur renni upp að eftirspurn eftir vændi í okkar samfélagi þurrkist upp.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is