• Orðrómur

Allt undir í mikilvægustu þingkosningum síðari ára

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kosið verður til Bandaríkjaþings á þriðjudaginn. Niðurstöðurnar munu ráða miklu um hvernig Donald Trump reiðir af á síðari hluta kjörtímabilsins og hafa mikil áhrif á forsetakosningarnar 2020. Kosið er um öll þingsætin 435 í fulltrúadeild þingsins, 35 sæti í öldungadeildinni og 36 af 50 ríkisstjórum. Trump hefur notið þess að Repúblíkanaflokkurinn hefur haft meirihluta í báðum deildum þingsins fyrstu tvö ár sín í embætti en demókratar gætu gert honum lífið leitt nái þeir meirihluta í annarri eða báðum deildum, rétt eins og repúblíkönum tókst að gera síðustu sex árin í forsetatíð Baracks Obama. Bandarísk stjórnmál eru gríðarlega eldfim um þessar mundir og sjaldan eða aldrei hefur gjáin á milli íhaldssamra og frjálslyndra verið breiðari. Til marks um hversu mikið er undir þá munu framboðin, hvort um sig, hafa eytt vel yfir 5 milljörðum dollara í kosningabaráttu sína þegar kjördagur rennur upp. Aldrei áður hefur jafnmiklu fé verið varið í miðkjörtímabilskosningum. Einnig er búist við sögulegri kosningaþátttöku, einkum á meðal ungs fólks en samkvæmt könnun Harvard Institute of Politics munu 49% fólks á aldrinum 18-29 ára mæta á kjörstað. Í þingkosningunum 2014 var hlutfallið 19,9%.

Baráttan um fulltrúadeildina

Keppt er um öll 435 sætin í fulltrúadeildinni en 218 þingsæti þarf til að ná meirihluta. Til þess þurfa demókratar að hirða 23 þingsæti af Repúblíkanaflokknum og nýjustu kannanir benda til þess að 85% líkur eru á að svo fari. Repúblíkanar hafa þó verið að sækja í sig veðrið undanfarnar vikur. Helsti vígvöllurinn eru úthverfin þar sem íbúar eru almennt betur stæðir og með meiri menntun en annars staðar. Þá munu atkvæði kvenna hafa lykiláhrif en samkvæmt könnunum aðhyllast þær Demókrataflokkinn í mun meiri mæli en karlar. Þannig sýna sömu kannanir að demókratar fengju 275 þingsæti ef eingöngu konur væru á kjörskrá.

Baráttan um öldungadeildina

Það er á brattann að sækja fyrir demókrata í öldungadeildinni þótt repúblíkanar séu nú aðeins með 51-49 meirihluta. Það er vegna þess að einungis er kosið um 35 þingsæti í þessari umferð og af þeim eru 26 í höndum demókrata. Mörg þessara þingsæta eru í dreifðari byggðum Bandaríkjanna sem er klárlega repúblíkönum í hag. Nýjustu kannanir benda til þess að 82,7% líkur séu á því að repúblíkanar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni og bæti jafnvel við sig sætum.

Stefnir í klofið þing

- Auglýsing -

Ef að líkum lætur munu demókratar stjórna fulltrúadeildinni og repúblíkanar öldungadeildinni. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og í rauninni reglan fremur en undantekningin. Meirihluti í annarri hvorri deildinni tryggir demókrötum vald til að hindra lagafrumvörp úr röðum repúblíkana sem og frumkvæðið til að hrinda af stað rannsóknum á hvers kyns málum. Niðurstaðan yrði annaðhvort aukin samvinna milli flokka eða enn harðari deilur en áður þar sem eingöngu allra mikilvægustu mál ná í gegn. Með meirihluta í öldungadeildinni munu repúblíkanar eftir sem áður geta tryggt tilnefningum Trumps í hin ýmsu embætti framgang. Þá má búast við að Trump notist í auknum mæli við forsetatilskipanir, rétt eins og Barack Obama gerði eftir að repúblíkanar náðu meirihluta í báðum deildum.

Innflytjendur og hatursorðræða stóru málin

Að venju koma upp stór mál í aðdraganda kosninga sem talin eru hafa mikið um það að segja um niðurstöðuna. Donald Trump hefur gert fólksflutningalestina frá Mið-Ameríku að sínu helsta kosningamáli og spilað á ótta fólks með þeirri orðræðu að demókratar vilji opin landamæri á meðan repúblíkanar standi vörð um öryggi almennings. Þá hefur hann viðrað hugmyndir um að skrifa undir forsetatilskipun um að fella úr gildi lög sem veita börnum ólöglegra innflytjenda sjálfkrafa ríkisborgararétt. Að sama skapi hafa demókratar kennt forsetanum um að kynda undir hatursglæpum og hatursfullri orðræðu í garð fjölmiðla og minnihlutahópa, samanber sprengjusendingar til aðila tengdum Demókrataflokknum og skotárás á bænahús gyðinga í Pennsylvaníu um liðna helgi.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -