Laugardagur 1. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

„Fólk er farið að þyrsta í raunverulegra efni“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Alþjóðleg heimildamyndahátíð verður haldin á Akranesi í júlí, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi að sögn skipuleggjenda. Auk hefðbundinna kvikmyndasýninga verða alls kyns spennandi viðburðir í boði.

„Við ætlum að sýna fyrsta flokks heimildamyndir, rúmlega 50 talsins, alls staðar að úr heiminum í fimm daga samfleytt, frá miðvikudegi til sunnudags. Þetta eru mestmegnis erlendar myndir enda er þetta fyrsta alþjóðlega heimildamyndahátíðin sem er haldin á Íslandi,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir, einn skipuleggjenda Iceland Documentary Film Festival, sem fer fram á Akranesi dagana, 17. til 21. júlí.

Opnunarmynd hátíðarinnar verður pólsk-íslenska myndin In Touch sem hreppti verðlaun dómnefndar á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði fyrr í mánuðinum, en hún segir af ljúfsárum samskiptum Pólverja í pólska þorpinu Stare Juchy við ættingja þeirra sem hafa sest að á Íslandi. Af öðrum myndum má nefna Honeyland, sem fjallar um býflugnabónda í Makedóníu, og Aquarela, sem snýst um margslungnu ásýnd vatns. Úrval heimildamynda sem verður sýnt meðan á hátíðinni stendur er því mjög fjölbreytt.
Ingibjörg segir að skipuleggjendunum hafi borist 260 innsendar kvikmyndir hvorki meira né minna sem sýni hversu mikill áhugi sé fyrir hátíðinni erlendis frá. „Við það bættust myndir sem okkur finnst sjálfum spennandi og mikilvægt að fólki sjá. Þannig að það hefur verið töluverð vinna að fara í gegnum þetta allt saman,“ segir hún og hlær. „En við erum svo heppin að vera með tíu manna teymi sem hefur gert það með glans.“

„Okkur fannst bara vanta slíka hátíð. Hátíð sem hefði það markmið að kynna heimildamyndir sem listrænan miðil, ekki bara miðil með fræðslugildi.“

Eitthvað við allra hæfi
Auk kvikmyndasýninga verða ýmsir aðrir viðburðir í boði hátíðinni. Spurt og svarað með leikstjórum en yfir 30 erlendir gestir hafa boðað komu sína. Vinnustofur fyrir ungmenni sem koma með verk í vinnslu frá Norðurlöndunum. Fjölskyldu- og barnahátíð þar sem ungmennum gefst m.a. færi á að fara í ratleik með því að fara um bæinn og safna heimildum. Og síðast en ekki síst skemmtidagskrá og dansleikir á kvöldin fyrir þá sem vilja njóta og vera til, eins og Ingibjörg orðar það. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.

Honeyland fjallar um býflugnabónda í Makedóníu.

En hvernig kviknaði hugmyndin að hátíðinni? „Ja, það var nú bara þannig að við Hallur Örn Árnason hittumst á frumsýningu nýrrar íslenskrar heimildamyndar og fannst svo lítil mæting að við ákváðum að gera eitthvað í því. Úr varð að koma fyrstu alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni á koppinn á Íslandi. Okkur fannst bara vanta slíka hátíð. Hátíð sem hefði það markmið að kynna heimildamyndir sem listrænan miðil, ekki bara miðil með fræðslugildi,“ svarar Ingibjörg og getur þess að Heiðar Mar Björnsson sé þriðji aðalskipuleggjandinn. Hún játar að mikill undirbúningur liggi að baki hátíðinni. „Þetta hefur tekið eitt og hálft ár. Á þeim tíma höfum við flakkað á milli hátíða til að kynna þetta og fengið góðan meðbyr. Fólki hefur sárlega fundist vanta hér hátíð sem leggur áherslu á erlendar heimildamyndir.“

Aquarela snýst um margslungnu ásýnd vatns.

Samfélagsmiðlar ýta undir áhuga
Ingibjörg segir tíma til kominn að verða við því enda sé heimildamyndin búin að vera að sækja í sig veðrið síðustu ár. „Tímarnir eru að breytast. Fólk er farið að þyrsta í raunverulegra efni eins og heimildamyndir vegna áhrifa samfélagsmiðla. Streymisveitur hafa að einhverju leyti brugðist við því með því að sýna heimildaseríur, sem gefa færi á því að segja áhugaverðar sögur í lengra máli. Sem bíómiðill á heimildamyndin hins vegar eftir að festa sig betur í sessi,“ lýsir hún og bætir við að staða heimildamynda á Íslandi hafi þó verið að styrkjast.

„Hér er mikil gróska í gangi. Margar flottar myndir að koma út. Vonandi á bara hátíð eins og Iceland Documentary Film Festival eftir að leiða til meira alþjóðlegs samstarfs hér heima. Að það komi hér stærri framleiðslur og Íslendingar geti sjálfir gert stærri myndir,“ segir hún og hvetur sem flesta til að kynna sér betur hátíðina og dagskrá hennar með því að fara á Facebook.

- Auglýsing -

Opnunarmynd hátíðarinnar verður pólsk-íslenska myndin In Touch:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -