Forsetahjónin ánægð með helgina: „Við verðum að huga vel að líkama og sál, sem einstaklingar og sem samfélag”

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid eyddu Verslunarmannahelginni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði. „Þar var gaman að vera, líf og fjör og allir í fínu skapi,” segir á Facebook síðu forsetans.

„Ég þakka öllum sem komu að skipulagi mótsins og undirbúningi, starfsliði og stjórn UMFÍ undir forystu Hauks Valtýssonar og heimafólki í Ungmennasambandinu Úlfljóti, auk annarra sem lögðu hönd á plóg,” skrifar Guðni og bætir við: „Einnig óska ég keppendum til hamingju með þeirra þátt, bæði þeim sem unnu til verðlauna og hinum sem mættu helst til þess að skemmta sér og reyna á sig í góðra vina hópi.”

Forsetahjónin nýttu tækifærið og kynntu sér mannlífið á Höfn í fylgd Matthildar Ásmundardóttur bæjarstjóra. „Við heimsóttum m.a. fólkið á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Skjólgarði og fórum í skemmtilega sögugöngu. Þá gengum við um vinnslusali hjá Skinney Þinganesi. Fróðlegt var að sjá hvernig nýjasta tækni og hagkvæmni er þar í fyrirrúmi. Ekki var síður notalegt að fara aðeins um borð í Jónu Eðvalds og njóta þar gestrisni skipverja. Þá var gaman að sigla um Hornafjarðarós. Við fórum um í blíðviðri og rólegheitum en auðvelt er að ímynda sér hversu vandasöm innsiglingin er þarna í vályndum veðrum. Heimsókninni lauk svo með því að við kynntum okkur kúabúið mikla á Flatey á Mýrum og nutum þar góðra veitinga.”

„Ég ítreka þakkir okkar til allra sem gerðu ferð okkar eins skemmtilega og raun bar vitni. Næsta unglingalandsmót verður á Selfossi að ári og landsmót fyrir fimmtíu ára og eldri verður í Borgarnesi.” Guðni hvetur unga sem aldna að kynna sér það sem er í boði á þessum viðburðum. Hann endar svo færsluna á skilaboðum um mikilvægi góðrar heilsu „Margt má deila um á vettvangi dagsins en bætt lýðheilsa er eitt helsta mál málanna til lengri tíma litið. Við verðum að huga vel að líkama og sál, sem einstaklingar og sem samfélag.”

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira