Laugardagur 4. maí, 2024
3.8 C
Reykjavik

Gróðrastöðin Mörk: Heilandi áhrif garðsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

55 ár eru liðin síðan Gróðrarstöðin Mörk var stofnuð og í dag er hún ein helsta uppeldisstöðin á landinu þegar kemur að garðplöntum. Gróðrarstöðin er innst í Fossvogsdal og þar fást meðal annars garðtré í ýmsum stærðum, skrautrunnar, skógarplöntur, fjölærar plöntur, sumarblóm og matjurtaplöntur auk tilheyrandi vöru svo sem mold, áburð og ker. Það sem einkennir starfsemina er að starfsfólk er með mikla reynslu og /eða sérþekkingu og -menntun sem nýtist í starfi og má þar nefna garðyrkjufræðinga, skrúðgarðyrkjufræðing, líffræðing og blómaskreyti.

„Öll hugmyndafræði gengur út á að sérhæfa sig og sérhæfing okkar felst í að vera fjölhæf með mikið úrval og veita góða þjónustu,“ segir Guðmundur. „Við tryggjum að viðskiptavinir geti spurt starfsfólk. Þetta er okkar sérhæfing: Við erum með mannskap sem viðskiptavinir geta spurt um atriði sem þeir eru ekki vissir um,“ segir Sigríður.

 

Að njóta

Hjónin leggja áherslu á að garðeigendur njóti garðsins og upplifi ánægju tengda garðinum og garðvinnunni sem og tengingu við náttúruna þegar kemur að gróðrinum og plöntunum í garðinum. „Það á að njóta fegurðarinnar í garðinum og náttúrunni,“ segir Sigríður. „Það á ekki að tengja garðinn við puð eða skylduverk.“

Guðmundur nefnir hugleiðslu. „Það getur verið eins og hugleiðsla að reita arfa og huga að garðinum sínum. Það er margbúið að sýna fram á að það að vera innan um gróður og úti í náttúrunni hefur heilandi áhrif. Það er mjög róandi en ég endurtek það sem Sigríður sagði: Það má ekki fara út í garðinn með því hugarfari að þetta sé eins og að fara að skúra gólf og að það verði að drífa þetta áfram og klára þegar er verið að fara að vinna í garðinum. Það verður að fara út í garð til þess að vera. Og sleppa öllu öðru.“ Sigríður heldur áfram. „Það þarf að vinna við að koma garðinum í stand; planta þegar er verið að vinna í nýjum garði en það verður líka að njóta þess. Við leggjum áherslu á að njóta þess að vera í garðinum. Upplifa hann. Sitja þar og hugleiða eða sitja þar og gera ekki neitt og bara vera. Ég held að okkur vanti það svolítið í lífið.“

- Auglýsing -

Sigríður talar um hljóðin í garðinum svo sem fuglasönginn ef tré eru í garðinum þar sem fuglar geta sest. „Það brakar í laufi frá í fyrra.“ Hún talar líka um fegurðina í mismunandi litum í garðinum hvort sem um er að ræða berar greinar eða liti blómanna. „Svo sést kannski ánamaðkur. Eitthvað líf. Það fylgir þessu líf.“

Guðmundur segir að megináherslan sé að færa viðskiptavinunum þetta sem þau hafa verið að tala um: Ánægju af gróðri. „Stuðla að því að það gangi vel sem hann tekur sér fyrir hendur og ætlar sér að fá með þessum gróðri og plöntum sem við erum með.“

- Auglýsing -

 

Blómstra á ólíkum tíma

Garðtré í ýmsum stærðum, skrautrunnar, skógarplöntur, fjölærar plöntur, sumarblóm og matjurtaplöntur eru á meðal þess sem fæst í Gróðrarstöðinni Mörk eins og þegar hefur komið fram. Hvað er best að hafa í huga við val á plöntum?

„Samsetningin í garðinum gengur út á eitthvað sem dregur að sér athygli á hverjum árstíma,“ segir Guðmundur og nefnir rósakirsi í maí en þá blómstrar það tré og vekja bleik blómin almennt mikla hrifningu. „Einhverjar tegundir sem draga að sér athygli á hverjum tíma. Við bendum viðskiptavinum okkar yfirleitt á að velja saman tegundir sem blómstra á ólíkum tíma því það eru ekki margar tegundir sem standa í blóma allt sumarið. Við leggjum áherslu á að bjóða alla tegundarflokkanna: Sumarblóm sem blómstra, runna sem blómstra á ákveðnum tímum og fjölærar plöntur sem visna yfir veturinn og koma svo aftur upp yfir sumarið og eru blómstrandi á mismunandi tímum. Svo er það eitthvað sígrænt en við leggjum einnig áherslu á að fólk hafi eitthvað sígrænt í garðinum sem það sér á veturna. Svo erum við að þjónusta þá sem vilja stór tré strax svo sem birki, reyni og elri/öl. Þá þjónustum við sumarbústaðaeigendur og bjóðum upp á úrval af skógarplöntum. Fjölbreytileikinn er styrkurinn.“

Allsherjarbreyting

Aftur að rósakirsinu en það er í tísku; það er nefnilega ýmislegt í tísku á hverjum tíma þegar kemur að garðinum. Guðmundur nefnir svo hortensíu sem kemur sterkt inn í sumarblómaflóruna. „Sumir vilja fá eitthvað harðgert og stabílt sem er öruggt en stór hluti viðskiptavina vill fá einhverja fjölbreytni og prófa eitthvað nýtt jafnvel þó það sé ekki öruggt. Það kemur hingað fólk sem spyr hvað sé nýtt í ár og þá er maður kannski að flytja eitthvað nýtt inn sem maður sjálfur hefur ekki reynslu af heldur. En fólk er tilbúið að prófa.“ Það eru þó ákveðin blóm sem þola kulda og jafnvel að vera í frosti í einhvern tíma en það  eru til dæmis stjúpur, fjólur og silfurkambur.

„Það er ein allsherjarbreyting sem er að eiga sér stað en það er flatarmálið í görðunum sem er að verða minna í nýrri görðum og svo kjósa margir að helluleggja eða leggja pall á stóran hluta garðsins og ræktunarmenningin færist æ meira yfir í potta. Það er stóra breytingin. Meira að segja limgerði eru frekar á undanhaldi og koma skjólveggir, timburveggir, í stað þess. Þessi þróun er ekki beint umhverfisvæn; steypan losar heilmikið kolefni en það er hins vegar mikil kolefnisbinding þegar kemur að gróðri. Þessi heilandi áhrif verða minni ef ekki er nein grasflöt og kannski bara pínulítið ker með bletti af grænu laufi á móti þessu mikla flatarmáli af veggjum, steypu og pöllum. Það er allsherjarhreyfing sem er að eiga sér þarna stað. Auðvitað vill fólk fá viðhaldslítinn garð en menn eru að reka sig á að það þarf viðhald á pallinn og grindverkið alveg eins og gróðurinn.“

 

Vökva tvisvar í viku

Sigríður bendir á að það þrífist ekkert nema að jarðvegur sé góður hvort sem planta er í garði eða keri. „Ef á að planta plöntu þá þarf að passa upp á að dýptin á jarðveginum sé viss margir sentímetrar eftir tegundum og það þarf að setja næringu í botninn á holunni sem getur verið hrossaskítur, sauðatað, hænsnaskítur, lífrænn sveppamassi eða jafnvel garðmjöl. Og moldarlag yfir það. Síðan þarf að passa upp á að jarðvegurinn eða kerið/potturinn sé loftríkur; það þarf að stinga þetta upp til að jarðvegurinn sé loftkenndur til að hjálpa plöntunum við að rótfesta sig í jörðu eða kerum/pottum.“

Sigríður bendir einnig á á að vökva þarf sumarblóm með áburðarvatni einu sinni til tvisvar í viku allt sumarið til að þau séu falleg og að hægt sé að njóta þeirrar gleði sem litirnir gefa. „Ég segi oft að þetta séu eins og ungabörn: Eftir því sem jarðvegur er betri og betra undirlag þegar þetta er sett niður þeim mun meiri uppskeru fær fólk.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -