Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Gunnar Smári segir liðið í gær ekki hinn raunverulegi óvin: „Bandaríkin munu halda áfram að sökkva“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég held því að Bandaríkin muni halda áfram að sökkva. Nema að til verði pólitísk baráttutæki almennings, hreyfing og flokkur, sem stefnir að raunverulegum breytingum en selur sig ekki ýmist þessum eða hinum hópnum af auðugasta 0,1% landsmanna. Liðið sem tók af sér sjálfu í þinghúsinu í gær er ekki hinn raunverulegi andstæðingur almennings, aðeins afvegaleitt lið sem skilur ekki hvað hefur orðið um samfélagið.“

Svona lýkur Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalisti, pistli sínum um stöðu mála í Bandaríkjunum. Í pistlinum sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan fer hann yfir ástandið í Bandaríkjunum nú. Hann segir meðal annars að þetta hafi ekki verið nein valdaránstilraun í gær, heldur frekar valdaráns-túrismi valdalausra.

Valdarán.

Svona lítur valdaránstilraun í þinghúsi út, hún hefur málstað, erindi, forsvarsfólk og markmið; hún er stjórnarandstaða sem sýnir sig tilbúna að taka við völdum. Það er ekki valdarán þegar fólk ryðst inn og tekur mynd af sér í ræðustól eða á skrifstofum valdafólksins. Það væri þá helst einskonar valdaráns-túrismi. Yfirtaka fólks á húsum valdsins eru mótmæli, þannig var það þegar íslenskir mótmælendur tóku menntamálaráðuneytið eða sendiráðið í Stokkhólmi á síðustu öld. Ef fólk er á móti tilefni, erindi eða aðferðum mótmælenda þá kallar það mótmælin óeirðir og mótmælendur múg, það er gamalt trix. Yfirtaka mótmælenda á þinghúsinu í Washington í gær getur heldur ekki kallast hryðjuverk, er það?

Í forsetakosningunum í nóvember var ég sleginn yfir fylgi Trump, fannst það sýna að Bandaríkin myndu ekki haldast saman utan um eina stefnu, að samfélagssáttmáli þessa ríkis væri brotinn og yrði ekki límdur saman. Það má vera að fólkið í þessu stórríki finni nýjan sáttmála, en það glittir varla í hann enn. Fram undan eru mikil átök, miklu meiri en svo að gamli Uncle Joe geti róað lýðinn, látið alla finna til öryggis og vissu um að samfélagið sé að þokast í rétta átt. Til þess er hann of mikill draugur liðinna tíma og til þess eru of mörg djúpstæð ágreiningsmál enn óleyst, enn órædd (það telst ekki samtal þegar andstæðingar garga hver á annan og kalla ónefnum).

Eftir kosningarnar fannst mér harðlínu Repúblikanar vera með töglin, þótt þeir hefðu tapað Hvíta húsinu. Að sumu leyti var gott fyrir þá að losna við Trump en sýna samt þennan mikla styrk sem ekki var hægt að horfa fram hjá. Þeir, hið grimma hægri, voru þyngdaraflið í stjórnmálunum sem myndi toga miðjuna til sín. Hinum megin var vinstrið í endurmótun, sem flokkseigendafélag Demókrata hafði barið niður og gert áhrifalítið í eigin flokki. Fram undan voru kosningar í Georgíu um tvö öldungadeildarþingsæti, sem Demókratar þurftu að vinna til að geta í raun breytt nokkru, þingsæti sem Repúblikanar höfðu náð af Demókrötum upp úr aldamótum.

Auðvitað veit ég fátt um stjórnmál í Georgíuríki, en úr fjarska hugsaði ég eins og ég ætti að veðja á niðurstöðuna: Demókrötum gekk illa í þingkosningunum þótt þeir hafi náð Hvíta húsinu, mjög illa sé haft í huga að þeir voru að fara á móti stjórnvöldum í faraldri og kreppu, mestu efnahagsdýfu sem sést hafði í 130 ár. Þeim hafði í raun mistekist að birtast sem góður valkostur á móti ríkisstjórn í vanda. Er þá ekki ólíklegt að þeir snúi báðum þingsætunum nú, þegar tókst ekki að snúa nema einu þingsæti nettó í nóvember? Og er ekki ólíklegra að kjósendur gefi þingsætin til flokks forsetans en ekki, er það ekki nánast lögmál í Bandarískum stjórnmálum að fólk hefur frekar tilhneigingu til að styrkja andstöðuna og aðhaldið?

- Auglýsing -

Ég veit ekki hversu gáfulegar þessar hugleiðingar voru í nóvember, en þær leiddu alla vega til rangrar niðurstöðu. Demókratar náðu báðum þingsætum og þar með eins þunnum meirihluta og mögulegt er í öldungadeildinni ofan á mjög þunnan meirihluta í fulltrúadeildinni. Biden þarf að sækja í reynslu sína sem þingmaður flókinna málamiðlana til að koma einhverjum breytingum í gegnum þessar deildir. Ef hann vill treysta á eigin flokk mun hann þurfa að semja við róttækasta hluta hans og óháða þingmenn; þ.m.t. Bernie Sanders, sem hefur alveg eins oddaatkvæði í öldungadeildinni eins og Kamala Harris. Og mögulega við The Squad, róttækasta hluta þingliðs demókrata í fulltrúadeildinni, sem ætla má að séu sex, jafnvel átta þingmenn eftir kosningarnar í nóvember. Meirihluti Demókrata í fulltrúadeildinni er ellefu þingmenn í dag. Ef sex ákveða að kjósa með minnihlutanum er sá meirihluti farinn.

En hinum megin við þetta fólk, sem sveigja vill stefnu ríkisstjórnarinnar til vinstri er allur Repúblikanaflokkurinn sem vill litlu breyta og það er fólk sem stendur Joe Biden nær pólitískt. Í stað þess að semja við róttækari hluta eigin þingliðs mun hann teygja sig yfir til hófstilltari hluta Repúblikana og sækja þangað þingstyrk til að koma vægum umbótatillögum í gegn. Þetta er ekki hrakspá, aðeins endursögn á ferli Joe Biden sem þingmanns; hann er bestur í þessu, að búa til samstöðu á miðjunni þvert á flokka. Og miðjan í Bandarískum stjórnmálum er últra hægri á íslenskan mælikvarða, einhvers staðar á milli Sjálfstæðisflokks og Miðflokks. Á móti kemur að frá Clinton árunum hafa Repúblikanar beitt aðferð Davíð Oddssonar, að vera ávallt á móti tilllögum pólitískra andstæðinga, sama hversu góðar þær eru.

En aftur að nóvember. Hvernig klúðruðu Repúblikanar stöðunni og töpuðu báðum þingsætunum í Georgíu. Í fyrsta lagi voru þeir að glíma við öflugan andstæðing, Stacey Abrams, sem ætlaði sér og tókst að láta bæði forseta- og þingkosningar snúast um atkvæði svartra, sýna fram á að ef Demókrataflokkurinn væri með frambjóðendur og stefnu sem svartir í suðurríkjunum gætu sætt sig við gæti flokkurinn bæði náð Hvíta húsinu og öldungadeildinni. Lykillinn að völdum fyrir Demókrataflokkinn er að verða nógu afgerandi flokkur svartra og annarra ekki-hvítra. Ef Stacey Abrams tækist að sýna fram á þetta í Georgíu 2020 myndi það hafa afgerandi áhrif á Demókrataflokkinn og bandarísk stjórnmál í framhaldinu. Þetta tókst henni, hún stýrði hreyfingu sem fylkti fólki á kjörstað sem áður hafði ekki séð ástæðu til að mæta, sá ekki að það breytti neinu í þeirra lífi að kjósa þennan eða hinn. Nú þegar Abrams og hreyfing hennar hefur skilað sínu stendur upp á Biden og ríkisstjórn hans að skila sínu til samfélags svartra. Umfram það sem Obama gerði. Eftir kjörtímabil Obama mættu svartir ekki á kjörstað til að kjósa Hillary Clinton og það færði Donald Trump sigurinn, með öðru.

- Auglýsing -

Hinn andstæðingur Repúblikana var Donald Trump. Sterk staða flokksins freistaði forystu hans til að taka undir frásögn Trump af kosningasvindli. En þetta reyndist afleikur. Þegar vikurnar liðu varð málflutningur Trump æ innihaldslausari, vitlausari, skammarlegri. Og þá fór að þynnast í fylkingunni á bak við hann án þess að það væri skýr forysta innan flokksins sem hafnaði henni. Þegar loks kom að þinginu að staðfesta kjör Biden voru stuðningsmenn Trump eins og persónur úr einhverri gamanþáttaröð og helsti andstæðingurinn Mike Pence varaforseti. Hvernig er hægt að klúðra pólitískri stöðu jafn afgerandi? Á leiðinni tapaðist mikilvægi þess að halda þingsætunum í Georgíu, hver átti að berjast fyrir þeim og til hvers? Og þau féllu, reyndar með litlum mun, það síðara með 35 þúsund atkvæða mun af 4,4 milljón greiddum atkvæðum, sem er svipað og ef Guðni Th. hefði unnið Guðmund Franklín með 1350 atkvæða mun í fyrra.

Repúblikanar fóru því frá góðri stöðu í nóvember til niðurlægingar í janúar, að því er virðist í fullkomlega tilgangslausri fylgispekt við Donald Trump, sem virðust ófær um að meta nokkra stöðu frá öðru sjónarhóli en eigin rassi. Hvað gerist í framhaldinu? Biden mun reyna að spila á þunnan meirihluta í þinginu og Repúblikanar munu þurfa að ákveða hvert leiðin eftir Trump liggur; er það meiri Trump eða minni, mildari Trump eða grimmari o.s.frv. Þeir munu hins vegar ekki breyta stefnu sinni mikið, hún verður eftir sem áður áframhaldandi niðurbrot samfélagsins og alræði auðvaldsins. Þeir eru tilbúnir að verja þá stefnu með lýðræði ef það virkar en líka með því að brjóta lýðræðið niður ef þess þarf, halda kosningarétti frá fólki og svínbeygja kosningakerfið svo það þjóni minnihlutanum en nái ekki að framkalla vilja meirihlutans. Og þeir eru tilbúnir að kanna möguleika fasismans, eins og gert var á Trump-árunum.

Ég held því að Bandaríkin muni halda áfram að sökkva. Nema að til verði pólitísk baráttutæki almennings, hreyfing og flokkur, sem stefnir að raunverulegum breytingum en selur sig ekki ýmist þessum eða hinum hópnum af auðugasta 0,1% landsmanna. Liðið sem tók af sér sjálfu í þinghúsinu í gær er ekki hinn raunverulegi andstæðingur almennings, aðeins afvegaleitt lið sem skilur ekki hvað hefur orðið um samfélagið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -