Fimmtudagur 22. september, 2022
7.8 C
Reykjavik

Katrín Júlíusdóttir: „Ég bognaði því allhressilega“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég hef sinnt núverandi starfi í tæplega sex ár og átt mjög góða tíma. Nú finnst mér tími kominn til að líta aðeins upp úr þeim verkefnum og taka einhvers konar „kúnstpásu“ í þessu spilverki sem lífið er,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fjármálafyrirtækja, sem hefur sagt starfi sínu lausu.

Hvað stendur upp úr á þessum árum hjá samtökunum?

„Í fyrsta lagi verð ég að nefna allt fólkið sem ég hef verið svo lánsöm að starfa með að alls kyns ólíkum verkefnum. Ég hef unnið með sterku fagfólki og góðum manneskjum sem hafa kennt mér mikið. Ég mun sakna þeirra mikið þó að mörg þessara tengsla hafi leitt til fallegrar vináttu sem mun endast ævina ef ég fæ einhverju ráðið. Í öðru lagi þá verð ég að nefna fjölbreytileika starfsins. Hér er aldrei lognmolla.“

Fjármálafyrirtækin voru nýskapandi í leiðum til að mæta aðsteðjandi vanda.

Katrín segir margt standa upp úr þegar hún er spurð hvaða verkefni séu eftirminnilegust og hafi skipt mestu máli. „Ég verð þar fyrst að nefna heimsfaraldurinn og þau öflugu viðbrögð sem starfsfólk fjármálafyrirtækja sýndi í þeirri óvissu sem við blasti strax í upphafi. Allir lögðust á eitt við að mæta fólki og fyrirtækjum til að verja heimili og störf innan þess ramma sem þeim var heimilt. Fjármálafyrirtækin voru nýskapandi í leiðum til að mæta aðsteðjandi vanda og unnum við á skrifstofu SFF til dæmis hratt og þétt með aðildarfélögum okkar, lífeyrissjóðum og opinberum aðilum að gerð samkomulags um greiðslufresti á lánum fyrirtækja og heimila. Þetta samkomulag gerði fyrirtækjum og heimilum kleift að komast hratt í skjól á erfiðum óvissutímum. Viljanum til að ganga eins langt og framast var unnt gleymi ég seint. Fleiri verkefni frá þessum tíma gæti ég líka nefnt en þau einkenndust öll af þessu sama viðhorfi, að gera allt sem hægt er til að verja heimili og störf.

Mig langar líka að nefna nýlegt verkefni sem er fræðsluátak gegn netsvikum sem heitir „Taktu tvær“. Við settum í byrjun ágúst af stað auglýsingar og upplýsingavef ásamt Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þar er farið yfir leiðir netþrjóta til að svíkja út fé og hvernig við getum varið okkur sem best. Einnig leggjum við áherslu á að við ræðum þetta opinskátt og skilum skömminni sem margir upplifa sem hafa orðið fyrir barðinu á netþjófum. Samtökin koma að mörgum svona verkefnum sem hefur verið gaman að taka þátt í og rekum við meðal annars öfluga fjármálafræðslu með Landssamtökum lífeyrissjóða sem heitir Fjármálavit.“

Katrín segist hafa lært mikið um fjármálaheiminn og samfélagið á þessum árum hjá samtökunum. „Ég hef kannski ekki síst séð enn betur hversu miklu máli fjármálafyrirtækin skipta í okkar samfélagi hvort heldur sem er í með- eða mótvindi. Við þurfum að hafa sterk og vel rekin fjármálafyrirtæki og mér finnst flestir gera sér grein fyrir því þó að auðvitað komi alltaf upp umræða um leiðirnar fram á við og hlutverk fjármálafyrirtækja. Sú umræða er heilbrigð og eðlileg í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem þau gegna. Þá eru þau einnig að fá sífellt fleiri og stærri samfélagsleg hlutverk svo sem í loftslagsmálum og í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ástæðuna fyrir því tel ég vera að þar býr mikil fagleg þekking og geta til að leggjast á árarnar með samfélaginu í stórum mikilvægum málum.“

Ég er forvitin og ævintýragjörn að eðlisfari.

- Auglýsing -

Hvað tekur nú við? „Ég held störfum mínum áfram um tíma eða þar til ráðning nýs framkvæmdastjóra liggur fyrir. Að því loknu ætla ég aðeins að anda og fara síðan að líta í kringum mig. Lífið hefur upp á svo margt að bjóða. Ég hef mjög fjölbreytta reynslu, hef unnið í fiski, komið að rekstri barnafataverslana, unnið í hugbúnaðargeiranum og var lengi í stjórnmálum áður en ég hóf störf hér. Ég er forvitin og ævintýragjörn að eðlisfari. Það hefur hingað til leitt mig inn á skemmtilegar brautir. Þetta kemur því bara allt í ljós. Ég tek bara eitt skref í einu.

Katrín Júlíusdóttir

Spennusagnaverðlaun

- Auglýsing -

Fiskvinnsla, rekstur barnafataverslana, hugbúnaðargeirinn, ráðherra… Svo er Katrín Júlíusdóttir líka rithöfundur og fékk hún á sínum tíma spennusagnaverðlaunin Svartfugl fyrir sína fyrstu bók, Sykur.

„Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gengið með rithöfundaferil í maganum. En ég er svo lánsöm að hafa í uppvextinum fengið hvatningu til að láta slag standa og prófa mig áfram. Síðan gerðist það að maðurinn minn, sem er rithöfundur, hvatti mig til þess að prófa. Eftir 17 blaðsíður sýndi ég honum þetta og hann sagði einfaldlega: „Þetta er frábært, haltu áfram.” Ég hef lesið mikið í gegnum tíðina, hlustað á hljóðbækur og horft á bíó og heimildamyndir. Ég horfi til dæmis mikið á þætti um raunverulega glæpi, kannski til að reyna að skilja þetta. Hvað veldur því að fólk fremur glæpi? Er það illska? Græðgi? Reiði? Svik? Ótti? Þessi áhugi á fólki og löngunin til að skilja af hverju fólk gerir óskiljanlega hluti er gott veganesti í skrifin. Þá pælir þú í þessu í gegnum persónusköpun. Mér finnst dínamík á milli ólíkra einstaklinga og innan fjölskyldna einnig áhugaverð og þegar ég var byrjuð á bókinni þá stækkuðu kaflar sem fjölluðu um þau málefni þannig að það kom mér sjálfri á óvart.

Ég er til dæmis komin með frábæran umboðsmann í Bretlandi eftir að hafa fengið verðlaunin.

Það var algerlega ótrúlegt að fá verðlaunin og ég trúi því varla ennþá tveimur árum seinna. Það er fyrst og fremst mikill heiður og hvatning til frekari skrifa ásamt því að opna á ný tækifæri ef mér auðnast að vinna fyrir þeim. Ég er til dæmis komin með frábæran umboðsmann í Bretlandi eftir að hafa fengið verðlaunin og er mjög spennt fyrir því samstarfi.“

Katrín er byrjuð að skrifa aðra bók sem byggir áfram á Sigurdísi sem er aðalpersónan í Sykri. „Ég get ekki sleppt henni alveg strax því mér þykir líka bara svo vænt um hana. Hún er svo ung í Sykri að það er heilmikið eftir af hennar sögu. Þetta er því glæpasaga, með breyskum persónum, flókinni fjölskyldudínamík en líka ást. Ég vonast til að geta klárað hana á næsta ári.“

Katrín segir að þær bækur sem hún les séu margar og misjafnar. „Ég hef lesið mikið af spennusögum í gegnum tíðina og leita mikið í þær en einnig ævisögur af öllu tagi; þær hlusta ég mikið á þegar ég er að sinna heimilisstörfum. Þá les ég líka töluvert af skáldsögum af ýmsu tagi og á það til að taka einn höfund fyrir í einu ef ég dett niður á bók sem mér líkar.“

Katrín Júlíusdóttir

Mikill hraði hugsana

Ástin. Maðurinn hennar Katrínar er Bjarni M. Bjarnason rithöfundur.

„Við eigum fjóra stráka á aldrinum 10 til 23 ára og búa þrír þeirra hjá okkur en stjúpsonur minn býr í Noregi hjá fjölskyldu sinni þar. Það er því líf og fjör og við viljum hafa heimilið opið. Hjá okkur eru því alltaf nokkrir gestir og á ólíkum aldri og þannig viljum við hafa það. Við fjölskyldan erum því voða heimakær og finnst best að dúlla okkur heima við. Okkur er þó farið að langa til að ferðast meira og sýna strákunum heiminn. Mér finnst það mikilvægt til að gefa þeim víðsýni og öryggi, til að elta drauma sína, í veganesti út í lífið.“

Hvað með lífsstílinn og áhugamálin?

Þá er gjarnan mikill hraði hugsana í hausnum á mér, enda greind ofvirk.

„Ég byrjaði að fikra mig áfram í köldu pottunum fyrir nokkrum árum og nú er kæling orðin ómissandi hluti af lífi mínu. Við fjölskyldan förum mikið í sund og þá finnst mér best að enda sundferðina í kalda pottinum. Síðan finnst mér alger dásemd að fara í vötn og er Kleifarvatn í algeru uppáhaldi en þangað fer ég með góðum vinum allan ársins hring nema þegar ísinn er það þykkur að hann loki vatninu. Þetta gefur svo góðan kraft en líka hvíld. Mér finnst þetta hafa góð áhrif á líkamann og svo færðu góða „mont-orku“ í kjölfarið en hana má ekki vanmeta. Þá er gjarnan mikill hraði hugsana í hausnum á mér, enda greind ofvirk, og núvitund eða hugleiðsla hefur oft reynst mér erfið. Þessi heilavirkni er oft mikill kostur og hefur komið mér langt en getur verið ansi lýjandi líka. Í kalda vatninu stoppar hraðlestin og það hægir á öllu sem gefur góða hvíld í erilsömum heimi.“

Katrín Júlíusdóttir

Mikil vanlíðan

Katrín segir að lífið sé sér gott.

„Ég hef fengið mörg tækifæri sem hafa mótað mig. Þá á ég mikið af vinum sem hafa áhrif á mig á hverjum degi og hjálpa mér að vaxa sem manneskja. Stórir atburðir geta vissulega haft mikil áhrif á mann en við mótumst mest af okkar daglega umhverfi held ég. Mér finnst mikilvægt að sækja í jákvæðan félagsskap þar sem fólk stendur saman, styður og styrkir hvert annað. Ég er því moldrík kona af fjölskyldu og góðum vinaböndum sem hafa fylgt mér frá barnsaldri. Mig langar þó að nefna eitt sem hefur kannski mótað grunninn í mér einna mest og það er hversu snemma mér var treyst til að vinna alvöru störf og einnig nokkur sumur á aldrinum 9 – 13 ára þegar ég var send ein í tungumálanám erlendis. Mér var því kennt snemma að standa á eigin fótum, vera óhrædd og það er gjöf sem ég er foreldrum mínum þakklát fyrir.“

Má þar til dæmis nefna blóðtappa sem ég fékk í höfuðið þegar ég var 29 ára.

Þótt lífið sé henni gott þá hefur hún fengið sinn skerf af áföllum.

„Við lendum öll í alls konar í gegnum lífið og ekki verður neitt einfaldara með aldrinum. Ég hef staðið frammi fyrir erfiðum áskorunum eins og margir. Má þar til dæmis nefna blóðtappa sem ég fékk í höfuðið þegar ég var 29 ára og nýlega kjörin inn á þing. Erfiðast var að vera kippt út úr lífinu í nokkra mánuði og frá syni mínum elsta sem þá var einungis rétt að verða fimm ára gamall. Þessi veikindi voru þó blessunarlega þess eðlis að ég náði mér vel og hef ekki kennt mér meins síðan.

Í einni og sömu vikunni í júní 2018 lést mér afar kær vinur og ég kom að ungum manni sem féll fyrir eigin hendi auk þess sem ég fékk þá greiningu að ég væri með brca2-stökkbreytinguna

Eitt allra erfiðasta tímabil sem ég hef gengið í gegnum persónulega var þó fyrir rúmlega fjórum árum en þá í einni og sömu vikunni í júní 2018 lést mér afar kær vinur og ég kom að ungum manni sem féll fyrir eigin hendi auk þess sem ég fékk þá greiningu að ég væri með brca2-stökkbreytinguna. Ég bognaði því allhressilega þetta sumar og það tók mig tíma að vinna úr djúpu hjálparleysinu sem helltist yfir mig þessa viku. Ég lýsi þessu stundum þannig að í gegnum tíðina þá hef ég tekið erfiðleika á kassann og haldið áfram en í þetta sinn þá límdist þetta við brjóstkassann á mér og fór bara ekki. Ég gekk í gegnum tímabil sem einkenndist af mikilli vanlíðan, kvíða og eins varð ég mjög þung í sinni og félagsfælin. Ég komst þó í gegnum þetta á ástinni frá manninum mínum, strákunum, vinum mínum og vinnufélögum sem ég get seint lýst með orðum hversu þakklát ég er fyrir. Fjölskylda unga, fallega mannsins sem ég kom að hjálpaði mér líka mikið og þar urðu til vinabönd sem eru mér afar kær. En örlæti þeirra í minn garð þegar þau voru að ganga í gegnum sína dýpstu sorg sýndu mér líka það fallegasta sem við mannfólkið eigum í okkur sem er samkenndin og kærleikurinn.

Ég tók líka þá ákvörðun þetta sumar að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir vegna brca2 og hóf það ferli í byrjun árs 2019. Samhliða líkamlega bataferlinu fór svo að birta til í sálartetrinu og mér tókst að vinna úr þessu hjálparleysi og því sem af því leiddi. Ég lærði þarna að við komumst bara ákveðið langt á því að valta yfir eigið tilfinningalíf og keyra áfram. Stundum þurfum við að staldra við og horfast í augu við erfiða líðan og díla við hana. Nú býr öll þessi reynsla í mér og gefur mér styrk til að halda áfram að vera ég sjálf og gera það besta úr hverjum degi. Ef eitthvað er þá er ég sáttari í eigin skinni en áður, hef róast og reyni að njóta líðandi stundar. Samanlagt hafa erfiðir tímar líka kennt mér að leggja mig fram um að lifa lífinu fallega. Eiga góð samskipti og koma fram við alla af virðingu því við göngum öll í gegnum erfiða tíma og því alger óþarfi að búa til leiðindi vegna mála sem hægt er að leysa með því að ræða málin og hlusta hvert á annað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -