Miðvikudagur 1. maí, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kristín sendir út neyðarkall svo sonur hennar geti lifað: „Í heiminn fæddist ljúflingur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristín Helgadóttir reynir í örvæntingu að bjarga syni sínum þar sem úrræðin í kerfinu virðast upp urin að hennar mati. Neyðarkallið hefur hún sett út á Facebook og taggaði hún þar Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Ásmund Daða Einarsson félagsmálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.

Kristín segir son sinn hafa fæðst í heiminn sem ljúflingur sem ekkert aumt hafi mátt sjá. Þrátt fyrir gott og ástríkt uppeldi hafi hann síðar leiðst út í fíkniefnaneyslu og nú sé komið að hann sé varla húsum hæfur vegna neyslu og geðrænna vandamála.

Neyðarkall Kristínar er átakanleg lesning og má lesa alla frásögn hennar hér að neðan:

„ÁKALL Á HJÁLP – Velferðarráðuneytið Mamma er ráðþrota Ég tjái mig sjaldnast opinberlega en þessi skrif eru síðasta haldreipi mitt og von um að sonur minn eigi möguleika á að halda lífi. Ég ætla að skrifa hér nokkur orð um son minn á meðan hann lifir en ekki eftir hans daga. Sonur minn á skilið að ég berjist aðeins lengur með honum. Ég hef stundum haft á orði að ég sé velferðarráðuneytið Mamma. Þar hef ég starfað síðan mér auðnaðist að eignast elsta barn mitt sem hér um ræðir. Frá þeirri stundu hefur líf mitt snúist um að hlúa að, styrkja og hvetja son minn áfram í lífinu.

Í heiminn fæddist ljúflingur sem ekkert aumt mátti sjá, boðinn og búinn að hjálpa öðrum. Hann var glaðlynt barn, hugmyndaríkur sveimhugi og mörgum gáfum gæddur. Þrátt fyrir að fá gott uppeldi, búa við ástríki og öryggi hefur sonur minn leiðst út í neyslu ávana- og fíkniefna og neytt þeirra rúmlega hálfa ævi sína. Eins og margir vita sem þekkja til afleiðinga notkunar sterkra fíkniefna, verður neyslan oft harðari þegar á líður og geðveikin kveður dyra. Ofskynjanir, mikill ótti, árátta og þráhyggja ásamt lítilli raunveruleikatengingu, er þess valdandi að sonur minn er ekki húsum hæfur.

Það skal tekið fram að sonur minn er svo lánsamur að eiga tvær yndislegar fjölskyldur, föður- og móðurfjölskyldur þar sem foreldrar og systkini sakna góðs sonar og bróður, sem þau ná ekki sambandi við sökum neyslu hans og áunninnar geðveiki. Ekki hefur skort ástríki fjölskyldnanna né samheldni. Nú er svo komið að velferðarráðuneytið Mamma er ekki lengur starfhæft. Eftir 20 ára stanslausa vinnu, eru úrræðin á þeim bæ upp urin. Allir verkferlar gagnslausir, gátlistar tæmdir og þó leitað sé til sérfræðinga úti í bæ, er komið að tómum kofunum.

- Auglýsing -

Ástæðan er fyrst og fremst sú að sonur minn vill ekki þiggja hjálpina, treystir engum lengur, óttinn allsráðandi og geðveikin ríður röftum. Það er ekki eins og hann eigi ekki hjálpina vísa s.s. vist á geðdeildinni, aðstoð frá Vorteyminu, skjól og stuðning í Gistiskýlinu. Hann er ekki lengur húsum hæfur, horaður, vannærður og geðveikur, á ráfi um stræti Reykjavíkur. Besti tími sonar míns síðastliðið ár er líklega vera hans í fangelsinu á Hólmsheiði, öruggur með húsaskjól og mat og fíkniefnaneyslan í lágmarki. Í fangelsinu afplánaði sonur minn dóm fyrir að ráðast m.a. á heilbrigðisstarfsmann á geðdeildinni, þar sem hann fékk ekki þá þjónustu sem hann þráði.

Meðan sonur minn var í fangelsinu, fengu fjölskyldurnar sem að honum standa, andrými og hvíld um stundarsakir. Við vorum örugg á meðan, örugg um að hann skaðaði ekki sjálfan sig né aðra í samfélaginu og væri á lífi. Við bárum enn von í brjósti um bata og nýja tíma. Þegar sonur minn kom út úr fangelsinu í vor, leit ég lífið bjartari augum, þar sem sonur minn vildi þiggja að komast sem fyrst í stuðningsúrræði svo sem á Vog, Krísuvík eða Hlaðgerðarkot svo hann færi ekki beina leið í ruglið aftur. Við tóku 10 dagar þar sem við keyrðum á milli stofnana að beiðast ásjár og stuðnings. Í stuttu máli sagt komum við að luktum dyrum og syni mínum hrakaði dag frá degi, þar sem hann fór mjög fljótt í harða neyslu og að endingu í geðrof með ógnandi hegðun. Taflið snérist við og sonur minn var ekki lengur á leið í stuðningsúrræði. Hann vantaði bara peninga frá okkur til að geta átt fyrir neysluskammti dagsins. Við foreldrarnir hringdum í lögregluna, síðasta daginn í björgunaraðgerðum okkar, til að láta vita af ásigkomulagi okkar ástkæra sonar og ótta við að hann myndi skaða einhvern sem á vegi hans yrði, sökum geðrofsins og óttans sem var alls ráðandi hjá honum.

Samtalið við lögregluna var gott og styrkjandi en hún gat ekkert aðhafst þar sem sonur okkar hafði ekki ógnað öðrum á þessum tímapunkti. Nú er svo komið að sonur minn er ekki hæfur til að gista í Gistiskýlinu, sökum geðveiki sinnar og ásigkomulags. Hann er aftur orðinn ógnandi og geðveikin magnast. Ég hef síðastliðin ár átt ágæt samskipti og samtöl við starfsfólk Fangelsismálastofnunar, félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Gistiskýlisins, geðdeildanna á LSH og SAk, frú Ragneiði, SÁÁ og starfsfólks Reykjavíkurborgar sem sinnir geðheilbrigðisþjónustu við fíkniefnaneytendur. Það vantar ekki viljann og úrræðin en þar sem sonur minn neitar aðstoðinni, þar sem hann er ekki lengur raunveruleikatengdur, þar sem hann þekkir ekki lengur muninn á já og nei en hefur ríkan rétt til sjálfræðis, er ekki eftir neinu að bíða en að hann valdi skaða með einhverju móti. Þá og ekki fyrr en þá, eru völdin tekin af honum og hann vistaður í viðeigandi úrræði.

- Auglýsing -

Þá byrjar aftur sami vítahringurinn sem endar með betrunarvist í fangelsi og neyslu þegar út í samfélagið er komið aftur. Síðastliðna tvo sólarhringa höfum við foreldrarnir mætt með örmagna son okkar á bráðamóttöku SAk þar sem enga hjálp var að fá fyrir alvarlega veikan fíkil. Næsta ráð var að fljúga með soninn suður en flugfélagið treysti sér ekki til að hafa hann ásamt foreldri um borð þannig að tekið var á það ráð að keyra soninn suður þrátt fyrir mjög slæmt ástand á honum. Þegar kom að því að mæta á bráðamóttöku geðsviðs LSH tókst syni okkar að flýja af staðnum þar sem ranghugmyndir og geðveiki hamlaði samvinnu hans. Þar sem velferðarráðuneytið Mamma er úrræðalaust með öllu, fjölskyldurnar ekki lengur í stakk búnar til að styðja elskulegan son, bróður, mág og frænda, þá biðla ég til heilbrigðis-, velferðar- og félagsmálaráðuneytisins um ásjá og aðstoð. Við getum ekki meira. Elsku vinir mér þætti vænt um ef þið mynduð deila þessum pósti þar sem að úrræði og aðgerðir vantar strax áður en sonur minn veldur skaða í samfélaginu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -