2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Mjúk lending framundan?

Það er óhætt að segja að margt sé í gangi í íslensku efnahagslífi núna í byrjun ársins 2019 og áhugavert verður að sjá hver þróunin verður næstu mánuði.

Í gær var kynnt spá um fjölda farþega sem fara munu um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Er gert fjöldinn muni dragast saman um nærri níu prósent. Fari úr nærri tíu milljónum farþega sem komu árið 2018 í tæplega níu milljónir á þessu ári.

Munar þar mest um fækkun á svokölluðum skiptifarþegum sem fljúga helst á milli Norður-Ameríku og Evrópu með millilendingu á Íslandi.  Haft var eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamálaráðherra í kvöldfréttum Rúv að þetta væri minni fækkun en margir hefðu búist við.

Eftir kröftugan vöxt hjá ferðaþjónustunni undanfarin ár virðist greinin því vera að ná vissu jafnvægi. Að sinni að minnsta kosti. Í uppfærðri þjóðhagsspá frá Íslandsbanka fyrir 2018-2020 sem kynnt var í lok síðustu viku var því spáð að hægja myndi á íslensku efnahagslífi núna 2019. Önnur uppsveifla væri svo væntanleg 2020. Hafa margir efast um þessa spá þar sem niðursveiflur standa yfirleitt lengur.

Í dag stendur ferðaþjónusta undir rúmlega 40% af útflutningstekjum Íslendinga á meðan sjávarútvegur og áliðnaður er nærri 35% til samans. Því horfa auðvitað margir til ferðaþjónustunnar og hverjar séu horfurnar þar. Í gær tóku hlutabréf í norska flugfélaginu Norwegian Air líka mikla dýfu.

AUGLÝSING


Kristján Þórarinsson, ritstjóri Túrista, lét hafa eftir sér í gær að óvissan með farþegafjöldann til Íslands árið 2019 væri enn þá veruleg. Þá væri ekki enn komið í ljós endanlega hvernig aðkoma Indigo Partners verður að Wow air.

Því má spyrja sig hversu líklegt það sé að spá Isavia um farþegafjölda og spá Íslandsbanka um næsta góðæri árið 2020 muni rætast. 12 mánaða verðbólga mældist 3,4% í janúar. Mikil óvissa ríkir um hvernig kjarasamningar munu fara og hvaða áhrif það gæti haft á verðbólgu. Þá lækkaði kaupmáttur í fyrsta skipti af einhverju ráði nú í desember eða allt frá upphafi árs 2015.

Verður Íslandsbanki seldur á árinu?

Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði kynnti í síðustu viku 40 tillögur til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Áhugavert verður að sjá hvernig og hversu hratt verði hægt að vinna úr þessum tillögum og koma þeim í framkvæmd. Eftir miklar hækkanir á fasteignamarkaði hefur nú dregið vel úr hækkunum. Árið 2017 varð minnsta hækkun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011, samkvæmt hagfræðideild Landsbankans. Þannig má nefna að íbúðaverð í miðbænum hefur lækkað undanfarna 12 mánuði.

Árið 2017 varð minnsta hækkun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011.

Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í síðustu viku kynntu tíu opinberir aðilar fyrirhugaðar framkvæmdir upp á 128 milljarða króna á árinu 2019. Var það 49 milljarða króna hækkun frá útboðsþingi árið áður. Því virðast ríki og sveitarfélög ekki vera að hægja á.

Þá fjallaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um hvítbók á Alþingi í gær. Var haft eftir honum að best væri að setja fyrst fram áætlun um sölu Íslandsbanka áður en hugað yrði að sölu Landsbankann. Starfshópur sem vann hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi kynnti sem kunnugt er tillögur sínar í desember.

Því er óhætt að segja að margt sé í gangi í íslensku efnahagslífi þessa stundina og verður áhugavert að sjá hvernig málin þróast á næstu mánuðum.

Mynd / Isavia

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is